Fara í efni

Umbúðir sem mega snerta matvæli

Efni og hlutir sem snerta matvæli mynda fjölbreytt og nokkuð flókið svið. Mörg  mismunandi efni eru notuð s.s. plast, pappír, málmar, viður, lökk, lím, prentlitir og fleira.  Efnin sem notuð eru eru ýmist notuð ein og sér eða með öðrum t.d. í marglaga umbúðum s.s. dæmigerðri mjólkurfernu sem samsett er úr plasti, pappír, álfilmu, lími og prentlitum. Enn fremur eru mörg mismunandi efni notuð við framleiðsluna s.s. einliður og aukefni (t.d. mýkingarefni í plast), litarefni og leysar.

Efni og hlutir í snertingu við matvæli geta valdið mengun í matvælunum þar sem flest matvæli komast venjulega í snertingu við umbúðir, framleiðslubúnað, áhöld og fleira.

Öll efni og  hlutir sem eru í snertingu við matvæli eða er ætlað að komast í snertingu við matvæli þurfa að uppfylla löggjöf sem á að koma í veg fyrir að efni berist úr þeim í matvæli sem geta haft skaðlegum áhrif á heilsu, valdið breytingum á samsetningu matvæla eða haft áhrif á bragð og lykt. 

Mikilvægt er að umbúðir matæla, og önnur efni sem komast í snertingu við matvæli, séu notuð á þann hátt sem ætlast er til. Bæði neytendur og fyrirtæki eiga að fylgja leiðbeiningum til að koma í veg fyrir að óæskileg efni berist í matvæli. Sem dæmi má nefna að umbúðir undir ís eru ekki ætlaðar til að geyma heit matvæli og ruslapokar eru ekki ætlaðir til að komast í snertingu við matvæli.

Merkingar

Efni og hluti sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli á að merkja með:

  • Textanum "fyrir matvæli"; eða..
  • Glas og gaffal merki;                         
  • Leiðbeiningum um rétta notkun;
  • Vöruheiti sem gefur til kynna notkunarsvið t.d. "matvælapokar" eða "bökunarpappír".

Ef umbúðir eru nú þegar í snertingu við matvæli (þ.e. pökkuð matvæli) er ekki krafist sérstakrar merkingar. Ef varan er augljóslega eðli sínu samkvæmt ætluð fyrir matvæli, er ekki skylt að merkja hana á þennan hátt, t.d. kaffivél, diskar, pönnur og gaffall eða ef nafn vörunnar er nestispokar eða bökunarpappír.

Notkunarleiðbeiningar skulu fylgja þegar það er nauðsynlegt fyrir rétta meðhöndlun vörunnar.

Í þeim tilvikum þegar merkinga er krafist, skulu þær vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli öðru en finnsku.

Plast

Plast er eitt af þeim efnum sem er mest notað í snertingu við matvæli. Ýmis efni og hlutir sem notaðir eru við matreiðslu og matvælavinnslu ásamt umbúðum eru úr plasti.

Plast er fjölbreyttur flokkur efna sem eiga það sameiginlegt að vera fjölliður (risasameindir) af náttúrulegum eða tilbúnum efnum sem notuð eru í efni eða hluti sem komast í snertingu við matvæli. Aukefnum (t.d. mýkingarefnum eða litarefnum) eða öðrum efnum  er oft blandað í plast. Þar sem fjölliðukeðjur plasts geta hreyfst innbyrðis í efninu geta smáar sameindir flætt úr plastinu. Öll efni og  hlutir sem eru í snertingu við matvæli eða er ætlað að komast í snertingu við matvæli þurfa að uppfylla þá löggjöf sem um þau gilda. Plast er það efni sem ítarlegastar reglur gilda um.

Ál

Ál er mikið notað í umbúðir og áhöld sem ætlað er að snerta matvæli vegna margra ákjósanlegra eiginleika, sem dæmi má nefna áldósir fyrir drykki og niðursuðudósir. Álpappír er notaður við eldamennsku og geymslu matvæla heima fyrir og í stóreldhúsum. Ál er auk þess notað í umbúðir undir matvæli. Kostir áls eru þeir að það er auðvelt í mótun, létt og ógegndræpt fyrir vökvum og lofttegundum. Ókostir þess eru að það er viðkvæmt fyrir hnjaski og getur tærst í súru umhverfi.

Ál í matvælum

Ál getur verið til staðar í matvælum af náttúrulegum ástæðum. Plöntur geta tekið upp ál úr jarðvegi og vatni. Óunnin matvæli geta innihaldið allt að 0,1 –til 20 mg/kg af áli. Ál getur einnig borist yfir í matvæli úr eldhúsáhöldum og/eða umbúðum eins og álpappír og álílátum.

