Fara í efni

Flutningar og sjúkdómavarnir í nautgripum

Til að hindra útbreiðslu sjúkdóma þurfa kúabændur og nautgriparæktendur að:

 1. Virða reglur um flutning nautgripa milli varnarhólfa.
 2. Kynna sér lög um dýrasjúkdóma og reglugerð um garnaveiki.
 3. Sækja tímanlega um fyrirhugaða flutninga á nautgripum á Þjónustugátt Matvælastofnunar.
 4. Skrá alla flutninga og tryggja að hjarðbók gefi rétta mynd af stöðu hjarðarinnar.
 5. Nota lágþrýstiþvott í stað háþrýstiþvotts við þrif á umhverfi nautgripa.
 6. Stunda ábyrgar smitvarnir í tengslum við nautgripi; handþvottur (sótthreinsun með handspritti eingöngu er ekki nægjanlegt, ætíð skal þvo hendur fyrst) og stígvélaþvottur er afar mikilvægur til að draga úr líkum á dreifingu smitefna.

Nánari upplýsingar:

Varnarlínur og varnarhólf

Eins og flestir búfjáreigendur vita er landinu skipt upp í 25 varnarsvæði með svokölluðum varnarlínum sem ýmist eru girðingar eða náttúrulegar hindranir. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933. Um var að ræða sjúkdómana garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði). Varnarhólfin voru liður í aðgerðum sem ráðist var í til útrýmingar á sjúkdómunum. Fé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur tíðni garnaveiki þó minnkað mikið og hefur henni verið útrýmt á nokkrum svæðum.

Í dag gegna varnarlínurnar mikilvægu hlutverki við útrýmingu smitsjúkdóma á borð við garnaveiki og stemma stigu við útbreiðslu annarra smitsjúkdóma hjá nautgripum og sauðfé.

Strangar reglur gilda um flutning á lifandi jórturdýrum, tækjum og ýmsum varningi yfir varnarlínur. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma er Matvælastofnun heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra. Nautgripi má aðeins flytja til lífs yfir varnarlínur að fram hafi farið sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra.

Varnarlínur, varnarhólf og litamerking nautgripa

Kortið sýnir með svörtum línum hvernig varnarlínurnar liggja. Brotalínur eru aukavarnarlínur og litirnir tákna svæðaskiptingu litamerkinga á sauðfé. Vegna niðurfellinga á varnarlínum geta fleiri litir verið innan hvers hólfs og sami litur beggja megin við varnarlínur.

Garnaveiki og aðrir sjúkdómar í nautgripum

Eftirlit með kúariðu

Kúariða er banvænn sjúkdómur sem leggst á heila nautgripa. Sjúkdómurinn er langvinnur og einkennin koma að jafnaði ekki fram fyrr en um 5 ára aldur. Engin meðhöndlun eða bólusetning finnst gegn sjúkdómnum. Einkenni kúariðu minna að mörgu leyti á einkenni riðuveiki hjá sauðfé, þ.e.a.s. taugaeinkenni sem birtast í hegðunarbreytingum og erfiðleikum við hreyfingu.

Talið er að sjúkdómurinn geti borist  í nautgripi ef þeir eru fóðraðir á dýrafóðri, framleitt úr leifum sýktra nautgripa. Fyrsta tilfellið af kúariðu var staðfest í Bretlandi árið 1986. Síðan þá hefur sjúkdómurinn verið staðfestur í fleiri Evrópulöndum, Asíu, Miðausturlöndum og í Norður-Ameríku.

Vísbendingar eru um að tilbrigði kúariðunnar, banvæni hrörnunarsjúkdómurinn Creutzfeldt-Jakob sem leggst á fólk, geti stafað af neyslu sýkts taugavefs eða nautakjöts sem hefur komist í snertingu við sýktan taugavef.

Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnunin (OIE) hefur viðurkennt Ísland sem kúariðulaust land á sögulegum forsendum. Þar vegur þyngst að  kúariða hefur aldrei greinst hér á landi, lifandi nautgripir hafa ekki verið fluttir inn síðan 1933, bannað hefur verið að flytja inn kjöt- og beinamjöl síðan 1968 og óheimilt er að fóðra nautgripi á kjöt- og beinamjöli síðan 1978. Þessi alþjóðlega viðurkenning er afar mikilvæg fyrir íslenska nautakjötsframleiðslu og heilnæmi íslensks landbúnaðar. Til þess að Ísland geti viðhaldið þessari stöðu sinni hjá OIE, þarf ákveðinn fjöldi heilasýna úr nautgripum að berast árlega til riðuskimunar.

