Fara í efni

Transfitusýrur

Transfitusýrur eru ein gerð harðrar fitu í matvælum en mikil neysla á þeirri gerð fitu er þekkt fyrir að auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Transfitusýrur eru ýmist í matvælunum frá náttúrunnar hendi eða vegna þess að þær hafa myndast við vinnslu/meðhöndlun. Þær koma fyrir á þrennan hátt í matvælum og myndast:

  • Þegar lin fita er hert að hluta (fljótandi fita gerð hörð)
  • Í vömb jórturdýra fyrir tilstilli baktería sem þar er að finna
  • Við háan hita í steikingarfeiti

Stærsti hlutinn verður til þegar olía er hert að hluta. Tilgangurinn með herslunni er að breyta áferð og bræðslumarki fitunnar, en auk þess eykst geymsluþolið.

Áhrif á heilsu

Rannsóknir sýna að neysla á transfitusýrum eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum mun meira en inntaka á annarri harðri fitu. Það er ekki nóg með að neysla á transfitusýrum hækki hlutfall óæskilegrar blóðfitu (LDL kólesteról) heldur lækkar hún líka magn hinnar jákvæðu blóðfitu (HDL-kólesteról). Rætt er um hvort neysla á transfitusýrum auki líkur á krabbameini og svokallaðri fullorðinssykursýki, en rannsóknir eru misvísandi og fleiri rannsókna er þörf til að skera úr um hvort neyslan hafi þessi áhrif. Ekki er vitað hvort transfitusýrur sem eru í matvörunum frá náttúrunnar hendi (kjöt, mjólkurvörur) hafi sömu áhrif á heilsu og þær sem myndast við vinnslu/meðhöndlun en engar forsendur eru fyrir að ætla annað.

Magn transfitusýra

Transfitusýrur í afurðum jórturdýra geta verið um 3-6% af heildarfitumagni. Ef ekkert er að gert þegar verið er að herða fitu eins og t.d. þegar bökunar- eða steikingarfita er búin til með því að herða olíu að hluta, þá getur hlutfall transfitusýra í afurðinni orðið allt að 60%. Ef fitan er alveg hert (harður klumpur) myndast ekki transfitusýrur. Þetta eru smjörlíkisframleiðendur farnir að nýta sér í seinni tíð. Þeir nota þá alveg herta fitu í framleiðsluna og blanda svo í hana olíum á eftir til að mýkja afurðina upp.

Hámarksgildi

Frá 1. ágúst 2011 hefur verið í gildi reglugerð sem setur bann við notkun transfitusýra í matvæli Íslandi. Hún setur hámarksgildi við 2g/100g fitu í matvælum öðrum en dýraafurðum, sem innihalda transfitu frá náttúrunnar hendi.

Merkingar 

Um merkingar á matvælum fer samkvæmt reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Samkvæmt því er hvorki skylt né leyfilegt að geta um magn transfitusýra á umbúðum matvæla.

Aftur á móti er skylt að merkja matvæli með innihaldslýsingu (með fáeinum undantekningum). Þar koma fram þau hráefni sem notuð eru við framleiðsluna og skulu þau talin upp í minnkandi magni. Með því að skoða innihaldslýsing má iðulega finna út hvort líklegt sé að varan innihaldi transfitusýrur. Gera má ráð fyrir að viðkomandi vara innihaldi transfitusýrur ef á umbúðum stendur að hún innihaldi fitu sem er hert að hluta eða hálfhert. Á erlendum tungumálum stæði partially hydrogenated oil, delvist hærdet fedt/olie, delvis härdet olje/fett eða delvis hydrogenert olje/fett. Ef eingöngu kemur fram að fitan sé hert (hydrogenated, hærdet, härdet) er ekki hægt að vita hvort hún er hert að hluta eða alveg hert og innihaldi þá ekki transfitusýrur.

Hvar eru helst transfitusýrur að finnast?

Helstu iðnaðarframleiddar matvörur sem búast má við að innihaldi transfitusýrur eru smjörlíki bæði bökunar- og borðsmjörlíki, steikingarfeiti, djúpsteiktur matur, kex, kökur, vínarbrauð, poppkorn, kartöfluflögur og annað djúpsteikt snakk og auk þess sumar tegundir af sælgæti.

Frá náttúrunnar hendi má búast við að finna transfitusýrur í litlu magni í smjöri, rjóma, ostum, feitu kjöti og afurðum gerðum úr þessum vörum.

Uppfært 15.07.2022
Getum við bætt efni síðunnar?