Fara í efni

Stefnur

Upplýsingastefna

Matvælastofnun hefur það að stefnu að veita neytendum, eftirlitsþegum og eftirlitsaðilum hagnýtar upplýsingar sem varða og stuðla að neytendavernd, matvælaöryggi, plöntuheilbrigði og heilbrigði og velferð dýra með gildi stofnunarinnar að leiðarljósi. Stofnunin mun hafa aðgengilegt á vef sínum útgefið efni, eftirlitsniðurstöður, leiðbeiningar og upplýsingar um verkefni hennar.

Fréttaflutningur

Matvælastofnun mun birta eftirfarandi upplýsingar sem frétt á vef að lokinni skoðun á upplýsingagildi:

  • Leiðbeiningar til almennings og eftirlitsþega
  • Sölustöðvun og innköllun á vörum
  • Stöðvun eða verulega takmörkun á starfsemi
  • Kærur til lögreglu og ákvörðun stjórnvaldssekta
  • Áminningar og álagning dagsekta
  • Svik og blekking gagnvart neytendum
  • Vörslusvipting dýra
  • Aðgerðir vegna ólöglegs flutnings dýra
  • Stöðvun á innflutningi þegar öryggi matvæla eða heilbrigði plantna og dýra er ógnað
  • Greiningar á alvarlegum dýra- eða plöntusjúkdómum og aðgerðir vegna þeirra
  • Viðvaranir erlendra stofnana um hættuleg matvæli eða plöntu-/dýrasjúkdóma sem hætta er á að berist til landsins
  • Aðrar hættur sem ógna öryggi matvæla, fóðurs, áburðar, plantna eða dýra
  • Niðurstöður dóma og úrskurða sem tengjast stofnuninni
  • Niðurstöður ytri úttekta á stofnuninni
  • Nýjustu lög og reglur
  • Kynning og uppgjör átaks- og samstarfsverkefna
  • Kynning mikilvægra áfanga í starfseminni
  • Árlegar samantektarskýrslur og tölfræði

Nafngreining

Almennt nafngreinir Matvælastofnun aðila (fyrirtæki, stofnanir, samtök og lögbýli) en ekki einstaklinga. Ekki er nafngreint ef það er andstætt upplýsingalögum:

  • Ekki er nafngreint þegar grunur er um refsiverða háttsemi eða í upplýsingagjöf um kærur og dóma fyrir refsiverða háttsemi
  • Ekki er nafngreint þegar upplýsingar varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja
  • Ekki er upplýst um nöfn einstaklinga (eða nöfn lögbýla einstaklinga) ef um viðkvæm einka- eða fjárhagsmálefni er að ræða sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari

Einstaklingar eru nafngreindir ef starfsemi er eingöngu í þeirra nafni og málið varðar almannaheill.

Ábyrgð

  • Forstjóri og yfirstjórn bera ábyrgð á upplýsingastefnunni og endurskoðun hennar
  • Sviðsstjórar og yfirmenn starfseininga, hver á sínu starfssviði, bera ábyrgð á miðlun upplýsinga um starfsemi sviðsins og þjónustu, markverðar nýjungar og breytingar bæði inn á við og út á við
  • Allir starfsmenn eru ábyrgir fyrir að vísa fyrirspurnum fjölmiðla á næsta yfirmann.

Áherslur

  • Að starfsmenn hafi góða þekkingu á starfsemi stofnunarinnar og stefnu
  • Að almenningur og fjölmiðlar eigi þess kost að fylgjast með stefnu og starfsemi stofnunarinnar með það að markmiði að auka gagnkvæmt traust í samskiptum við stofnunina og stuðla að auknu matvælaöryggi, plöntu- og dýraheilbrigði í landinu
  • Að starfsmenn skuli af ábyrgð leggja sitt af mörkum til miðlunar frétta af starfsvettvangi sínum m.a. inná heimasíðu stofnunarinnar, í samráði við forstöðumenn
  • Að upplýsinga- og fræðslugögn séu sett saman á einfaldan og skýran máta og birt með samræmdum hætti auðkennd stofnuninni
  • Að skjalavarsla stofnunarinnar, bæði skráning og vistun, sé í samræmi við stjórnsýslu- og upplýsingalöggjöf
  • Að efni frá stofnuninni sé birt undir formerkjum stofnunarinnar en ekki einstaklingsins

