Fara í efni

Smitsjúkdómar í köttum

 

Kattakvef

Caliciveira er algeng orsök öndunarfærasýkinga í köttum sem veldur kattakvefi (e. feline calicivirus). Sjúkdómurinn er bráðsmitandi og algengur þar sem margir kettir koma saman, t.d. í kattaathvörfum og á heimilum með marga ketti. Kattakvef er einn þeirra sjúkdóma þeirra sem fellur undir hið sk. feline respiratory disease complex (fjölþátta öndunarfærasýking) en um er að ræða sjúkdóma sem valda nefslímubólgu, kinnholubólgu, augnslímhúðarbólgu og sáramyndun í munni. Meginsmitefnin eru kattaherpesveira (feline viral rhinotracheitis, FHV-1) og caliciveira en Chlamydia felis, Mycoplasma felis, Chlamydia psittaci og aðrar mycoplasmategundir koma einnig við sögu.

Orsök: Vesivirus / Feline calicivirus

Meðgöngutími: 2-6 dagar

Einkenni: Útferð úr nefi og augum og sáramyndun í munni, á tungu, gómi, vörum eða trýni. Útferð er fyrst glær en getur orðið gulleit og þykk þegar líður á veikindin. Sárum í munni fylgja aukin munnvatnsmyndun og slef. Mikil eymsli geta fylgt sárunum. Önnur ósértæk einkenni eru lystarleysi, slappleiki, hækkaður líkamshiti og stækkaðir eitlar. Algeng er að kettirnir hnerri og píri augun. Veikindin geta varað í 2-3 vikur.

Smitleið: Bráðsmitandi og berst hratt á milli katta sem umgangast. Veiran berst beint eða óbeint með útferð úr nefi, augum og munni. Með hnerra getur veiran borist marga metra. Veiran getur lifað í umhverfinu í viku og jafnvel lengur við aðstæður þar sem er svalt og rakt. Eftir að veikindin eru gengin yfir geta kettir verið smitberar í nokkra mánuði en nokkur prósent katta verða smitberar alla ævi.

Útbreiðsla: Kattakvef finnst í köttum allan heim, einnig á Íslandi þar sem ætla má að það hafi verið landlægt í áratugi. Bólusett hefur verið við sjúkdómnum á Íslandi frá því um 1986.

Greining: Veirugreining (stroksýni af augnslímhúð, nefi eða munni).

Meðhöndlun: Alla jafna er ekki þörf á meðhöndlun, nema ef um er að ræða ónæmisbælda einstaklinga eða tækifærissýkingar sem valda alvarlegri öndunarfæraeinkennum, sérstaklega hjá kettlingum.

 Kattahvítblæði

Kattahvítblæði (e. Feline leukemia virus) er meðal algengustu smitsjúkdóma í köttum og algengi er frá 3-4% skv. nýlegum rannsóknum í Bandaríkjunum og Evrópu. Þó er algengi mismunandi eftir svæðum, t.d. greinast fleiri kettir með kattahvítblæði á Spáni, allt að 15% heilbrigðra katta. Sjúkdómurinn felur í sér blóðleysi og ónæmisbælingu og eykur þar með líkur á krabbameini og leiðir til dauða. Bóluefni gegn FeLV var víða tekið í notkun frá því fyrir um 25 árum síðan og hefur það haft mikil áhrif á tíðni sjúkdómsins. Óljóst er hvort kattahvítblæði hafi komið upp á Íslandi.

Orsök: Gammaretrovirus / Feline leukemia virus

Meðgöngutími: Langur tími getur liðið frá því köttur smitast og þar til hann sýnir einkenni, allt frá nokkrum vikum upp í nokkur ár.

Einkenni: Helstu einkenni eru blóðleysi, krabbamein (eitilfrumukrabbamein eða hvítblæði), ónæmisbæling með tilheyrandi tækifærissýkingum, taugakvillar, bólgur í meltingarvegi og í munni. Sjúkdómurinn er oftast banvænn og að meðaltali lifa kettir í 2,4 ár eftir greiningu. Kettlingar veikjast jafnan hraðar en fullorðnir kettir. Sumir fullorðnir kettir virðast mynda aldurstengt þol og komast þannig yfir sýkinguna.

Smitleið: Veiran berst með munnvatni og þvagi og smitast á milli katta sem eru á sama heimili og deila matardöllum, sandkössum o.fl. en ekki síst við slagsmál eða önnur náin samskipti. Smitberar geta verið heilbrigðir í mörg ár.

Útbreiðsla: Kattahvítblæði finnst um allan heim. Veiran greindist í tveimur köttum í lítilli rannsókn á Íslandi árið 2001 en ekki er vitað um fleiri tilfelli á Íslandi.

Greining: Veirugreining (ELISA/IFA) eða PCR úr blóðsýnum eða beinmerg. Á markaði eru sk. snap test fyrir bæði FeLV og FIV sem henta ágætlega þegar skimað er fyrir sjúkdómunum.

