Smitsjúkdómar í sauðfé og geitum
Sauðfjárriða
Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur. Á Íslandi hefur riðuveiki eingöngu greinst í sauðfé, en víða í Evrópu finnst sjúkdómurinn ekki síður í geitum. Sjúkdómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Flestar kindur sem sýna einkenni eru 1½-5 ára. Dæmi eru þó um riðueinkenni í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, nefnt Príon eða PrP sem hefur breytt lögun og við það orðið sjúklegt og fádæma lífseigt, þolir langa suðu og flest sótthreinsiefni nema helst klór. Heilbrigt príon myndast í flestum vefjum dýra og er bundið við yfirborð fruma í líkamanum. Riðupríónið (PrPSc), sem komist hefur í líkama kindar kemur af stað keðjuverkun, þannig að prótein þess sem sýkist komast einnig á umbreytt og sýkjandi form og svo koll af kolli. Þannig fjölgar smitefninu með vaxandi hraða, fyrst í eitlavef, svo í heila og mænu og skemmdirnar þar framkalla einkennin. Kindur geta gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram. Oftast er þó kindin veik í mánuði áður en hún deyr, sjaldan þó lengur en eitt ár. Veikin leiðir kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. Smitefnið virðist lifa í umhverfinu í meira en áratug og getur komið upp á sama bæ oftar en einu sinni. Eftirlit með uppkomu riðu er framkvæmt með sýnatökum, bæði úr heila og í sumum tilfellum eitlum, úr kindum sem drepast eða eru felldar heima á bæjum og úr ákveðnum fjölda sláturdýra.
Sambærilegur sjúkdómur er þekktur í öðrum dýrategundum, m.a. nautgripum (BSE) og hreindýrum (CWD), en hefur aldrei greinst hér á landi.
Eftirlit með mögulegri uppkomu kúariðu (e. Bovine Spongiform Encephalopathy) fer fram með sýnatöku úr dýrum sem drepast eða eru felld heima á bæjum og einnig úr ákveðnum hluta sláturgripa.
Hjartarriða (e. Chronic Wasting Disease) er útbreidd í Norður-Ameríku en var fyrst greind í villtu hreindýri í Noregi vorið 2016 og þar með í fyrsta skipti í Evrópu. Í kjölfar þessara frétta voru tekin riðusýni úr hreindýrum hér á landi sem reyndust öll neikvæð. Áfram er þó haldið með sýnatökur úr hreindýrum hér á landi. Tekin eru sýni bæði úr hluta þeirra dýra sem skotin eru á veiðitímabilinu og einnig úr þeim dýrum sem finnast dauð.
- Kynning á riðu
- 4 vetra kind með riðu: myndband 1, myndband 2, myndband 3
- 2 vetra kind með riðu: myndband 1, myndband 2
- Listi yfir staðfest riðutilfelli síðustu 20 ára
- Upplýsingar um riðutilfelli í landupplýsingakerfi Matvælastofnunar
- Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu (júlí 2024)
Mismunandi arfgerðir
Þekkt er að næmi sauðfjár fyrir riðusmiti er breytilegt út frá svokallaðri PrP arfgerð príongena. Höfuð arfgerðirnar eru ARQ, VRQ, AHQ og ARR. ARQ er svokölluð „villiarfgerð“ eða hlutlaus arfgerð og er hún algengust, en hinar arfgerðirnar hafa allar orðið til við stökkbreytingu á ARQ arfgerðinni.
VRQ er tengd við mikið næmi fyrir hefðbundinni riðuveiki á alþjóðavísu og er hérlendis t.d. bannað að flytja líflömb með VRQ arfgerð inn á riðusvæði, hvort sem þau eru arfhrein eða arfblendin. AHQ er með lítið næmi og ARR er verndandi gagnvart smiti. Aukabreytileikar príongensins sem mögulega eru verndandi gegn riðusmiti eru til rannsóknar, en það eru T137, N138 og C151.
Mjög lítið virðist vera til á landinu af ARR arfgerð, en hún fannst fyrst í byrjun árs 2022 í 6 kindum á einum bæ á Austurlandi. Umfangsmikil leit að þessari genasamsætu var í gangi veturinn 2021-2022 og heldur sú leit áfram. En út frá þessum 6 kindum, 1 hrúti og 5 ám, er hafin ræktun á ARR-arfgerðinni á landsvísu með aðstoð búfjárerfðafræðinga.
Stór Evrópurannsókn með aðkomu íslenskra vísindamanna er í gangi þar sem unnið er að margvíslegum rannsóknum á riðu á Íslandi. Verið er t.d að rannsaka þá riðustofna sem greinst hafa í niðurskurðarsýnum, jafnframt er verið að rannsaka smitnæmi mismunandi arfgerða úr íslenskum sýnum gagnvart þeim riðustofnum sem til eru á landinu. Þessar rannsóknir eru enn sem komið er á fyrsta stigi, þ.e. verið er að framkvæma rannsóknirnar á frumurækt í rannsóknarstofu. Næsta stig sem ætti að geta hafist fljótlega er að framkvæma þessar sömu rannsóknir á stökkbreyttum músum. Skv. nýjustu upplýsingum er áætlað að þær rannsóknir taki 5 ár. Þriðja stigið er síðan að rannsaka smitnæmi á lifandi kindum af mismunandi arfgerðum. Það er einnig verið að gera umhverfisrann-sóknir og rannsóknir á áhrifum sótthreinsunar eins og hún er framkvæmd á niðurskurðarbæjum og margt fleira.
