Fara í efni

Útflutningur hunda

Ef flytja á hund úr landi skal kynna sér reglur viðkomandi móttökuríkis. Skilyrðin geta verið mjög ólík hvað varðar bólusetningar, sýnatökur, vottorð og fleira. Mælt er með því að afla upplýsinga á opinberum vefsíðum viðkomandi ríkis, þ.e. dýralæknayfirvalda í viðkomandi landi og hefja undirbúning í samráði við dýralækni tímanlega. 

Evrópusambandið, Noregur, Sviss - hundur fluttur með fylgd

 • Samræmdar kröfur gilda um innflutning hunda og katta til landa innan Evrópusambandsins, Noregs og Sviss. 
 • Eftirlit á landamærum er mjög strangt og vottorð sem ekki uppfylla ítrustu kröfur geta haft þær afleiðingar að viðkomandi dýr er sent til baka eða þarf að sæta einangrun í skemmri eða lengri tíma.
 • Ólíkar reglur gilda um flutning hunda eftir því hvort þeir ferðast í fylgd með eiganda/útflytjanda eða eru fluttir án fylgdar t.d. með frakt.
 • Hundurinn skal vera örmerktur og bólusettur gegn hundaæði. Í fyrsta lagi 3 vikum (21 degi) eftir bólusetningu skal heilbrigðisvottorð vegna útflutnings gefið út af dýralækni. Sé hundurinn að fara til Noregs, Bretlands, Írlands, Finnlands eða Möltu skal hundurinn einnig meðhöndlaður gegn bandormum 1-5 dögum fyrir útflutning.
 • Vottorðið skal svo yfirfarið og áritað af opinberum dýralækni (Matvælastofnun). 

Nánari upplýsingar

 • Örmerki: dýrið skal vera örmerkt áður en það er bólusett.
 • Hundaæðisbólusetning: lágmarksaldur hunda og katta fyrir bólusetningu gegn hundaæði er 12 vikur.  Flytja má hundinn út í fyrsta lagi 21 degi eftir bólusetningu gegn hundaæði. Hafið samband við dýralækni í tæka tíð til þess að panta bóluefni (sérpanta þarf hundaæðisbóluefni fyrir hvert og eitt dýr). 
 • Undanþágur frá hundaæðisbólusetningu: eftirtalin lönd heimila innflutning óbólusettra hvolpa og kettlinga sem eru yngri en 12 vikna gömul: 1) Austurríki (sækja þarf um undanþágu til dýralæknayfirvalda), 2) Tékkland, 3) Danmörk, 4) Eistland, 5) Litháen og 6) Sviss. Athugið að þessi landalisti getur breyst fyrirvaralítið en uppfærðan lista má sjá hér (dálkur 2, article 11 of regulation (EU) No 567/2013). Slíkur innflutningur er heimilaður ef annað hvort; (a) ræktandi leggur fram yfirlýsingu um að dýrið hafi ekki komist í kynni við dýr sem voru mögulega smituð af hundaæði, eða(b) dýrið er flutt inn ásamt móður sinni sem hefur verið bólusett gegn hundaæði í samræmi við innflutningskröfur. ATH! Þetta gildir eingöngu fyrir þau dýr sem ferðast á sk. non-commercial vottorði.
 • Bandormahreinsun: þau lönd þar sem bandormurinn Echinococcus multilocularis finnst ekki, gera kröfu um bandormahreinsun hunda fyrir innflutning. Um er að ræða Noreg, Bretland, Írland, Finnland og Möltu. Þetta skal gera 1-5 sólarhringum fyrir innflutning, þ.e. má ekki gerast á síðasta sólarhringnum. 
 • Fylgdarmaður dýrs: sá sem fylgir hundinum í flug (eða skip) skal vera skráður bæði sendandi og viðtakandi (consignor og consignee) á vottorðinu. Sá hinn sami skal einnig undirrita yfirlýsingu á bls 6 í vottorðinu.
 • Útflutningsvottorð: nota skal þetta eyðublað fyrir sk. "non-commercial" vottorð (6 síður) sem gefið er út af Matvælastofnun skv reglum ESB þar að lútandi. Mælt er með því að fylla inn upplýsingarnar í tölvu (ekki handskrifa). Dýralæknir fyllir út vottorðið og svo þarf áritun og stimpil hjá opinberum dýralækni, þ.e. hjá Matvælastofnun (Dalshrauni 1b í Hafnarfirði, Austurvegi 64,  Selfossi eða á umdæmisskrifstofum). Vottorð þessi sem eru ígildi evrópska gæludýravegabréfsins veita inngöngu í ESB, Noreg og Sviss í 10 daga eftir útgáfu, og gilda í 4 mánuði fyrir ferðalög innan ESB. Sé ekki staðið rétt að útgáfu útflutningsvottorðs gæti dýrið verið stöðvað á landamærum móttökulands og jafnvel þurft að sæta einangrun.
 • Útfyllt og undirritað vottorð ásamt heilsufarsbók þar sem fram koma upplýsingar um örmerki og bólusetningu gegn hundaæði, skal leggja fram hjá Matvælastofnun til áritunar. Slík áritun fer fram á öllum skrifstofum MAST (aðalskrifstofu, Markaðsstofu og umdæmisstofum) á virkum dögum og kostar 1904 kr. 
 • Ítarlegar leiðbeiningar um útfyllingu "non-commercial" vottorðs

