Fara í efni

Póstsending stöðvuð

Tollyfirvöld hafa eftirlit með póstsendingum sem berast til landsins. Sendingar sem innihalda vörur sem lúta eftirliti Matvælastofnunar og innihalda óleyfileg efni eða eru háðar sérstökum innflutningsskilyrðum eru stöðvaðar.

Fæðubótarefni sem innihalda óleyfileg efni eru stöðvuð samkvæmt viðmiðum og listum sem finna má á heimasíðu MAST. Matvælastofnun hefur enga heimild til að veita undanþágur í slíkum málum. Innflytjandi/viðtakandi þarf því að óska eftir því við póstþjónustuaðila að vara verði endursend eða henni fargað.

Vörur sem háðar eru leyfi Matvælastofnunar eru stöðvaðar. Hægt er að sækja um leyfi fyrir slíkar vörur í gegnum þjónustugátt MAST með eyðublaði nr. 7.01 Póstsendingar einstaklinga með leyfisskyldum vörum. Þar skal skrá umbeðnar upplýsingar og hengja við fylgiskjöl; vörureikning og annað sem við á.

Í eyðublaði 7.01 skal velja einn af eftirfarandi vöruflokkum, eftir því sem við á:

Áburður

Allan áburð sem settur er á markað hérlendis ber að skrá hjá Matvælastofnun. Það á bæði við um áburð sem er fluttur inn og þann sem er framleiddur hérlendis, hvort sem áburðurinn er ólífrænn eða lífrænn. Undantekning frá þessari reglu er húsdýraáburður sem notaður er innan býlis. Innflytjendur og framleiðendur áburðar verða því að láta skrá þær tegundir áburðar sem ætlunin er að setja á markað.

Um áburð og eftirlit með ólífrænum áburði gilda lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og reglugerð 543/2024 um áburðarvörur, sem innleiðir reglugerð ESB nr. 2019/1009 um áburðarðvörur og reglugerð nr. 398/1995 um áburð og jarðvegsbætandi efni.

Upplýsingar um sölu og dreifingu á áburði

Fóður

Innflutningur fóðurs er með ólíkum hætti eftir því hvort það er flutt inn frá landi innan EES eða utan EES (þriðja ríki), svo og hvort það inniheldur dýraafurðir eða hráefni sem er undir sérstöku eftirliti. Fóðurinnflytjandi og fóðurtegund skal vera skráð hjá Matvælastofnun áður en innflutningur á sér stað.

Eftirlit með innflutningi fóðurs byggir á lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, reglugerð 1205/2021 um gildistökur reglugerðar 1831/2003/EB um aukefni í fóðri, auk áorðinna breytinga, reglugerð 1206/2021 um gildistöku tilskipunar EB nr. 2002/32 um óæskileg efni í fóðri, auk áorðinna breytinga, reglugerð nr. 107/2010 um kröfur varðandi hollustuhætti sem varðar fóður og reglugerðum ESB eins og við á m.t.t. EES samningsins. Þar að auki gilda ákvæði dýrasjúkdómalöggjafar um innflutning á heyi og hálmi (lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð nr. 1250/2019 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.

 Upplýsingar um innflutning á fóðri

Fræ

Matvælastofnun hefur eftirlit með innflutningi og útflutningi á fræjum með hliðsjón af gæðaeiginleikum eins og hreinleika og spírunarhæfni. Ísland hefur innleitt reglur Evrópusambandsins um fræ nytjajurta og viðurkenningu yrkja.

Upplýsingasíða um fræ/sáðvöru

Matvæli sem innihalda dýraafurðir

Hér er átt við kjöt og kjötvörur, mjólk og mjólkurvörur, egg og eggjaafurðir. Einnig samsett matvæli, þ.e. matvæli sem innihalda afurðir bæði úr jurta- og dýraríkinu.

Frá EES ríki: Heimilt er að flytja inn til einkaneyslu matvæli sem innihalda dýraafurðir frá löndum innan EES. Vörur skulu vera í neytendaumbúðum með innihaldslýsingu.

Frá þriðja ríki: Óheimilt er að flytja inn til einkaneyslu matvæli sem innihalda dýraafurðir frá þriðju ríkjum, þ.e. löndum utan EES. Þó eru nokkrar undanþágur: Þó eru nokkrar undanþágur:  Matvæli frá 3. ríkjum

Matvæli sem innihalda ekki dýraafurðir

Tilteknar tegundir matvæla sem ekki eru úr dýraríkinu hafa verið skilgreindar sem áhættuvörur og lúta þar af leiðandi sérstöku eftirliti. Um er að ræða vörur sem þekkt er að geti verið mengaðar af varnarefnaleifum, aflatoxíni, litarefni o.s.frv.

Matvæli og fóður sem ekki eiga uppruna í dýraríkinu og um gilda sérstök innflutningsskilyrði

Lifandi plöntur

Innfluttum plöntum sem heimilt er að flytja til landsins skal fylgja opinbert plöntuheilbrigðisvottorð. Þó gilda tilteknar undanþágur fyrir innflutning á vegum einstaklinga sem ætlaður er til einkanota.

Um innflutning plantna gilda skilyrði reglugerðar nr. 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum.

Upplýsingar um innflutning á plöntum

Veiðiminjar

Dýraminjar geta mögulega borið smitefni til landsins hafi þær ekki undirgengist fullnægjandi meðhöndlun.

Lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð nr. 1250/2019 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins kveða á um skilyrði um innflutning dýraafurða.

Upplýsingar um dýraminjar/veiðiminjar

Annað

Ef sendingin þín hefur verið stöðvuð en fellur ekki í neinn ofangreindra flokka, veljið „Annað“ og látið ítarlegar upplýsingar um sendinguna fylgja með. Ef um er að ræða notuð dýralækningaáhöld eða búnað sem hefur verið í snertingu við dýr eða landbúnað þá gilda sérstök skilyrði vegna dýrasjúkdóma. Nánari upplýsingar er að finna hér

 

 

Uppfært 12.05.2025
Getum við bætt efni síðunnar?