Einnig ber Íslandi skylda til þess að sýna fram á að hérlendis séu tekin sýni skv. reglugerð Evrópuþings (EB nr. 999/2001) um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar (TSE), framkvæmd með reglugerð nr. 41/2012 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) um setningu reglna um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar.

Taka skal sýni úr eftirfarandi flokkum nautgripa:

 • Allir nautgripir án tillits til aldurs sem sýna hegðunarleg sjúkdómseinkenni sem samræmast kúariðu, sem Mast fær tilkynningu um.
 • Nautgripir eldri en 48 mánaða sem drepast eða er lógað heima á bæ vegna slysa eða sjúkdóma, sem Mast fær tilkynningu um.
 • Nautgripir eldri 48 mánaða sem sendir eru í sláturhús til neyðarslátrunar.
 • Allir nautgripir sem drepast í flutningi eða í sláturhúsi.
 • Allir nautgripir sem sýna hegðunarleg sjúkdómseinkenni sem samræmast kúariðu við lífskoðun í sláturhúsi.
 • Nautgripir eldri en 48 mánaða sem er hent / hafnað til manneldis út frá lífskoðun eða vegna verulegra annmarka sökum skorts á rekjanleika og merkinga.

Bestu vísbendingu um heilsufar nautgripa á Íslandi hvað kúariðu varðar, gefa sýni úr grunsamlegum tilfellum, þ.e.a.s. fullorðnum gripum sem drepast heima á bæ eða er lógað vegna sjúkdóma eða slysa.

Sýnataka og sending

Matvælastofnun óskar eftir samstarfi við nautgripabændur við að tryggja þessa miklu hagsmuni landsins, með því að leggja til sýni úr fullorðnum nautgripum sem drepast eða er slátrað heima. Bændur snúa sér þá til síns héraðsdýralæknis og í samráði við þá er tekin ákvörðun hvort eftirlitsdýralæknir frá Matvælastofnun taki sýnin, dýralæknir viðkomandi bús eða bóndinn sjálfur. Í öllum tilfellum er sýnatakan bændum að kostnaðarlausu.

Leiðbeiningar um sýnatöku

Úr nautgripum með grun um kúariðu skal senda ferskan og formalín-fastan heilahelming eða allt höfuðið.

Úr sjálfdauðum og aflífuðum gripum og úr gripum sem koma til slátrunar skal taka mænukylfu (medulla oblongata) til rannsókna.

 1. Sýnataka: Gott er að nota sérstaka sýnatökuskeið, sem hægt er að fá senda frá Keldum. Einnig má notast við langan hníf.
  Nautgripir:
  - Afhausið gripinn við banakringlu (efsta hálslið).
  - Leggið hausinn á hvolf og farið með sýnatökuskeið eða löngum hníf meðfram mænukylfu (efsti hluti mænunnar) til að losa um.
  - Með sýnatökuskeið eða venjulegri skeið, er 7-8 cm bútur tekinn úr mænukylfu.
 2. Látið sýnið í sýnaglas eða hreinan plastpoka ásamt eyrnamerkinu og lokið vel. Ef ekkert eyrnamerki er með sýni, þá þarf að skrifa búsnúmerið og númer grips á lokið á glasinu eða á pokann. Sýnið verður að vera rekjanlegt til upprunabæjar og grips.
 3. Ef um fleiri gripi frá sama bæ er að ræða, safnið þá öllum sýnaglösum/pokum  í plastpoka, lokið honum tryggilega, setjið síðan annan glæran plastpoka utanyfir og ofan í hann miða með rannsóknarbeiðni.
 4. Á rannsóknarbeiðni skal koma fram fjöldi sýna, búsnúmer og númer og aldur dýra.
 5. Sýnin eru síðan sett í kassa ásamt kælieiningu og send eins fljótt og kostur er. Frystið sýnin ef þau eru ekki send strax.
 6. Merkið kassann með eftirfarandi hætti:
  Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 
  Keldnavegi 3
  112 Reykjavík
  Kælivara v/riðuskimunar

Koma ferðamanna og bænda á bæi

Á síðari árum hefur færst í vöxt að ferðamenn komi á bændabæi og nýti sér ferðaþjónustu bænda um lengri eða skemmri tíma. 

Jafnframt hafa skipulagðar bændaferðir til útlanda færst í vöxt. Í slíkum ferðum er yfirleitt farið í heimsóknir á bóndabæi eða landbúnaðarsýningar þar sem dýr eru sýnd.

