Fara í efni

Hættur í umhverfinu

Ýmsar hættur geta leynst í umhverfi gæludýra, sumar stöðugar og aðrar árstímabundnar. 

Umráðamönnum dýra ber að tryggja dýrunum góða umönnun, þ.m.t. að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu.

Ef þú telur heilsu gæludýrs þíns ógnað, hafðu samband við dýralækni. Ef um neyðartilfelli er að ræða utan vinnutíma dýralækna, hafðu samband við dýralækni á bakvakt. Nánar um ýmsar hættur í umhverfi gæludýra hér undir. 

Dýrahald og flugeldar

Matvælastofnun minnir dýraeigendur á að huga vel að dýrum sínum á meðan á flugeldaskotum stendur á áramótum. Slíkar sprengingar kunna að valda dýrunum ofsahræðslu og geta þau valdið slysum á sjálfum sér og öðrum við slíkar aðstæður. Hægt er að fyrirbyggja slys með því að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana fyrir gamlárskvöld og þrettándann.

Dýraeigendur, sérstaklega þeir sem eiga hunda, ketti og hesta, kannast vel við þann óróa og angist sem dýr þeirra ganga í gegnum á þessum tíma vegna látanna sem fylgir flugeldaskotum. Dæmi eru um að hundar sleppi og hlaupi fyrir bíla eða á fjöll. Hestar úti í haga eru sérlega í hættu. Fjölmörg dæmi eru um að hestar hafi fælst við flugelda, brotist út úr girðingum og hlaupið til fjalla eða í veg fyrir bílaumferð, og valdið slysum á sjálfum sér og öðrum. Hestar eru mikil hópdýr svo ef einn hleypur af stað getur allur hópurinn fylgt. Einnig eru margir komnir með hesta á hús á þessum tíma og farnir að stunda útreiðar. Óþarfi er að lýsa því hvað getur gerst ef flugeldum er skotið upp rétt hjá eða yfir fólki við útreiðar. 

Matvælastofnun beinir því til almennings, og sérstaklega foreldra og forráðamanna barna og unglinga, að sýna þá tillitsemi við dýrin og eigendur þeirra að eingöngu stunda flugeldaskot, hvellhettusprengingar og nota ýlur á gamlárskvöld eða á þrettándanum. Það hjálpar dýraeigendum við að grípa til ýmissa fyrirbyggjandi ráðstafana.

Það helsta sem hægt er að gera er eftirfarandi:

 • Hestum eða búfénaði sem komnir eru á gjöf í húsum skal gefið vel, hafa ljósin kveikt og útvarp í gangi. 
 • Gott er að gefa vel hey hestum eða búfénaði sem eru úti við eða á útigangi og halda þeim á kunnuglegum slóðum, þar sem þau fara sér síður að voða ef hræðsla grípur þá. Ef hægt er að setja hesta inn er það öruggast.
 • Eigendur ættu helst að fylgjast með hestunum ef því er komið við, eða alla vega vitja þeirra sem fyrst eftir lætin.
 • Gæludýr: Í þéttbýli er best er að halda köttum alveg inni dagana í kringum áramót og hafa hunda alltaf í taumi þegar þeim er hleypt út, þó það sé bara út í garð.
 • Hunda er best að viðra vel árla dags í birtu svo þeir verði þreyttir um kvöldið og ef þeir eru mjög hræddir þá gjarna viðra fyrir utan bæinn. Svo að kvöldi er mjög snjallt að viðra stutt meðan skaupið er, þá er yfirleitt afar rólegt. 
 • Dýr sem sýna mikla hræðslu ber ekki að skilja eftir ein. Misjafnt er hvort hrædd gæludýr vilja félagsskap eigandans eða hvort þau vilji skríða í felur. Ef þeim líður betur í felum skildi maður leyfa þeim það. Allra mikilvægast er að dýrin sleppi ekki út. 
 • Gott er að tala rólega en glaðlega við dýrin, til að sannfæra þau um að heimurinn sé ekki að farast. Jafnvel er hægt að gefa þeim smá dýranammi meðan eða strax á eftir hvelli, svo þau tengi þessi læti einhverju jákvæði. Strokur og snerting eiganda róar einnig flest dýr og veitir þeim styrk.
 • Þegar það versta gengur yfir ber að að halda dýrunum inni, gjarna í rými sem þau þekkja, loka og byrgja glugga og hafa tónlist í gangi. Yfirleitt er best að hafa ljósin kveikt, til að draga úr ljósaglömpum. Fyrir hunda er jafnvæl hægt að prófa að nota eyrnartappa, sumir sætta sig við það, aðrir ekki.
 • Ef ofangreint er ekki talið nægjanlegt, þá er gæludýraeigendum ráðlagt að tala við sinn dýralækni vel tímanlega fyrir áramót og fá ráðleggingar. Hægt er að fá lyfseðil fyrir kvíðadempandi lyf og þá er mikilvægt að byrja ekki meðhöndlun of seint þegar dýrið er komið í hræðslukast, en þá er virknin mun takmarkaðri. En varað er við að gefa dýrum nokkur lyf nema í samráði við dýralækni. 
 • Þó hundar virðist rólegir skyldi ekki taka hundana með út, hvorki á brennur né til að skjóta flugeldum. Blys og rakettur geta skotist í allar áttir og annað fólk getur stundum verið óútreiknanlegt, þannig að slíkt umhverfi er alls ekki hundavænt. Munið að hundar heyra mun betur en við. Hundur sem verður fyrir mjög slæmri upplifun getur borið skaða af því ævilangt. Einnig þó hundur virðist rólegur getur hann í raun verið ofsahræddur, en bara verið í hálfgerðu lömunarástandi af hræðslu.

