Gildandi reglugerð og gildissvið
Reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni tók gildi þann 30. júlí 2004. Það gerðist í kjölfar þess að ákvörðun var tekin hjá Evrópusambandinu um að fæðubótarefni skyldu skilgreind sem matvæli. Reglugerðin um fæðubótarefni er byggð á tilskipun frá Evrópusambandinu (Directive 2002/46/EC).
Markmiðið með tilskipuninni er m.a. að veita neytendum vernd gegn villandi upplýsingum, að tryggja öryggi fæðubótarefna og koma í veg fyrir viðskiptahindranir milli landa. Fyrir tilkomu þessarar reglugerðar var ekki til skilgreining á fæðubótarefnum, né neinar samræmdar reglur.
Í tilskipuninni er ekki er tekið á öllum þeim atriðum sem lúta að fæðubótarefnum og setur þá hvert ríki sína löggjöf hvað þau atriði varðar. Til dæmis eru ekki til samræmdar reglur um leyfileg innihaldsefni í fæðubótarefnum, önnur en vítamín og steinefni og ekki eru hámarksgildi fyrir magn vítamína og steinefna í fæðubótarefnum samræmd.
Gildissvið
- Reglugerð gildir um fæðubótarefni sem eru markaðssett og kynnt sem slíkt.
- Ákvæði reglugerðar ná ekki til fæðubótarefna sem ætluð eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Gildir ekki um lyf eins og þau eru skilgreind í lyfjalögunum.
Matvælalög nr. 93/1995 og aðrar reglugerðir sem gilda
Lög um matvæli nr. 93/1995 gilda almennt um öll matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni. Reglugerð um fæðubótarefni setur ýmis sérákvæði sem aðeins gilda um fæðubótarefni. Í reglugerðinni er t.d. settar fram kröfur um sérstakar merkingar t.d. varðandi næringaryfirlýsingu og sérstakar yfirlýsingar eða varnaðarorð, sem eiga að koma fram á umbúðum. Þrátt fyrir að til sé sérstök reglugerð um fæðubótaefni gilda einnig aðrar almennar reglugerðir, t.d. reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda nr. 1294/2024, reglugerð um aukefni nr. 978/2011 og reglugerð um næringar og heilsufullyrðingar nr. 406/2010 svo dæmi séu nefnd.