Á undanförnum árum hefur verið vöktun á arfgerðum príongensins í kindum sem greinast með riðu og meðal niðurstaðna sem fengist hafa úr þeirri vöktun er að lítið næma arfgerðin AHQ hefur greinst tvisvar sinnum í arfblendnu formi í jákvæðum sýnum, aukabreytileikinn T137 hefur aldrei greinst í jákvæðum sýnum, C151 hefur greinst í einni kind sem jafnframt var VRQ en N138 hefur greinst nokkrum sinnum í jákvæðum sýnum. Lengi framan af var algengast að riðusmit greindist í kindum sem voru með VRQ arfgerð eins og algengast er í Evrópu en nýjar niðurstöður benda til þess að þetta sé jafnvel að breytast. Í niðurskurðum síðari ára (fyrst 2020) hefur meirihluti jákvæðra kinda verið af arfgerðinni ARQ/ARQ sem getgátur eru uppi um að bendi til þess að einstakir íslenskir riðustofnar séu búnir að sérhæfa sig í að sýkja ARQ arfgerðina. Engu að síður er næmni VRQ fyrir riðusmiti það þekkt bæði hérlendis og erlendis að leggja ætti áherslu á að útrýma þeirri arfgerð.
Athyglisvert er að að samkvæmt stóru Evrópurannsókninni eru vísbendingar um að séu aukabreytileikar til staðar með ARQ þá virðist það minnka næmni arfgerðarinnar fyrir riðusmiti.
Flokkun |
Arfgerð |
Lýsing |
Verndandi arfgerð |
ARR/ARR; ARR/ARQ; ARR/AHQ |
Erfðafræðilega mest verndandi. |
Lítið næm arfgerð/mögulega verndandi |
AHQ/AHQ; AHQ/ARQ, T137/x, C151/x (ef x er ekki VRQ) |
Álitin lítið næm fyrir smiti.
|
Mögulega næm/næm
|
ARQ/ARQ |
Algengasta arfgerðin í íslensku fé. |
Áhættuarfgerð |
ARQ/VRQ; AHQ/VRQ; VRQ/VRQ |
Erfðafræðilega mikið næmi fyrir smiti. |
Óhefðbundin gerð af riðu
Óhefðbundið afbrigði af riðu, Nor98, var fyrst uppgötvað í Noregi árið 1998. Þessi tegund riðu er ekki smitandi heldur kemur til án utanaðkomandi áhrifa, einna helst í eldra fé. Kindur með NOR98 eru oftast með lítil eða engin einkenni og uppgötvast aðeins við rannsókn á sýnum sem tekin eru eftir að kindin er aflífuð. Nor98 leggst fremur á kindur sem eru með verndandi arfgerð gegn klassískri riðu. Ekki þarf að tilkynna NOR98 tilfelli til Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar.
Nor98 fannst í fyrsta skipti hér á landi árið 2004 í Biskupstungum. Þá voru viðbrögðin þau sömu og við hefðbundinni riðu, þ.e. förgun á allri hjörðinni. Í dag er það hins vegar viðurkennt á alþjóðavísu að Nor98 smitast ekki á milli kinda þannig viðbrögð við staðfestingu Nor98 tilviks eru að auka eftirlit með bænum og taka sýni úr öllum fullorðnum kindum sem lógað er eða slátrað í 5 ár á eftir.
Einkenni riðuveiki
Þegar kind hefur smitast af riðuveiki geta liðið nokkrir mánuðir til 5 ár þar til hún fer að sýna einkenni. Því getur einstaklingur virkað heilbrigður en er í raun smitberi. Hversu hratt dýrið fer að sýna einkenni ræðst af ýmsu eins og t.d. arfgerð kindarinnar, aldri við smit og ásigkomulagi. Oft koma einkennin frekar fram þegar dýrið verður fyrir streitu, eins og t.d. við smölun. Einkennin eru viðvarandi í nokkrar vikur eða mánuði þar til dýrið deyr.
Þegar fjárhópur er skoðaður með tilliti til riðu, skal minnast þess að einkenni sjást sjaldan á yngri kindum en veturgömlum, en koma oft fyrst fram í fullorðnu fé, þar sem veikin er að byrja. Oft er greint á milli mismunandi einkenna á riðu:
- Kláðariða: Kindurnar klóra sér á haus, síðum, drundi og víðar. Kláði sést þó ekki í öllum tilfellum, en flest riðusmitað fé svarar þó klóri í bak.
- Taugaveiklunarriða: Kindurnar verða óttaslegnar, óöruggar með sig, hrökkva við, titra, skjálfa og gnísta tönnum.
- Lömunarriða: Kindurnar liggja mikið, bera fætur hátt, slettast til í gangi.
Riðuveikar kindur vanþrífast oftast nær. Fyrstu einkennin geta verið mismunandi. Þau eru breytileg frá degi til dags, meira áberandi suma daga en aðra. Langt getur verið í að einkenni verði stöðug. Því getur þurft að skoða kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að vera viss. Einnig skortir á að öll einkenni riðuveiki komi fram í einni og sömu kindinni. Fyrstu einkennin eru mjög breytileg milli tilvika, einnig milli kinda í sömu hjörð. Allt þetta villir fyrir og getur tafið rétta greiningu veikinnar. Mikilvægt er að fjáreigendur og allir þeir sem vinna með sauðfé, eins og t.d. rúnings- og fósturtalningarmenn, séu meðvitaðir um einkenni riðunnar. Við grun um riðu skal án tafar hafa samband við viðkomandi héraðsdýralækni hjá Matvælastofnun.