 • Ungum dýrum sem eru að upplifa sín fyrstu áramót þarf að sýna sérstaka aðgát. Dagarnir fyrir áramót geta gefið vísbendingu um hvað verða vill.
 • Ef reynslan sýnir að dýr verður ofsahrætt við lætin kringum áramótin er ráðlagt að byrja þjálfun fyrir næsta ár einhverjum mánuðum fyrr. Hljóð af sprengjum og látum er t.d. hægt að finna á YouTube sem er hægt að venja þau við hægt og rólega, og samtímis nota jákvæða styrkingu. Of seint er að byrja slíka þjálfun nokkrum dögum fyrr og getur það gert illt verra.
 • Einnig fæst hjá mörgum dýralæknum róandi lykt ýmist í hálsbandi, eða til að setja í innstungu og er gott að setja slíkt upp ekki seinna en 2 vikum fyrir áramót.
 • Allra mikilvægast er alltaf að dýrin séu í öruggu umhverfi og njóti stuðnings eiganda sinna.

Varasamur matur

Oftar en ekki er það misskilin góðmennska að deila jólamatnum sínum með hundinum sínum. Margir hundar eru viðkvæmir fyrir breytingum í matarræði og jólin enda í niðurgangi og uppköstum sem hvorki er eiganda né dýri til ánægju. Þó eru nokkrir hlutir sem sérlega ber að varast:

Súkkulaði

Súkkulaði inniheldur efni kallað theobromíð sem er eitrað hundum og kettir eru enn viðkvæmari. Mest er af theobrómíð í dökku súkkulaði og það því mest hættulegt. Theobrómíð hefur áhrif á hjarta, taugakerfi og nýru og 100-150 mg/kg líkamsþyngd af theobromíð getur valdið alvarlegri eitrun, jafnvel dauða. Áhrifin byrja oft 4-24 klst eftir inntöku og geta verið uppköst, niðurgangur, óróleiki, ofvirkni, skjálfti, óstöðugleiki og krampi. Ekkert mótefni er til og því mikilvægt að komast sem fyrst til dýralæknis eftir inntöku (helst innan 3 klst) svo hægt sé að fá hundinn til að kasta upp áður en fullt uppsog verður. Meðhöndlun fer eftir innteknu magni, tíma og einkennum. 

Ef hundurinn þinn át súkkulaði:

Viðmið til að reikna út magn (u.þ.b.) af theobrómíð í 25 grömmum af súkkulaði:

 • Hvítt súkkulaði inniheldur hverfandi magn
 • Mjólkursúkkulaði 30-64 mg 
 • Hálfsætt súkkulaði og dökkt súkkulaði 150-160 mg
 • Suðusúkkulaði 390-450 mg
 • Kakóduft 800 mg

Ef um 30 kg hund er að ræða gæti verið um lífshættulega eitrun ef hann étur yfir 1 kg af mjólkursúkkulaði, ½ kg af dökku súkkulaði og 170 g af suðusúkkulaði. Eituráhrif myndu koma fram við lægri skamt td líklegt að uppköst og niðurgangur sæist við inntöku af 200 g af mjólkursúkkulaði, möguleg áhrif á hjartað við 500 g og trúlega skjálftar og krampar við 750 g. 