Meðhöndlun: Engin lækning finnst við kattahvítblæði. Margir kettir geta lifað ágætu lífi í nokkur ár eftir að þeir smitast. Mikilvægt er að smituðum köttum sé haldið innandyra bæði til þess að minnka líkur á að þeir verði útsettir fyrir öðrum smitsjúkdómum en einnig til að draga úr dreifingu veirunnar. Meðhöndla skal tækifærissýkingar og önnur veikindi sem koma upp. Ónæmismeðferðir hafa reynst vel en eru ekki mjög aðgengilegar enn sem komið er.

 Kattaeyðniveira

Kattaeyðniveiran (e. Feline immunodeficiency virus) er þekkt bæði hjá köttum og villtum kattardýrum. Veiran veldur ónæmisbælingu og er landlæg um allan heim. Ógeldir högnar sem ganga úti eru í mestri smithættu. Bóluefni gegn veirunni var sett á markað árið 2002 en það veitir ekki vörn gegn öllum stofnum veirunnar. Þegar köttur hefur smitast losnar hann aldrei við veiruna.

Orsök: Lentivirus / Feline immunodeficiency virus

Meðgöngutími: Mjög langur, allt að nokkur ár.

Einkenni: Veiran (líkt og HIV) veldur lækkun á T frumum og bælir þar með ónæmiskerfið og dregur úr viðnámi kattarins við sýkingum og hrörnunarsjúkdómum. Helstu einkenni FIV smitaðra katta er hiti og eitlastækkun stuttu eftir smit en svo því getur liði langur tími þar til ber á öðrum einkennum, frá nokkrum mánuðum og allt upp í fimm ár. En þá fara að koma fram einkenni af völdum ónæmisbælingar, þ.e. ýmsar sýkingar en að lokum verða slíkar sýkingar allsráðandi og kötturinn þrífst illa. Algeng einkenni eru hiti, lystarleysi, þyngdartap, tannholdsbólga og krónískar sýkingar í húð, augum, þvagfærum og efri öndunarfærum. Kettirnir eru oft með slæman feld og krónískan niðurgang og í sumum tilfellum koma fram taugakvillar og atferlisbreytingar. Rannsóknir hafa þó bent til þess að FIV smit hafi ekki marktæk áhrif á lífaldur katta.

Smitleið: Helsta smitleið veirunnar er með biti. Pörun er ekki mikilvæg smitleið né heldur smit í móðurkviði. Ekki er mikil hætta á smiti á milli katta sem eru á sama heimili og deila matardöllum og sandkössum ef ekki er um að ræða slagsmál á milli kattanna. Rannsóknir hafa sýnt að FIV smit á heimilum þar sem margir kettir búa, er óalgengt. Ógeldir högnar sem ganga úti eru í mestri hættu á að smitast þar sem þeir eru líklegri til að lenda í slagsmálum.

Útbreiðsla: Kattaeyðniveiran er landlæg um allan heim en greindist fyrst árið 1987 (hefur líklega verið til staðar hjá húsköttum síðan 1966). Algengi er á bilinu 3-5% (rannsóknir í USA og í Kanada) en töluvert hærra á meðal veikra katta (allt að 43,9%).

Greining: Mótefnamæling eða veirugreining úr blóðsýnum. Á markaði eru sk. snap test fyrir bæði FeLV og FIV sem henta ágætlega þegar skimað er fyrir sjúkdómunum.

Meðhöndlun: FIV-jákvæðir kettir eru sjaldan sjúkdómsgreindir fyrr en einkenni af völdum sjúkdómsbælingar koma fram. Meðferð felst í því meðhöndla sýkingarnar sem koma í kjölfar ónæmisbælingarinnar en það getur reynst erfitt. Mikilvægt er að halda köttunum í þannig umhverfi að lítil hætta sé á sýkingum og álag er sem minnst. Best væri að halda þeim inni og láta þá hafa sem minnst samskipti við aðra ketti (og önnur dýr sem geta borið með sér sýkingar).

 Kattafár

Kattafár (e. Feline panleukopenia) er lífshættulegur sjúkdómur og veldur jafnan alvarlegustu einkennum hjá kettlingum. Veiran finnst um allan heim en sjúkdómurinn var mun algengari hér áður fyrr þegar bólusetningar voru ekki eins útbreiddar og nú.

Orsök: Parvoviridae / Feline panleukopenia virus

Meðgöngutími: 2-7 dagar

Einkenni: Veiran fjölgar sér í beinmerg og eitilvef og veldur þar með skorti á öllum tegundum blóðkorna. Einnig veldur hún skaða á meltingarþekju og hjá mjög ungum dýrum í litla heila og sjónu. Helstu einkenni eru hár hiti, slappleiki, lystarleysi, uppköst og niðurgangur. Kettlingar sem smitast í móðurkviði geta verið með breytingar í litla heila og sýnt einkenni óregluhreyfinga (ataxia).

Smitleið: Veiran skilst út með saur, munnvatni og öðrum líkamsvessum og smitast ýmist beint eða óbeint á milli katta. Smitaðir kettir skilja veiruna út í allt að 6 vikur eftir veikindi. Veiran er harðger og getur lifað allt að ár í umhverfinu. Því er mikilvægt að einangra smitaða ketti.

Útbreiðsla: Kattafár finnst um allan heim, einnig á Íslandi, en er þó mun sjaldgæfara en áður þar sem víðast hvar er bólusett gegn sjúkdómnum.