Smitleiðir
Algengasta smitleið riðu í sauðfé er í gegnum munn, með því að skepnurnar éti, drekki eða sleikji smitefnið í sig. En getur einnig orðið um sár. Smithættan er mest við húsvist á sauðburði þar sem mikið magn af smitefninu finnst í hildum og fósturvatni, allt að 10-þúsundfalt miðað við aðra líkamsvessa.
Smitefnið, príonprótínið, er afar lífseigt. Það þolir t.d. hita og kulda, langa suðu, geislun og flest sótthreinsiefni, nema helst klór. Smiteiginleikar príonprótínsins varðveitast betur neðanjarðar, því frost, hiti og geislar sólar brjóta prótínið smátt og smátt niður. Smit á órofnu beitilandi eru sjaldgæf, en á beitilandi þar sem eru brynningarstampar og ílát, klórustaurar, tóftir, skjól, burstar eða annað slíkt er smithættan mun meiri og þá tengd þessum munum (furniture).
Smit getur borist á milli bæja með kindum, lifandi og dauðum, skít, áhöldum eins og rúningsklippum og sprautunálum, landbúnaðar-tækjum og heyi. Einnig getur það borist með fólki ef það fer milli fjárhúsa án þess að skipta um hlífðarfatnað eða skóbúnað. Einkum á þetta við á sauðburði þar sem smitmagnið í umhverfinu er mest.
Þar sem orsakavaldur riðunnar er ekki hefðbundið smitefni (vírus eða baktería) þá veldur riðan engu ónæmissvari í líkama kindarinnar og því er ekki mögulegt að þróa bóluefni eins og staðan er í dag.
Rannsóknir hafa farið fram erlendis við að greina riðu í lifandi dýrum áður en einkenni koma fram. Þá eru tekin sýni úr eitlavef (hálskirtlar, þriðja augnlok, slímhimna úr endaþarmi), blóði eða jafnvel ull og kannað hvort príonprótínið sé til staðar. Þessar aðferðir er enn ekki orðmar viðurkenndar þar sem aðferðirnar eru ekki taldar 100% öruggar (of mikið af fölskum neikvæðum niðurstöðum). Þessar aðferðir eru í þróun og mest nýttar í rannsóknarskyni. Staðfesting á riðu fæst því eingöngu með rannsókn á heilasýnum eftir aflífun.
Aðgerðir
Sögulegt yfirlit
Riðuveiki er álitin hafa borist til landsins með innfluttum hrút árið 1878 að Veðramóti í Skagafirði. Breiddist veikin út þaðan, fyrstu árin mjög hægt, en síðan með sívaxandi hraða. Var svo komið árið 1978 að líkur voru taldar á því að veikin myndi breiðast út um allt land á fáum árum. Riða var þekkt á 104 bæjum og fannst í næstum 700 kindum árlega. Það var því að duga eða drepast. Aðgerðir til að stöðva útbreiðslu veikinnar hófust 1978. Þær virtust skila árangri strax, en ekki nægum. Árið 1986 var hert á aðgerðum og ákveðið að reyna útrýmingu með öllum ráðum. Þær reglur hafa gilt síðan.
Baráttan frá árinu 1986 til dagsins í dag
Reglurnar hafa verið þannig allt frá 1986 að þegar riðuveiki finnst á nýjum bæ er samið við eiganda, öllu fénu fargað strax og þinglýst fjárleysi á jörðinni. Farga skal hverri kind sem látin hefur verið til annarra bæja frá sýkta bænum, líka öllum kindum frá öðrum bæjum sem hýstar hafa verið á riðubænum yfir nótt eða lengur. Allt þar til núverandi reglugerð nr 651/2001 tók gildi var það reglan að þar sem riða hafði náð að búa um sig og smitleið var ókunn var farið í að farga fé á snertibæjum og jafnvel öllu fé á heilum svæðum. Í dag er skorið niður á þeim bæ sem veikin greinist ásamt því sem þær kindur sem látnar hafa verið til annarra bæja frá sýkta bænum er fargað einnig.
Við sérhvern riðuniðurskurð metur héraðsdýralæknir hvað hægt er að hreinsa, hvað verður að fjarlægja og áætlar jarðvegsskipti við hús. Hús, tæki og tól eru háþrýstiþvegin og sótthreinsuð með klóri. Hreinsun er tekin út af starfsmönnum Matvælastofnunar áður en yfirborði er lokað, timbri með fúavarnarefni, steini og járni með sterkri málningu. Notað er mauraeitur tvisvar sinnum vegna heymauranna. Heyjum frá riðutíma er eytt. Jarðvegsskipti fara fram, síðan er sand- eða malborið (malbikað). Að tveimur árum liðnum er nýr fjárstofn tekinn frá ósýktu svæði.
Bannað var í upphafi aðgerða 1978 að nota sláturúrgang og sjálfdauð dýr frá riðusvæðum til fóðurgerðar og innflutningur á slíku fóðri óheimill. Þetta var 10 árum fyrr en í Englandi og hefur mögulega orðið til þess, að Ísland slapp við kúariðu.
