Fara í efni

Nautgripahald

Kúabændur og nautgriparæktendur þurfa að uppfylla eftirfarandi kröfur:

 1. Samkvæmt lögum um matvæli þarf að sækja um leyfi hjá Matvælastofnun til nautgripahalds áður en starfsemi hefst. Það er gert inni á Þjónustugátt Matvælastofnunar.
 2. Um aðbúnað dýranna gilda lög um velferð dýra og reglugerð um velferð nautgripa.
 3. Búin eru matvælaframleiðendur sem falla undir lög um matvæli.
 4. Um kjötframleiðsluna gilda lög um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum
 5. Um mjólkurframleiðsluna gildir reglugerð um mjólkurvörur.
 6. Flest búin teljast vera fóðurframleiðendur og fer eftirlitið skv. lögum um eftirlit með áburði, sáðvöru og fóðri og gildandi reglugerðum um fóðurframleiðslu.
 7. Umráðamenn nautgripa eru ábyrgir fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarðar sinna í sérstaka hjarðbók í gegnum gagnagrunninn Huppu og skulu halda utan um sjúkdóma- og lyfjaskráningar. 

Matvælastofnun fer með eftirlit með því hvort lágmarkskröfum regluverks sé framfylgt. Eftirlitið skal vera byggt á áhættuflokkun sem er stöðugt í endurvinnslu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að eftirlitsmaðurinn þarf ekki að gera boð á undan sér. Annars skal boða eftirlitið með eins stuttum fyrirvara og hægt er.

Umráðamanni fyrirtækis er skylt að veita eftirlitsmanni aðgang að öllum eftirlitsskyldum hlutum fyrirtækisins og þeim pappírum og tölvugögnum sem hann á að hafa eftirlit með.

Nánari upplýsingar: 

Útivist nautgripa

Allir nautgripir, að undanskildum graðnautum, skulu komast á beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta, á tímabilinu frá 15. maí til 15. október ár hvert. 

Aðrar kröfur reglugerðar um velferð nautgripa (17. gr.) um útivist nautgripa:

 • Aðgangur að útigerði uppfyllir ekki kröfu um útivist á grónu landi.
 • Gripir sem eru úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðrum. Að vetri skal skjól þetta vera gripahús eða legusvæði í skýli sem tekur mið af þörfum viðkomandi gripa.
 • Þar sem nautgripir, aðrir en mjólkurkýr, eru haldnir úti skal vera aðstaða til að hand­sama gripi ef þeir þurfa meðhöndlun eða taka þarf úr þeim sýni.
 • Átsvæði skal vera með þéttu og þrifalegu undirlagi. Þar sem gripir eru á útigangi allt árið skal vera aðstaða innanhúss til að hlúa að gripum sem þurfa sérstakrar umönnunar við.
 • Hafa skal reglubundið eftirlit með gripum á útigangi og haga því eftir aðstæðum. Á tíma­bilinu 15. október til 15. maí skal líta til með gripum á útigangi daglega.

Samkvæmt 29. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra ber umráðamanni dýra að tryggja að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, m.a. hvað varðar öryggi þeirra og heilbrigði, og tekur tillit til bæði sérstakra þarfa dýrsins og séreinkenna tegundarinnar. Umhverfi dýra skal vera þannig, eftir því sem við á, að þau geti athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðhaft annað atferli sem þeim er eðlilegt.

Eðlilegt frelsi til hreyfingar

Nautgripum er í grunninn eðlilegt að lifa úti þar sem frelsi þeirra til hreyfingar er ótakmarkað.

Við bestu veðurfræðilegar aðstæður þar sem veðrátta er þannig að gróður er sígrænn og hiti verður aldrei mjög mikill liði nautgripum best úti allt árið. Þær aðstæður eru ekki hér á landi nema stuttan tíma á sumrin. Þess vegna er útivistartími mjólkurkúa takmarkaður af veðráttu. Í ljósi þess þarf að nýta sumartímann vel til að tryggja nautgripum eðlilegt frelsi til hreyfingar. 