Greining: Veirugreining í saur.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðhöndlun; gefa þarf vökva, næringu og meðhöndla tækifærissýkingar. Þrátt fyrir meðhöndlun er dánartíðni sjúkdómsins há. Batahorfur eru mjög slæmar hjá kettlingum sem smitast yngri en 8 vikna. Lifi kötturinn í 5 daga eftir að einkenni koma fram eru batahorfur góðar. Mikilvægt er að einangra veika ketti til þess að vernda þá gegn tækifærissýkingum.

 Kattaflensa

Kattaflensa (e. Feline rhinotracheitis) er ein algengasta orsök öndunarfærasýkinga í köttum og er einn þeirra sjúkdóma þeirra sem fellur undir hið sk. feline respiratory disease complex.

Orsök: Herpesviridae / Felid alphaherpesvirus 1

Meðgöngutími: 2-5 dagar

Einkenni: Helstu einkenni eru frá efri öndunarfærum og augum; útferð úr nefi og augum (conjunctivitis/keratitis), hnerri, lystarleysi, hiti og slappleiki. Veikindin standa að jafnaði yfir í 4-7 daga en tækifærissýkingar geta viðhaldið einkennum í nokkrar vikur.

Smitleið: Veiran er skilin út í munnvatni og nef- og augnaútferð og berst beint á milli katta eða óbeint með menguðum ílátum, teppum o.þ.h. en veiran er óstöðug og lifir eingöngu í 1-2 daga í umhverfinu. Kettir geta smitað í 3 vikur eftir smit. Eftir smit er veiran til staðar í taugahnoðu þrenndartaugar og kettirnir verða heilbrigðir smitberar. Við ónæmisbælingu (veikindi eða notkun barkstera) hefst smitdreifing á ný og kötturinn getur fengið væg einkenni sjúkdómsins.

Útbreiðsla: Kattaflensa finnst um heim allan, einnig á Íslandi en bólusett hefur verið við sjúkdómnum á Íslandi frá því árið 1986.

Greining: Veirugreining (stroksýni af augnslímhúð, nefi eða munni).

Meðhöndlun: Alla jafna er ekki þörf á meðhöndlun, nema ef um er að ræða ónæmisbælda einstaklinga eða tækifærissýkingar sem valda alvarlegri öndunarfæraeinkennum, sérstaklega hjá kettlingum. Þá felst meðhöndlun í stuðningsmeðferð.

 Smitandi lífhimnubólga í köttum

Smitandi lífhimnubólga í köttum (e. Feline infectious peritonitis) er ónæmistengdur sjúkdómur en megin orsakavaldur er kórónaveira kattarins. Smitandi lífhimnubólga er óalgeng en finnst um allan heim, þar á meðal á Íslandi (greindist fyrst hérlendis í júní 1998).

Orsök: Coronaviridae / Feline coronavirus

Meðgöngutími: Frá nokkrum vikum upp í mánuði eða ár.

Einkenni: Í flestum tilfellum veldur smit með kórónaveiru (Fcov) engum eða vægum einkennum (frá meltingar- og/eða öndunarfærum) og kötturinn myndar mótefni og losar sig við veiruna. Hjá litlum hluta katta sem smitast stökkbreytist veiran (FipV) og/eða ónæmissvörunin verður óeðlileg. Í þessu samhengi hefur heilsufar og aðbúnaður/stress áhrif. Veiran berst um líkamann með hvítum blóðkornum og veldur mikilli bólgusvörun m.a. í kvið, nýrum og í heilavef. Þessi óeðlilega ónæmissvörun er skýringin á sjúkdómseinkennunum. Þegar kötturinn hefur þróað með sér sjúkdóminn og áhrifa gætir meðal eins eða fleiri líffærakerfa verður framvindan hröð og nánast alltaf banvæn. Sjúkdómsmyndirnar eru tvær; annars vegar vökvasöfnun í holrúmum líkamans (effusive/wet FIP) og hins vegar bólguhnútar í líffærum (noneffusive/dry FIP). Fyrri sjúkdómsmyndin er mun bráðari en sú seinni og einkennin greinilegri. Kettlingar eða eldri kettir auk þeirra sem eru ónæmisbældir m.a. af völdum FeLV eru í mestri hættu á að fá FIP eftir smit með Fcov.

Smitleið: Veiran smitast á milli katta beint eða óbeint og er algengari þar sem margir kettir eru saman í heimili, einnig á kattahótelum og athvörfum. Algengasta smitleiðin er frá móður til kettlinga. Veiran skilst út í mestu magni í upphafi sýkingar en sumir kettir verða heilbrigðir smitberar. Veiran getur auk þess lifað í umhverfinu í nokkrar vikur.

Útbreiðsla: Kórónaveirur eru mjög útbreiddar. Sjúkdómurinn finnst um allan heim.

Greining: Örugg greining fæst með skoðun vefjasýna (granuloma).

