Fara í efni

Innflutningur matvæla til einkaneyslu

Mikilvægt er að kynna sér reglur um innflutning matvæla til einkaneyslu áður en slíkar vörur eru fluttar til Íslands. Sömu reglur gilda hvort sem vörurnar eru pantaðar á erlendum vefverslunum, sendar frá vinum/ættingjum erlendis eða hafðar með til Íslands í farangri eftir ferðalag ytra.

Dýraafurðir (t.d. kjöt- og mjólkurvörur) sem fluttar eru til Íslands geta borið með sér smitefni sem valda dýrasjúkdómum. Sem dæmi má nefna gin- og klaufaveiki og svínapest en berist slíkir sjúkdómar til landsins getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Strangar reglur gilda um innflutning dýraafurða frá þriðju ríkjum, þ.e. löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins eins og kveðið er á í reglugerð nr. 1251/2019 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.

Matvæli (dýraafurðir) frá 3. ríkjum

Hér er átt við matvæli (og fæðubótarefni) sem innihalda kjöt, mjólk (mjólkurvörur, mjólkurprótein) og egg. Óheimilt er að flytja inn til einkaneyslu  matvæli sem innihalda dýraafurðir frá þriðju ríkjum, þ.e. löndum utan EES. Eftirfarandi er undanþegið banni:

  1. Allt að 10 kg af kjöt- og mjólkurvörum frá Færeyjum og Grænlandi.
  2. Allt að 2 kg af ungbarnamjólkurdufti, ungbarnafæði og sjúkrafæði (eða sjúkrafóðri fyrir gæludýr) sem nauðsynlegt er viðkomandi vegna læknisfræðilegra ástæðna svo fremi sem varan sé í neytendapakkningum frá framleiðanda; hún geymist við stofuhita og innsigli órofið nema varan sé í notkun (t.d. ef um er að ræða farþega á ferðalagi).
  3. Slægðar eða tilreiddar lagarafurðir eða unnar lagarafurðir og samanlagt magn þeirra fer ekki yfir þyngdarmörkin 20 kg eða þyngd eins fisks. Gildir einnig um rækjur, humar, krækling og ostrur.
  4. Allt að 2 kg af öðrum dýraafurðum sem teljast til matvæla, svo sem hunangi, lifandi ostrum, kræklingi og sniglum 
  5. Meira magn af dýraafurðum skal uppfylla skilyrði varðandi innflutning dýraafurða frá 3. ríkjum til sölu/dreifingar. Slíkum sendingum skal fylgja opinbert heilbrigðisvottorð og skulu þær koma til skoðunar á samþykkta landamæraeftirlitsstöð við innflutning. 

Vörur sem eru undanþegnar banni skulu vera í neytendaumbúðum með innihaldslýsingu. 

Matvæli (dýraafurðir) frá löndum innan EES

Heimilt er að flytja inn til einkaneyslu matvæli sem innihalda dýraafurðir frá löndum innan EES. Á það bæði við um vörur sem fluttar eru með pósti eða í farangi. 

 Upplýsingar um tollfríðindi má finna á vef skattsins.

Innflutningur fóðurs

Leiðbeiningar um innflutning á fóðri 

Hvað má taka með sér til landsins?

 

 

Uppfært 05.10.2021
Getum við bætt efni síðunnar?