Fara í efni

Aukefni, bragðefni og ensím

Skylt er að merkja matvæli með lista yfir innihaldsefni, þó með ákveðnum undantekningum.  Listinn á að veita greinargóðar upplýsingar um samsetningu vörunnar. Öll innihaldsefni sem hafa tæknilegan tilgang í vöru eiga að vera tilgreind í minnkandi magni eins og þau voru notuð við framleiðslu vörunnar. Þó þarf ekki að magnraða innihaldsefnum sem eru minna en 2% af vörunni og mega þau því koma í hvaða röð sem er í lok innihaldslýsingar. 

 Aukefni

Aukefni í innihaldslista eiga að vera merkt með flokksheiti og E-númeri eða viðurkenndu heiti.

Dæmi: 

Flokksheiti, E-númer Flokksheiti, viðurkennt heiti aukefnis
Sýra (E 334) Sýra (vínsýra)
Litarefni (E 120) Litarefni (karmín)

 

Ein undantekning er á þessari reglu þ.e. að ekki er krafa að merkja sérheiti eða E-númer fyrir umbreyttar sterkjur (flokksheiti) heldur dugir þá að í innihaldslýsingu komi fram „umbreytt sterkja“.

Í lista yfir innihaldsefni matvæla  er skylt að merkja öll þau aukefni sem hafa hlutverk í vörunni sjálfri. Ekki er skylt að merkja aukefni sem eingöngu eru tilkomin í vörunni vegna þess að þau höfðu hlutverk í einu af innihaldsefnum vörunnar en hafa ekkert hlutverk í lokavöru. Það á þó ekki við um aukefni sem eru eða eru unnin úr ofnæmis og óþolsvöldum – þau þarf alltaf að merkja séu þau til staðar.  Ef aukefni er unnið úr erfðabreyttu hráefni þarf að tiltaka það.

Í leiðbeiningum um aukefni er að finna nánari upplýsingar um merkingar aukefna bæði í matvælum og merkingar aukefna sem seld eru sem slík.

Bragðefni

Bragðefni í innihaldslista matvæla skulu tilgreind:

  • með orðinu „bragðefni“ eða með sértækara heiti eða lýsingu á bragðefninu
  • með orðinu „reykbragðefni“ eða „reykbragðefni framleidd úr matvælum eða matvæla grunnefni“ (t.d. „reykbragðefni framleitt úr beyki“) ef um er að ræða reykbragðefni
  • Ef koffín eða kínín eru notuð sem bragðefni er skylt, að taka það sérstaklega fram í innihaldslýsingu hvert bragðefnið er. Dæmi: „ Bragðefni (koffín)“ eða bara „koffín“.

Ef bragðefni er unnið úr erfðabreyttu hráefni þarf að tiltaka það.

Ensím

Mjög mörg matvælaensím teljast ekki til innihaldsefna og þarf því ekki að merkja á lista yfir innihaldsefni. Það á þó aldrei við um ensím sem eiga uppruna sinn að rekja til ofnæmis- eða óþolsvalds enda skal í öllum tilfellum merkja tilvist þess.

Ensím sem ekki teljast til innihaldsefna:

  • Þau sem berast í matvæli einungis vegna þess að þau eru efnisþáttur í hráefnum þeirra og gegna engu tæknilegu hlutverki í lokaafurð (yfirfærsla)
  • Þau sem notuð eru sem tæknileg hjálparefni á einhverju stigi vinnslu

Ef ensím teljast til innihaldsefna er skylt að merkja þau í lista yfir innihaldsefni með sérheiti.  Ef ensímið er notað í tæknilegum tilgangi í lokaafurð skal merkja virkniflokkinn ásamt sérheiti ensímsins.

  • Dæmi:  Rotvarnarefni (lýsósím) 

Ef matvælaensím eru unnin úr ofnæmisvöldum þá þarf að taka það sérstaklega fram með tilvísun í ofnæmisvaldinn.  Dæmið að ofan gæti þá litið svona út:

  • Rotvarnarefni (lýsósím úr EGGJUM)

Ef matvælaensím er unnið úr erfðabreyttu hráefni þarf að merkja það.

Uppfært 02.10.2020
Getum við bætt efni síðunnar?