Meðhöndlun: Stuðningsmeðferð getur bætt líðan og lengt líf katta með smitandi lífhimnubólgu en sjúkdómurinn er í flestum tilfellum banvæn. Bóluefni gegn FIP er á markaði erlendis en er ekki í mikilli notkun þar sem það gagnast eingöngu þeim köttum sem hafa aldrei smitast af kórónaveiru. Því þyrfti að gera mótefnamælingu fyrir bólusetningu. Rannsóknir standa yfir á veirulyfjum til meðhöndlunar á FIP.

 Kattabóla

Ein poxveira er þekkt sem smitar ketti og veldur kattabólu (e. Cat pox) en hún er ekki greinanleg frá kúabóluveirunni. Um er að ræða smit sem berst frá nagdýrum í ketti og gengur í flestum tilfellum yfir af sjálfu sér.

Orsök: Poxviridae / Feline pox virus

Meðgöngutími: 2-3 dagar.

Einkenni: Í kjölfar smits koma fram einkenni á einum líkamshluta svo sem höfði, hálsi eða framfæti og lýsa sér eins eins og lítið sár með hrúðri eða allt upp í stórt graftarkýli. Drep getur myndast í kjölfar húðbreytinga. 7-10 dögum síðar koma fram mörg sár (hringlótt 0,5-1 cm) sem fá á sig hrúður og gróa innan 6 vikna. Sumir kettir fá einnig önnur einkenni eins og slappleika, hita og lystarleysi. Í einstaka tilfellum þróa kettirnir með sér mjög alvarlegt form sjúkdómsins sem hefur áhrif á lifur, lungu, barka, slímhúð í munni og meltingarvegi. Þetta form sjúkdómsins kemur helst fyrir hjá köttum með bælt ónæmiskerfi eins og þeirra sem eru smitaðir af FeLV eða FIV.

Smitleið: Kettirnir smitast við nagdýraveiðar en uppspretta veirunnar eru lítil nagdýr sem halda sig í skóglendi, þar af eru stúfmýs (voles) og hagamýs algengustu smitberarnir. Kettir sem ganga úti og veiða nagdýr eru því í mestri hættu á að smitast af kattabólu. Þekkt eru dæmi um smit á milli katta og á milli katta og manna.

Útbreiðsla: Greint hefur verið frá kattabólu af og til í Bretlandi og Vestur Evrópu en ekki í Bandaríkjunum. Ekki er vitað til þess að kattabóla hafi greinst á Íslandi.

Greining: Mótefnamæling (mótefni koma fram 7-14 dögum eftir smit), veirugreining / PCR (gold standard), eða vefjagreining húðsýnis. Mikilvægt er að greining sjúkdóminn þar sem ekki má meðhöndla smitaða ketti með sterum, en sterameðhöndlun er algeng vegna annarra húðsjúkdóma sem geta valdið svipuðum einkennum.

Meðhöndlun: Í flestum tilfellum ganga einkennin yfir af sjálfu sér en grípa getur þurft til stuðningsmeðferðar ef einkenni eru slæm. Bóluefni gegn kattabólu finnst ekki á markaði.

 Lús

Orsök: Blóðsjúgandi lús; Linognathus setosus, og tvær tegundir af naglús Trichodectes canis og Heterodoxus spiniger. Felicola subraostratus í köttum

Móttækilegar dýrategundir: Lús er nokkuð sérhæfð á hýsla en hver tegunda hefur yfirleitt sína tegund lúsa.

Meðgöngutími: Allur lífsferill er á dýrinu. Það tekur um.þ.b. 3-4 vikur að þroskast frá nit í fullorðna lús. Lús lifir aðeins nokkra daga utan hýsils, en egg geta klakist út í 2-3 vikur.

Einkenni: Kláði og húðskaði eftir klór s.s. möguleg húðsýking.

Smitleið: Lús smitast við snertingu eða við snertingu við áhöld, beisli, ólar, bæli og staði sem dýr liggja á. Lúsin er tegundasérhæfð og lifir ekki nema á sínum hýsli. Lúsin festir egg sín (nit) á feldhárum þar sem þau klekjast út. Lús getur borið með sér smitsjúkdóma og innri sníkjudýr.

Útbreiðsla: Algeng um allan heim

Greining: Leit í feld eftir lús og nit.

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf á lús. Þarf að endurtaka eftir 7-10 daga.

 Flær

Orsök: Fleiri tegundir finnast af flóm (>2200 tegundir) en aðeins nokkrar tegundir smita helst hunda og ketti og þá helst Ctenocephalides canis (hundaflóin), Ctenocephalides felis (kattaflóin) og Pulex simulans (minni spendýr).

Móttækilegar dýrategundir: Ólíkar tegundir flóa geta smitað ólíkar tegundir hýsla, en þrífast helst á sínum aðalhýsli

Meðgöngutími: Allt eftir umhverfisaðstæðum getur lífsferill verið frá 2 vikum til eitt ár. En við dæmigerðar aðstæður innandyra getur flóin klárað lífsferil á 3-8 vikum. Lirfustigið varir 5-11 daga en getur orðið allt að 2-3 vikur eftir umhverfi og aðgengi að næringu. Forstig fullorðinna flóa geta legið í dvala í allt að ár þar til hún kemst í snertingu við smitnæmt dýr kemur. Við góð skilyrði getur fullorðin fló lifað í allt að 2 vikur áður en hún þarf blóð.

