Fara í efni

Matvælafyrirtæki sem gefa matvæli

Ýmis konar matvælafyrirtæki s.s. heildsalar, flutningsaðilar, smásöluverslun, veitingastaðir, veislu- og veitingaþjónusta og mötuneyti geta gefið matvæli til góðgerðarsamtaka eða einstaklinga.

Ýmsar tegundir matvæla er hægt að gefa, en þau þurfa ávallt að vera örugg til neyslu og uppfylla kröfur í reglugerðum m.a. varðandi:

 • Meðhöndlun þannig að komið sé í veg fyrir mengun
 • Upplýsingagjöf um matvæli (t.d. umbúðamerkingar)
 • Rétt geymsluhitastig

Ástæður þess að umfram matvæli eru gefin geta verið eftirfarandi:

 • Matvæli uppfylla ekki gæðakröfur eða staðla kaupenda
 • Matvæli seljast ekki eða eru komin fram yfir „best fyrir“ dagsetningu eða að nálgast henni
 • Matvæli eru að nálgast dagsetningu „síðasta notkunardags“. 

Matvæli skulu þó ávallt vera örugg til neyslu.

Dæmi um matvæli sem matvælafyrirtæki gæti gefið:

 • Forpökkuð matvæli:
  • Matvæli í neytendaumbúðum sem eru með geymsluþolsmerkingu
  • Matvæli í neytendaumbúðum sem eru ekki með geymsluþolsmerkingu. (Sum matvæli er ekki skylt að merkja með upplýsingum um geymsluþol, má þar nefna ferska ávexti, ferskt grænmeti, edik, sykur og matarsalt sem dæmi [1])
 • Óforpökkuð matvæli sem matvælafyrirtækið gæti þurft að pakka inn áður en þau eru gefin:
  • Ferskir ávextir
  • Ferskt grænmeti
  • Ferskt kjöt
  • Ferskur fiskur
  • Brauðmeti
  • Umframmatur frá veitingarekstri eða mötuneyti

Mat á öryggi matvæla og neysluhæfni

Hyggist matvælafyrirtæki gefa matvæli ber því að tryggja eftirfarandi skv. skilgreindu verklagi:

 • Ekki sé komið fram yfir „síðasta notkunardag” eða matvælin hafi verið fryst fyrir „síðasta notkunardag” 
 • Umbúðir séu ekki rofnar, skemmdar eða á annan hátt breyttar þannig að innihaldið sé óvarið
 • Geymsla matvælanna hafi verið fullnægjandi og við rétt hitastig
 • Matvælin séu neysluhæf, þ.e. þau séu hvorki mygluð, skemmd eða þrá
 • Upprunalegar upplýsingar séu enn til staðar (ekki má breyta lögboðnum upplýsingum á umbúðum matvæla)

Sé niðurstaðan sú að matvælin séu hæf til neyslu skal tryggja að réttar upplýsingar fylgi matvælunum. Einnig verður að tryggja rétta meðhöndlun, s.s. rétt hitastig við geymslu og flutning.

Innra eftirlit og matvælaöryggiskerfi

Þar sem matargjafir eru hluti af starfsemi skal gera ráð fyrir þeim í innra eftirliti (matvælaöryggiskerfi) fyrirtækisins.

Skilgreina þarf verklag um hvernig haft sé eftirlit með því að matvælin sem á að gefa séu örugg. Verklagið skal ná yfir eftirtalda þætti:

 • Geymsluþolsmerkingar
  • Matvæli merkt með „best fyrir”
  • Matvæli merkt með „síðasti notkunardagur”
 • Að umbúðir séu heilar (órofnar), þar sem við á
 • Að bragð, lykt, litur og útlit sé ásættanlegt
 • Aðstæður við geymslu og flutning þar með taldar kröfur til hitastigs séu fullnægjandi
 • Dagsetningu frystingar ef við á [1]

[1] Viðauki II. Þáttur IV. liður 2.b. í (EB) 853/2004 (ísl. Nr. 104/2010)

Geymsluþol og frysting matvæla

Framleiðendur matvæla eru ábyrgir fyrir mati á geymsluþoli matvæla og geymsluþolsmerkingu og skal matið vera byggt á áhættumati. Nánari upplýsingar um geymsluþol matvæla má sjá í leiðbeiningar um merkingu á geymsluþoli matvæla.

Fyrirtæki geta gefið matvæli þó svo að komið sé fram yfir „best fyrir” dagsetningu ef matvælin eru metin í lagi. Kælivörur sem merktar eru með „best fyrir“ er einnig hægt að frysta til að lengja geymsluþol þeirra ef matvælin henta til frystingar.

