Fara í efni

Innflutningur vottaðra lífrænna afurða frá 3. ríkjum

Vottuð lífræn matvæli og fóður (og sáðvara) eru í frjálsu flæði á evrópska efnahagssvæðinu (EES) eins og önnur matvæli og fóður og þurfa að uppfylla allar sömu reglur og hefðbundin matvæli og fóður til viðbótar við reglur um lífræna framleiðslu.

Þegar kemur að innflutningi frá lífrænna afurða frá löndum utan EES gilda einnig reglur ESB sem hafa verið innleiddar í íslenska löggjöf. Hægt er að skoða yfirlit yfir reglur sem snúa að viðskiptum með lífrænar vörur hér. Með endurskoðun regluverks um lífræna framleiðslu voru reglur um innflutning frá 3. Ríkjum hertar og krafan um skjöl sem fylgja vottuðum lífrænum sendingum gerðar strangari. Skjölin skulu vera rafræn, með rafrænum undirskriftum (E-sign). Bæði sendandi og viðtakandi á Íslandi skulu vera með lífræna vottun og skráðir sem vottaður aðili í TRACES gagnagrunninn.

Aðgangur á uppflettingu vottorða fyrir alla rekstraraðila á EES og í 3. Ríkjum sem hafa lífræna vottun í samræmi við reglugerði ESB.

https://webgate.ec.europa.eu/tracesnt/directory/publication/organic-operator/index

Rétt er að vekja athygli á að frá BREXIT hefur Bretland nú stöðu 3. ríkis og vörur þaðan eru ekki í frjálsu flæði. Einnig eru takmarkanir á innflutningi frá 3. Ríkjum þannig að eingöngu er hægt að flytja til Íslands vörur sem eru framleiddar og fengið vottun í Bretlandi, en ekki vörur sem eiga uppruna í öður 3. Ríki og voru fluttar til Bretlands sem lífrænar fyrst, og síðan áframsendar til Íslands. Þess háttar viðskipti auka gífurlega á möguleikana á svindli og er því með öllu tekið fyrir þannig viðskipti með lífærnar vörur til EES.

Hverjir annast eftirlit með innflutningi lífrænna afurða frá utan EES? 

Evrópusambandið (ESB) gefur út lista yfir 3ju ríki og eftirlitsaðila í þeim sem starfrækja eftirlitskerfi sem talin eru jafngild kröfum ESB um lífræna framleiðslu og merkingar hennar. ESB starfrækir rafrænt innflutningseftirlit sem nefnt er TRACES NT (Trade Control and Expert System) og heldur utan um útgáfu skoðunarvottorða sem fylgja öllum vörusendingum frá löndum utan EES.

Matvælastofnun (MAST) hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerða um innflutning lífrænna afurða frá löndum utan EES til Íslands. MAST úthlutar vottunarstofu og innflytjendum aðgang að rafrænu innflutningseftirliti ESB, TRACES NT. Þá sannprófar MAST og samþykkir skoðunarvottorð sem fylgja þurfa hverri sendingu innflutnings.

Vottunarstofan Tún (Tún) annast úttekt á starfsemi innflytjenda og fyrstu viðtakenda afurða frá löndum utan EES, vottar þá og hefur reglubundið eftirlit með starfsemi þeirra.

Meginkröfur reglugerðar um innflutningi lífrænna afurða frá utan EES

Afurðir, sem fluttar eru inn frá löndum utan EES, má markaðssetja hér á landi (og þar með innan Evrópusvæðisins) með tilvísun til lífrænna aðferða, þar með talið þær sem ætlaðar eru til að hagnýta í vinnslu lífrænna afurða, að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:

  • Afurðirnar voru framleiddar með aðferðum sem eru sambærilegar (equivalent) við þær sem tilgreindar eru í reglugerð nr. 477/2017 um lífræna framleiðslu og merkingar lífrænna vara og framkvæmdareglur hennar (reglur Evrópusambandsins).
  • Framleiðsla afurðanna var undir eftirliti og vottun eftirlitsaðila (control body/control authority) í 3ja ríki, samkvæmt reglugerð nr. 481/2017, og sá eftirlitsaðili er samþykktur af ESB og er tilgreindur í viðaukum III eða IV við reglugerð ESB nr. 1235/2008, með síðari breytingum.
  • Með hverri sendingu afurðanna fylgir skoðunarvottorð (Certificate of Inspection) útgefið af eftirlitaðila eða -yfirvaldi í 3ja ríki sem staðfestir ofangreint. Innflytjandi framvísar vottorðinu til MAST til staðfestingar og varðveitir síðan í minnst tvö ár.
  • Hver sending er skráð í TRACES NT.
  • Innflytjandi (importer) og fyrsti viðtakandi (first consignee) afurðanna skulu hafa vottun faggildrar vottunarstofu til innflutnings og/eða dreifingar á afurðunum.

