Smitsjúkdómar í nautgripum
Kúariða
Kúariða er banvænn sjúkdómur sem leggst á heila nautgripa. Sjúkdómurinn er langvinnur og einkennin koma að jafnaði ekki fram fyrr en um 5 ára aldur. Engin meðhöndlun eða bólusetning finnst gegn sjúkdómnum. Einkenni kúariðu minna að mörgu leyti á einkenni riðuveiki hjá sauðfé, þ.e.a.s. taugaeinkenni sem birtast í hegðunarbreytingum og erfiðleikum við hreyfingu.
Talið er að sjúkdómurinn geti borist í nautgripi ef þeir eru fóðraðir á dýrafóðri, framleitt úr leifum sýktra nautgripa. Fyrsta tilfellið af kúariðu var staðfest í Bretlandi árið 1986. Síðan þá hefur sjúkdómurinn verið staðfestur í fleiri Evrópulöndum, Asíu, Miðausturlöndum og í Norður-Ameríku.
Vísbendingar eru um að tilbrigði kúariðunnar, banvæni hrörnunarsjúkdómurinn Creutzfeldt-Jakob sem leggst á fólk, geti stafað af neyslu sýkts taugavefs eða nautakjöts sem hefur komist í snertingu við sýktan taugavef.
Sýnataka vegna eftirlits með kúariðu
Sýnataka og sending
Leiðbeiningar um sýnatöku
Garnaveiki
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í umhverfinu mánuðum saman. Bakterían er mjög harðger, þolir t.d. mörg sótthreinsiefni. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Meðgöngutími í kúm er 2 ½ ár eða lengri.
- Listi yfir staðfest garnaveikitilfelli síðustu 10 ára
- Upplýsingar um garnaveikitilfelli í landupplýsingakerfi Matvælastofnunar
Smitdreifing
Greining
Veiruskita
Veiruskita er bráðsmitandi sjúkdómur í nautgripum. Honum svipar mjög til sjúkdóms sem kallast „winter dysentery“ og finnst um allan heim. Orsök sjúkdómsins hérlendis var lengi talin óþekkt, en fyrir lá þó ein PCR greining sem benti til kórónaveiru. Það var síðan staðfest með PCR og raðgreiningu sumarið 2022 á Tilraunastöðinni á Keldum og reyndist vera nautgripakórónaveira BovCoV. Mótefnamælingar hafa sýnt að sýking er mjög algeng í mjólkurkúahjörðum hérlendis og blossar veikin upp á mismunandi svæðum á landinu nokkuð reglulega. Sjúkdómurinn smitast með saur og slími frá nösum. Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, s.s. múlum, fatnaði, tækjum, bifreiðum o.s.frv. Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.
Kórónaveirur eru þekktir smitvaldar í fjölda dýrategunda. Í dag eru skilgreindar 46 veirur í Kórónaveirufjölskyldunni, en þeim er svo skipt í 2 undirfjölskyldur og hvorri undirfjölskyldu í ættkvíslir og undirættkvíslir. Bovine coronavirus, BovCoV, eða nautgripakórónaveira tilheyrir Betacononavírus ættkvíslinni eins og Sars kórónaveirurnar. BovCoV er þekktur smitvaldur í kálfaskitu, lungnabólgu, veiruskitu í fullorðnum kúm og flutningsveiki aðallega í 6-10 mánaða gripum. Öndunarfærasýkingar eru nánast óþekktar í kálfum hérlendis en veiruskita í mjólkurkúm er landlæg og blossar sýkingin upp á mismunandi svæðum á landinu nokkuð reglulega.
Salmonella
Algengustu einkenni eru: Minni átlyst, fall í nyt, hiti og vatnskenndur niðurgangur sem oft er illa lyktandi og blóðugur. Fósturlát geta komið fram ef gripir smitast á seinni hluta meðgöngu. Kálfar geta veikst mjög illa og jafnvel fengið blóðeitrun.
Meðgöngutími er yfirleitt 1-3 dagar, en getur verið breytilegur, allt frá 6 klst. upp í 10 daga.
Líftími bakteríunnar getur verið mislangur, hún lifir einna lengst í köldu röku umhverfi. Hún getur lifað í mánuði í slíku umhverfi en líftíminn er styttri við þurrar aðstæður allt niður í <1 vika.
Mestar líkur eru á að Salmonella berist inn á bú með smituðum gripum. Einnig getur hún borist með smituðum nagdýrum og fuglum, menguðu fóðri, fólki, landbúnaðarvélum og fatnaði/skófatnaði fólks.
Mjög mikilvægt er:
- Ef keyptir eru gripir inn á bú, hvort heldur sem er fullorðnir gripir eða smákálfar er ráðlagt að einangra þá frá öðrum gripum fyrstu vikuna eftir að þeir koma á búið og fylgjast mjög vel með heilsufari þeirra.
- Ekki má flytja kálfa yngri en 10 daga nema því aðeins að um skamma vegalengd sé að ræða og tryggt sé að þeir geti lagst og hafi viðeigandi undirburð. Ekki má flytja nýfædda kálfa þar sem naflastrengur er ógróin.
- Ekki má flytja kálffullar kýr/kvígur sem gengnar eru 90% eða meira af meðgöngutímanum eða hafa borið innan 5 daga
- Seljanda gripa er skylt að útvega heilsufarsvottorð fyrir gripina frá sínum dýralækni eða héraðsdýralækni.
- Ekki má flytja notuð landbúnaðartæki sem hugsanlega eru menguð af jarðvegi/skít yfir varnarlínur nema því aðeins að þau hafi verið þrifin og sótthreinsuð. Gott er að skipuleggja flutning tækja yfir varnarlínur í samráði við héraðsdýralækni.
- Alltaf skal þrífa notuð landbúnaðartæki áður en þau eru flutt á milli bæja jafnvel þó að það sé innan sama varnarhólfs
- Við þrif á húsum og tækjum er rétt að nota lágþrýsting þar sem að úði frá háþrýstiþvotti dreifir bakteríum.
Ítarefni: Fræðslupistill vegna salmonellu í kjölfar greiningar á kúabúi í Eyjafirði árið 2025.