Afhending upplýsinga skv. upplýsingalögum

Sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í upplýsingalögum. Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn. Helstu gögn sem ekki væri skylt eða eftir atvikum óheimilt að veita aðgang að eru rakin hér að neðan.

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Vinnugögn eru undanþegin upplýsingarétti en það eru gögn sem stjórnvöld hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Vinnugögn ber þó að afhenda þegar þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls, upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr upplýsingalaga, upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram, og þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.

Ekki er skylt að afhenda bréfaskipti við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað.

Ekki er skylt að afhenda gögn um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera ef þær yrðu þýðingarlausar eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þær á almannavitorði.

Í undantekningartilfellum er heimilt að hafna beiðni um upplýsingar ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki telst af þeim sökum fært að verða við henni eða ef sterkar vísbendingar eru um að beiðni sé sett fram í ólögmætum tilgangi.

Launa- og jafnlaunastefna

Matvælastofnun greiðir körlum og konum jöfn laun og njóta þau jafnra kjara fyrir sömu og/eða jafnverðmæt störf í samræmi við ÍST 85 jafnlaunastaðalinn.

Jafnlaunavottun 2020-2023

Forstjóri ber ábyrgð á launa- og jafnlaunastefnu Matvælastofnunar og á öllum launaákvörðunum og gætir þess að samræmis sé gætt við ákvarðanatöku þar um. Mannauðsstjóri fer yfir laun starfsmanna einu sinni á ári í samvinnu við forstöðumann/framkvæmdastjóra hvers sviðs/stofu. Tilgangur yfirferðarinnar er að að tryggja að samræmis sé gætt í launagreiðslum með hliðsjón af launa- og jafnlaunastefnu Matvælastofnunar.

Launaákvarðanir skulu byggðar á málefnalegum forsendum, í samræmi við kjara- og stofnanasamninga og starfslýsingar skulu vera til fyrir öll störf. Í starfslýsingu koma fram þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfs. Umfang og eðli starfs hefur áhrif á laun og ræðst af mörgum þáttum, svo sem menntun, starfsreynslu, ábyrgð, frumkvæði, álagi og vinnuaðstæðum.

Markmið Matvælastofnunar er að vera eftirsóttur og fjölskylduvænn vinnustaður þar sem konur og karlar hafi jöfn tækifæri í starfi og kynbundinn launamunur sé ekki fyrir hendi. Til að framfylgja markmiðum launa- og jafnlaunastefnunnar mun Matvælastofnun:

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi byggðu á jafnlaunastaðli IST 85.
  • Fylgja viðeigandi lögum og reglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
  • Framkvæma árlega launagreiningu, þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að ganga úr skugga um hvort kynbundinn launamunur sé til staðar.
  • Greina niðurstöður með stjórnendum og kynna þær fyrir starfsmönnum.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Gera innri úttekt og stjórnendur rýni stefnuna árlega.
  • Stefnan sé aðgengileg almenningi á vefsíðu stofnunarinnar.

Vottunaraðili Matvælastofnunar er Versa Vottun.

Persónuverndarstefna

Persónuvernd á vef MAST

Þegar þú notar vef Matvælastofnunar verða til upplýsingar um heimsóknina. Upplýsingarnar eru notaðar til að fá yfirsýn yfir notkun og hegðun notenda á vef.

Notkun á vafrakökum

Svo kallaðar vafrakökur (e. „cookies“) eru sérstakar skrár sem komið er fyrir á tölvu notanda sem heimsækir viðkomandi vef og geymir upplýsingar um heimsóknina. Þær eru notaðar til að telja heimsóknir á vefinn.