Einkenni: Flær geta ert húðina og valdið flóaofnæmi, bæði í dýrum og á fólki. Flær geta líka borið með sér bakteríusjúkdóma og sníkjudýr. Kattflóin getur fjölgað sér bæði á hundum og köttum.

Smitleið: Lirfur þola ekki raka undir 50% í lengri tíma. Geta hoppað milli hýsla eða borist frá smituðu umhverfi.

Útbreiðsla: Um allan heim

Greining: Við kembingu eða t.d. límbandssýni. Saur flóanna oft áberandi á dýrum með mikið smit.

Meðhöndlun: Sníkjudýrameðhöndlun með lyfjum sem ná til flóa

 Húðsveppir

Orsök: Sveppategundirnar Microsporum canis, M. gypseum og Trichophyton mentagrophytes. Jafnframt þarf að hafa í huga að tegundin Trichophyton verrucosum sem veldur hringskyrfi í nautgripum, getur borist með hundum. Mikilvægt er að halda landinu lausu við hringskyrfi en tekist hefur að útrýma því í þau örfáu skipti sem það hefur komið upp.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir en önnur spendýr s.s. fólk geta smitast.

Meðgöngutími: 7-21 dagur.

Einkenni: Hárlausir blettir með skorpumyndun og stundum hárslíðursbólgu og kýlum.

Smitleið: Snertismit, bæði frá sýktu dýri og ýmsum hlutum sem smitið getur hefur borist á frá sýktu dýri.

Útbreiðsla: Algeng víða um heim.

Greining: Skimun með Woods lampa, bein smásjárskoðun á hárum og húðskrapi, og ræktun.

Meðhöndlun: Útvortis meðhöndlun með sveppalyfjum (böðun) getur dugað í vægum tilfellum en í alvarlegri langvarandi tilfellum þarf lyfjameðferð.

 Leishmanía

Orsök: Leishmania er sníkjudýr sem lifir í frumum (trypanosomatid). Um er að ræða fleiri undirtegundir (>23) sem geta valdið fjölbreyttri flóru af sjúkdómum, allir kallaðir leishmaníusýking.

Móttækilegar dýrategundir: Sjúkdómurinn sést helst í hundum, fólki og nagdýrum, en kettir, hestar og önnur spendýr geta smitast. Ef kettir smitast sýna þeir oftast bæði húðform og almenna sýkingu. Flestar undirtegundir eru súnur.

Meðgöngutími: Meðgöngutími getur verið frá mánuði og til fleiri ára.

Einkenni: Einkenni geta verið breytileg, allt frá staðbundnum húðsjúkdómi yfir í að ná til flestra innri líffæra. Sjúkdómurinn getur verið frá því að vera einkennalítill yfir í að vera banvænn.

Smitleið: Smit berst fyrst og fremst með sérstökum tegundum af sandflugum. Leishmania lifir í tveimur hýslum, sandflugu sem smitast af stigi leishmaníusýkingu sem er utan fruma, og svo í spendýrum þar sem sníkjudýrið þorskast og fer inn í frumur. Hundar sem bera leishmaníu geta smitað sandflugur. Smit getur borist með blóðgjöf. Smit frá móður til afkvæma hefur verið lýst, en talið sjaldgæft. Smit getur borist með sæði og við pörun. Dæmi eru talin vera um að smit geti borist milli hunda. Smit getur borist frá hundum í fólk en fólk smitast oftast ef það er bitið af sandflugu sem hefur bitið sýktan hund eða fólk.

Útbreiðsla: Leishmaníusýking í fólki og hundum er víða í Afríku, hluta af Asíu, Suður-Evrópu og Suður- og Mið-Ameríku. Mest er útbreiðsla er við Miðjarðarhafið, í Mið-Austurlöndum og Suður-Ameríku. Smitsvæði finnast einnig við Miðjarðahafið, Afríku, hlutum Indlands, hlutum Kína og öðrum svæðum í Asíu. Hefur einnig greinst í USA. Alþjóðlega er talið um 1,5 milljón manns greinist á ári með húðleishmaníusýkingu og um 500 þúsund með líffæraleishmaníusýkingu.

Greining: Einfaldast er að greina smit við smásjárskoðun á lituðu stroki frá húð, eða úr beinmerg eða stækkuðum eitlum. Næmi við greiningu er þó frekar lítil (30% eitla og 60% beinmerg). Mælt er með mótefnamælingum. Flúorljómun (IFAT) hefur um 96% næmi (sensitivity) og 98% sértæki (specificity) sem er svipað og með ELISA. ELISA er hægt að nota við greiningar á eldri og nýrri gerð leishmaníusýkingu með næmi allt að 86-99%. PCR frá eitlum og beinmerg er mjög næm, en talin vera of mikið inngrip fyrir rútínugreiningu. Sýni tekin frá blóði eru ekki eins næm, en eru talin ásættanleg með mótefnamælingum, sérstaklega RT-PCR.

Meðhöndlun: Hundar eru ólíklegir til að losna við smit þrátt fyrir meðhöndlun.

