Fara í efni

Grillun matvæla

Flestum finnst grillaður matur góður og sérstök stemning að grilla úti hvort sem er heima, í útilegunni eða sumarbústaðnum. Bragðið, ilmurinn, útlitið...

En... það getur verið erfitt, einkum fyrir þá sem ekki eru komnir með mikla grillreynslu, að láta allt vera tilbúið á sama tíma. Og ekki gengur alltaf jafn vel að láta hitna vel í kolunum. En það er einmitt mjög mikilvægt að gegnsteikja fuglakjöt og hakkað kjöt (hamborgara) en um leið að passa að ekkert brenni. Mikilvægt er að fara eftir þessu því nokkur hætta er á matarsýkingum ef ekki tekst vel til. Skoðum þetta betur.

Grillum ekki yfir logandi kolum, bíðum þar til eldurinn slokknar og kolin glóa;

 • gegnsteikjum hakkað kjöt (hamborgarar), fuglakjöt og svínakjöt;
 • látum hráan kjötsafa ekki berast á grillaðan mat, eða hrásalatið;
 • látum kjötið ekki brenna;
 • látum fitu ekki leka niður á kolin;

Hakkað kjöt, fuglakjöt og svínakjöt á að gegnsteikja

Kjúklingar og annað fuglakjöt

Miklum árangri hefur verið náð í útrýmingu salmonellu og kampýlóbakter úr kjúklingum hér á landi. Þó verður að gera ráð fyrir að kampýlóbakter geti verið í kjúklingum og öðrum alifuglum. Því er mjög mikilvægt að gegnsteikja fuglakjöt.

Hakkað kjöt (hamborgarar)

Rétt er að gera ráð fyrir að sjúkdómsvaldandi bakteríur geti verið í kjötinu. Á heilum kjötstykkjum eru bakteríur fyrst og fremst á yfirborði, þær drepast því fljótt við grillun þó kjötið sé ekki alltaf gegnsteikt. En bakteríur dreifast um allt kjötið þegar það er hakkað, þess vegna er nauðsynlegt að gegnsteikja hamborgara og aðrar rétti úr hakki.

Það þarf 2 til...

Mjög mikilvægt er að kjötsafi/blóð úr hráum kjúklingum/ kjöti berist ekki á kjötið sem búið er að steikja. Þess vegna þarf að nota annað fat, ílát, bretti fyrir grillaða matinn en notað var fyrir hráa kjötið.

Það þarf líka að nota aðra töng og önnur áhöld en notuð voru á hráa kjötið.

Á sama hátt þarf að tryggja að kjötsafi/blóð af hráu kjöti berist ekki á hrásalat eða annað meðlæti.

Bakteríur eins og kampýlóbakter berast með höndum, áhöldum og ílátum og það eitt að þvo sér ekki um hendur getur dugað til að sýkjast!

Við grillun er mikilvægt að gefa sér góðan tíma (já góðan tíma!). Það þarf að bíða þar til ekki logar lengur í kolunum, og eingöngu er glóð í þeim þegar maturinn er settur á. Maturinn verður bragðgóður og hvorki þurr né brenndur. Brenni hann spillir það bragðinu og heilsuskaðleg efni hafa myndast (geta aukið líkur á krabbameini). Þá er rétt að skera af það sem hefur brunnið. Sjá nánar um viðbrennd matvæli.

Notum álpappír eða marineringu án olíu

Fita frá kjöti eða marineringu á það til að leka niður í kolin eins og margir þekkja. Það er slæmt því þá fer að loga í kolunum og reykur með tjöruefnum sest á kjötið. Hægt er að forðast að fitan leki niður á kolin með því að setja álpappír undir matinn og það er hægt að velja marineringu án olíu. Einnig eru til lóðrétt grill, þar sem kolin eru til hliðar við matinn og feitin lekur þá ekki á þau.

Minnispunktar

Þværð þú hendur áður en þú hefst handa við tilreiðslu kjöts og annarra matvæla og eftir snertingu við hrátt kjöt? Hætta á krossmengun minnkar verulega með viðeigandi handþvotti.

 • Gætir þú þess að kjöt eða safi úr kjöti komist ekki í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu svo sem grænmeti og kaldar sósur? Hægt er að forðast krossmengun með því að nota eina töng fyrir hrátt kjöt og aðra fyrir grillað kjöt og sömuleiðis eitt fat fyrir hrátt kjöt og annað fyrir grillað kjöt.
 • Gætir þú þess að brenna ekki grillmatinn? Brenni yfirborð matvælanna geta myndast skaðleg og krabbameinsvaldandi efni. Það er því mikilvægt að skera frá alla brennda hluta áður en matvælanna er neytt. Gott er að forðast það að grilla mjög feitan mat. Þegar fita lekur á kolin leikur gjarnan logi um matvælin.
 • Hitar þú kjötið nægilega? Matvæli verða að ná a.m.k. 75°C í gegn til þess að sjúkdómsvaldar eins og salmonella drepist. Mikilvægt er að gegnumsteikja, kjúklinga, svínakjöt og unnar kjötvörur s.s. hamborgara þar sem meiri líkur er á örverum innst í hökkuðum vörum en í heilum vövðum.
 • Er kæling grillmatarins viðeigandi á ferðalaginu? Geymsluþol hrávara minnkar til muna ef þeim er ekki haldið köldum og eykur líkur á matarsýkingum.
 • Forðast þú Teflon við grillið? Teflon á ekki að nota þegar við grillum, hvorki sem grillgrindur eða áhöld því efnið bráðnar við hitastig sem er ekki óvanalegt þegar grillað er. Auk þess getur myndast hættulegt gas. Teflon er samansett af efninu PTFE (Polytetrafluoroethylene) sem þolir ekki hitastig yfir 300°C og er talið skaðlegt, berist það í líkamann.
 • Bíður þú eftir að grillvökvi sé fullbrunninn og kolin orðin glóandi og grá áður en þú setur matinn á grillið? En þannig minnka líkurnar á að ýmis skaðleg efni berist í grillmatinn.
 • Þrífur þú grillið eftir notkun? Fita sem situr á grindum og lekur ofan í grillið brennur næst þegar grillað er og skaðleg efni geta sest á matvælin. Það er góð regla að taka grillið í gegn á vorin og þrífa sýnilega fitu að lokinni grillun.

Með því að fylgja þessum ráðleggingum má koma í veg fyrir heilsuspillandi örverur og efni í grillmatnum. Hugum að réttri meðferð matvæla og notkun áhalda/íláta, ásamt almennu hreinlæti til að njóta heilsusamlegrar grillstundar í faðmi vina og fjölskyldu.

Ítarefni

Uppfært 27.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?