Ef inntaka er meiri en 20 mg/kg er ráðlegt að meðhöndla með tæmingu á maga og gefa lyfjakol. Oft getur verið erfitt að vita nákvæmlega hvaða magn hundurinn hefur étið og því betra að hafa varann á og leita strax til dýralæknis.

Laukur, hvítlaukur og graslaukur

Kettir eru enn viðkvæmari en hundar fyrir lauki, en laukur getur líka valdið hundum eitrun ef neytt er í einhverju magni. Hundar eða kettir sem fá matarleifar, pizzu, barnamat sem inniheldur lauk geta fengið eitrun og gildir það jafnt hvort sem laukurinn er þurrkaður, soðinn, bakaður eða hrár. Inntaka á yfir 0,5% af líkamsþyngd af lauk hjá hundi og 5 g/kg hjá köttum veldur eitrun. Einkenni geta komið fram 12 klst – 5 dögum eftir inntöku. Eftir því hversu tímanlega dýrið kemur til meðhöndlunar getur meðferð verið að fá dýrið til að kasta upp og gefa lyfjakol eða bara stuðningsmeðferð ef inntaka átti sér stað fyrir löngu. Eitrun getur valdið ertingu í meltingu og en getur einnig valdið niðurbroti á rauðum blóðkornum og blóðskortur getur því komið fram löngu eftir inntöku.

Rúsínur og vínber

Ekki er alveg vitað hvaða efni veldur eitrun en inntaka á vínberjum og rúsínum getur valdið alvarlegum nýrnaskaða bæði hjá hundum og köttum. Sérlega smáhundar og kettir eru í hættu þar sem fáar rúsínur geta valdið eitrun. Sýnt hefur verið að 2,8 g af rúsínum/kg dýr hefur gefið nýrnaskaða. Sum dýr geta mögulega þolað minna, en önnur meira án þess að hægt sé að segja til um það fyrirfram. Önnur einkenni eru uppköst, niðurgangur, kviðverkir eftir nokkrar klukkustundir og getur þróast í nýrnaskaða eftir sólarhring. Best er að framkalla uppköst sem fyrst eftir inntöku og allt að 6 klst, en inngjöf á lyfjakolum getur einnig minnkað uppsog. Leitið strax til vakthafandi dýralæknis ef grunur leikur á að dýr hafi komist í rúsínur. 

Avocado

Allir hlutar Avocado, svo sem fræ, ávaxtakjöt og hýði innihalda Persin sem getur verið eitrað fyrir dýr. Hundar og kettir geta fengið uppköst og niðurgang en fuglar og nagdýr eru enn viðkvæmari og öndunar og hjartaerfiðleikar geta valdið dauða.

Bein

Þó flestum finnist það ætti að tilheyra venjulegu hundalífi að naga bein þá valda bein oft mun meiri vandræðum en gleði. Bæði geta þau staðið í þeim eða stíflað meltingarveg en kanski sérlega varasöm eru bein sem verða mjög oddhvöss eins og lamba og fuglabein. Ef hundirinn þinn hefur náð í kalkúnabeinin úr ruslinu þá getur verið gott ráð að gefa honum smá hundamat í dós, kjöthakk eða annað vel íblönduðum með niðursoðnum spergil (aspars), því þræðirnir í spergil pakkast oft vel í kringum oddhvassa hluti og getur skilað hlutnum út án þess að valda skaða. 

Macadamia (td hesli) hnetur

Heslihnetur geta valdið á innan við 12 tímum eftir inntöku, veikleika, skjálfta, uppköstum, og hækkuðum líkamshita. Einkennin geta varað í 12-48 klst. 

Gerdeig

Gerdeig getur valdið gasframleiðslu í maga hundsins og valdið því að maginn þennst út og jafnvel snýst. Slíkt ástand getur orðið bæði mjög sársaukafullt og hættulegt. Ef magi hundsins byrjar að þenjast út og/eða hundurinn að kastar upp án þess að nokkuð annað en slím komi upp ber tafarlaust að hafa samband við dýralækni.

Xylitol

Gervisætuefnið xylitol sem bæði finnst í tyggjó og ýmsum sykurlausum vörum geta valdið bráðri hættu í dýrum. Líkami dýranna skynjar Xylitolið eins og um sykurinntöku væri að ræða og veldur losun á insúlíni og í framhaldi falli á blóðsykri og jafnvel insulínsjokki (hypoglycemia). Einkenni geta verið slappleiki, óstöðugleiki, uppköst og krampar.  Inntaka Xylitols hefur líka verið tengd lifrarskaða og storknun í blóði. Jafnvel minnsta magn getur verið hættulegt og leita ætti til dýralæknis umsvifalaust ef grunur leikur á inntöku á xylitol. 

