Fara í efni

Fagráð um velferð dýra

Hlutverk

Fagráð um velferð dýra starfar samkvæmt lög um velferð dýra, nr. 55/2013 og lögum um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar, nr. 71/2021. Hlutverk fagráðs um velferð dýra er eftirfarandi: 

  • að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra, 
  • að veita Matvælastofnun umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna, 
  • að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra, 
  • að taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna. 

Fagráðið skal hafa aðsetur hjá Matvælastofnun sem leggur því til vinnuaðstöðu og starfsmann með sérfræðiþekkingu á starfssviði ráðsins. Fagráðið skal halda gerðabók um störf sín og gefa út ársskýrslu fyrir 1. mars ár hvert. Um málsmeðferð hjá fagráðinu skal farið að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Skipan

Fagráð um velferð dýra skal skipað fimm aðilum og jafn mörgum til vara. Yfirdýralæknir skal vera formaður fagráðsins, en aðrir fulltrúar skulu skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fagráðinu ber að kalla eftir sérfræðiáliti þegar fjallað er um fræðileg álitamál og ráðið skortir sérþekkingu á viðkomandi sviði.

Ráðherra skipar fagráð um velferð dýra eftir tilnefningum til þriggja ára í senn. Eftirfarandi skipun var staðfest af ráðherra þann 6. september 2022 fyrir skipunartímann 2021-2024:

  • Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, formaður, skipuð án tilnefningar
    • Varamaður: Auður L. Arnþórsdóttir, dýralæknir, tilnefnd af Matvælastofnun
  • Hilmar Vilberg Gylfason, yfirlögfræðingur BÍ, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
    • Varamaður: Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af sama
  • Katrín Andrésdóttir, dýralæknir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Ísland
    • Varamaður: Grétar Hrafn Harðarson, dýralæknir, tilnefndur af sama
  • Anna Berg Samúelsdóttir, bú- og landfræðingur, tilnefnd af Dýraverndarsambandi Íslands
    • Varamaður: Rósa Líf Darradóttir, læknir, tilnefnd af sama
  • Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og kennari í siðfræði, tilnefndur af Siðfræðistofnun HÍ
    • Varamaður: Emma Björg Eyjólfsdóttir, heimspekingur, tilnefnd af sama

Fundargerðir / erindi lögð fyrir ráðið til umfjöllunar

Ársskýrslur fagráðs

Vinnureglur fagráðs

Aðsetur og umsjón

Fagráð er með aðsetur hjá Matvælastofnun og eru fundir haldnir til skiptis á aðalskrifstofu MAST á Selfossi og starfsstöð MAST á höfuðborgarsvæðinu.

Matvælastofnun annast skjalavörslu ráðsins.

Verkaskipting innan fagráðs

Formaður fagráðs kemur fram fyrir hönd ráðsins en getur í sérstökum tilvikum falið öðrum fagráðsmanni það hlutverk.

Tjái fagráðsmaður sig um störf fagráðs á opinberum vettvangi, án þess að hafa verið falið það hlutverk, skal hann gera skýra grein fyrir því að hann sé ekki að tala fyrir hönd fagráðs.

Formaður upplýsir hver sé starfsmaður ráðsins hverju sinni.

Um málsmeðferð skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Fundir og fundarsköp

Formaður ráðsins stýrir fundum skv. fyrirliggjandi dagskrá.

Fagráð heldur fundi mánaðarlega nema í desember, júní og júlí og skal miða að því að halda fundi á miðvikudögum í fjórðu viku hvers mánaðar kl. 13.00 til 15.00.

Fastir dagskrárliðir á fundum fagráðs eru: 

  1. samþykkt fundargerðar síðasta fundar og 
  2. umfjöllun um umsóknir um dýratilraunir sbr. c. lið hér að framan, teknar eru fyrir umsóknir sem berast í mánuðinum fyrir fund.

Óski fagráðsmaður eftir að fagráð fjalli um sérstakt málefni á sviði dýravelferðar sbr. d. lið hér að framan, skal hann senda beiðni til starfsmanns fagráðs að minnsta kosti tveimur vikum fyrir fund með nánari útlistun og rökstuðningi þannig að ljóst sé að efnið falli undir hlutverk fagráðs. Formaður tekur afstöðu til beiðninnar.

Beiðni um að mál verði tekin fyrir á fundi fagráðs sem falla undir a. og c. lið hér að framan skulu einnig send starfsmanni fagráðs að minnsta kosti tveimur vikum fyrir fund. Formaður tekur afstöðu til beiðninnar.

Verði MAST við ósk um flýtimeðferð vegna umsóknar um dýratilraun eða ef fullnægjandi gögn liggja ekki fyrir til að unnt sé að afgreiða umsókn getur fagráð komið saman milli funda m. a. annars með símafundi, eða afgreitt umsagnir með tölvupóstum.

Endanleg dagskrá fundar skal send út eigi síðar en viku fyrir hvern fund. 

Afrit af umsóknum um dýratilraunir sem lagðar verða fyrir fundi skulu send til fagráðsmanna í síðasta lagi viku fyrir fund.

Samþykktir fagráðs skulu bókaðar í fundargerð þannig að hlutfall greiddra atkvæða komi fram.

Náist ekki að tæma dagskrá innan boðaðs fundartíma skal umræðu frestað til næsta fundar nema boðað sé til aukafundar ef samþykki allra fagráðsmanna liggur fyrir.

Forföll

Verði forföll þá tilkynnir hann það til starfsmanns sem boðar varamann viðkomandi og sendir honum viðeigandi gögn varðandi fundinn og tilkynnir þetta formanni.

Sérfræðingar

Fagráði ber að kalla eftir sérfræðiáliti þegar fjallað er um fræðileg álitamál og ráðið skortir sérþekkingu á viðkomandi sviði. Fagráð eða einstaka meðlimir fagráðs geta óskað eftir að sérfræðingi verði boðið að sitja tiltekinn dagskrárlið til álitsgjafar.

Gestir

Óski einstaklingur eða félagasamtök eftir að fá að koma fyrir fagráð með tiltekið málefni eða af gefnu tilefni skal sækja um slíkt með 2 vikna fyrirvara og þarf meirihluti fagráðs að samþykkja slíka tilhögun enda heyri málefnið undir fagráð.

Uppfært 29.08.2024
Getum við bætt efni síðunnar?