Þegar aðgerðir hófust voru 25 varnarhólf af 38 sýkt. Í dag teljast 8 varnarhólf af 25 til sýktra svæða. Riða hefur komið aftur í nýjan fjárstofn á um 12% bæjanna, á suma oftar en einu sinni.
Nýjar leiðir í baráttunni við riðu
Árið 2022 fundust fyrstu kindurnar með ARR-arfgerð á Íslandi, verndandi arfgerð sem notuð er annars staðar í baráttunni við riðu. Sérstakt verkefni var í gangi þar sem stefnt var að því að arfgerðagreina 22.000 kindur með styrk sem hlotist hafði til að niðurgreiða arfgerðagreiningarnar. 6 kindur fundust með ARR arfgerðina á einum bæ og hefur Matvælstofnun stuðlað að breytingum á riðureglugerðinni með það að augnamiði að gera það mögulegt að nýta þessa arfgerð í baráttunni við riðu. Arfgerðagreining eru nú orðin viðurkennd leið í þessari baráttu og er unnið að því að arfgerðagreina séfellt stærra hlutfall af íslenska fjárstofninum. Á sama tíma er Evrópurannsókn í gangi þar sem verið er að rannsaka íslenska riðustofna, aukabreytileika á príongeni íslenskra kinda og mögulega verndandi áhrif þeirra gagnvart riðu, smitnæmi íslenskra arfgerða gegn íslenskum riðustofnum og margt fleira.
Er hægt að uppræta riðuveiki?
Mikill árangur hefur náðst í baráttunni við riðuveiki en betur má ef duga skal. Ástæður þess að baráttan er erfið eru nokkrar:
- smitefnið er lífseigt í umhverfinu
- meðgöngutími sjúkdómsins er langur
- greiningaraðferðin er ónákvæm að því leyti að hún nær fyrst og fremst til tilfella þar sem sýkingin er komin í heila (low sensitivity- high specificity), að loknum löngum meðgöngutíma
- greining á lifandi dýrum er ónákvæm, of mikið af fölskum neikvæðum svörum
- sýni er enn sem komið er eingöngu hægt að taka úr dauðum dýrum til að fá trygga niðurstöðu og því er ekki hægt að skima fyrir sjúkdómnum
- þar sem smitefnið er prótein, en hvorki baktería né veira myndar líkaminn ekki mótefnasvar og því er ekki hægt að þróa bóluefni gegn sjúkdómnum
- lengi vel fannst verndandi arfgerð gegn riðu, ARR ekki á Íslandi. Nú þegar þessi arfgerð hefur fundist í mjög lágu hlutfalli mun taka tíma að rækta hana inn í stofninn og ná svo háu hlutfalli að vernd náist
- aukabreytileikar príongensins, sem eru mögulega verndandi gegn riðu eru ekki fullrannsakaðir
Með breyttum áherslum riðusýnasöfnunar þar sem áhersla er lögð á að ná í sýni úr kindum sem drepast eða er slátrað vegna sjúkdóma eða slysa, aukast líkur á að greina riðutilvik fyrr en ella. Til þess að ná þessum sýnum þarf samvinnu sauðfjárbænda sem byggir á því að þeir láti vita þegar kindur drepast utan sláturhúsa eða það þarf að aflífa þær vegna veikinda eða slysa.
Meðvitund og skilningur á smitleiðum eru lykilatriðið við útrýmingu á riðuveiki. Nýjar leiðir í baráttunni með tilkomu verndandi og mögulega verndandi arfgerða breyta því ekki.
Aðal breytingin með nýtingu verndandi arfgerða er að áfram er unnið að upprætingu riðuveiki sem slíkrar, en það er gert auðveldara að lifa með riðusmitefninu í umhverfinu.
Fólk smitast ekki af riðu í sauðfé svo vitað sé
Engar vísbendingar eru um að fólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né neyslu afurða þess, svo sem kjöts, innmatar og mjólkur. Þannig að hvorki neytendur né fólk sem starfar á sauðfjárbúum eða í sláturhúsum eru í hættu vegna riðuveiki í sauðfé.
Garnaveiki
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í umhverfinu mánuðum saman. Bakterían er mjög harðger, þolir t.d. mörg sótthreinsiefni. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Meðgöngutími í kúm er 2 ½ ár eða lengri.
- Listi yfir staðfest garnaveikitilfelli síðustu 10 ára
- Upplýsingar um garnaveikitilfelli í landupplýsingakerfi Matvælastofnunar
Einkenni garnaveiki
Einkenni garnaveiki eru hægfara vanþrif, skituköst og deyfð þrátt fyrir sæmilega átlyst. Best er að fylgjast með þrifum (vigta) til að finna smitbera. Þar sem veikin kemur upp í óbólusettu fé getur verið margt um ,,heilbrigða” smitbera. Það eru kindur sem hafa tekið smit en sýna ekki einkenni enn. Þessir einstaklinga eru þó að dreifa smitefni í miklu magni í umhverfi sitt. Garnaveiki er ólæknandi og dregur sýkt dýr óhjákvæmilega til dauða. Það getur hins vegar tekið langan tíma, oftast mánuði, eftir að fyrstu einkenni koma fram. Skilyrðislaust ætti að taka sýni úr öllum gripum sem lógað er vegna sjúkdóma eða vanþrifa, eða drepast af óþekktum orsökum.