Ef grunur er um eða vitað sé að dýrið hafi innbyrgt xylitol er hægt sem bráðameðferð strax, eða á leið til dýralæknis að gefa smá glycogel, þrúgusykur, síróp, hunang eða sykurvatn í munn til að reyna að mótvirka brátt fall í blóðsykri. Ef grunur er um xylitoleitrun er þó alltaf nauðsynlegt að fara til dýralæknis sem getur metið ástand dýrs og blóðsykur og sölt í blóði með blóðprufu.

Ilmolíur

Ilmolíur á heimilum geta verið skaðlegar gæludýrum, einkum köttum. Mikilvægt er að gæludýraeigendur takmarki notkun á skaðlegum ilmolíum og aðgang gæludýra að þeim.

Vinsælt er að nota alls kyns ilmolíur á heimilum. Þar finnast þær ýmist í opnum flöskum, rakatækjum, ilmkertum eða er úðað út í andrúmsloftið. 

Matvælastofnun varar gæludýraeigendur við mikilli notkun á svæðum þar sem gæludýr eru haldin og ráðleggur þeim að skoða vel hvort þær tegundir af olíum sem er verið að nota gætu verið skaðlegar fyrir gæludýrin. 

Kettir geta verið sérstaklega viðkvæmir fyrir sumum af þessum olíum vegna skorts á hvötum til að brjóta niður efnin í lifur. 

Hér að neðan má nálgast sérstakar ráðleggingar til kattaeiganda um skaðlegar olíur og upplýsingar um hvaða heimilisvörur geta reynst gæludýrum hættulegar. 

Ítarefni

Jólin og gæludýr

Góðar rútínur, réttur matur og jafnvægi milli hreyfingar og hvíldar gefur gleðilega hátíð, líka fyrir gæludýrið þitt.

Jólahátíðin er tími gleði og samveru, en fyrir gæludýrin okkar getur þessi tími oft verið áskorun. Hefbundið lífsmunstur breytist oft mikið, það er meira um heimsóknir og og mikið breytt matarræði fyrir ferfætlingana okkar getur skapað þeim meiri vandamál en gleði. Hundar eru t.d. einstök vanadýr og miklar breytingar geta valdið streitu. Það er mikilvægt um hátíðarnar að tryggja áfram hefðbundna hreyfingu og nauðsynlega hvíld. Kannski er betra fyrir hundinn að hvílast stundum frekar en að vera með í öllum jólaboðunum?

Hættur fyrir ferfætlinga og fiðraða heimilismeðlimi geta líka leynst víða, t.d. jólaseríur, skreytingar með kertum og blómum, jólamatur og sælgæti. Þó að við sjáum ekki að pakki sem liggur fallega skreyttur undir jólatrénu innihaldi konfekt, þá er nokkuð víst að hundur heimilisins viti nákvæmlega hvað er að finna í pakkanum og taki sér það bessaleyfi að opna þegar enginn sér. Rafhlöður og seglar eru mikið í umferð á jólum og getur verið einstaklega hættulegt ef slíkt er gleypt.

Gott er að undirbúa hátíðarnar með því að vista í símann símanúmer vakthafandi dýralæknis á þínu svæði. Hafa samband við dýralækni á bakvakt

Eftirfarandi hlutir geta reynst gæludýrum varasamir:

Gæludýr geta veikst af hefðbundnum jólamat 

Oft langar mann að gefa t.d. hundinum eitthvað sérstaklega gott um jólin, enda erum við heldur betur að gera vel við okkur í mat. Hversu erfitt er líka að standast biðjandi augu loðboltans við jólaborðið? Margir hundar eru mjög viðkvæmir fyrir miklum breytingum í matarræði. En ef þú vilt gefa hundinum eitthvað auka gott, forðastu þá að gefa saltan, feitan eða mjög kryddaðan mat. Það endar oftar en ekki með niðurgangi og/eða uppköstum og í versta falli gæti dýrið endað hjá dýralækninum, sem er örugglega ekki staðurinn sem fólk langar að eyða hátíðunum á.

