Fara í efni

Reglur um fæðubótarefni

Fæðubótarefni eru skilgreind sem matvæli og um þau gilda því öll almenn ákvæði matvælalöggjafar s.s. lög matvæli nr. 93/1995 og reglugerðir um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, um aukefni, um næringar og heilsufullyrðingar og um nýfæði, svo dæmi séu nefnd.  Þessu til viðbótar gildir reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni sem er byggð á tilskipun frá Evrópusambandinu (Directive 2002/46/EC). 

Evrópska tilskipunin um fæðubótarefni tekur ekki á öllum þeim atriðum sem lúta að fæðubótarefnum og hvert ríki setur sína löggjöf varðandi þau atriði sem ekki eru samræmd á EES svæðinu. Reglur um leyfileg innihaldsefni í fæðubótarefnum, önnur en vítamín og steinefni eru til dæmis ekki að fullu samræmdar á EES svæðinu og ekki eru til samræmd hámarksgildi fyrir magn vítamína og steinefna í fæðubótarefnum.

Gildissvið

  •  Reglugerð gildir um fæðubótarefni sem eru markaðssett og kynnt sem slíkt. 
  •  Ákvæði reglugerðar ná ekki til fæðubótarefna sem ætluð eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.
  • Gildir ekki um lyf eins og þau eru skilgreind í lyfjalögunum.

Leyfi og ábyrgð

Fæðubótarefni sem slík þurfa ekki samþykki eða leyfi frá Matvælastofnun eða Heilbrigðiseftirliti sveitafélaga áður en þau eru markaðssett. Framleiðandi eða innflutningsaðili þarf þó að hafa starfsleyfi frá viðkomandi opinberum eftirlitsaðila og er sjálfur ábyrgur fyrir því að fæðubótarefni séu í samræmi við settar reglur. Óheimilt er að dreifa fæðubótarefnum, sem ekki uppfylla ákvæði laga og reglugerða sem um þau gilda.

Uppfært 17.02.2023
Getum við bætt efni síðunnar?