Fara í efni

Koffín

Merking koffíns í matvælum/fæðubótarefnum

Fyrir matvæli sem innihalda mikið koffín eða innihalda viðbætt koffín eru sérstakar kröfur um merkingar. Þær kröfur koma fram í III. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 sem gildir á Íslandi með reglugerð nr. 1294/2014

  • Þessar merkingar er skylt að hafa á íslensku.

Tegund matvæla

Merking

Drykkir sem innihalda meira en 150 mg/L af koffíni  (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“).

„Inniheldur mikið af koffíni.  Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL

Matvæli (þ.m.t. fæðubótarefni) (önnur en drykkjarvörur) sem innihalda íblandað koffín í lífeðlisfræðilegum tilgangi.

 „Inniheldur koffín. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 g eða mL.  Ef um fæðubótarefni er að ræða skal magn koffíns gefið upp í einum ráðlögðum dagskammti.

 

Merking koffíns í orkudrykkjum með leyfi frá Matvælastofnun

Sérstakar varúðarmerkingar gilda fyrir drykkjavörur með mjög hátt koffíninnihaldi. 

Drykkjavörur sem fengið hafa leyfi frá Matvælastofnun bera auk þessa sérstakar varúðarmerkingar og geta verið háðar skilyrðum um markaðssetningu. Kröfur og skilyrði fyrir hverja vöru fara eftir því hvaða upplýsingar koma fram á umbúðum og hvernig varan er markaðssett í heild sinni. Ákvörðun Matvælastofnunnar um leyfi byggist á áhættumati frá RÍN (Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í næringarfræði) en allar umsóknir sem berast stofnuninni eru sendar RÍN til umsagnar.

RÍN leggur vísindaálit Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um öryggi koffíns sem og aðrar heimildir, bæði erlendar og innlendar, til grundvallar faglegu mati.

Sérhvert leyfi er bundið tiltekinni vöru, þ.e. stærð dósar og bragðtegunda sem sótt var um. Ekki er leyfilegt að breyta eða fjarlæga merkingar sem Matvælastofnun setur kröfur um við leyfisveitingu og skal fyrirtæki sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar og að markaðssetning vörunnar sé ekki villandi.

Eftirlit á markaði er í höndum Heilbrigðiseftirlits sveitafélaga. Þau skulu, hvert á sínu svæði, fylgja því eftir að kröfur og skilyrði sem Matvælastofnun hefur sett fyrir leyfisveitingu fyrir viðkomandi vöru séu uppfyllt. Leyfishafi, þ.e. fyrirtæki sem sækir um markaðssetningu vöru, ber ábyrgð á að koma upplýsingum um sölubann á vöru til barna yngri en 18 ára eða öðrum takmörkunum á dreifingu sem Matvælastofnun setur, á framfæri við smásöluaðila.

Helstu varúðarmerkingar sem kröfur hafa verið gerðar um að skuli koma á umbúðum vara á íslensku og í leturstærð a.m.k. 3 mm:

MJÖG HÁTT KOFFÍNINNIHALD (og magn koffíns í neyslueiningunni (dósinni) í mg og í 100 ml)

Tilgangurinn með þessu er að gera neytendum kleift að greina á milli drykkjavara annars vegar með hátt innihald koffíns og hins vegar með MJÖG HÁTT koffíninnihald. Drykkjavörur sem hafa fengið leyfi frá Matvælastofnun innihalda á bilinu 180 – 200 mg koffín í neyslueiningu. Þetta er mjög mikið koffín og því æskilegt að þessar upplýsingar séu auðlesanlegar. Þess vegna hefur stofnunin einnig sett lágmarksleturstæð (3mm). Þannig geta neytendur gert skýran greinarmun á þessum vörum og drykkjavörum sem innihalda mun minna koffín.

Ekki selt börnum undir 18 ára aldri

Íslensk börn drekka að meðaltali mikið af gosdrykkjum, meira en börn á hinum Norðurlöndunum. Heilsu barna getur verið ógnað vegna þessara drykkja þar sem að með neyslu þeirra geta þau á stuttum tíma innbyrt það magn koffíns sem gæti valdið bráðum eitrunaráhrifum. Umræddar drykkjavörur eru markaðssettar sem bragðbættir kolsýrðir drykkir og er það mat stofnunarinnar að það verði að líta svo á að þessar drykkjavörur séu í samkeppni við aðra gosdrykki og höfði sérstaklega til barna. Matvælastofnun hefur ákveðið að markaðssetning varanna eigi því að einskorðast við fullorðna og sala/aðgangur barna að þessum vörum sé bannaður einstaklingum undir 18 ára. Vörur sem innihalda svo mikið magn af koffíni eru heilsuspillandi fyrir börn og uppfylla þannig ekki 8. gr. a. laga um matvæli.

Helstu varúðarmerkingar sem skulu koma fram á umbúðum vara á íslensku, eftir því sem við á:

  • „Neytið drykkjarins ekki með öðrum koffíngjöfum“
  • „Hámarks skammtur:  X dósir á dag“
  • „Drekkið ekki meira en eina dós samhliða mikilli líkamlegri áreynslu“ (eða sambærileg)
  • „Blandið ekki með áfengi“

 

Uppfært 25.07.2022
Getum við bætt efni síðunnar?