Ílát og áhöld úr áli

Forðast ætti að nota ílát úr áli eða álpappír fyrir súr matvæli, svo sem sítrónur, ber, rabbarbara og ávaxtagrauta eða súrsuð matvæli þar sem sýra getur leyst upp ál. Framleiðendur íláta og áhalda úr áli eiga að merkja sérstaklega ef um óhúðað ál er að ræða eða hafa leiðbeiningar um til hvers varan er ætluð.

Leirhlutir

Leirhlutur (keramik) er hlutur sem fæst þegar blanda af kísil og leir er hert í eldi. Í blöndunni geta einnig verið lífræn efni í litlu magni. Leirhluti má glerhúða, smelta og skreyta. 

Glerungurinn á leirhlutum getur innihaldið blý og kadmíum og er því eitt megin markmið reglugerðarinnar að kveða á um flæðimörk og leyfilegt hámarksmagn þessara þungmálma í vörunum. Reglurnar eiga almennt séð einnig við um flæðimörk og leyfileg hámarksgildi af blý og kadmíum frá postulíni, steinleir, kristal og gleri. Í viðauka við reglugerðina er lýst aðferð til að mæla flæði blýs og kadmíum úr vörunni í matvæli.

Vísbendingar eru um að leirhlutir sem eru ríkulega litskreyttir gefi frá sér mikið magn af blýi, kadmíum og öðrum þungmálmum. Aldrei skal því nota leirvörur undir matvæli og drykki nema fullvíst sé að þeim sé ætlað að snerta matvæli. Sérstaklega skal varast að nota leirhluti undir súr matvæli og drykki s.s. ávaxtagrauta, ávaxtasafa og vín.

Sellulósi

Sellulósafilma, stundum kalla sellófan,  er þynna úr efni sem fengin er úr hreinsuðum sellulósa úr viði eða baðmull. Til þess að fullnægja tæknilegum kröfum má bæta efnum annað hvort í efnismassann eða á yfirborðið. Heimilt er að húða sellulósafilmu á annarri eða báðum hliðum.
 

Þau efnasambönd sem nota má í sellulósafilmur eru á jákvæðum listum sem fylgja reglugerðinni og er því eitt megin markmið reglugerðarinnar að setja reglur um skilyrði fyrir notkun tiltekinna efnasambanda í vörunum. 

Filmur úr sellulósa geta verið efnisþáttur í samsettum vörum. Áprentað yfirborð filmu úr sellulósa má ekki vera í snertingu við matvæli.

Virkar og sérhæfðar umbúðir

Virkar umbúðir

Virkar umbúðir stjórna eða bregðast við breytingum sem eiga sér stað inni í umbúðum matvæla eða í umhverfi þeirra. Meginmarkmið virkra umbúða er að viðhalda gæðum og lengja geymsluþol matvæla. Reynt er að skapa kjöraðstæður inn í umbúðunum fyrir matvælin. Lagt er upp úr að viðtakandi vörunnar fái ávalt örugg matvæli af bestu gæðum. 

Sérhæfðar umbúðir

Í sérhæfðum umbúðum á að vera hægt að sjá hvernig ástand matvælanna er inni í umbúðunum. Þetta er gert með því að hafa mæla eða nema inni í/eða á umbúðum sem sýna hitastig, örveruskemmdir eða ástand umbúðanna sjálfra, ytri högg og fleira. Upplýsingarnar geta gefið vísbendingu um gæði vörunnar. 

Varasöm efni í lakki niðursuðudósa

Á síðustu árum hefur því oft verið varpað fram að frjósemi í hinum vestræna heimi fari minnkandi og hin ýmsu efni nefnd til sögunnar sem hugsanleg ástæða. Eitt af þeim er Bisfenól A (BPA) sem notað er í ákveðna tegund af lakki sem algengt er að nota í niðursuðudósir.

Einnig hefur efnið  BADGE (bisfenól-a-diglycidyleter), sem kann að finnast í dósamat, hugsanlega verið talið krabbameinsvaldandi. Eins og nafnið gefur til kynna er það m.a. myndað úr Bisfenól A.

Lökk sem notuð eru í niðursuðudósir eru þannig úr garði gerð að þau eru harðgerð, enda þurfa þau að þola háan hita, langan geymslutíma í snertingu við matvæli og fjölbreytilegt sýrustig án þess að brotna niður og/eða berast í dósamatinn. Þrátt fyrir góð vinnubrögð við lökkun dósa hefur það komið í ljós að leifar af BPA geta stundum borist í matvæli og því hafa verið sett mörk fyrir leyfilegt hámarksmagn þess í matvælum.

Það er rétt að undirstrika það að grunur manna um hugsanlegt flæði efna eins og bisfenól-A eða BADGE úr dósum í matvæli á einkum við fiturík matvæli við ákveðnar aðstæður. Þetta á því ekki við um dósamat almennt eða drykki í áldósum.

