Fara í efni

Umbúðir og umhverfi

Matvælum er pakkað í umbúðir til að verja þau gegn óhreinindum og mengun og til að flytja þau milli staða. Með breyttum tímum, minni fjölskyldum og breyttum neysluvenjum eykst fjölbreytileiki og magn umbúða. Þróun síðustu áratuga hefur verið sú að matvælum er æ meira pakkað í smáar einingar, jafnvel einingar sem henta einni manneskju. Gerð umbúða um matvæli hefur einnig breyst því krafan um að hægt sé að stinga matnum beint í ofn, örbylgjuofn eða pott í umbúðum hefur farið vaxandi. Val á umbúðum er því ekki einfalt mál og að mörgu þarf að hyggja: umbúðirnar verða að verja matinn á fullnægjandi hátt, ekki mega berast skaðleg efni úr þeim í matinn, útlitið þarf að vera rétt og þær þurfa að vera notendavænar, framleiðsla þeirra þarf að vera vistvæn og síðast en ekki síst þarf að huga að því hvað verður um þær þegar þær breytast í úrgang.

Þar sem ekki er hægt að vera án umbúða er stefnt að því að gera þær vistvænar og endurnýtanlegar. Alþingi setti lög í maí 1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og voru það fyrstu opinberar aðgerðir gegn mengun af völdum umbúða hér á landi. Í lögunum er kveðið á um skilagjald á einnota umbúðum um drykkjarvörur, bæði innfluttar og þær sem eru framleiddar eða átappaðar hér á landi.

Árið 1996 gaf umhverfisráðuneytið út reglugerð nr. 609/1996 um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs (og breytingu á henni árið 1999) þar sem segir að eftir 1. júlí 2001 skuli minnst 50% og mest 65% af þyngd umbúðaúrgangs vera endurnýtt. Með endurnýtingu er átt við allar aðgerðir sem gætu leitt til nýtingar, m.a. endurvinnsla,: endurframleiðsla úrgangsefna til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla en ekki orkuvinnsla."  

Hvað getum við gert?

Besta leiðin til að draga úr áhrifum umbúða á umhverfið er að draga úr notkun þeirra eins og mögulegt er. Þáttur neytenda í að draga úr umbúðamengun getur verið stór því þeir hafa mikil áhrif á hvernig matvöru er pakkað og hvers konar umbúðir eru notaðar. Það eru jú neytendur sem ákveða með innkaupum sínum hvaða vara selst. Fyrsta skref í endurnýtingu matvælaumbúða er líka hjá neytendum – þ.e. flokkun heimilissorps. Þar þurfa sveitarfélögin að koma að í ríkara mæli og gefa neytendum kost á losna við flokkað sorp á auðveldan hátt. 
 

En hvernig eiga neytendur að vita hvaða umbúðir eru endurnýtanlegar? Og hvernig eiga þeir að vita hvaða umbúðir eru vistvænar? Er t.d. betra að velja bréfpoka en plastpoka? Er vistvænna að kaupa drykki í áldós en í glerflösku? Því er helst til að svara að helstu efni sem notuð eru í umbúðir um matvæli eru pappír, pappi, plast, gler, ál og timbur og fræðilega eru öll þessi efni endurnýtanleg. Málmílát, t.d. dósir, og álpappír má t.d. endurvinna aftur og aftur án þess að málmurinn verði nokkuð verri. Og gagnstætt því sem margir halda er mest af því plasti sem notað er í umbúðir endurvinnanlegt eða hæft til brennslu án þess að af því stafi mikil mengun. 

Ekki eru til eða fyrirhugaðar neinar merkingar sem auðvelda neytendum að velja vörur í vistvænum umbúðum. Það sem þeir geta helst haft í huga er að velja vörur sem ekki eru í mörgum og augljóslega óþörfum umbúðum. Sem dæmi má nefna kaffi sem er bara í álpoka og ekki í pappaöskju líka eða hrísgrjón sem eru bara í plastpoka eða bara í kassa en ekki í hvoru tveggja. 

Með því að draga eftir föngum úr notkun umbúða má draga úr umbúðaúrgangi og með því að flokka umbúðaúrganginn má vinna mikið af honum aftur eða endurnýta á annan hátt.

Uppfært 30.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?