Fara í efni

Innflutningur á notuðum stangveiðibúnaði

Vegna landfræðilegrar legu finnast fáir sjúkdómsvaldar í íslenskum laxveiðiám. Alvarlegir smitsjúkdómar, þ.á.m. algengir veirusjúkdómar og sníkjudýrið Gyrodactylus salaris (blóðagða) hafa aldrei greinst í ferskvatnsfiski á Íslandi. Sérlega mikilvægt er að standa vörð um þessa stöðu og frá árinu 1971 hafa strangar smitvarnir gilt um innfluttan stangveiðibúnað sem notaður hefur verið erlendis.

Skylt er að sótthreinsa innfluttan notaðan stangveiðibúnað sem nýta á við veiðar í ferskvatni, þ.e. stangir, veiðihjól, öngla, spóna, flugur, vöðlur og háfa.

Sótthreinsun - hvar og hvenær?

 • Æskilegt er að sótthreinsun fari fram fyrir innflutning og þá skal framvísa vottorði þar að lútandi fyrir notkun. Slík sótthreinsun skal vottuð af dýralækni (vottorðseyðublað).
 • Sé þess ekki kostur er boðið upp á sótthreinsiþjónustu á Keflavíkurflugvelli.
 • Auk þess geta dýralæknar á Íslandi, veiðifélög og umráðamenn veiðistaða framkvæmt sótthreinsun.
 • Vefur Landssambands veiðifélaga.

Samkvæmt áhættumati Matvælastofnunar er eftirfarandi búnaður undanþeginn sótthreinsun

 • Kajakar og aðrir léttabátar
 • Kafarabúningar, bæði blaut- og þurrbúningar
 • Veiðibúnaður sem notaður hefur verið á Grænlandi
 • Allur varningur sem án vafa er nýr og ónotaður

Notaður veiðibúnaður sendur með pósti

Sé notaður veiðibúnaður sendur með pósti er æskilegt að honum fylgi sótthreinsivottorð frá útflutningslandi. Sendingin verður þó ekki stöðvuð heldur afhent með álímdri tilkynningu um að skylt sé að sótthreinsa búnaðinn fyrir notkun. 

Sótthreinsun veiðibúnaðar

Leiðbeiningar um sótthreinsun
Lágmarks útbúnaður til sótthreinsunar samanstendur af stampi eða rennu til ídýfingar, úðabrúsa og skolvaski. Þá er einnig gott að hafa plastpoka og límband við höndina.

Þau sótthreinsefni sem eru viðurkennd í þessu sambandi eru m.a. VIRKON-S. og 70-85% alkóhól. Efnin eru mjög virk gegn þeim smitefnum sem við eigum í baráttu við, skemma hvorki áhöld né fatnað ef rétt er að staðið og eru óskaðleg húð í þeim styrkleika sem ráðlagður er.
 
Notkun er með eftirfarandi hætti:
 
 • Alkóhól: 70-85% lausn (sótthreinsispritt).
 • VIRKON-S 1% lausn (10 grömm (2 töflur) leyst upp í lítra af vatni). Lausnin er rauðleit en verður með tímanum glær þegar virkni dvínar.
 • Meta þarf í hvert sinn þörfina fyrir sótthreinsun. Nýjan og ónotaðan búnað þarf ekki að sótthreinsa en ef óhreinindi eða raki er áberandi ber að hreinsa slíkan varning vandlega.
 • Best er að úða vökvanum gaumgæfilega yfir þá fleti sem skal sótthreinsa. Ef um veiðistöng er að ræða er nóg að úða bara skaftið. 
 • Veiðihjól og önglabox má úða í heild sinni og skola síðan vel í rennandi vatni eftir a.m.k. 10 mín. snertitíma. (Ath! Flugubox innihalda oft nýjar ónotaðar flugur sem eru þar með undanþegnar sótthreinsun). 
 • Háfar, hnífar, rotarar, veiðivesti, veiðiskór og vöðlur skal einnig úða vel (jafnvel dýfa í sótthreinsirennu/stamp). Best að setja þennan búnað svo beint í plastpoka og hnýta fyrir.

Lög og reglur

Ákvæði um sótthreinsun notaðs innflutts veiðibúnaðar eru í 8. gr. laga nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum. Með lagabreytingu sem tók gildi 1. janúar 2021 (lög nr. 88/2020) og var liður í einföldun stjórnsýslu var gerð sú áherslubreyting að að heimilaður er innflutningur á notuðum stangveiðibúnaði en ekki notkun nema að undangenginni sótthreinsun.  Matvælastofnun getur falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd sótthreinsunar auk þess sem stofnunin getur fralið tollayfirvöldum framkvæmd aðgerða eftir því sem við á.

Með þessu móti ekki verið að draga úr smitvörnum heldur auka sveigjanleika og koma þannig á móts við ferðamenn sem hingað koma til að stunda stangveiði. Áfram verður boðið upp á sótthreinsun veiðibúnaðar í flugstöðinni í Keflavík enda koma langflestir ferðamenn til landsins um Keflavíkurflugvöll.

 

 

 

Uppfært 27.07.2023
Getum við bætt efni síðunnar?