Smitdreifing
Smitdreifing milli bæja verður fyrst og fremst við flutning á sýktum gripum frá garnaveikismitaðri hjörð. Einnig getur smit borist milli bæja með óhreinum skófatnaði. Ekki er hægt að útiloka smitdreifingu með heyi og/eða samnýtingu landbúnaðartækja. Nagdýr og vissar fuglategundir geta hýst bakteríuna og verið smitberar án þess að sýna sjúkdómseinkenni.
Innan hjarðar verður smitdreifing frá fullorðnum dýrum og frá umhverfinu yfir í ungviði, einkum á húsi með saurmengun í drykkjarvatni og jötum, síður úti í haga nema smitmagn í umhverfinu sé þeim mun meira.
Næmi gagnvart smiti minnkar með aldrinum. Fóstur og ungdýr upp að fjögurra mánaða aldri eru móttækilegust. Eldri dýr smitast síður þó svo að þau geti sýkst ef smitálagið er mikið.
Greining
Greining sjúkdómsins í einstökum dýrum er miklum vandkvæðum bundin vegna þess að sjúkdómurinn þróast mismunandi í hverjum einstaklingi og svörun greiningarprófa er háð því á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Ekkert greiningarpróf í lifandi dýrum gefur hundrað prósent tryggingu fyrir því að einstaklingur sé ekki smitaður þrátt fyrir að útkoman sé neikvæð.
Á vissu stigi sjúkdómsins má finna bakteríuna í saurnum. Þó í mjög litlum mæli í upphafi sýkingar og síðar meir er útskilnaður mjög sveiflukenndur. Bakterían sést þá í smásjá eftir sérstaka sýklalitun á slími úr saur eða slímhúð. Það afbrigði sýkilsins sem veldur sjúkdómnum hér á landi hefur reynst óræktanlegt í rannsóknarstofu. Blóðpróf, sem mæla mótefni gegn sýklunum er önnur greiningaraðferð. Prófið er ónákvæmt, hentar betur sem hjarðpróf en einstaklingspróf. Blóðpróf er ónothæft á bólusett fé nema til að kanna bólusetningarárangur. Það greinir ekki á milli mótefna, sem myndast við bólusetningu og mótefna frá sýkingu með bakteríunni.
Eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum skoða mjógörnina við langann og garnaeitlana í fullorðnum kindum og nautgripum. Sjái þeir einhverjar breytingar senda þeir sýni til Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum til nánari rannsóknar.
Bólusetning gegn garnaveiki
Bólusetja skal öll ásetningslömb og kið á garnaveikisvæðum eins snemma hausts og mögulegt er og skal bólusetningu lokið fyrir 31.12. ár hvert. Óheimilt er að hafa óbólusett lömb/kið með eldra fé í sömu fjárhúskró eða í þröngum beitarhólfum að hausti.
Bólusetja skal undir húð, milli skinns og hörunds, aftast og efst í snögga blettinn innan við hægri olnboga.
Kýlapest
Svokölluð kýlapest í sauðfé orsakast af bakteríunni Corynebacterium pseudotuberculosis og nefnist á ensku „caseous lymphadenitis“.
Einnig hefur það verið nefnt kýlapest, hér á landi, þegar bakterian Actinobacillus lignieresii, sem þekkt er sem orsakavaldur að „wooden tounge“ í nautgripum og öðrum jórturdýrum, myndar kýli í vefjum á höfði, hálsi, útlimum og í einstaka tilfellum innri líffærum. Bakterían er hluti af normalflóru á slímhimnu efri hluta meltingarvegar og veldur sjúkdómi þegar hún kemst að aðliggjandi vefjum vegna stungusára/áverka. Hún veldur þá staðbundnum sýkingum og getur breiðst út með sogæðakerfinu til annarra vefja.
„Caseous lymhadenitis“ eða eiginleg kýlapest er krónískur smitsjúkdómur (bakteríusjúkdómur) sem einkennist af kýlum í jaðareitlum og/eða innri eitlum og líffærum. Í kýlunum er einkennandi graftrarkennt efni sem er mjög þykkt og lyktarlaust. Kýlapestin eins og við þekkjum hana lýsir sér með einum eða fleiri graftrarkýlum í eða nálægt þreifanlegum eitlum – ytra form, en sýking í innri eitlum eða líffærum lýsir sér yfirleitt sem þyngdartap og vanþrif – innra form. Staðfesting sýkingar fer fram við ræktun á bakteríunni C. pseudotuberculosis úr graftrarkýlum. Auðvelt er að taka sýni með strokpinna og rannsókn er ekki kostnaðarsöm.
Besta leiðin til að losna við sjúkdóminn er með því að fjarlægja sjúk dýr úr hjörðinni og aflífa þau. Þar sem það gengur ekki er nauðsynlegt að einangra sjúk dýr og meðhöndla þau með viðeigandi sýklalyfjum þar til kýli eru gengin niður eða sár eftir sprunginn kýli eru orðin þurr. Kýlapest viðhelst á bæjum/svæðum með mengun umhverfis frá opnum kýlum, eða með hósta- og nefrennslissmiti frá dýrum með innra form sjúkdómsins. C. pseudotuberculosis getur lifað í umhverfi í allt að 8 mánuði.
