Fara í efni

Endurmerking matvæla

Matvæli á íslenskum markaði þurfa að vera merkt samkvæmt lögum og reglum sem gilda á Íslandi.

Íslenskar reglugerðir sem varða merkingar matvæla byggjast að mestu á reglugerðum og tilskipunum Evrópusambandsins, sem hafa verið innleiddar hér á landi. Reglugerðir um kjöt og kjötvörur og um mjólkurvörur eru þó séríslenskar. Landsákvæði eru í sumum innleiðingareglugerðum og gilda þau eingöngu hér landi. Dæmi um það eru ákvæði um tungumál og upprunamerkingar í reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda.

Ekki eru allar evrópusambandsreglugerðir, sem varða merkingar matvæla, hluti af EES – samningnum. Þær reglugerðir eru því ekki innleiddar hér á landi. Dæmi um það eru markaðsreglugerðir/vörustaðlar um ýmsar afurðir (s.s. landbúnaðarafurðir og fisk).

Í löndum utan EES svæðisins gilda mismunandi reglur um merkingar matvæla.

Það getur því þurft að endurmerkja matvörur sem fluttar eru til landsins. Eins og áður sagði þarf að fara eftir lögum og reglum sem gilda hér á landi, en benda má á nokkur mikilvæg atriði: 

  • þær upplýsingar sem skylt er að merkja á matvörur verða að vera á íslensku eða ensku eða norðurlandamáli öðru en finnsku
  • ábyrgðaraðili matvöru verður að vera á evrópska efnahagssvæðinu (EES)
  • þó matvörur frá USA séu merktar á ensku, eru ýmis atriði í bandarískum merkingarreglum ólík okkar s.s. merking aukefna, næringarmerking, næringar- og heilsufullyrðingar og geymsluþolsmerkingar.
Uppfært 06.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?