Afurðir sem koma til Íslands frá löndum utan EES í gegnum Evrópu eru í frjálsu flæði en þær hafa þá farið í gegnum þetta ferli í því landi sem þær komu fyrst inn á EES svæðið í gegnum.

Skref fyrir skref – Hvernig staðið skal að innflutningi

Íslenskir lögaðilar og einstaklingar sem eru innflytjendur og/eða fyrstu viðtakendur lífrænna afurða á Evrópusvæðinu frá löndum utan þess (3ju ríkjum) sækja um vottun Túns til þeirrar starfsemi. Hafi slíkir aðilar þegar vottun Túns til framleiðslu lífrænna afurða skulu þeir sækja um að bæta innflutningi og/eða dreifingu afurða frá löndum utan Evrópusvæðisins við núverandi vottun.

Innflytjandi sækir um aðgang að TRACES NT Hægt er að leita til MAST ef vandkvæði koma upp við að fá aðgang.

Innflytjandi framvísar skoðunarvottorði hverrar sendingar til MAST í gegnum TRACES NT gagnagrunninn. MAST sannprófar uppruna og vottun afurðanna, og samþykkir afhendingu vörusendingarinnar til fyrsta viðtakanda og frekari dreifingar.

Ef búta á sendingu niður í smærri einingar fyrir fyrstu afhendingu (t.d. til áframsendingar á fleiri en einn fyrsta viðtakanda eða til vinnslustöðva), skal innflytjandi auk þess útfylla útdrátt skoðunarvottorðs (extract of Certificate of Inspection) fyrir hverja einingu, byggðan á upprunalega skoðunarvottorðinu, og framvísa þeim síðan öllum til MAST til sannprófunar og samþykkis.

Við móttöku kannar fyrsti viðtakandi hvort vörusendingin sé í lokuðum umbúðum og hvort frágangur hennar og merkingar samrýmist upplýsingum í skoðunarvottorðinu. Ef svo reynist vera áritar fyrsti viðtakandi viðeigandi reit skoðunarvottorðsins, og sendir vottorðið síðan til innflytjanda sem varðveitir það í minnst tvö ár til skoðunar við eftirlit og úttektir Túns og MAST.

Aukið innflutningseftirlit á vissum lífrænum matvælum og fóðri

 Eftirlit með innflutningi á lífrænum matvælum  og fóðri frá Kazastan, Rússlandi, Úkraninu og Moldavíu. Í leiðbeiningum um aukið eftirlit með innflutningi á lífrænum matvælum frá ofangreindum löndum (á ensku) er tilgreint hvaða tollflokkar sæta auknu eftirliti. Alltaf er gerð skjalaskoðun og 100% sýnataka og rannsakað hvort fyrirfinnist óleyfileg varnarefni. Athugið að upprunalandi gefur tilefni til að matvælin koma einnig til eftirlits á landamærastöð þó að varan sé að koma frá öðru landi.

Tollflokkar sem fá aukið eftirlit eru:

  • Kafli 10 – kornvörur
  • Kafli 11 – Afurðir frá kornmölun; malt, sterkja, inúlín og hveiti glúten.
  • Kafli 12 – Olíufræ og olíurík aldin; ýmiss konar sáðkorn, fræ og aldin; plöntur til notkunar í iðnaði og til lyfja; hálmur og fóður (ásamt 12.06 - sólblómafræ), að undanskyldum unnum afurðum sem eru tilbúnar til manneldis .
  • Kafli 23 – Leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu unnið skepnufóður (þ.m.t. 23.06 - Olíukökur og aðrar fastar leifar, einnig muldar eða í kögglum, frá kjörnun jurtafeiti eða jurtaolíu, þó ekki í nr. 2304 eða 2305).

Nánari upplýsingar

Inn- og útflutningsdeild Matvælastofnunar og Vottunarstofan Tún veita nánari upplýsingar um framkvæmd og eftirlit innflutnings lífrænna afurða frá 3ju ríkjum. Sjá einnig:

Reglugerðir Evrópusambandsins sem tóku gildi í ESB 1. janúar 2022:

Eldri reglugerðir Evrópusambandins og Íslands sem féllu úr gildi við innleiðingu ofangreindra reglugerða ESB:

Uppfært 04.11.2025
Getum við bætt efni síðunnar?