Fara í efni

Merking og skráning nautgripa

Eftirfarandi kröfur gilda um skráningu og merkingu nautgripa:

  1. Merkja skal alla nautgripi sem er á ábyrgð umráðarmanns til að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð. 
  2. Skrá skal öll dýr hjarðar í sérstaka hjarðbók í gagnagrunninn Huppu. Árlega þarf að skila haustskýrslu um búfjáreign rafrænt á www.bustofn.is fyrir 20. nóvember.
  3. Kálfa skal merkja með plötumerki í bæði eyru innan 20 daga frá fæðingu. Kálfar, sem slátrað er innan 20 daga frá fæðingu, skulu einnig merktir með viðurkenndu plötumerki áður en þeir eru fluttir frá búinu í sláturhús.
  4. Merki skulu vera viðurkennd af Matvælastofnun.
  5. Óheimilt er að nota númer sem þegar eru í notkun innan hjarðarinnar.
  6. Uppfylla þarf reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár.

Af hverju er gerð krafa um forprentað merki í bæði eyru nautgripa?

Krafan kemur úr 6. gr. rg. 916/2012 og 38. gr. ESB 2019/2035. Lífshættulegt kann að reynast að ætla sér að setja merki í fullvaxið naut eða illvíga holdakú. Þess vegna samþykkir MAST nautgrip sem er með upprunalegt forprentað merki í öðru eyranu en ekkert merki í hinu eyranu, ef það sést greinilega að gripurinn hafi verið merktur í bæði eyru (skoðað í sláturhúsi af eftirlitsdýralækni). Ef það sést greinilega að gripur hafi aldrei verið merktur nema í annað eyrað er gerð athugasemd (frávik skráð) í skýrslukerfinu Ísleyfi og send á innleggjanda. Hér getur komið upp álitamál varðandi það að MAST samþykki þessa gripi en ekki gripi sem eru með forprentað merki í öðru eyra en handskrifað í hinu eyranu, en rétt er þá að benda bændum á að handskrifuð merki eiga EKKI að vera í gripum við komu í sláturhús. Fái sami eigandi tvisvar eða oftar frávik er það tilkynnt héraðsdýralækni sem fylgir málinu eftir með eftirliti.

Má ein blaðka merkisins vera handskrifuð?

Nei. Í upphafi á að merkja grip með forprentuðu merki í bæði eyru. Handskrifuð merki/neyðarmerki eru út af fyrir sig ekki ólögleg en eru einungis hugsuð til að hafa möguleika á að auðkenna grip sem tapað hefur merki/merkjum á meðan beðið er eftir endurprentuðu forprentuðu merki. Vilji bændur merkja gripinn með nafni (eða öðrum valkvæðum upplýsingum) verða þeir að skrifa það á forprentaða merkið þannig að viðbótarupplýsingarnar hylji ekki lögbundnu upplýsingarnar eða á auka merki. Það er ekki samþykkt að önnur blaðkan sé forprentuð með lögbundnum upplýsingum en hin handskrifuð. Það er ekki leyfilegt að breyta forprentuðu merki með því að handskrifa yfir hluta af forprentuðum upplýsingunum.

Hvað með að skrifa nafn o.fl. fyrir hvern grip á forprentuð merki?

Sjá svar hér fyrir ofan. Nafn á merki eru viðbótar/valkvæðar upplýsingar sem bóndinn velur sjálfur að setja á merki. Ef hann getur fundið leið til að koma þessum viðbótar/valkvæðu upplýsingum á forprentað merki án þess að það hylji lögbundnar upplýsingar telst það vera í lagi. Það má t.d. skrifa nafnið á bakhlið merkisblöðkunnar eða hafa auka merki með nafninu í eyra gripsins.

Er hægt að fá undanþágu frá almennum reglum um merkingar

Í íslensku reglugerðinni, 912/2012 er tekið fram að Matvælastofnun geti veitt undanþágu frá hinni almennu reglu um merkingar. Slíka undanþágubeiðni þarf ávallt að senda með a.m.k 1 sólarhrings fyrirvara til héraðsdýralæknis í umdæmi viðkomandi sláturhúss og á henni þarf eftirfarandi að koma fram: nafn og bú innleggjanda, búsnúmer og einstaklingsnúmer viðkomandi grips ásamt lýsingu á gripnum eins og hún er í Huppu og/eða mynd af gripnum og í hvaða sláturhúsi er áætlað að slátra gripnum. Einnig þarf að koma fram skýring á því hvers vegna nauðsynlegt er að sækja um undanþágu. Undanþágur eru einungis veittar í neyðartilvikum ef það reynist ómögulegt að endurmerkja gripinn. Það er því aðeins heimilt að senda gripinn til slátrunar ef sótt hefur verið um undanþágu fyrirfram. Svo lengi sem undanþágubeiðni hefur ekki borist og verið samþykkt, er viðkomandi skrokkur ekki stimplaður og samþykktur til innleggs. Ef undanþágubeiðni berst ekki er skrokknum hent. Í öllum tilvikum þar sem gripir koma ómerktir eða með ólöglegt merki til slátrunar er frávik skráð í Ísleyfi hjá viðkomandi bónda. Fái sami eigandi tvisvar eða oftar frávik er það tilkynnt héraðsdýralækni sem fylgir málinu eftir með eftirliti á slík býli.

Eru handskrifuð merki óafmáanleg?

Nei. Það er hægt að hreinsa túss af með spritti og jafnvel skrapa stafina af.

 

Uppfært 23.03.2022
Getum við bætt efni síðunnar?