Notendur vefs Matvælastofnunar geta stillt vafra sína þannig að þeir láti vita af kökum eða hafni þeim með öllu.

Matvælastofnun notar Google Analytics til vefmælinga. Við hverja komu inn á vefinn eru nokkur atriði skráð, svo sem tími og dagsetning, leitarorð, frá hvaða vef er komið og gerð vafra og stýrikerfis. Þessar upplýsingar eru notaðar við endurbætur á vefnum og þróun hans, t.d. um það efni sem notendur sækjast mest eftir og fleira. Engum frekari upplýsingum er safnað um hverja komu og ekki er gerð tilraun til að tengja slíkar upplýsingar við aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

Skráning notenda á vefnum

Póstlisti Matvælastofnunar

Notendur geta skráð sig á póstlista Matvælastofnunar. Fréttir eru sendar á netföng sem skráð hafa verið á póstlistann. Netföngin og áskriftarflokkar (fréttaflokkar) eru vistuð í vefumsjónarkerfinu. Þessar upplýsingar eru aðeins notaðar til að senda út tilkynningar um nýtt efni. Neðst í tölvupóstunum sem notendum berst er tengill sem hægt er að smella á til að skrá sig af póstlista.

Vefurinn og þær upplýsingar sem hann tekur á móti eru vistaðar á Íslandi hjá fyrirtæki með alþjóðlega öryggisvottun (ISO 27001).

Hafa samband – ábending eða fyrirspurn

Ábendingar til Matvælastofnunar eru skráðar í skjalakerfi (málaskrá) og erindinu komið til starfsmanns sem afgreiðir það. Erindin eru ekki vistuð í vefumsjónarkerfinu. Hægt er að senda ábendingar nafnlausar.

Þjónustugátt

Rafrænar umsóknir til Matvælastofnunar eru skráðar í skjalakerfi (málaskrá) stofnunarinnar og umsókninni komið til starfsmanns sem afgreiðir hana. Umsóknir eru ekki vistaðar í vefumsjónarkerfinu.

Upplýsingar úr Þjóðskrá um umsækjendur s.s. nafn, kennitölu og heimilisfang birtast sjálfkrafa í rafrænum eyðublöðum Matvælastofnunar til að auðvelda notendum að fylla út umsóknir.

Jafnréttisstefna

Markmið stefnunnar er að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan Matvælastofnunar, ennfremur að minna stjórnendur og starfsmenn á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis. Mikilvægt er að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum kvenna og karla.

Stefna Matvælastofnunar:

  • Að þess sé gætt við ákvörðun launa að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
  • Að konur komi til jafns við karlmenn að mótun stefnu Matvælastofnunar. Þegar skipað er í nefndir, ráð eða starfshópa ræður fagþekking mestu um val einstaklinga en stefnt er að jöfnum hlut kvenna og karla þar sem því verður viðkomið.
  • Að í auglýsingum verði störf ókyngreind og að kynningarefni höfði jafnt til kvenna sem karla.
  • Að jafnréttissjónarmið verði metið til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Stefnt sé að sem jöfnustu hlutfalli kynja í störfum og þess gætt við úthlutun verkefna, tilfærslu og framgangs að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis.
  • Að tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til símenntunar og starfsþróunar.
  • Að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða með annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið og hentað getur bæði starfsmanni og starfsemi.
  • Að starfsmaður geti leitað til jafnréttisfulltrúa og/eða mannauðsstjóra með mál er varða hvers kyns áreitni og misrétti.

Stefna gegn einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni

Einelti, ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin á okkar vinnustað. Kvartanir um slíkt tökum við alvarlega og munum grípa til aðgerða til að uppræta slíkt. Mál verða rannsökuð til hlítar og þeim fylgt eftir með viðeigandi aðgerðum.

