Fara í efni

Aukefni, bragðefni og ensím

Aukefni, E-númer

Aukefni eru efni sem bætt er í matvæli til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla. Algengustu tegundir aukefna eru rotvarnarefni, þráavarnarefni, bindiefni, sætuefni og litarefni.

Aukefnum er skipt í mismunandi flokka eftir því til hvers á að nota þau. Einungis er leyfilegt að nota þau aukefni sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur metið og viðurkennt að séu ekki skaðleg heilsu fólks. Notkun aukefna í Evrópu er endurskoðuð ef rökstuddur grunur kemur upp um óæskileg áhrif þeirra á neytendur. Aukefni sem leyfilegt er að nota eru sett á sérstakan lista sem segir til um í hvaða matvörur og í hvaða magni leyfilegt er að nota aukefni.  Aukefnalistinn er svokallaður jákvæður listi sem þýðir að einungis er leyfilegt að þau efni sem eru á listanum og með þeim skilyrðum sem þar koma fram.

Í innihaldslýsingum sjáum við að efnin eru ýmist auðkennd með efnaheitum eða E númerum. E númerin eru bæði notuð til að einfalda innihaldslýsingar og eiga að auðvelda fólki að varast tiltekin efni, s.s. ofnæmisvalda. Þegar aukefni eru notuð í vörur þarf einnig að greina frá tilganginum með notkun efnisins. Það er gert með því að setja flokksheiti á undan efnaheitinu eða E númerinu:
 
Dæmi: Rotvarnarefni: Natríumbensóat, eða rotvarnarefni: E 211. 

Ítarefni:

Bragðefni

Bragðefni eru afurðir sem bætt er í matvæli til að gefa ilm og/eða bragð. Orðið bragðefni er yfirheiti yfir nokkra flokka efna: bragðgefandi efni, bragðefnablöndur, hitameðhöndluð bragðefni, reykbragðefni eða blöndur af þeim. Náttúruleg bragðefni einkenna bragð flestra matvæla, en einnig eru til tilbúin bragðefni. Bragðefni teljast ekki til aukefna og hafa því ekki E-númer. Svo kölluð bragðaukandi efni, E-620 til E-640 í aukefnalistanum, teljast hinsvegar til aukefna. Þau hafa lítið sem ekkert eigið bragð, en draga fram bragð af öðrum efnum

Efni úr matvælum með bragðgefandi eiginleika

Sum  innihaldsefni matvæla eru notuð/bætt í matvæli vegna bragðgefandi eiginleika sinna (en skilgreinast ekki sem bragðefni) sem getur leitt til þess að óæskileg náttúruleg efni berist í matvælin. 

Dæmi:  Kanill (innihaldsefni með bragðgefandi eiginleika), sem inniheldur kúmarín (óæskilegt efni), notaður í bökunarvörur. 

Nánar um bragðefni, sjá undir síðu fyrir matvælafyrirtæki.

Ensím

Matvælaensím eru afurðir sem fást úr plöntum, dýrum eða örverum eða afurðum þeirra, þar með taldar afurðir sem fást með gerjunarferli þar sem notaðar eru örverur. Matvælaensím hvata skilgreint lífefnafræðilegt efnahvarf og þeim er bætt í matvæli í tæknilegum tilgangi á einhverju stigi framleiðslu, vinnslu, tilreiðslu, meðhöndlunar, pökkunar, flutnings eða geymslu matvælanna.

Ítarefni

Uppfært 19.03.2020
Getum við bætt efni síðunnar?