Fara í efni

Smitvarnir fyrir bæi í ferðaþjónustu með veitingarekstur og dýrahald

Víða um land eru ferðamannastaðir sem bjóða upp á möguleika á að kynnast dýrum í návígi, sem almenna afþreyingu og einnig hefur það ákveðið fræðslugildi. Oft eru þessir staðir jafnframt með veitingar af ýmsu tagi. Líkur á sýkingu eru almennt litlar en þó er þekkt að hópsýkingar hafi komið upp í gegnum tíðina á slíkum stöðum. Dýrum sem eru heilbrigð að sjá getur fylgt bakteríuflóra sem getur valdið sýkingum hjá fólki eins og t.d. af völdum Campylobacter spp., Salmonella spp., Cryptosporidium spp., eiturefnamyndandi E. coli (STEC) o.fl.

Í umhverfi dýra getur verið bakteríuflóra sem gestir eru væntanlega ekki vanir í sínu daglega lífi. Börn eru ekki búin að læra almennt hreinlæti s.s. handþvott fyrr en við ákveðinn aldur og því mikilvægt að passa sérstaklega upp á þau í umgengni við dýr. Þar fyrir utan hafa ung börn ekki eins þroskað ónæmiskerfi eins og þeir sem eldri eru. Meiri hætta er á að börn sýkist á þessum stöðum, þar sem þeim er tamt að stinga höndum eða hlutum í munn sinn. Oft er um að ræða smit sem auðvelt er að koma í veg fyrir með handþvotti. 

Rekstraraðilar og starfsfólk 

Fræðsla og upplýsingar um smitvarnir

 • Fræðsla er árangursríkasta forvörnin gegn sýkingum. Rekstraraðilar á ferðamannastöðum og allir sem veita almenningi aðgang að dýrum ættu að upplýsa gesti um góðar smitvarnir við umgengi við dýr og mikilvægi handþvottar eftir snertingu á dýrum og ávallt fyrir neyslu matvæla.
 • Leggja þarf áherslu á mikilvægi hreinlætis og tryggja aðgang að handþvottaaðstöðu. Sótthreinsiþurrkur eða gel er ekki nægilegt eitt og sér sem handþvottur.
 • Nauðsynlegt er að upplýsingarnar séu einfaldar og auðskiljanlegar. Skilti eru mjög góð leið til að koma skilaboðum á framfæri til allra aldurshópa.

Heilbrigði dýra

 • Rekstraraðilar skulu viðhalda góðri dýravelferð og heilsu dýra og tryggja að einungis séu til sýnis heilbrigð dýr.
 • Þar sem upp koma veikindi í dýrum þá sérstaklega ef upp koma veikindi með niðurgang og/eða hita sem bendir til að um smitsjúkdóm sé að ræða er ráðlagt að gæta ennfremur að smitvörnum fyrir gesti, þar sem einkennislausir smitberar geta verið innan dýrahóps sem geta smitað frá sér.

Starfsfólk

 • Starfsmenn sem sjá um dýrahald skulu ekki ganga í störf við matvælaframleiðslu/-reiðslu nema eftir að skipt hefur verið um hlífðarfatnað og fullnægjandi handþvott.
 • Starfsfólk skal vera þjálfað í sýkingavörnum á svæðinu og góðum handþvotti. Góð hlífðarföt, sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa, ættu að vera í boði fyrir starfsfólk á staðnum.

Umhverfi

 • Hanna skal svæði þannig að smit berist ekki auðveldlega á milli manna, dýra og umhverfis. Augljóst skal vera hvaða svæði eru opin almenningi og hvaða svæði ekki.
 • Þau svæði sem ekki eru opin almenningi skulu lokuð af með skiltum, girðingum eða glerjum/plasti og hönnunin á svæðinu skal vera þannig að hún leiði fólk á þá staði sem eru opnir öllum.
 • Dýr skulu ekki vera á leikvöllum og stöðum þar sem fólk safnast saman. Velja skal leiktæki sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Ef leiksvæði eru innandyra er gott að gestir hafi aðstöðu til að fara úr skóm. Séu sandkassar á staðnum skal sandinum skipt út reglulega og breitt yfir hann þegar hann er ekki í notkun. Dýr skulu ekki hafa aðgengi að sandkassanum.
 • Passa skal upp á viðhald á handþvottaaðstöðu. Mikilvægt er líka að fylgjast með að alltaf sé nóg af pappír til staðar og að ruslatunnur yfirfyllist ekki

Þrif

 • Almennu hreinlæti skal viðhaldið á staðnum og nauðsynlegt er að gera þrifaplan með áætlun um hvaða skal þrifið og hvernig. Í þrifaáætlun er gott að skipta staðnum niður í svæði/hluta þar sem stendur hversu oft og með hvaða aðferð hver hluti skuli þrifinn. Einnig er gott að skrifa hver ber ábyrgðina á þrifunum og merkja við þegar þrifum er lokið. Æskilegt er að fá ráðleggingar dýralæknis, eða annars sérmenntaðs fólks, við gerð þrifaplans fyrir staðinn.
 • Halda skal dýrum og þeirra vistarverum hreinum og þurrum.
 • Sterklega er mælt með lágþrýstiþvotti með miklu vatni. Forðast skal háþrýstiþvott því hann dreifir fremur skít og úðar hugsanlegum smitefnum.
 • Allt sorp skal fjarlægt á snyrtilegan og réttan máta. Huga skal að meindýravörnum á svæðinu.

Grunur um sjúkdóm

 • Rekstraraðili ber ábyrgð á að gera viðeigandi ráðstafanir við grun um sýkingu eftir heimsókn á staðinn.
 • Láta viðeigandi yfirvöld vita strax og grunur vaknar og fara eftir þeirra ráðstöfunum og ráðleggingum.
 • Hvetja skal alla þá sem tilkynna grun um sýkingu eftir heimsókn á staðinn að leita til læknis.

Gestir

 • Börn yngri en 5 ára, aldraðir, þungaðar konur og ónæmisbældir einstaklingar ættu að gæta sérstakrar varúðar, þar sem þeir eru í meiri hættu á að smitast.
 • Sá sem er með börn í sinni umsjá skal sjá til þess að þau þvoi sér um hendur meðan á heimsókninni stendur og sérstaklega áður en matar er neytt. Fylgjast skal með og hjálpa ungum börnum við að þvo sér um hendur.
 • Sé í boði að fóðra skepnur, skulu fullorðnir alltaf vera viðstaddir til að passa að börn setji ekki fóðrið upp í sig. Fylgjast skal einnig með að börn setji ekki hluti sem hafa verið í beinni snertingu við dýrin í munninn á sér.
Uppfært 04.08.2020
Getum við bætt efni síðunnar?