Matvæli sem eru merkt með „síðasta notkunardegi“ má hvorki selja né gefa eftir að sá dagur er liðinn. Matvælafyrirtæki sem gefa matvæli geta fryst ákveðnar tegundir af matvælum áður en „síðasti notkunardagur“ rennur upp að því gefnu að matvælin henti til frystingar, þau líti eðlilega út og að fyrir liggi mat á því að hvort kælikeðjan hafi verið haldin. Frysting þarf að eiga sér stað a.m.k. tveim sólarhringum áður en „síðasta notkunardagur“ rennur út. Dæmi um matvæli sem hægt er að frysta eru:

 • Ferskt kjöt
 • Hakkað kjöt og hamborgarar
 • Kryddlegið kjöt
 • Kjötálegg

Dæmi um matvæli sem henta ekki til frystingar:

 • Reyktur og grafinn fiskur, s.s. lax
 • Samlokur og majonessalöt

Ekki má frysta matvæli sem skv. merkingum hafa verið fryst áður. Frysting þarf að eiga sér stað við a.m.k. -18 °C og án óþarfa tafa. Frystar þurfa að vera nógu öflugir til að tryggja hraða frystingu. Endurmeta þarf líftíma vörunnar og mælt er með að hann sé ekki lengri en einn mánuður. Fyrirtækið skal skilgreina verklag um frystingu matvæla sem merkt eru með „síðasta notkunardegi“ eða „best fyrir“.

Eftirfarandi upplýsingar þarf að veita um fryst matvæli sem áður voru í dreifingu sem kælivara:

 • Upplýsingar um að varan hafi verið í dreifingu sem kælivara fyrir frystingu
 • Dagsetningu frystingar skal ávallt merkja á vöruna sjálfa á eftirfarandi hátt: „Fryst dags” skal koma fram á undan dagsetningu. Dagsetning skal samanstanda af deginum, mánuðinum og árinu, í þeirri röð og ekki kóðað. Upphaflegar geymsluþols dagsetningar verða að vera sýnilegar, sem og aðrar lögbundnar upplýsingar
 • Leiðbeiningar um nýtingu vörunnar innan ákveðinna tímamarka. Mælt er með að varan sé nýtt innan mánaðar og merkt þannig
 • Leiðbeiningar um að þíða skuli matvælin upp í kæli og að þau skuli elda strax að lokinni uppþíðingu
 • Leiðbeiningar um að ekki megi frysta vöruna aftur

Upplýsingarnar þurfa að koma fram á áföstum merkimiða eða í fylgiskjölum þar sem við á, séu matvælin afhent til góðgerðarsamtaka sem bjóða upp á máltíðir.

Skilavörur

Hér er átt við matvæli sem er skilað til dreifingaraðila, heildsala eða framleiðenda frá smásöluverslun, veitingastað eða mötuneyti. Fyrirtæki sem taka á móti matvælum sem er skilað skulu sjá til þess að þau séu geymd við réttar aðstæður og ekki dreift áfram eða gefin fyrr en staðfest hefur verið að þau séu örugg og hæf til neyslu. Verklag sem skýrir þetta ferli innan starfsstöðvarinnar skal vera til staðar. Matvælum sem er skilað frá neytendum má ekki endurúthluta þar sem matvælin hafa verið utan matvælakeðju matvælafyrirtækja sem bera ábyrgð á öryggi matvælanna. Matvælafyrirtæki sem tekur á móti skilavöru frá neytendum getur ekki ábyrgst að matvælin hafi verið meðhöndluð á réttan hátt, s.s. að þau hafi verið geymd við rétt hitastig.

Rekjanleiki

Tryggja þarf rekjanleika matvæla þannig að hægt sé að tilgreina frá hvaða matvælafyrirtæki matvælin komu, einnig skal matvælafyrirtæki, sem gefur matvæli, geta tilgreint hver tekur við þeim.

Tilgangurinn er að geta stöðvað dreifingu matvæla, taka þau af markaði og innkalla ef upp kemur grunur um hættu.

Fyrir matvæli sem ekki eru fullmerkt í neytendaumbúðum og gefin eru, skal gæta þess að eftirfarandi upplýsingar séu á ytri umbúðum matvæla:

 • Vöruheiti
 • Geymsluþol (á vörum sem skylt er að merkja með geymsluþoli)
 • Geymsluskilyrði fyrir kæli- og frystivörur
 • Ábyrgðaraðili (sá sem framleiðir eða dreifir vörunni)
 • Auðkennismerki þar sem við á (matvæli úr dýraríkinu)

Aðrar upplýsingar mega vera á fylgiskjölum, t.d. listi yfir innihaldsefni.

Ítarefni

Vakin er athygli á grunnkröfum sem varða matargjafir í kafla 5.

Breyting var gerð á reglugerð 852/2004, viðauka II. V kafla a bætt við sem fjallar um endurúthlutun matvæla. Breytingin er sett var fram í reglugerð (EB) 2021/382 sem var innleidd hérlendis með reglugerð 1368/2021.

[1] Viðauki X liður 1.d í reglugerð (EB) 1169/2011 ( ísl. Nr. 1294/2014)

[2] Viðauki II. Þáttur IV. liður 2.b. í (EB) 853/2004 (ísl. Nr. 104/2010)

Uppfært 18.03.2024
Getum við bætt efni síðunnar?