 Klamydíu og mýkoplasmasýking

Chlamydia felis og Mycoplasma felis eru hluti af fjölþátta öndunarfærasýkingu í köttum (e. Feline Respiratory Disease Complex), ásamt feline herpesvirus type 1 og feline calicivirus.

Orsök: Bakteríurnar Chlamydia felis og Mycoplasma felis

Móttækilegar dýrategundir: Kettir. Einhver tilfelli hafa greinst af augnslímhúðarbólgu í fólki af völdum Chlamydia felis

Meðgöngutími: 5-10 dagar.

Einkenni: Chlamydia felis veldur augnslímhúðarbólgu og oft á tíðum hnerra og hita. Mycoplasma getur sýkt augu og efri öndunarfæri.

Smitleið: Loftborið smit og smit með ýmsum tækjum og tólum. Kettir sem hafa náð sér geta smitað í marga mánuði.

Útbreiðsla: Algengar um allan heim.

Greining: Klínísk einkenni.

Meðhöndlun: Sýklalyf og stuðningsmeðhöndlun.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Rickettsíusýking

Rickettsíusýking (e. Rocky Mountain Spotted Fever, Flea-Borne Spotted Fever) er bakteríusýking sem berst í ýmsar dýrategundir með mítlum. Hér er fjallað um sýkinguna í hundum og köttum.

Orsök: Í hundum: Bakterían Rickettsia rickettsii. Í köttum: Bakterían Rickettsia felis.

Móttækilegar dýrategundir: Ýmsar dýrategundir geta sýkst af Rickettsia, þ.m.t. hundar og kettir, en hver rickettsíutegund á sér sína eigin dýrategund og smitbera. Fólk getur sýkst við bit af völdum mítla, flóa og lúsa sem hafa áður bitið sýkt dýr.

Meðgöngutími: 2 – 10 dagar.

Einkenni: Sjúkdómseinkenni í hundum geta verið hiti, lystarleysi, stækkanir á eitlum, liðabólgur, hósti, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og bjúgur á höfði eða útlimum. Sýking í köttum er oftast einkennalaus.

Smitleið: Rickettsia rickettsii berst með mítlum, aðallega af tegundinni Dermacentor variabilis (ameríski hundamítillinn) og D. andersoni (Rocky Mountain skógarmítillinn) en hefur líka fundist í Rhipicephalus sanguineus (brúni hundamítillinn). Rickettsia felis berst aðallega með flóm.

Útbreiðsla: Landlæg í Norður-, Suður- og Miðameríku. Rickettsia hefur hvorki greinst í hundum né köttum hér á landi.

Greining: Ekki er hægt að greina sýkinguna með algengum rannsóknaraðferðum. Til að rækta bakteríuna þarf sérhæfð æti sem ekki eru auðfengin.

Meðhöndlun: Sýklalyfjameðhöndlun og stuðningsmeðferð.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

Ehrlichiusýking

Ehrlichiusýking (e. Ehrlichiosis) er bakteríusýking sem herjar á hunda, ketti (og fólk).

Orsök: Bakterían Ehrlichia canis og aðrar undirgerðir.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir og fólk geta sýkst af Ehrilichia.

Meðgöngutími: 5-14 dagar.

Einkenni: Bæði eru um að ræða sýkingar sem vara stutt og langvarandi sýkingar. Einkenni þeirra sýkinga sem vara stutt eru hiti, bólgur í eitlum víða í líkamanum, stækkun á milta og fækkun blóðflagna. Jafnframt lystarleysi, deyfð, þróttleysi, stífleiki, bjúgur í útlimum og nára, hósti eða öndunarerfiðleikar. Einkenni langvarandi sýkingar eru stækkun á milta, nýrnabilun, bólgur í lungum, augum, heila og mænu.

Smitleið: Berst með mítlum af tegundinni Rhipicephalus sanguineus (brúni hundamítillinn).

Útbreiðsla: Finnst víða um heim. Ehrlichia hefur hvorki greinst í hundum né köttum hér á landi.

Greining: Klínisk einkenni,talning á blóðflögum (í nánast öllum tilfellum veldur sýkingin blóðflagnafæð), leit að bakteríunni í hvítum blóðkornum og mótefnamælingar.

Meðhöndlun: Sýklalyfjameðhöndlun og stuðningsmeðferð.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Bordetellusýking

Bordetellusýking (e. Canine cough/Feline bordetellosis) er algeng bakteríusýking í hundum og köttum se, veldur viðvarandi hósta, hita og slappleika.

Orsök: Bakterían Bordetella bronchiseptica.

Móttækilegar dýrategundir: Bæði hundar og kettir geta sýkst af Bordetella. Fólk getur einnig sýkst en það er sjaldgæft.

Meðgöngutími: 2-14 dagar.

Einkenni: Viðvarandi hósti, hiti og slappleiki.

Smitleið: Bráðsmitandi. Loftborið og snertismit. Mjög harðger, lifir lengi í umhverfinu.

Útbreiðsla: Algeng um allan heim.

Greining: Klínisk einkenni og saga

Meðhöndlun: Stuðningsmeðferð. Sýklalyfjameðhöndlun í alvarlegum tilfellum.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Strongyloides spp.

