Fara í efni

Innflutningur á stangveiðibúnaði

Íslenskar laxveiðiár búa enn við þá sérstöðu að geta státað af heilbrigðum fiski. Sem liður í forvörnum gegn alvarlegum smitsjúkdómum í laxfiskum er skylda að sótthreinsa notaðan innfluttan stangveiðibúnað og hefur svo verið allar götur síðan vorið 1971.

Illkynja sjúkdómsvaldar á borð við veirur ýmis konar og sníkjudýrið Gyrodactylus salaris hafa aldrei greinst í ferskvatnsfiskum á Íslandi.

 • Óheimilt er að flytja til landsins:
  Notaðan veiðibúnað, s.s. stangir, veiðihjól, öngla/spóna/flugur, vöðlur og háfa, nema að hann sé sótthreinsaður með viðurkenndum hætti
 • Sótthreinsun:
  Sótthreinsun skal framkvæmd af dýralækni eða öðrum viðurkenndum aðila í útflutningslandi og vottorð þar um skal fylgja búnaðinum til landsins. Að öðrum kosti ber að tilkynna tollayfirvöldum um veiðibúnaðinn við komuna til landsins sem sér um að koma honum til sótthreinsunar á kostnað eiganda.
 • Vottorð um sótthreinsun

Leiðbeiningar um sótthreinsun á stangveiðibúnaði

Lágmarks útbúnaður til sótthreinsunar samanstendur af stampi eða rennu til ídýfunar, úðabrúsa og skolvaski. Þá er einnig gott að hafa plastpoka og límband við höndina.

Þau sótthreinsefni sem eru viðurkennd í þessu sambandi eru m.a. VIRKON-S. og 70-85% alkóhól. Efnin eru mjög virk gegn þeim smitefnum sem við eigum í baráttu við, skemma ekki áhöld né fatnað ef rétt er að staðið og eru óskaðleg húð í þeim styrkleika sem ráðlagður er.
Notkun er með eftirfarandi hætti:
 • VIRKON-S 1% lausn (10 grömm (2 töflur) í hvern líter af vatni). Lausnin er rauðleit en verður með tímanum glær þegar virkni dvínar.
 • Alkóhól: 70-85% lausn (sótthreinsispritt).
 • Meta þarf í hvert sinn þörfina fyrir sótthreinsun. Nýjan og ónotaðan búnað þarf að sjálfsögðu ekki að sótthreinsa en ef óhreinindi eða raki er áberandi ber að taka slíkan varning gaumgæfilega.
 • Best er að úða vökvanum gaumgæfilega yfir þá fleti sem skal sótthreinsa. Ef um veiðistöng er að ræða er nóg að úða bara skaftið. Veiðihjól og önglabox má úða í heild sinni og ráðleggja skal eiganda að skola síðan vel í rennandi vatni eftir a.m.k. 10 mín. snertitíma. (Ath! Flugubox innihalda oft nýjar ónotaðar flugur sem eru þar með undanþegnar sótthreinsun). Háfar, hnífar, rotarar, veiðivesti, veiðiskór og vöðlur skal einnig úða vel (jafnvel dýfa í sótthreinsirennu/stamp). Best að setja þennan búnað svo beint í plastpoka og hnýta fyrir.

Undanþágur frá sótthreinsun varnings við komuna til landsins

Að ígrunduðu máli er eftirfarandi varningur undan-þeginn sótthreinsun við komu farþega erlendis frá:
 • Kajakar og aðrir léttabátar
 • Kafarabúningar, bæði blaut- og þurrbúningar
 • Veiðibúnaður sem notaður hefur verið á Grænlandi
 • Allur varningur sem án vafa er nýr og ónotaður
Uppfært 10.09.2019
Getum við bætt efni síðunnar?