Fara í efni

Plast

Plast er stór flokkur efna sem eiga það sameiginlegt að vera fjölliður (risasameindir) af náttúrulegum eða tilbúnum efnum sem geta gegnt hlutverki aðalbyggingarefnis fullunnins efnis eða hlutar. Aukefnum (t.d. mýkingarefni eða litarefni) eða öðrum efnum  er oft blandað í plast. Þar sem fjölliðukeðjur plasts geta hreyfst innbyrðis í efninu geta smáar sameindir flætt úr plastinu.

Plastreglugerð

Reglugerð EB nr. 10/2011, s.k. plastreglugerð,  fjallar um efni og hluti úr plasti, sem er ætlað að komast í snertingu við matvæli.  Þessi reglugerð var innileidd á Íslandi með reglugerð 374/2012.

Plastreglugerðin er dæmi um sértækar reglur sem grunnreglugerð um efni sem snerta matvæli (EB 1935/2004) mælir fyrir um að hægt sé að setja.

Plastreglugerðin gildir um framleiðslu og markaðssetningu plastefna og –hluta sem eru:

  • eingöngu úr plasti,
  • hluti af marglaga efnum sem haldið er saman með lími eða á annan hátt,
  • áprentaðir og/eða hjúpaðir með húðunarefni,
  • plastlög eða plasthúðir sem mynda þéttingar í hettum og lokunarbúnaði,
  • plastlög í marglaga fjölefnum og -hlutum (t.d efni úr pappír og plasti eða ál og plasti)

Plastefni  og -hlutir þurfa, auk plastreglugerðar, að uppfylla almennu reglugerðina (EB 1935/2004) og reglugerð um góða framleiðsluhætti (EB 2023/2006).

Kröfur um samsetningu plastefna og -hluta

Megininntak plastreglugerðarinnar er að við framleiðslu efna og hluta úr plasti má einungis nota þau efni sem eru á lista yfir leyfð efni. Listi þessi er birtur í I. viðauka við plastreglugerðina.

Hins vegar eru undanþágur frá þessari meginreglu. T.d. er  leyfilegt er að nota önnur efni en þau sem eru á lista sem hjálparefni við fjölliðuframleiðslu sem og að nota má litarefni og leysa við framleiðsluna, sem ekki eru á lista.  

Þá má, með ákveðnum takmörkunum þó (sjá 8.-12. gr. reglugerðarinnar), nota tiltekin sölt af sýrum, fenólum og alkahólum sem þegar eru á lista yfir leyfileg efni sem og ákveðnar stórsameindir (1000 Da mólþyngd eða meira) án þess að þær séu á lista.

Marglaga efni - virkir tálmar

Í marglaga efni eða hluti úr plasti eða úr mörgum efnum (fjölefni) má nota efni í plastlög sem ekki eru á lista yfir leyfileg efni að því gefnu að þau séu aðskilin frá matvælunum með virkum tálma (e. functional barrier).  Þó má aldrei nota efni sem eru flokkuð sem „stökkbreytandi“, „krabbameinsvaldandi“ eða „sem hafa eituráhrif á æxlun“ í samræmi við tilteknar viðmiðanir.

Efni á nanóformi (jafnvel nanóform af leyfðum efnum) má einungis nota með sérstakri heimild hvort sem um ræðir marglaga efni eða annað.

Flæði efna úr plasti í matvæli

Sértæk flæðimörk

Innihaldsefni efna og hluta úr plasti mega ekki berast í matvæli í meira magni en sem sértæk flæðimörk segja fyrir um.  

Sértæk flæðimörk einstakra efna eru sett fram í I. viðauka og eru gefin upp sem mg efnis á kg matvæla (mg/kg).  Ekki eru sett sértæk flæðimörk fyrir öll efni og þá gilda flæðimörk sem eru 60 mg/kg.

Aukefni með tvíþætt notagildi:

Aukefni í plasti sem einnig eru leyfð sem matvælaaukefni eða sem matvælabragðefni skulu ekki flæða yfir í matvæli í svo miklu magni að það hafi tæknileg áhrif í fullunnu matvælunum. Þau skulu ekki fara yfir takmarkanir um magn í matvælum sem leyfilegt er að nota þau í eða yfir takmarkanir sem tilgreindar eru í viðauka I við plastreglugerðina í matvælum sem ekki er heimilt að nota þau í sem matvælaaukefni eða bragðefni.

Heildarflæðimörk

Innihaldsefni efna og hluta úr plasti mega ekki flæða í matvæli (matvælahermi) í meira heildar magni en sem nemur 10 mg af efnum af hverjum ferdesímetra yfirborðs sem er í snertingu við matvæli (mg/dm2). Strangari skilyrði (60 mg/kg) eru sett fyrir efni og hluti úr plasti sem ætlaðir eru til að komast í snertingu fyrir matvæli ætluð ungbörnum og smábörnum.

Samræmisyfirlýsing 

Á öllum sölustigum öðrum en smásölustigi skal vera fyrir hendi skrifleg yfirlýsing (e. declaration of compliance, DoC) um að tiltekið matvælasnertiefni eða -hlutur úr plasti, vörur á millistigum framleiðsluferilsins og efni sem ætluð eru til framleiðslu á þessum efnum og hlutum uppfylli skilyrði gildandi reglugerða.  

Þetta þýðir að rekstaraðili (framleiðandi eða dreifingaraðili) þarf að gefa út og hafa tiltæka slíka yfirlýsingu um samræmi og afhenda með vöru þegar hún er afhent/seld og að matvælafyrirtæki sem sem notar plastefnið eða -hlutinn á að hafa slíka yfirlýsingu tiltæka.

Í IV. viðauka við plastreglugerðina er útlistað nákvæmlega hvaða upplýsingar samræmisyfirlýsing á að innihalda.

Ítarefni

Uppfært 19.03.2020
Getum við bætt efni síðunnar?