Á síðustu árum hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á BPA. Hvað eituráhrif varðar er eingöngu um dýrarannsóknir að ræða og umdeilt að hve miklu leyti og hvernig hægt er að yfirfæra niðurstöður þeirra yfir á mannfólkið. Talið er að BPA geti haft svipuð áhrif og hormónið estrógen og geti þannig virkað á hormónakerfi líkamans. Niðurstöður dýrarannsókna hafa í sumum tilvikum sýnt fram á áhrif efnisins á frjósemi tilraunadýra.

Það er samdóma álit flestra sérfræðinga að sum efni geti í miklu magni haft áhrif á hormónastarfsemi mannslíkamans en ekki hefur tekist að sýna fram á þessi tengsl svo óyggjandi sé þegar um lágan styrk efnanna er að ræða. Efni eins og BPA er í afar lágum styrk í niðursuðudósum.

Umbúðir og umhverfi

Matvælum er pakkað í umbúðir til að verja þau gegn óhreinindum og mengun og til að flytja þau milli staða. Með breyttum tímum, minni fjölskyldum og breyttum neysluvenjum eykst fjölbreytileiki og magn umbúða. Þróun síðustu áratuga hefur verið sú að matvælum er æ meira pakkað í smáar einingar, jafnvel einingar sem henta einni manneskju. Gerð umbúða um matvæli hefur einnig breyst því krafan um að hægt sé að stinga matnum beint í ofn, örbylgjuofn eða pott í umbúðum hefur farið vaxandi. Val á umbúðum er því ekki einfalt mál og að mörgu þarf að hyggja: umbúðirnar verða að verja matinn á fullnægjandi hátt, ekki mega berast skaðleg efni úr þeim í matinn, útlitið þarf að vera rétt og þær þurfa að vera notendavænar, framleiðsla þeirra þarf að vera vistvæn og síðast en ekki síst þarf að huga að því hvað verður um þær þegar þær breytast í úrgang.

Þar sem ekki er hægt að vera án umbúða er stefnt að því að gera þær vistvænar og endurnýtanlegar. Alþingi setti lög í maí 1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og voru það fyrstu opinberar aðgerðir gegn mengun af völdum umbúða hér á landi. Í lögunum er kveðið á um skilagjald á einnota umbúðum um drykkjarvörur, bæði innfluttar og þær sem eru framleiddar eða átappaðar hér á landi.
 

Árið 1996 gaf umhverfisráðuneytið út reglugerð nr. 609/1996 um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs (og breytingu á henni árið 1999) þar sem segir að eftir 1. júlí 2001 skuli minnst 50% og mest 65% af þyngd umbúðaúrgangs vera endurnýtt. Með endurnýtingu er átt við allar aðgerðir sem gætu leitt til nýtingar, m.a. endurvinnsla,: endurframleiðsla úrgangsefna til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla en ekki orkuvinnsla".

Hvað getum við gert?

Besta leiðin til að draga úr áhrifum umbúða á umhverfið er að draga úr notkun þeirra eins og mögulegt er. Þáttur neytenda í að draga úr umbúðamengun getur verið stór því þeir hafa mikil áhrif á hvernig matvöru er pakkað og hvers konar umbúðir eru notaðar. Það eru jú neytendur sem ákveða með innkaupum sínum hvaða vara selst. Fyrsta skref í endurnýtingu matvælaumbúða er líka hjá neytendum – þ.e. flokkun heimilissorps. Þar þurfa sveitarfélögin að koma að í ríkara mæli og gefa neytendum kost á losna við flokkað sorp á auðveldan hátt.
  

En hvernig eiga neytendur að vita hvaða umbúðir eru endurnýtanlegar? Og hvernig eiga þeir að vita hvaða umbúðir eru vistvænar? Er t.d. betra að velja bréfpoka en plastpoka? Er vistvænna að kaupa drykki í áldós en í glerflösku? Því er helst til að svara að helstu efni sem notuð eru í umbúðir um matvæli eru pappír, pappi, plast, gler, ál og timbur og fræðilega eru öll þessi efni endurnýtanleg. Málmílát, t.d. dósir, og álpappír má t.d. endurvinna aftur og aftur án þess að málmurinn verði nokkuð verri. Og gagnstætt því sem margir halda er mest af því plasti sem notað er í umbúðir endurvinnanlegt eða hæft til brennslu án þess að af því stafi mikil mengun.

Það sem neytendur ættu helst að hafa í huga er að velja vörur sem ekki eru í mörgum og augljóslega óþörfum umbúðum. Sem dæmi má nefna kaffi sem er bara í álpoka og ekki í pappaöskju líka eða hrísgrjón sem eru bara í plastpoka eða bara í kassa en ekki í hvoru tveggja.
 

Með því að draga eftir föngum úr notkun umbúða má draga úr umbúðaúrgangi og með því að flokka umbúðaúrganginn má vinna mikið af honum aftur eða endurnýta á annan hátt.

Uppfært 27.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?