Fara í efni

Alifuglahald

  1. Um aðbúnað og umhirðu alifugla gilda lög um velferð dýra og reglugerð um velferð alifugla
  2. Alifuglabændur eru matvælaframleiðendur og um þá gilda lög um matvæli og gildandi reglugerðir þar um
  3. Alifuglabændur eru ábyrgir fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarða sinna í sérstaka hjarðbók og skulu halda sjúkdóma- og lyfjaskráningar
  4. Um fóður fyrir alifugla og fóðrun á alifuglum gilda lög um eftirlit með áburði, sáðvöru og fóðri
  5. Matvælastofnun hefur eftirlit með alifuglahald í samræmi við skoðunarhandbók - Alifuglar

Kjúklingahald

Í kjúklingaræktinni er eingöngu notaður Ross 308 kjúklingastofninn. Framleiðendur landsins eru með eigin stofnfuglabú þar sem foreldra kjúklinga eru haldnir og þeir eru einnig með eigin útungunarstöðvar. Eftir 33-36 daga eldistíma er kjúklingum slátrað í einu af þremur sláturhúsum landsins.

Stuðull til umreikningar á sláturþyngd yfir í lífþyngd kjúklinga

Skv. 4. mgr. í 28. grein reglugerðar nr. 88/2022 um velferð alifugla ber Matvælastofnun að tilkynna um stuðul til að umreikna úr sláturþyngd kjúklinga yfir í lífþyngd.

Við ákvörðun á stuðli til umreikninga fyrir Ross 308 kjúklingastofninn var stuðst við handbók ræktanda stofnsins, Aviagen, í Bretlandi: Ross 308 / Ross 308 FF broiler performance objective 2019. Á bls. 11 kemur fram áætlað hlutfall sláturþyngdar eftir því hver lífþyngd fuglsins er.

Miðað við þessar upplýsingar hefur Matvælastofnun ákveðið eftirtalda stuðla til umreikninga úr sláturþyngd í lífþyngd fugla:

Sláturþyngd Umreikningsstuðull, sláturþyngd margfölduð með
Til og með 1,45 kg/sláturskrokk 1,39
Frá 1,45 - 1,76 kg/sláturskrokk 1,37
Yfir 1,76 kg/sláturskrokk 1,35

Varphænsnahald

Til framleiðslu á eggjum nota framleiðendur landsins tvo varphstofna, Lohmann LSL stofninn með hvítum varphænum er mest notaður og verpa hænur þessa stofns hvítum eggjum; í minna mæli er notaður Lohmann LB stofninn þar sem brúnar varphænur verpa ljósbrúnum eggjum.

Matvælastofnun tekur þátt í Evrópska samstarfsverkefni COST Action (CA15224) um bringubeinsskaða í varphænum. Verkefnið hófst árið 2016 og stendur til 2020. Nánari upplýsingar á íslensku um verkefnið ásamt myndband um greiningu á bringubeinsskaða og leiðir til að minnka bringubeinsskaða má finna hér.

Í evrópska samstarfsverkefninu FeatherWel hafa verið gefnar út leiðbeiningar um góða meðferð varphæna til að minnka hættu á fiðurplokki í þeim. 

 Velferð alifugla

Aflífun alifugla - einstakir fuglar

Þeir sem halda alifugla þurfa einhvern tímann að koma að aflífun eða slátrun þeirra. Þessar leiðbeiningar eiga að hjálpa til þess að aflífa einstaka alifugla á mannúðlegan hátt. Fagfólk sem og áhugafólk þarf að hafa þekkingu á því hvernig er farið að því með snöggri aðferð án þess að það valdi fuglum óþarfa sársauka, streitu og vanlíðan.

Það er flestum erfitt að aflífa dýr, en þrátt fyrir það getur það verið nauðsynlegt og þarf þá að vera gert á mannúðlegan hátt. Mikilvægt er að þeir sem halda alifugla geti aflífað þá tafarlaust, þegar þess gerist þörf, svo sem við slys og í þeim tilfellum þar sem dýrið á ekki von á bata, t.d. vegna sjúkdóma. Ef umsjónarmaður treystir sér ekki til að aflífa sjálfur er nauðsynlegt að hann geri ráðstafanir fyrirfram hvernig hann getur leyst það, t.d. með því að leita aðstoðar annarra.

Þessar leiðbeiningar eiga ekki við um slátrun á alifuglum í sláturhúsum né heldur um aflífun á stærri fuglahópum.

Sumum getur fundist óþægilegt að lesa þessar leiðbeiningar sem þurfa að vera nákvæmar, til að tryggja að aflífun eða slátrun fari rétt fram. Þeim er ráðlagt að halda ekki áfram lestri.

Aflífun alifugla - alifuglahópar

Aflífun á hópum með yfir 250 alifuglum er tilkynningaskyld til Matvælastofnunar, í samræmi við 2. mgr. í 13. grein reglugerðar nr. 88/2022 um velferð alifugla. Æskilegt er að tilkynning berist stofnuninni í gegnum þjónustugáttina með minnst 30 daga fyrirvara. 

Í lok framleiðslutímabilsins eru alifuglahópar aflífaðir á búinu nema þeim sé slátrað. Í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra segir að dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti. Þar segir ennfremur að dýr í umsjón manna skulu svipt meðvitund fyrir aflífun nema þegar aflífunin veldur meðvitundarleysi umsvifalaust. Að lokinni aflífun skuli gengið úr skugga um að dýr sé dautt. Í reglugerð nr. 911/2012 um velferð dýra við aflífun er nánar útfært með hvaða hætti kröfur laga skulu uppfylltar.

Eftir aðstæðum getur verið viðeigandi aðferð til aflífunar að nota gösun á alifuglahópum með koldíoxíði í því húsinu þar sem dýrin eru haldin. Kostir við þessa aðferð eru m.a. að fuglarnir þurfa ekki að vera fangaðir og fluttir en einnig dregur úr smithættu fyrir starfsfólk ef um sjúkdóm í alifuglum er að ræða sem geta smitast í menn. Það er þó ekkki í öllum tilvikum hægt að nota þessa aðferð, til dæmis ef húsið er ekki nóg þétt eða ef aðrir fuglarhópar sem eru haldnir nálægt geta verið í hættu. Með stuðning í reglugerð nr. 911/2012 um verðferð dýra við aflífun hefur Matvælastofnun gefið út leiðbeiningar þar um.

Uppfært 22.01.2024
Getum við bætt efni síðunnar?