Kýlapest finnst um heim allan, en er mis algeng eftir löndum/svæðum. Bæði ytra og innra form kýlapestar finnst hjá sauðfé og geitum, en ytra formið er algengara í geitum á meðan innra formið er algengara í sauðfé. Þótt hún sé algengust hjá sauðfé og geitum finnst hún einnig sporadiskt hjá öðrum dýrategundum og mönnum. Mikilvægt er að gæta vel að sóttvörnum við meðhöndlun sjúkra gripa, þar sem um mögulega súnu er að ræða, þ.e.a.s. að bakterían getur sýkt bæði dýr og menn.
Slefsýki í lömbum
Slefsýki er sjúkdómur í meltingarfærum lamba á fyrstu lífdögum þeirra, sem orsakast af smiti með E. coli bakteríum. Sjúkdómurinn er algengari á sauðfjárbúum þar sem þéttleiki er mikill á sauðburði og þar af leiðandi aukið smitálag. Allt að þriðjungur lamba getur veikst og dánartíðni hjá þeim sem veikjast er mjög há. Sjúkdómurinn kemur fyrst og fremst til vegna þess að lömbin fá ekki nógu snemma broddmjólk og/eða ekki í nægilegu magni. Þess vegna er sjúkdómurinn algengari í lömbum undan gemlingum, í tví- og þrílembingum og í lömbum undan þunnum eða annars lélegum ám sem mjólka lítið. Einnig hefur komið fram sú kenning að ær skili mismunandi magni af mótefni gegn kólí-sýkingum í móðurmjólkinni og getur það haft áhrif á hvaða lömb fá sjúkdóminn. Þetta gæti opnað á þann möguleika að ræktunarstarf gagnist í baráttunni gegn slefsýki í lömbum. Yfirleitt veikjast lömbin á fyrstu 12 til 72 klukkustundum lífs síns. Meðhöndlun er vandmeðfarin því framvinda sjúkdómsins er hröð, þess vegna eru fyrirbyggjandi aðgerðir mikilvægar.
Lömbin smitast þegar þau sjúga óhreina spena og eru haldin á óhreinum undirburði og þannig berast gram neikvæðar bakteríur í gegnum munn, þ.á.m. E. coli. Við skort á mótefnum í meltingarfærum, sem lömb fá í ríkum mæli í gegnum broddmjólk, geta bakteríurnar lifað af og fjölgað sér mjög hratt í meltingarfærunum. Bakteríurnar losa eiturefni, svokölluð inneitur (e. endotoxin), sem berast út í blóðið og valda þá dæmigerðum einkennum slefsýki.
Einkenni slefsýki eru að lömbin verða slöpp, köld, dauf, hengja haus og eyru lafa. Þau hætta að sjúga og kyngja, og slefa þess vegna áberandi. Veik lömb eru oft uppþembd og kviðmikil sem getur gefið falska vísbendingu um að þau séu södd, en þegar þau eru tekin upp og hrist varlega heyrist dæmigert hljóð úr gas- og vökvafylltri vinstur. Sum eru með niðurgang, önnur með eðlilegan saur eða hafa engar hægðir vegna þess að meltingarfærin eru hætt að starfa. Lömbin deyja venjulega innan sólahrings eftir að einkenni koma fram.
Sjúkdómsgreining byggist oftast á einkennum, sögu um sjúkdóminn á búinu og einkennum sem koma í ljós við krufningu, svo sem bólgur í meltingarfærum, vökva og þembu í vinstur og aðrar breytingar tengdar eiturefnum í blóði. Mismunagreiningar (aðrir sjúkdómar með svipuð einkenni) geta verið liðabólgur, naflabólgur, svelti (fara ekki á spena) og aðrar sýkingar í meltingarfærum.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Mikilvægast er að tryggja að lömbin fái nægjanlegan brodd eins snemma og hægt er, sem er almenn forvörn gegn sýkingum í nýfæddum lömbum. Þau þurfa að fá brodd innan tveggja klukkustunda eftir burð. Broddur inniheldur nauðsynleg mótefni gegn bakteríum á sérhverju búi fyrir sig. Bætiefni sem gjarnan eru gefin nýfæddum lömbum hafa ekki sömu ónæmisverndandi áhrif og broddur og koma því aldrei í staðinn fyrir hann. Lömbum þarf að líða vel því þannig drekka þau betur, því ætti ekki að marka lömb á fyrsta sólahringi. Einn liður í því að fyrirbyggja smit er að tryggja að spenar ánna séu hreinir þegar lömbin fara á spena. Óhreina spena er hægt að þvo t.d. með því að nota einnota þvottaklúta.
Aðstæður eru mjög ólíkar á búum, þess vegna er mikilvægt að ráðfæra sig við dýralækni búsins um fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru viðeigandi hverju sinni. Burðarstíur, ærnar sjálfar og öll tæki og tól þurfa að vera eins hrein og hægt er til að koma í veg fyrir að sjúkdómsvaldandi bakteríur berist í nýfædd lömb. Á markaði eru til sótthreinsandi efni til notkunar í gripahúsum, ýmist til að leysa upp í vatni (t.d. Virkon) eða sem notuð eru beint á duftformi (t.d. Staldren eða kalk).
