Fara í efni

Minnkum matarsóun

 

Geymsla matvæla

Það er mikilvægt að geyma matvæli við rétt hitastig. Kælivöru á að geyma í kæli við 0-4. Kæling hindrar fjölgun örvera og við mat á geymsluþoli kælivara hafa framleiðendur gert ráð fyrir að matvæli séu geymd í kæli.Mikilvægt er að fylgjast með hitastigi í kæliskápum og passa að það fari ekki yfir 4°C. Kælivörur á að setja strax í kæli eftir að komið er heim úr innkaupaferð.

Í kæliskápnum á að geyma mjólkurvörur, ferskt kjöt, og ferskan fisk, álegg, majonessalöt, ferskt pasta, egg, ýmis konar blaðsalat, afskornar kryddjurtir, kál (hvítkál, brokkolí, blómkál), gulrætur, og sveppi. Sumar tegundir grænmetis s.s. agúrku og papriku er best að geyma við hærra hitastig og ætti að geyma það í grænmetisskúffunni neðst í ísskápnum.

Við stofuhita t.d. í eldhússkápum skal geyma matvæla ýmis konar þurrvörur, (hrísgrjón, mjöl, pasta, sykur), niðursuðuvörur, matvæli í krukkum. Athugið að eftir opnun niðursuðudósa skal setja það sem ekki er notað í annað ílát og geyma í kæli. Sósur í krukkum s.s. pestó og salsa skal geyma í ísskáp eftir opnun.

Geymsluþol matvæla

Geymsluþol á pökkuðum matvælum er ýmist tilgreint sem „Síðasti notkunardagur“ eða „Best fyrir“. Nokkrar tegundir matvæla er ekki nauðsynlegt með að merkja með geymsluþoli og sem dæm má nefna salt, sykur, vín og ávextir og grænmeti. Nánari upplýsingar um geymsluþolsmerkingar matvæla má sjá hér.

En hver er munurinn á þessum merkingum?

Merkja á matvæli með „síðasta notkunardegi“ ef framleiðandi metur þau ekki örugg til neyslu eftir „síðasta notkunardag“. Hægt er að frysta matvælin fyrir síðasta notkunardag. Ef það er gert skal þýða þau upp í kæli og þeirra skal neytt strax að lokinni uppþýðingu. Matvæli, sem merkt eru með síðasta notkunardegi, skal ekki neyta eftir þann dag nema þau hafi verið fryst eða elduð áður en geymsluþol rann út.

„Best fyrir“ merkingin segir til um hve lengi matvæli halda eiginleikum sínum hvað varðar gæði. Matvæli eru oft vel neysluhæf í einhvern tíma eftir „best fyrir“ dagsetningu. Dæmi eru um að framleiðendur bendi á það, t.d. með merkingu um að matvæli séu oft „góð lengur“.

Forsendan fyrir því að matvæli geymist í þann tíma sem gefinn er upp á umbúðum er að matvælin séu í órofnum umbúðum og þau séu geymd við rétt hitastig. Við opnun umbúða breytist geymsluþol matvælanna og því þarf að endurmeta neysluhæfni þeirra. Þetta á sérstaklega við hafi matvælin verið í loftskiptum eða lofttæmdum umbúðum. Oft fylgja matvælum leiðbeiningar um geymsluaðstæður og geymsluþol eftir að umbúðir hafa verið rofnar. Ef engar slíkar leiðbeiningar eru gefnar, á matvælum með geymsluþolsmerkinguna best fyrir er hægt að nota skynfærin til að meta hvort óhætt sé að neyta matvælanna.

Mat á því hvort hægt sé að borða matvæli eftir „best fyrir“.

  • Útlit og áferð
    • Er útlit matvælanna eðlilegt? Ef það er mygla á matvælunum skal þeirra ekki neytt. Í einstaka tilfellum er hægt að skera mygluna frá en það fer eftir eðli matvælanna. Sjá nánari umfjöllun um mygluð matvæli hér.
    • Ef rotskemmdir eru í grænmeti má skera þær í burtu og neyta þess sem er heilt.
    • Upplituð eða þurr matvæli eru ekki hættuleg heilsu.
  • Lykt
    • Er lykt matvælanna eðlileg? Ef matvælin lykta illa, eru t.d. súr, eða úldin ætti ekki að borða þau.
  • Bragð
    • Ef ekkert er athugavert við lykt eða útlit er yfirleitt óhætt að smakka. Er bragðið eðlilegt? Ef bragðið er vont skal matvælunum hent.
    • Mönnum ætti ekki að verða meint af að smakka , þar sem örverur sem valda rotnun eru ekki sjúkdómsvaldandi .

Frískápar

Víða hafa samtök eða einstaklingar sett upp frískápa með það að markmiði að draga úr matarsóun. Frískápar eru ísskápar eða skápar á almenningsstöðum þar sem fólk getur sótt sér frían mat. Allir geta sett mat í frískápinn og öllum stendur til boða að nýta sér matvæli úr honum. Skáparnir falla ekki undir starfsleyfisskylda starfsemi og eru því ekki undir opinberu eftirliti.

Mikilvægt er að matvæli sem sett eru skápana séu örugg. Sá sem setur mat í skápinn þarf að meta hvort matvælin séu örugg til neyslu. Sama gildir um þann sem tekur matvæli úr skápnum. Mikilvægt er að hafa í huga rétta meðferð matvæla þegar sett er í skápinn, eins eftir að tekið er úr honum og þar til matvælanna er neytt. Hagnýtar upplýsingar um rétta meðferð matvæla má finna á heimasíðu Matvælastofnunar.

Hitastig í kælum skal vera við 0-4°C og -18°C í frystum. Mælt er með því að hitamælir sé til staðar í skápnum þannig að hægt sé að fylgjast með hitastigi.

Frískápur ætti að vera heill og vera vel við haldið þannig að auðvelt sé að þrífa hann og vera þannig gerður að engin meindýr geti farið inn í hann.

Mælt með því að ákveðnar upplýsingar séu til staðar á skápnum. Upplýsingarnar eru ætlaðar þeim sem setja matvæli í skápinn og þeim sem taka matvæli úr honum.

Dæmi um upplýsingar á frískáp:

  • Upplýsingar um ábyrgðaraðila á frískápnum, ef eitthvað fer úrskeiðis svo hægt sé að hafa samband við hann.
  • Orðsending um að matvæli eru á ábyrgð neytenda.
    • Hvers konar matvæli má setja í skápinn.
  • Hvaða upplýsingar ættu að fylgja matvælunum:
  • Dagsetning eldunar þar sem við á.
  • Dagsetning þegar varan var sett í skápinn
    • Tilmæli um þrif þegar þörf er á og etv. skráningar á þrifum
    • Aðrar umgengisreglur                                   

Ítarefni

Uppfært 12.09.2023
Getum við bætt efni síðunnar?