Orsök: Þráðormar - nematoda- tegund Strongyloides spp

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir, fólk

Meðgöngutími: Egg geta fundist í saur u.þ.b. 7-10 dögum eftir sýkingu

Einkenni: Einkenni geta verið væg eða engin, en einnig geta komið framvæg lungnaeinkenni, kviðverkir, ógleði og niðurgangur. Hundar geta einnig sýnt vanþrif, megurð og hægari vaxtarhraða. Við alvarlegri tilfelli geta hundar fengið hita og slæma öndunarfærasýkingu. Sýking er ekki talin hættuleg fólki nema fyrir einstaklinga með ónæmisbælingu vegna sjúkdóma eða lyfja.

Smitleið: Lirfur ormsins lifa í jarðvegi og geta smitað fólk og dýr í gegnum heila húð en einnig um meltingarveg. Lífsferill ormsins er flóknari en hjá flestum þráðormum og fer hann í gegnum tvo mismunandi lífsferla, annarsvegar í jarðvegi og hinsvegar í hýsli. Eftir smit í gegnum húð eða sjálfssmit í gegnum meltingarveg, berast lirfur í gegnum blóðrás í lungu og svo aftur í þarm þar sem fullorðinn ormur þroskast og verpir eggjum. Eggin klekjast flest í lirfustig áður en þau berast út með saur. Getur smitast frá tík til hvolpa á spena gegnum mjólk.

Útbreiðsla: S stercoralis lifir aðallega í fólki, en finnst einnig í hundum, köttum og öpum og smit getur borist milli manna og dýra. Ekki er vitað hvort sama gerð ormsins smiti fólk og dýr, en ekki er hægt að útiloka það. Ormurinn er algengur í Suður- og Austur-Evrópu, en hefur einnig reglulega greinst í Norður-Evrópu og á Norðurlöndunum, Afríku, Asíu og Mið- og Suður-Ameríku og suðausturhluta Norður-Ameríku.

Greining: Skimun í saur og PCR

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf á Strongyloides m.a, fenbendazole (í 5 daga 2x með 4 vikna millibili), og ivermectin (2x með 4 vikna millibili). Thiabendazole í þeim skömmtum sem virkar gegn orminum (3 dagar í einu vikulega) getur hinsvegar valdið eitrun.

 Tunguormur

Kettir, hundar, refir og aðrar kjötætur eru aðalhýslar þessa orms en öll spendýr geta verið millihýslar og er því talin til súna.

Orsök: Linguatala serrata. Er í raun ekki “sannur ormur” (helminth) heldur crustacean eins og rækjur og krabbadýr. Hinsvegar hegðar þetta sníkjudýr sér mjög líkt ormum.

Móttækilegar dýrategundir: Getur smitað bæði hunda og ketti.

Meðgöngutími: Egg finnast í saur u.þ.b 6 mánuðum eftir sýkingu

Einkenni: Yfirleitt væg einkenni, en getur valdið ertingu í koki. Mikil sýking getur valdið bólgum í nefholi og koki og krónískum hnerra og hósta, rennsli og blæðingum úr nefi. Einnig er til dæmi um köfnun. Í millihýslum geta lirfur komið sér fyrir í líffærum og leitt til visceral linguatolosis. Hefur fundist í auga og lifur hjá mönnum.

Smitleið: Tunguormur notar millihýsla til að ná fullum þroska (helst grasbíta). Fullorðin L. serrata grefur framhlutann í nef-, háls- og munnholsslímhúðir þar sem ormurinn nærist á blóði og líkamsvessum. Kvendýr geta lifað í 2 ár og framleiða milljónir eggja. Eggin berast með nefrennsli og hnerra eða með saur ef þeim er kyngt. Ef eggin berast í millihýsil klekst út ferfætt lirfa í smágörnum sem fer í gegnum þarm og kemur sér fyrir í lungum, lifur og eitlum þar sem næsta þroskastig (nymph) þróast. Þegar vefurinn er étinn af endahýsli ferðast nymphan í munnhol og þroskast í fullorðinn orm. Fullorðin kvendýr byrja að verpa u.þ.b 6 mánuðum eftir smit.

Útbreiðsla: Finnst um allan heim, en sérstaklega í heitari löndum og er m.a landlæg í Mið-Austurlöndum. Þar er smit í fólki algengt.

Greining: Skimun eftir eggjum í saur eða útferð úr nefi. Egg geta þó verið skilin út í bylgjum og hefur það áhrif á næmi greiningar. Hægt er að sjá fullorðna orma í koki með kokspeglun.

Meðhöndlun: Engin dýralyf eru skráð til meðhöndlunar á tunguormi, né bóluefni. Ivermectin hefur sýnt einhver áhrif á skylda tegund, L. Arctica, sem finnst í hreindýrum. Mikilvægasta vörnin gegn smiti er að fóðra ekki ketti og hunda á hrámeti þar sem smit finnst, fjarlægja úrgang hunda og katt, handþvottur fyrir matmálstíma, skolun á grænmeti fyrir neyslu.