Lélegur húsakostur, þrengsli og raki auka smitálag og því skal tryggja gott rými og góða loftræstingu í fjárhúsum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem veðurfar getur haft mikið að segja. Raki getur aukist í húsum þegar veður er ekki hagstætt með mikilli vætutíð eða stórviðri og erfiðara er að setja féð út. Þegar mjög heitt er í veðri getur það haft þau áhrif að smitálag aukist til muna. Mikilvægt er að rýmka á húsum jafnóðum, ef árferði leyfir, til að draga úr þrengslum og smitálagi sem af þeim leiðir. Halda skal undirlagi þurru og hreinu og reglulega skal skipt um undirburð. Handþvottur er mikilvægur og skal handþvottaaðstaða vera til staðar, helst með heitu vatni og hreinu handklæði/einnota þurrkum.
Ekki eru til bóluefni sérstaklega gegn E. coli sjúkdómum í sauðfé. Vorið 2022 munu nokkrir dýralæknar kanna virkni kólí-bóluefna, sem ætluð eru fyrir svín, í sauðfé.
Meðhöndlun
Nauðsynlegt er að meðhöndla veik lömb sem allra fyrst, en batahorfur minnka um leið og einkenni eins og slef koma fram. Hafa skal samband við dýralækni búsins þegar sjúkdómsins verður vart til að fá ráðleggingar og leiðbeiningar um meðhöndlun. Eins og kom fram hér að ofan þá er einungis leyfilegt að nýfæddum lömbum séu gefin sýklalyf eftir að slefsýki hefur komið upp í hópnum það vorið, þ.e. verndarmeðferð.
Um sýklalyfjaónæmi
Vaxandi ónæmi baktería gegn sýklalyfjum er áhyggjuefni og varðar alla. Mesta hætta á myndun sýklalyfjaónæmis er með óábyrgri notkun sýklalyfja, of mikilli eða rangri notkun. Takmarka þarf notkun þeirra eins og kostur er, því öll notkun sýklalyfja getur valdið sýklalyfjaónæmi. Mikilvægt er að koma í veg fyrir ofnotkun eða ranga notkun sýklalyfja, bæði í mönnum og dýrum, því bakteríur með ónæmi gegn sýklalyfjum geta borist milli manna, dýra og umhverfis. Reglugerð Evrópusambandsins um dýralyf, nr. 2019/6/EB, hefur verið innleidd með íslenskum dýralyfjalögum frá og með 15.febrúar 2022. Í þessum lögum er fyrirbyggjandi sýklalyfjanotkun í búfé bönnuð. Í undantekningartilfellum er leyfð svokölluð verndarmeðferð sýklalyfja þegar upp hefur komið hópsýking, sjá nánar um verndarmeðferð hér að neðan.
Sýklalyfjanotkun í sauðfjárbúskap
Í dag háttar svo til að einstök dýr eru verðlítil í almennum sauðfjárbúskap, því er oft ekki hagstætt fyrir sauðfjárbónda að greiða fyrir dýrar rannsóknir eða meðhöndlun dýralæknis ef upp koma sjúkdómar. Samkvæmt löggjöf er dýralæknum óheimilt að ávísa eða afhenda lyf nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu auk þess sem þeir verða sjálfir að hefja meðhöndlun með sýklalyfjum, en er svo heimilt að afhenda sýklalyf til framhaldsmeðhöndlunar. Á þessu er undantekning, dýralæknar geta fengið sérstaka undanþágu hjá yfirdýralækni, þannig að þeim verði heimilt að afhenda sýklalyf án þess að hefja meðhöndlunina. Yfirdýralæknir gefur eingöngu undanþáguna með því skilyrði að dýralæknirinn og viðkomandi bóndi geri með sér sérstakan samning, í þeim samningi er m.a. kveðið á um að viðkomandi bóndi skuli hafa samráð við dýralækninn áður en hann hefur meðhöndlun með sýklalyfjum. Ábyrgðin hvílir því áfram á dýralækninum um ábyrga notkun sýklalyfja, hann leggur því allt sitt traust á að viðkomandi bóndi haldi við hann samninginn og sé í góðu sambandi við hann um notkun.
Mikilvægt er að dýralæknar ávísi og/eða afhendi eins þröngvirk sýklalyf og kostur er. Einungis ætti að grípa til breiðvirkari sýklalyfja ef þröngvirk sýklalyf virka ekki og þá aðeins að undangenginni mælingu á næmi sýklanna nema þess sé ekki kostur. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um meðhöndlunartíma og skammtastærð, en auknar líkur eru á myndun sýklalyfjaónæmis í bakteríum ef of litlir skammtar eru gefnir í of stuttan tíma.
Ábyrg og markviss notkun sýklalyfja felur í sér að nota þau eingöngu í sjúk dýr og þá til að lækna. Í einstaka tilfellum gefur dýralæknir sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingar, t.d. eftir skurðaðgerðir. Sýklalyf eru stöku sinnum gefin heilum hópi dýra þegar einstök dýr innan hópsins hafa greinst með smitandi sjúkdóm og mikil hætta er á að önnur dýr geti smitast. Slík notkun kallast á ensku „metaphylactic use“, á íslensku verndarmeðferð.