Matur sem er varasamur fyrir gæludýrin er oft óvanalega aðgengilegur á jólum. Súkkulaði, laukur, rúsínur, avokado og vínber eru matvæli sem geta verið hættuleg dýrunum þínum. Skörp bein, svo sem fuglabein eða lambabein, geta stungist í gegnum meltingarveginn og önnur bein geta valdið stíflu. Sjá nánar um varasaman mat fyrir gæludýr.

Jólatré

Flest tré eru ekki mjög eitruð en geta samt valdið niðurgangi og uppköstum ef þau eru étin. Nálarnar sjálfar geta líka valdið ertingu, stungist í slímhúð og jafnvel í þófa. Köttum finnst oft gaman að fara á jólaskrautveiðar og geta lent í því að velta trjánum ef þau eru ekki vel skorðuð. Ekki er heldur víst að glerkúlur lifi slíkt fall af og glerbrot geta valdið skaða. 

Skreytingar

Bæði hundar og kettir geta tekið upp á því að éta gjafabönd og bandskreytingar. Ef böndin festast á leið sinni í gegnum meltinguna geta þau skapað mikla hættu fyrir dýrið. Stundum festist hluti af spottanum utan um tungu þó hluti af honum gangi niður. Ef spotti er kominn í maga eða þarm og gengur svo aftur úr dýri eða upp úr því er mjög mikilvægt að toga alls ekki í spottann þar sem það getur skorið þarmana eða vélindað eins og hnífur. Leitið strax til dýralæknis. 

Bæði hundar og kettir geta tekið upp á því að bíta í jólaseríur og geta þá fengið óþægilegt rafstuð.

Blóma- og kertaskreytingar geta verið varasamar. Gæludýr vara sig oft ekki á kertaljósum og eiga það til að brenna sig og kveikja í feldinum ef þau fara of nálægt. Ófáir kettir hafa kveikt í veiðihárunum í þeirri tilraun að þefa af kertunum. Reynið að setja logandi ljós þar sem dýrið kemst ekki að því. Ef dýr fá heitt kertavax framan í sig getur þurft að skoða hvort það hafi brennt eða skaðað hornhimnu augnanna. Athugið að ef dýrið pýrir augu getur það verið einkenni um skaða. Jólastjörnur, mistilteinn og önnur jólablóm eru vægt eitruð ef þau eru étin og geta valdið slefi, uppköstum, niðurgangi.

 

Rafhlöður

Rafhlöður eru mjög hættulegar dýrum ef þær eru gleyptar. Rafhlöður geta fljótt valdið vefjadauða vegna sýru sem getur lekið út eða rafspennu í vef og mögulega þungmálmaeitrun. Sérstaklega eru flögurafhlöður mjög skaðlegar þar sem þær geta valdið vefjaskaða svo fljótt sem 15-30 mínútum eftir inntöku. Ef þig grunar að gæludýrið þitt hafi gleypt rafhlöðu, hafðu umsvifalaust samband við vakthafandi dýralækni. Ef dýr gleypir rafhlöður er um að ræða neyðartilfelli sem þarf að bregðast við strax og ekki skal bíða til næsta dags.

Frostlögur

Frostlögur er sætur og getur því verið freistandi fyrir gæludýr að smakka á ef hann er aðgengilegur. Jafnvel mjög lítið magn getur valdið alvarlegri eitrun og nýrnaskaða svo ef grunur leikur á að dýrið hafi komist í frostlög þarf því umsvifalaust að koma dýrinu til meðferðar hjá vakthafandi dýralækni. Ef meðferð næst í tæka tíð er mögulega hægt að bjarga dýrinu, að öðrum kosti þarf yfirleitt að aflífa vegna bráðrar nýrnabilunar. Ef dýr eru farin að sýna veikindaeinkenni eftir inntöku frostlögs er skaðinn yfirleitt skeður og meðhöndlun tilgangslaus.

Seglar

Seglar (e. magnets) eru algengir t.d. á ísskápum og á alls kyns kössum til að halda lokinu aftur. Seglarnir geta verið mjög öflugir miðað við stærð. Ef hundur t.d. nagar slíkan pappakassa þá getur hann gleypt báða seglana með pappanum um leið. Ef slíkt gerist og seglarnir festast saman í gegnum þarma getur lífshættulegt ástand skapast. Hafið strax samband við dýralækni ef grunur er um að gæludýr hafi gleypt segla. Um er að ræða neyðartilfelli sem þarf að bregðast við strax og ekki skal bíða til næsta dags.

Uppfært 21.12.2022
Getum við bætt efni síðunnar?