Ef kýrnar fá að velja sjálfar vilja þær vera úti, nema ef veður eða önnur óþægindi hamli. Kýr á útbeit geta gengið 4-8 km á dag, í lausagöngu ganga þær 400-800 m.  Þær geta því fengið allt að tífalt meiri hreyfingu en kýrnar sem eru lokaðar inni í lausagöngufjósi. Samkvæmt 17. gr. reglugerðar 1065/2014 er lámarks útvistartími 8 vikur og ræðst sá tími m.a. af viðurkenndri reynslu og þekkingu með hliðsjón af íslensku veðurfari.

Um leið og kýr komast út fer hagur þeirra batnandi. Nuddsár fara að gróa og vöðvarnir liðkast. Hormónastarfsemi fer af stað hjá kúm sem borið hafa síðla vetrar.  Það fer eftir aðstæðum hve langan tíma kýrnar þurfa til að jafna sig að fullu eftir inniveruna, en ef legu- eða nuddsár er ekki að fullu gróið þegar kýrin er bundin inn aftur ýfist það upp á augabragði.  Það er því eðlilegt að kúm sé ætluð 8 vikna útivist en hana ætti að miða við beit þegar það á við og rúman tíma á árinu, á tímabilinu frá 15. maí til 15. október hér á landi þó að það geti verið aðstæður þar sem kýrnar fá að fara eitthvað út allt árið. Þar sem kýr hafa tækifæri til að ganga út og inn velja þær útivist í frosti og þurrviðri, en draga sig í skjól í slagveðri.

Eðli kúa sem eru úti kemur best fram þegar líður að burði. Þá draga þær sig í hlé, gjarnan í hátt gras og í skjól og laga sér bæli. Þær vilja vera alveg í friði á meðan á burðinum stendur og fyrst eftir að kálfurinn fæðist. Það hefur verið bent á að ein ástæða þess hvað margir kálfar drepast í burði geti verið sú að burðarferlið truflist þegar farið er að flytja kúna til í fjósinu eftir að burðurinn er farinn af stað.

Aukið heilbrigði sem af útivist hlýst og rök að baki reglum um frelsi til hreyfingar og útivistar

 • Aukin hreyfing eykur blóðflæði og þar með súrefnisupptöku.
 • Virkni sogæðakerfis eykst og þar með mótstaða gegn sýkingum. 
 • Minni líkur eru á súrdoða þegar kýr eru úti. 
 • Kýr á útbeit fá minni júgurbólgu og lifa lengur.
 • Hreyfing er holl fyrir liði og eykur styrk liðbrjósks.
 • Kýr á útbeit eru með heilbrigðari lappir og klaufir. Mun færri eru haltar, með bólgin framhné eða hækla.
 • Spenastigum fækkar. 
 • Burður gengur betur hjá kúm sem eru á útbeit. 
 • Kýr sem hreyfa sig mikið eiga mun auðveldara með að leggjast og standa upp => þær leggjast því oftar og liggja meira. 
 • Kýr vilja frekar liggja úti á grasi en á góðum básum. Kýr eiga að liggja a.m.k. 10 tíma á sólarhring, styttri legutími kemur niður á líkamlegu og andlegu heilbrigði. Kýr á útbeit liggja lengur og jórtra meira liggjandi.
 • Mjög sjaldgæft er að sjá atferlisfrávik hjá kúm á útbeit. Hvert dýr hefur meira rými og árásargirni minnkar marktækt. Átök um aðgengi að fóðri eru hverfandi.

Heimildir

 • Svensk Mjölk; Bete, praktiska lösningar og management. Författare: Jeanette Belin.
 • Washburn, S. P., White, S. L., Green, J. T. J., and Benson, G. A. (2002). Reproduction, mastitis, and body condition of seasonally calved Holstein and Jersey cows in confinement of pasture systems. Journal of Dairy Science, 85, 105–111.
 • Haskell, MJ, Rennie, LJ, Bowell, VA. Bell, M. J och Lawrence, AB. Housing System, Milk Production, and Zero-Grazing Effects on Lameness and Leg Injury in Dairy Cows. Journal of Dairy Science 2006, 89.
 • Hernandez-Mendo, O., von Keyserlingk, M. A. G., Veira, D. M., and Weary, D. M. (2007). Effects of pasture on lameness in dairy cows. Journal of Dairy Science, 90, 1209–1214.
 • DJF rapport Husdyrbrug nr 74  November 2006 Lene Munksgaard og Eva Søndergaard (red.) 

 

Uppfært 10.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?