Á undanförnum árum hefur verið mikið um að sýklalyf séu notuð fyrirbyggjandi gegn slefsýki í öll nýfædd lömb á mörgum búum ár hvert, með því að gefa svokallaðar „lambatöflur“. Með nýjum reglum er slík fyrirbyggjandi meðhöndlun bönnuð. Þess í stað ætti að einbeita sér að aðgerðum sem minnka líkur á að smit berist í nýfædd lömb og aðeins gefa þeim sýklalyf eftir að sjúkdómsgreining liggur fyrir í hópnum það vorið. Þessu eru gerð nánari skil hér að neðan. Fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja felur í sér hættu á auknu sýklalyfjaónæmi eins og að ofan er rakið, því ofnotkun og röng notkun á sýklalyfjum eykur líkur á myndun ónæmis hjá bakteríum. Aðeins næst að draga úr útbreiddri notkun lambataflna í nýfædd lömb hér á landi með sameiginlegu átaki dýralækna og sauðfjárbænda. Stefna ætti að því að nota sýklalyf sem minnst og eingöngu þegar nauðsynlegt er eftir að sjúkdómurinn er kominn upp, og þegar fyrirbyggjandi aðgerðir hafa ekki borið árangur. Þess vegna er hér að ofan sérstaklega fjallað um slefsýki í lömbum og meðhöndlun sjúkdómsins, með sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja að smit berist í nýfædd lömb.
Ítarefni
Leiðbeiningar um ábyrga notkun sýklalyfja við slefsýki í lömbum - MAST 2022
Orf (sláturbóla)
Sláturhússtarfsmenn geta átt það á hættu að þurfa að leita sér lækninga vegna veirusýkingar sem kallast sláturbóla. Sláturbóla er í raun smit frá sauðfé og því svokölluð súna (Zoonosis). Orsakavaldurinn er Orfveiran sem er ein af Parapoxveirunum, meðgöngutíminn er 3-7 dagar.
Sláturbóla er ekki það sama og slátureitrun, en margir þekkja slátureitrunina, ígerð í sárum sem fólk hefur fengið við sláturgerð. Orsökin er yfirleitt gerlagróðurinn sem er eðlilegur hluti af vambarflórunni, en getur orðið sársaukafullur skaðvaldur í mannfingrum.
Fólk sem handfjatlar sauðfé, td. á sauðburði, rúningsmenn og starfsmenn í sláturhúsi getur smitast af fénu, veiran sest í smásár. Engin hætta er hins vegar á að smitast af kjöti eða öðrum sauðfjárafurðum.
Sjúkdómurinn lýsir sér yfirleitt í upphafi sem lítill rauður eða blár harður nabbi. Hann verður síðan að vökvafylltri blöðru, oft með skorpu. Vægur hiti fylgir stundum, sömuleiðis bólgnir eitlar. Yfirleitt læknast fólk sjálft á 3-6 vikum, en ef bólga er mikil eða bakteríusýking kemst í blöðruna er ástæða til að leita læknis.
Besta vörnin er að nota hanska, mikilvægt er að hylja sár.
Í sauðfé kallast sjúkdómurinn Orf eða kindabóla (hornabóla, sláturbóla), á ensku scabby mouth eða soremouth, sömuleiðis Contagious Ecthyma. Orðið orf mun vera komið úr fornsaxnesku, er jafnvel af sama stofni og „hrufa“ eða „hrýfi“.
Orf eða kindabóla mun vera útbreiddur sjúkdómur í sauðfé hér á landi. Bændur taka oft eftir því á haustin að lömb sem komin eru inn á gjöf fá einskonar frunsur eða hrúður (hrýfi) kring um munninn, það er staðfesting þess að smit sé í hjörðinni. Yfirleitt berst smitið beint milli dýra, en veiran getur einnig lifað mörg ár í þurru hrúðri. Veiran finnur sér leið gegn um smásár á hárlitlum svæðum, t.d. í kringum munn og í klaufhvarfi. Orfsýking sést líka oft á júgrum á ám, sérstaklega ef lömbin ganga það nærri þeim að þær særist við spena. Eymsli geta leitt til þess að ærnar hleypa lömbunum ekki undir sig, þær geldast og oft fá þær júgurbólgu.
Orfsýking í lömbum á haustbeit getur valdið miklu tjóni. Orfhrúður kring um munn getur dregið verulega úr átgetu, en mesti skaðinn verður ef orfhrúður í klaufhvarfi særist, yfirleitt þegar lömbin ganga á sendnu eða grófu landi. Í sárin geta komið bakteríusýkingar með tilheyrandi eitlastækkunum, stundum grefur jafnvel í eitlunum. Þetta dregur að sjálfsögðu úr þroska lambanna.
Eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum fylgjast grannt með eitlastækkunum af þessum toga og oft þarf að skera úr eða jafnvel henda skrokkum.
Dýr sem gengið hafa gegn um sýkingu eru flest ónæm í 2-3 ár. Tjón af völdum orf er yfirleitt mest fyrstu árin, en reynslan hérlendis er víðast sú að ákveðið jafnvægi verði í hjörðinni þegar frá líður. Erlendis hefur bólusetning verið reynd, en bóluefnið er lifandi og því mjög hættulegt í meðförum.
Helsta ráðið er að fylgjast vel með hjörðinni og grípa strax inn ef Orfhrúðrin sýkjast af bakteríum. Við veirusýkingunni sjálfri er fátt að gera, helst er að pensla sár á júgrum með joðlausn. Mýkjandi og græðandi smyrsl lina óþægindi dýrsins.