Fara í efni

Geislun matvæla

Við geislun matvæla eru notaðir gammageislar, röntgengeislar eða rafeindastraumur. Þetta eru jónandi geislar, þ.e. þeir hafa næga orku til að losa rafeindir frá frumeindum og/eða sameindum og mynda hlaðnar agnir, svokallaðar jónir. Geislun fer fram í geislaheldum klefum.

Geislagjafinn getur verið kóbalt-60 eða sesíum-137. Einnig getur geislagjafinn verið rafeindastraumur eða röntgengeislar sem eru framleiddir með hárri rafspennu eða línulegum hraðli. Þegar geislagjafinn er geislavirkt efni er skammtastærð mæld í gray (Gy=1J/kg) og geislavirkni í becquerel (1Bq=1 sundrun/sek). Skammtastærð röntgengeisla og rafeindastraums er mæld í milljónum rafeindavolta (million electronic volts = MeV).

Áhrif geislunar fara eftir því hvað notaðir eru stórir geislaskammtar. Með litlum geislaskömmtum (< 1kGy) má auka geymsluþol ávaxta og koma í veg fyrir óæskilega spírun (t.d. í kartöflum) en með stærri geislaskömmtum (1-10kGy) má draga úr eða koma í veg fyrir vöxt sjúkdómsvaldandi örvera (gerla, myglu- og gersveppa) og sníkjudýra í matvælum.

Árið 1980 komst sérfræðingahópur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Alþjóða kjarnorkustofnunarinnar (IAEA) að þeirri niðurstöðu að óhætt væri að geisla matvæli með geislaskammti allt að 10 kGy. Árið 1997 komst svo sérfræðingahópur sömu stofnanna að þeirri niðurstöðu að ekki væri nauðsynlegt að setja hámarksgildi á geislaskammta heldur skyldi taka mið af hvaða skammtar væru nauðsynlegir til að ná tilsettum árangri án þess að rýra gæði matvælanna.

Ekki er heppilegt að nota geislun á öll matvæli. Meðal þess sem ekki er heppilegt að geisla eru hrá egg og sumar mjólkur- og kjötvörur aflitast við geislun. Þrátt fyrir að fjölmargir sérfræðingar og sérfræðihópar hafi lengi talið geislun vænlega og örugga aðferð til að auka geymsluþol og öryggi matvæla er notkun hennar ekki mjög útbreidd. Ein af ástæðum þess hefur verið andstaða neytenda, sem m.a. óttast að geislun geri matvæli geislavirk, að geislun sé notuð til að breiða yfir lélega framleiðsluhætti og að geislun rýri næringargildi matvæla. Vegna þessa ótta hafa komið fram tillögur um að kalla geislun "kalda gerilsneyðingu", en slíkar tillögur hafa ekki náð fram að ganga.

Ekki er ástæða til að óttast að matvæli verði geislavirk eftir geislameðhöndlun þar sem geislagjafar hafa ekki næga orku til að gera þau geislavirk og geislavirkt kóbalt/sesíum kemst ekki í snertingu við matvælin.

Geislun má aldrei koma í stað góðra framleiðsluhátta! Aðeins má leyfa geislun þegar góðir framleiðsluhættir duga ekki til að fyrirbyggja hugsanlegar matarsýkingar.

Geislun getur haft áhrif á næringargildi matvæla og eru það einkum vítamín sem tapast. Ekki er þó talið að vítamíntap við geislun sé meira en við niðursuðu eða aðra hitameðhöndlun. Geislun getur einnig valdið oxun á fjölómettuðum fitusýrum.

Sérstakt leyfi þarf til að geisla matvæli og eru áhrif geislunar metin sérstaklega í hvert sinn. Nú hefur geislun tiltekinna matvæla verið leyfð í 41 þjóðríki. Hingað til hafa það einkum verið krydd og þurrar jurtakryddblöndur sem hafa verið geislaðar, en geislun ávaxta og grænmetis færist í vöxt. Í Bandaríkjunum hefur lengi verið leyft að geisla kjúklinga og nýlega hefur verið leyft að geisla kjöt og unnar kjötvörur, t.d. hamborgara og pylsur.

Reglugerð um geislun matvæla með jónandi geislun er byggð á reglum Evrópusambandsins. Í henni eru m.a. ákvæði um hvaða geislagjafa má nota, hve stóra geislaskammta, hverjir mega framkvæma geislun og merkingar geislaðra matvæla. Matvæli sem meðhöndluð hafa verið með jónandi geislun skuli bera merkinguna "Meðhöndlað með jónandi geislum" eða "Geislað".

Einnig er í reglugerðinni listi yfir þau matvæli sem má geisla og leyfilega hámarksgeislun. Enn sem komið er eru einungis þurrkaðar kryddjurtir, krydd og grænmetiskrydd á listanum en matvælum á listanum mun smám saman fjölga.

Uppfært 29.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?