Mannauðsstefna

Mikilvægasta auðlind Matvælastofnunar er starfsfólkið. Það er markmið Matvælastofnunar að ráða til sín framúrskarandi starfsfólk, efla það og styðja til þess að það sé fært að takast á við þær kröfur sem gerðar verða til þess í ljósi þróunar í samfélaginu. Matvælastofnun leggur áherslu á gæði, metnað í starfi, starfsánægju, gott starfsumhverfi, trúnað og traust. Matvælastofnun leggur einnig áherslu á að starfsfólk veiti góða og markvissa þjónustu og uppfylli þær skyldur og hlutverk sem lög um Matvælastofnun segja til um.

Starfsþróunarstefna

Matvælastofnun leggur áherslu á að starfsmenn viðhaldi og þrói þekkingu sína og faglega hæfni til geta sinnt starfi sínu eins vel og kostur er og öðlist þannig meiri starfsánægju. Er það jafnt á ábyrgð starfsmanns og viðkomandi yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi. Mikilvægt er að starfsmenn deili þekkingu sinni og séu reiðubúnir til að aðstoða hver annan í daglegum viðfangsefnum.

Með starfsþróunarstefnu MAST er staðfest mikilvægi þess að starfsmönnum sé gert kleift að viðhalda kunnáttu sinni, auka þekkingu og efla færni í starfi. Í því samhengi er lögð rík áhersla á hagnýta og faglega þekkingu sem styður við og styrkir starfsmanninn í sínu starfi sem og starfsemi stofnunarinnar í heild. Starfsmönnum skal gefinn kostur á að þróast í starfi eins og kostur er, m.a. með tilfærslu í starfi, að taka að sér önnur og meira krefjandi verkefni, o.fl. í samráði starfsmanns og yfirmanns. Tilfærsla milli starfa á þó ekki við um störf forstöðumanna og framkvæmdastjóra. Í slíkum tilvikum eru störf ávallt auglýst. Forstöðumenn og starfsmenn eru hvattir til að vera vakandi fyrir tækifærum til aukinnar þekkingar, þjálfunar og fræðslu.

Fjármálastefna

Fjármálastefna Matvælastofnunar byggir á eftirtöldum lögum, reglum og fyrirmælum:

  • Lög nr. 30/2018 um Matvælastofnun
  • Reglugerð nr. 1/2008 um Matvælastofnun
  • Reglugerð nr. 1061/2004 um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta
  • Lög nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga
  • Lög nr. 123/2015 um opinber fjármál
  • Lög nr. 3/2006 um ársreikninga
  • Fjárlög eins og þau eru samþykkt hverju sinni
  • Fjárveitingabréfi ráðuneytis eins og það er samþykkt hverju sinni

Til að tryggja fjármögnun verkefna og góða nýtingu fjármagns leggur Marvælastofnun áherslu á:

  • að vinna með ráðuneyti í að tryggja fjármögnun þeirra verkefna sem liggja fyrir hverju sinni, hvort sem er með breytingu á gjaldskrá eða fjárlögum
  • að vinna með ráðuneyti á hverju ári að nýrri fjármálaáætlun til fimm ára vegna þeirra málefnasviða sem verkefni Matvælastofnunar tilheyra
  • að virða þær fjárheimildir sem stofnuninni eru veittar og nýta fjármuni á hagkvæman hátt
  • að byggja ákvarðanir á því sem er hagkvæmast fyrir ríkissjóð í heild sinni en ekki bara stofnunina
  • að taka langtímasjónarmið í rekstri fram yfir skammtímasjónarmið
  • að virða reglur um opinber innkaup og ávallt leita leiða til að velja hagkvæmasta kost
  • að ávallt leita leiða til hagræðingar í rekstri
  • að leggja fram rekstraráætlun og þriggja ára áætlun ásamt öðrum áætlunum og greinargerðum innan þeirra tímamarka sem stofnuninni eru settar
  • að taka árlega saman ársskýrslu og setja þar fram greinargerð um útgjöld og fjárheimildir
  • að skila ársreikningi í samræmi við reglur og fyrirmæli hverju sinni