Fara í efni

Dreifing og vinnsla á eggjum

Samkvæmt lögum um matvæli eiga eggjapökkunarstöðvar að vera með starfsleyfi Matvælastofnunar sem matvælafyrirtæki og fá samþykkisnúmer. Stjórnendur eggjapökkunastöðva skulu sækja um starfsleyfi í gegnum Þjónustugátt MAST á heimasíðu Matvælastofnunar.  Starfsleyfi og samþykkisnúmer verður gefið út að lokinni úttekt á eggjapökkunarstöðinni. Tilgangur útektarinnar er að sannprófa að viðeigandi kröfur reglugerða séu uppfylltar. 

Hér verður fjallað um kröfur til eggjaframleiðanda og þeirra sem pakka eggjum til dreifingar á neytendamarkaði

Meginreglur

  • Eggjaframleiðandi skal hafa starfsleyfi Matvælastofnunar til framleiðslu á eggjum (frumframleiðsla).
  • Aðili sem rekur eggjapökkunarstöð skal hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun sem eggjapökkunarstöð.
  • Aðili sem býr til fljótandi eggjamassa eða vinnur egg á annan hátt til matvælaframleiðslu skal hafa starfsleyfi til slíkrar starfsemi.

Undanþága frá starfsleyfi

Skv. 2. grein matvælaga nr. 93/1995 er heimilt að veita undanþágu frá starfsleyfi og með reglugerð um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni matvæla beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja, með síðari breytingum (nr. 41/2013) eru settar fram reglur um afhendingu eggja í litlu magni. Skv. þeim má aðili afhenda egg frá allt að 100 alifuglum, eða allt að 1.600 kg af eggjum á ári og dreifa þeim heilum og óunnum beint til neytenda. Allir þeir sem dreifa matvælum bera ábyrgð á að þau matvæli sem þeir dreifa séu örugg og ekki heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Einnig ber þeim að tryggja rekjanleika.

Þetta þýðir að aðili sem heldur innan við 100 hænur má selja egg beint til neytenda án starfsleyfis. Hann má einnig selja egg án starfsleyfis, ef hann heldur yfir 100 alifugla, en dreifir einungis innan við 1.600 kg af eggjum árlega beint til neytenda. Eggin má ekki þvo og skurnin verður að vera heil og ósprungin. Salan getur farið fram á þeim stað þar sem hænurnar eru aldar. Einnig er aðilanum heimilt að fara með eggin á markað og selja þau sjálfur neytendum. Ef sami aðili rekur leyfisskylda verslun með matvæli má salan fara fram í versluninni. Séu eggin seld á markaði eða í eigin verslun skal merkja umbúðir með nafni og heimilisfangi framleiðanda. Aðilinn skal ávallt upplýsa neytendur um aldur eggjanna þ.e. varpdag. Framleiðandinn skal sjá til þess að egg séu meðhöndluð og geymd við þau skilyrði að öryggi þeirra sé tryggt sbr. leiðbeiningar hér fyrir neðan. Þar sem framleiðandinn er án starfsleyfis eru hænurnar ekki vaktaðar m.t.t. salmonellu og er það ákvörðun kaupandans hvort hann kýs að kaupa egg frá slíkum framleiðanda.

Af hverju undanþága?

Af hverju er aðilum með færri en 100 alifugla heimilt að dreifa eggjum ef aðilinn er ekki með starfsleyfi? Þessi undanþága er veitt á grundvelli þess að um lítið magn er að ræða, eggin fara ekki í almenna dreifingu og kaupandinn er meðvitaður um að seljandinn er ekki með starfsleyfi.

Sama gildir einnig fyrir egg aðila með yfir 100 alifugla sem nota egg til útungunar. Þeir hafa heimild til að dreifa innan við 1.600 kg af eggjum árlega beint til neytenda án þess að hafa starfsleyfi til frumframleiðslu matvæla en það samsvarar u.þ.b. ársframleiðslu 100 varphæna.

Eggjaframleiðsla með starfsleyfi

Skv. 9. gr. laga um matvæli skulu eggjaframleiðendur hafa starfsleyfi ef eggin eru í almennri dreifingu. Matvælastofnun fer síðan með eftirlit með starfseminni. Tíðni eftirlits er ákvörðuð út frá áhættuflokkun.

Í eftirlitinu er fylgst með hvort viðeigandi reglur um hollustuhætti eru uppfylltar, en kröfur til hollustuhátta í frumframleiðslu eru settar fram í I. viðauka reglugerðar nr. 852/2004/EB sem innleidd var með reglugerð 103/2010. Í grófum dráttum má segja að varphænurnar skulu vera haldnar í eðlilega hreinu umhverfi, og að eggin skulu varin fyrir mengun og óhreinindum. Koma skal í veg fyrir dreifingu sjúkdóma sem geta borist með afurðum frá dýrum í menn. Framleiðandinn þarf að halda skrá um tegund fóðurs sem hann notar, skrá lyfjanotkun, sjúkdóma og halda skrár um eftirlitið með salmonellu.

Eftirlit með salmonellu í varphænum skal framkvæmt samkvæmt áætlun Matvælastofnunar um varnir og viðbrögð við salmonellu í alifuglum. Sýni skal taka úr dagsgömlum ungum, einu sinni í uppeldi og síðan á 15 vikna fresti úr fullorðnum varphænum. Nánari upplýsingar er að finna í landsáætlun um vöktun á salmonellu í alifuglum á heimasíðu Matvælastofnunar.

Eggjapökkunarstöð

Sá sem sem flokkar egg eftir stærð og pakkar eggjum í neytendaumbúðir (lokaða eggjabakka) þarf að fá starfsleyfi fyrir eggjapökkunarstöð. Ef hann hins vegar pakkar eggjum í opna bakka og sendir í eggjapökkunarstöð þar sem eggjum er pakkað í neytendaumbúðir eða afhendir egg þannig til annarra matvælafyrirtækja telst hann frumframleiðandi og þarf því ekki starfsleyfi fyrir eggjapökkunarstöð. Verslanir gætu selt slík egg í stykkjatali eða óflokkuð í bökkum merktar versluninni. Rekjanleiki verður ávallt að vera tryggður.

Þvottur á eggjum má eingöngu fara fram í eggjapökkunarstöð sem er með starfsleyfi frá Matvælastofnun. Þvottur á eggjum getur eyðilagt náttúrlega vörn þeirra gegn sýklum og eykur hættu á að smit komist inn í eggin. Sjá leiðbeiningar  um eggjaþvott á heimasíðu Matvælastofnunar.

Ef egg eru brotin og seld sem fljótandi egg skal það skilgreint í leyfinu. Þegar starfsleyfi hefur verið veitt fær pökkunarstöðin samþykkisnúmer og skal merkja pakkningar eggja með samþykkisnúmeri. Eggjapökkunarstöðin birtist á listum Matvælastofnunar yfir samþykktar starfsstöðvar.

Kröfur til eggjapökkunarstöðvar eru í eftirfarandi reglugerðum:

Stjórnandi eggjapökkunarstöðvar getur betur áttað sig á hvaða kröfur eru gerðar til húsnæðis, búnaðar, innra eftirlits og merkinga með því að kynna sér leiðbeiningar um skoðun á eggjapökkunarstöðvum.

Matvælastofnun sinnir reglulegu eftirliti með eggjapökkunarstöð og eggjavinnslu og er tíðni þess samkvæmt áhættuflokkunarkerfi Matvælastofnunar.

Ítarefni

Uppfært 30.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?