Fara í efni

Svínahald

Tilkynninga- og úttektarskylt svínahald er eftirfarandi:

  • Svínarækt með fleiri en 2 fullorðin svín á hverjum tíma
  • Svínarækt með fleiri en 20 grísi í uppeldi á hverjum tíma

Svínabændur þurfa að uppfylla eftirfarandi kröfur:

  1. Um aðbúnað svína gilda lög um velferð dýra og reglugerð um velferð svína 
  2. Svínabændur eru matvælaframleiðendur og þá gilda lög um matvæli og gildandi reglugerðir þar um
  3. Fóðurframleiðsla fer fram á mörgum svínabúum og þá gilda lög um eftirlit með áburði, sáðvöru og fóðri og gildandi reglugerðum um fóðurframleiðslu
  4. Svínabændur eru ábyrgir fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarða sinna í sérstaka hjarðbók og skulu halda sjúkdóma- og lyfjaskráningar

Svínabóndi eða umráðamaður er ábyrgur fyrir því að lögum og reglum um velferð svínanna og framleiðslu matvæla og fóðurs sé fylgt.

Matvælastofnun fer með eftirlit með því hvort lágmarkskröfum regluverks sé framfylgt. Eftirlitið skal vera byggt á áhættuflokkun sem er stöðugt í endurvinnslu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að eftirlitsmaðurinn þarf ekki að gera boð á undan sér. Annars skal boða eftirlitið með eins stuttum fyrirvara og hægt er.

Svínabónda eða umráðamanni er skylt að veita eftirlitsmanni aðgang að öllum eftirlitsskyldum hlutum/svæðum búsins og þeim pappírum og tölvugögnum sem hann á að hafa eftirlit með.

Sjá einnig upplýsingar um hvernig eftirlitsheimsóknir fara fram.

Auðgunarefni - efni fyrir svín til þess að róta og krafsa

Það að veita svínum efni til að róta í, krafsa og rannsaka er mikilvægt til að veita þeim tækifæri til þess að sýna hegðun sem er þeim eðlislæg. Það að rannsaka umhverfi sitt og fæðuleit er þeim meðfætt. Grísir hafa þörf fyrir að sýna þessa hegðun mjög snemma, þó svo að þeir fái nóg af fóðri. Slíkt auðgunarefni örvar þá og eykur ánægju hjá þeim. Það fyrirbyggir einnig leiða og pirring og eykur velferð þeirra. Auðgunarefni getur minnkað hættu á halabitum og annarri óæskilegri heðgun. 

Öll svín, þ.m.t. spenagrísir, ættu að hafa nægan aðgang að auðgunarefni á öllum tímum. Auðgunarefni þarf því að vera gefið nægilega oft til þess að það sé tilstaðar fyrir þá grísi sem  hafa áhuga á því þannig að það myndist ekki samkeppni um efnið. Spænir í litlu magni sem er gefinn til þess að halda stíunni þurri er ekki talið sem auðgunarefni. 

Hvernig þarf efnið að vera? 

 

Efni þarf að uppfylla þarfir grísanna án þess að vera skaðlegt heilsu þeirra. Efnið ætti því að hafa eftirfarandi eiginleika: 

  1. Vera ætilegt – þ.e.a.s. að grísirnir geti borðað eða smakkað á því. Helst ætti það að hafa jákvæð áhrif á meltinguna eða innihalda næringu. Það að efnið hafi aðlaðandi bragð og lykt hjálpar til. 

  1. Að hægt sé að tyggja á því, þ.e.a.s að efnið sé aðlaðandi, gott og öruggt fyrir grísina að tyggja. 

  1. Að hægt sé að róta í því, þ.e.a.s. að grísirnir geti rannsakað og rótað í efninu. 

  1. Að hægt sé að vinna með efnið (forma það), þ.e.a.s. að grísirnir geti flutt það til og breytt um lögun á því eða útlit. 

 

Hvernig á að deila efninu? 

 

Efnið ætti að vera gefið á þann hátt: 

  1. að það vekji viðvarandi áhuga hjá grísunum, þ.e.a.s. það ætti að vera fjölbreytt, og fylla ætti á það reglulega svo það örvi grísina til að róta, rannsaka og krafsa.  

  1. að það sé auðvelt fyrir grísina að ná í það svo þeir geti fært það til og bitið í það með munninum.  

  1. að það sé nóg efni í stíunni svo að allir sem hafa áhuga á efninu hafi möguleika á að ná í það. 

  1. að það sé hreinlegt og heilnæmt. 

 

Til þess að uppfylla náttúrulegar þarfir grísanna ætti auðgunarefnið að hafa alla eiginleika sem koma fram í punktum a-d og gefið í samræmi við leiðbeiningarnar í punktum 1-4. 

 

 

 

Uppfært 22.03.2023
Getum við bætt efni síðunnar?