Með auknum straumi ferðamanna til landsins og ferðum bænda erlendis (og innanlands) er aukin hætta á útbreiðslu smitsjúkdóma í dýrum. 

Eftirtalin atriði er vert að hafa í huga til að draga úr smithættu:

 • Gestir skulu varast að hafa með sér grófbotna skó, stígvél eða annan búnað sem notaður hefur verið í umhverfi dýra.
 • Komi gestir beint frá bóndabæ erlendis eða hafi verið í snertingu við dýr rétt fyrir komuna til landsins, er óæskilegt að þeir umgangist dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.
 • Við heimsókn í gripahús ættu allir gestir að klæðast hreinum utanyfirfötum og stígvélum eða skóhlífum, annað hvort einnota eða fatnaði búsins. Til viðbótar er gott að hafa sótthreinsandi skóbað við inngöngu í gripahúsin.
 • Gott er að setja upp viðvörunarskilti á áberandi stöðum til að vekja fólk til umhugsunar.
 • Dýrum skulu ekki gefnar matarleifar.

Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal það setja öll föt, sem notuð eru við heimsóknir á bú, í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug strax eftir heimkomu. Skófatnað þarf einnig að þrífa og síðan sótthreinsa með VirkonS® eða öðrum sambærilegum efnum, sem má fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum t.d. gin- og klaufaveikiveiru.

Virðum reglur um innflutning á:

Bóndi ver þitt bú!

Enginn getur varið hann betur en þið sjálf og enginn ber meiri ábyrgð á því. Hleypið engum sem er að koma erlendis frá inn í fjósið, fjárhúsið, svínahúsið, hesthúsið, alifuglahúsið, kanínuhúsið, minkahúsið o.s.frv. nema nauðsynlegt sé og gætið þess að viðkomandi sýni smitgát. Verið sjálfir góð fyrirmynd.

Úðasmit með háþrýstiþvotti

Matvælastofnun telur að háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa geti verið ein af smitleiðum STEC smits yfir í fólk. Stofnunin vekur athygli bænda og annarra framleiðenda á því að úði frá háþrýstiþvotti á smituðu umhverfi geti dreift smitefnum og valdið sjúkdómi í dýrum og mönnum.

Á Íslandi og víðar er hefð fyrir því að nota háþrýstiþvott í landbúnaði. Í úðanum sem myndast við háþrýstiþvott geta verið sveppir, bakteríur, veirur, sníkjudýr eða önnur smitefni sem berast auðveldlega í fólk og dýr, t.d. með því að anda úðanum að sér. Auk þess leggst úðinn á yfirborðsfleti og mengar þá. Smit getur þá orðið við snertingu. Fólk í landbúnaði þarf að gera sér grein fyrir þessu og endurskoða starfsvenjur sínar þannig að komið verði í veg fyrir óþarfa dreifingu smits. Það sama getur átt við í matvælaiðnaði.

Lágþrýstiþvottur (20-22 bör) hefur kosti umfram háþrýstiþvott (um og yfir 100 bör) að því leiti að hvorki myndast úði né dreifast óhreinindi eins mikið, þannig er lágþrýstiþvottur betri kostur til þvotta í landbúnaði. Í landbúnaði eru óhjákvæmilega smitefni og ætíð ætti að gera ráð fyrir að smitefni geti verið hættuleg heilsu manna og dýra. Í öllu falli ætti ekki að nota háþrýstiþvott þar sem nálægð er mikil milli dýra og manna og/eða matvæla, því úðinn fer víða. Aldrei skal þvo gripahús með háþrýstingi þegar dýr eru inni og nota skal grímur til að verjast úðasmiti.

Sýking af völdum sníkjudýrsins Cryptosporidium parvum meðal dýralæknanema í Danmörku árið 2012 er gott dæmi um hvað getur gerst við háþrýstiþvott í smituðu umhverfi. Við frágang eftir verklega kennslu með kálfa sem voru með niðurgang var kennslurýmið háþrýstiþvegið. Allir sem þar voru inni veiktust, alls 24 manns. Smitið barst að öllum líkindum með úðanum sem myndaðist við þvottinn, sem viðstaddir önduðu að sér.

Matvælastofnun hvetur bændur og þá sem eru ábyrgir fyrir matvælaöryggi til að skoða þrifa- og sótthreinsiaðferðir sem viðhafðar eru og leita ráða um tæki og efni sem í boði eru á markaðnum og henta vel til notkunar í landbúnaði og við meðferð matvæla. 

Uppfært 22.04.2020
Getum við bætt efni síðunnar?