Fara í efni

Orkudrykkir

Hér eru upplýsingar fyrir innflytjendur eða framleiðendur um sölu/dreifingu orkudrykkja:

Á Íslandi eru svokallaðir orkudrykkir flokkaðir og skilgreindir sem almenn matvæli. Þetta þýðir að reglugerðir um almenn matvæli gilda einnig fyrir þessa drykki. Innflytjendur og framleiðendur þurfa að kynna sér gildandi reglugerðir vel áður en orkudrykkir eru settir á markað hérlendis. Undantekning frá þessu er orkuskot (e. Energy shot) en orkuskot flokkast á Íslandi sem fæðubótarefni og skal skoða reglur sem gilda skv. reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni.  

Reglur um koffínmagn

Hámarksmagn koffíns í orkudrykkjum (óáfengum drykkjarvörum) er 320 mg/l samkvæmt reglugerð nr. 453/2014 um 3. breytingu á reglugerð nr. 327/2010  um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1925/2006.

Hámarksgildið tekur til heildarmagns koffíns í vörum og breytir þá engu hvort um er að ræða íblöndun hreins koffíns, útdrátta (e. extract) eða náttúrulega koffíngjafa. 

Óheimilt er að framleiða, markaðssetja eða flytja inn orkudrykki þar sem heildarmagnið er meira en 320 mg/l nema með sérstöku leyfi frá Matvælastofnun. Sjá upplýsingasíðu Matvælastofnunar um umsóknarferlið.

Merkingar

Fyrir orkudrykki sem innihalda 150 mg/l af koffíni eða meira eru sérstakar kröfur um að vörurnar séu merktar með orðunum „Inniheldur mikið af koffíni.  Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL. Þessar merkingar skulu vera á íslensku.

Reglur um íblöndun bætiefna

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 327/2010 um íblöndun bætiefna í matvæli skulu matvælaframleiðendur og innflytjendur tilkynna markaðssetningu orkudrykkja sem eru bættir með vítamínum til Matvælastofnunar.

Önnur efni en vítamín og steinefni

Flestir svokallaðir orkudrykkir innihalda auk koffíns önnur efni sem talin eru hafa einhvers konar virkni á líkamann. Virkni efna á líkamann getur verið breytileg t.d. eftir því hversu mikið er af efnunum í drykknum. Sérstaklega hafa útdrættir (e. extract ) úr plöntum mismunandi virkni og sum þeirra geta virkað eins og lyf. Leiki vafi á því hvort einstök efni eða efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr. Innflytjendur eða framleiðendur þurfa að kanna hvort efni í svokölluðum orkudrykkjum hafa verið skilgreind sem lyf eða ekki áður en orkudrykkir eru settir á markað hérlendis. 

Lyfjastofnun gefur út lista með vöruflokkun sem er uppfærður reglulega:

Uppfært 10.11.2020
Getum við bætt efni síðunnar?