Evrópusambandið, Noregur, Sviss - hundur fluttur án fylgdar

 • Samræmdar kröfur gilda um innflutning hunda og katta til landa innan Evrópusambandsins, Noregs og Sviss. 
 • Ólíkar reglur gilda um flutning hunda eftir því hvort þeir ferðast í fylgd með eiganda (útflytjanda) eða eru fluttir án fylgdar t.d. með frakt.
 • Hundurinn skal vera örmerktur og bólusettur gegn hundaæði en flytja má hundinn út í fyrsta lagi 21 degi eftir bólusetningu. 
 • Sé hundurinn að fara til Noregs, Bretlands, Írlands, Finnlands eða Möltu skal hundurinn einnig meðhöndlaður gegn bandormum. Sú meðhöndlun skal fara fram  24-120 klukkustundum fyrir brottför, þ.e. í mesta lagi 5 dögum fyrir brottför en ekki á síðasta sólarhringnum fyrir brottför. 
 • Innan við 48 tímum fyrir brottför skal hundurinn heilbrigðisskoðaður af dýralækni og heilbrigðisvottorð gefið út. 
 • 24-48 tímum fyrir brottför skal leggja fram eftirfarandi gögn til Matvælastofnunar, Dalshrauni 1B, Hafnarfirði: 1) heilbrigðisvottorð þar sem fram kemur staðfesting á heilbrigðisskoðun, hundaæðisbólusetningu og ormahreinsun (ef við á) auk upplýsinga um sendanda og viðtakanda hunds og farmbréfsnúmer; 2) heilsufarsbók þar sem fram koma upplýsingar um örmerki og bólusetningu gegn hundaæði.
 • Endanlegt heilbrigðisvottorð er gefið út af Matvælastofnun í Traces (tölvukerfi til skráningar á innflutningi dýra og dýraafurða til ESB). 
 • Frumrit vottorðsins skal fylgja hundinum við útflutning. 
 • ATH! Útflutningur með þessum hætti getur ekki átt sér stað á mánudagsmorgni þar sem heilbrigðisskoðun skal fara fram í síðasta lagi 48 klst fyrir útflutning og nauðsynlegt er að skila gögnum til MAST tímanlega. Útgáfa heilbrigðisvottorðs kostar 1904 kr.

Nánari upplýsingar

 • Örmerki: dýrið skal vera örmerkt áður en það er bólusett.
 • Hundaæðisbólusetning: lágmarksaldur hunda og katta fyrir bólusetningu gegn hundaæði er 12 vikur. Bólusetning skal fara fram a.m.k. 21 degi fyrir innflutning (að mesta lagi ári fyrir). Hafið samband við dýralækni í tæka tíð til þess að panta bóluefni (sérpanta þarf hundaæðisbóluefni fyrir hvert og eitt dýr). 
 • Bandormahreinsun: þau lönd þar sem bandormurinn Echinococcus multilocularis finnst ekki, gera kröfu um bandormahreinsun hunda fyrir innflutning. Um er að ræða Noreg, Bretland, Írland, Finnland og Möltu. Þetta skal gera 1-5 sólarhringum fyrir innflutning, þ.e. má ekki gerast á síðasta sólarhringnum. 
 • Eftirlit á landamærum ESB er mjög strangt og vottorð sem ekki uppfylla ítrustu kröfur geta haft þær afleiðingar að viðkomandi dýr er sent til baka eða þarf að sæta einangrun í skemmri eða lengri tíma.

Bretland

Bretland er ekki lengur hluti af Evrópusambandinu (aðlögunartímabili lauk 31.12.2020). Sambærileg skilyrði og vegna innflutnings til ESB verða þó áfram í gildi. Útflytjandi skal ávallt kynna sér reglurnar á vef breskra yfirvalda.

Vottorð vegna útflutnings á hundi / ketti með fylgd til Bretlands

Bandaríkin 

Vegna útflutnings á hundum til Bandaríkjanna þarf dýralæknir að gefa út heilbrigðis- og upprunavottorð þar sem eftirfarandi er staðfest:

 • Að hundurinn hafi engin einkenni smitsjúkdóms.
 • Að hundurinn hafi verið á Íslandi í a.m.k. 6 mánuði (eða frá fæðingu sé um yngra dýr að ræða)
 • Æskilegt er að vottorðið sé gefið út í mesta lagi 10 dögum fyrir brottför. Ekki er krafa um að vottorðið skuli áritað af dýralæknayfirvöldum.

ATH! Ekki er krafa um bólusetningu hunda gegn hundaæði vegna flutnings frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þó gera sum fylki kröfu um hundaæðisbólusetningu og mælt er með því að innflytjendur kanni skilyrði innflutnings á ákvörðunarstað.

 Önnur lönd

Tenglar á vefsíður dýralæknayfirvalda þar sem finna má upplýsingar um innflutningsskilyrði gæludýra.