Refasullur (sullaveikifár)

Orsök: Bandormur – cestoda – tegund Echinococcus multilocularis

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir, refir og margvíslegir millihýslar

Meðgöngutími: Mánuðir og ár hjá millihýslum

Einkenni: Einkenni hjá hundum og köttum geta verið margvísleg, svo sem kláði við endaþarm, þyngdartap þrátt fyrir óbreytta matarlyst, eymsli í kvið, niðurgangur, slappleiki, blóðleysi, breytingar í húð og feldi. Nokkur tími getur liðið frá því hundur smitast og þar til einkenni koma fram. Einkenni hjá millihýslum fara eftir því hvar í líkamanum sullir myndast. Ólíkt E. graunulosus framleiðir E. multilocularis margar litlar blöðrur sem dreifast í innri líffæri.

Smitleið: Bandormurinn er fyrst og fremst bandormur refsins en getur líka smitað hunda og ketti. Fullorðnir ormar lifa í þörmum lokahýsla sem eru sem sagt refir, hundar og kettir. Þar verpa ormarnir eggjum sem berast út í umhverfið með saur. Millihýslar eru aðallega nagdýr en fólk getur einnig orðið „slysa“millihýslar ef þeir fá í sig egg. Er millihýsill innbyrðir egg klekst lirfa úr egginu sem smýgur í gegnum þarmavegginn og ferðast um blóðrásarkerfið til ýmissa líffæra en þó aðallega lifrar og lungna. Í þessum líffærum breytist lirfan í vökvafyllta blöðru (sull) sem stækkar smám saman og inni í henni myndast fjöldi bandormshausa og nýrra blaðra. Lokahýsillinn smitast við að innbyrða líffæri smitaðra millihýsla sem innihalda blöðrur. Í lokahýslinum losna bandormshausarnir úr blöðrunum og festa sig við slímhúð smáþarmanna og þroskast í fullorðna bandorma á 32 til 80 dögum. Í millihýslum getur tekið mörg ár áður en sullur verður áberandi og sérstaklega í einstaklingum með skert ónæmiskerfi. Lirfan kemur sér oftast fyrir í lifur og einkenni geta minnt á lifrarkrabbamein, með stækkun í lifur, höfuðverk, ógleði og kviðverki. Getur valdið alvarlegum veikindum og dauða.

Útbreiðsla: Finnst í Evrópu og norðurlöndum, Kanada, Kína og Síberíu

Greining: Smásjárskoðun og greining eggja í saur, mótefnamæling ELISA

Meðhöndlun: Lokahýslar: bandormalyf. Millihýslar: lyfjameðhöndlun og/eða skurðaðgerð.

 Ígulbandormur (sullaveiki)

Orsök: Bandormur – cestoda – tegund Echinococus granulosus, sk. ígulbandormur

Móttækilegar dýrategundir: Endahýsill hundar og skyldar tegundir (kettir og refir). Margvíslegir millihýslar m.a. sauðfé, fólk, nagdýr

Meðgöngutími: Smit hjá lokahýslum: 32-80 dagar. Smit hjá millihýslum: allt upp í 15 ár.

Einkenni: Einkenni hjá hundum geta verið margvísleg, svo sem kláði við endaþarm, þyngdartap þrátt fyrir óbreytta matarlyst, eymsli í kvið, niðurgangur, slappleiki, blóðleysi, breytingar í húð og feldi. Nokkur tími getur liðið frá því hundur smitast og þar til einkenni koma fram. Einkenni hjá millihýslum fara eftir því hvar í líkamanum sullir myndast. Sullir, sem eru þykkveggja blöðrur, geta orðið margir lítrar og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir hýsilinn.

Smitleið: Fullorðnir ormar lifa í þörmum lokahýsla sem eru hundar og refir. Þar verpa ormarnir eggjum sem berast út í umhverfið með saur. Millihýslar eru auk manna ýmsar grasætur s.s. sauðfé og nautgripir. Er millihýsill innbyrðir egg klekst lirfa úr egginu sem smýgur í gegnum þarmavegginn og ferðast um blóðrásarkerfið til ýmissa líffæra en þó aðallega lifrar og lungna. Í þessum líffærum breytist lirfan í vökvafyllta blöðru (sull) sem stækkar smám saman og inni í henni myndast fjöldi bandormshausa og nýrra blaðra. Lokahýsillinn smitast við að innbyrða líffæri smitaðra millihýsla sem innihalda blöðrur. Í lokahýslinum losna bandormshausarnir úr blöðrunum og festa sig við slímhúð smáþarmanna og þroskast í fullorðna bandorma á 32 til 80 dögum.

Útbreiðsla: Sjúkdómurinn finnst í Afríku, Evrópu, Asíu, Miðausturlöndum, Mið- og Suður-Ameríku og einstaka sinnum í Norður-Ameríku. Sullaveiki var vel þekkt hér á landi fyrr á öldum en hefur ekki greinst í sauðfé síðan árið 1979 þökk sé lögbundinni bandormahreinsun hunda og aukinni þekkingu á smitleiðum.

Greining: Smásjárgreining bandormaeggja í saur. Mótefnamæling ELISA.

Meðhöndlun: Lokahýslar: bandormalyf. Millihýslar: lyfjameðhöndlun og/eða skurðaðgerð.

 

 

Uppfært 11.11.2025
Getum við bætt efni síðunnar?