Fara í efni

Hættuleg efni í fæðubótarefnum

Fæðubótarefni geta innihaldið hættuleg efni og þurfa neytendur að vera á varðbergi, einkum við kaup á netinu.

Í netsölu er gjarnan verið að dreifa fæðubótarefnum milli landa með mismunandi löggjöf og eftirlit. Reglulega kemst upp um sölu ólöglegra og/eða hættulegra fæðubótarefna, einkum í gegnum vefverslanir, en það getur reynst erfitt að finna og uppræta slíka starfsemi. 

Að gefnu tilefni varar Matvælastofnun við kaupum á fæðubótarefnum sem innhalda eftirfarandi efni:

Nootropics - efni sem sögð eru örva heilastarfsemi

Innflutningur á efnum sem hafa það að markmiði að efla heilastarfsemi hjá heilbrigðum einstaklingum, svokölluð Nootropics, hafa aukist til muna undanfarin ár. Mörg ólík efni tilheyra flokki Nootropics og eru þau oft markaðssett sem fæðubótarefni. Í netverslunum finnast þau einnig undir flokki sem kallast „cognitive enhancers“, „smart supplements“ eða jafnvel „smart drugs“ og geta verið bæði tilbúin (synthetic) eða „náttúruleg“ efni. Þar sem engin opinber skilgreining er til um Nootropics er erfitt að segja hvaða efni falla í raun og veru undir þennan flokk. Mörg af þessum efnum eru notuð sem innihaldsefni í lyfjum í flokki hughvetjandi geðlyfja (psychoanaleptics), þ.e. örvandi lyf, til meðferðar við ADHD en önnur efni tilheyra flokki þunglyndislyfja.

Í auglýsingum og annarskonar markaðssetningu á Nootropics eru oft notuð hugtök sem miðast við að bæta m.a. minni (memory), sköpunargáfu (creativity), einbeitingu (concentration) eða vera hvetjandi (motivation) hjá heilbrigðu fólki. Þetta virðist vera aðlaðandi í síbreytilegu samfélagi sem byggir gjarnan á samkeppni. Þó markaðssetning gangi út á að bæta skilvit (cognition) hjá heilbrigðum einstaklingum eru engar (eða fáar) rannsóknir til, sem styðja staðhæfingar framleiðenda. Vaxandi notkun þessara efna veldur áhyggjum því ekki er vitað með vissu hvaða áhrif langtíma notkun þeirra hefur á líkamann og heilastarfsemi.

Matvælastofnun sinnir innflutningseftirliti með fæðubótarefnum og hefur stöðvað innflutning allskyns efna sem markaðssett eru undir heitinu Nootropics. Sum þeirra eru framleidd og markaðssett sem fæðubótarefni, en önnur ekki og því er oft óvissa um hvoru megin þessi efni falla, þ.e. lyfjalög eða matvælalög. Þrátt fyrir þetta hefur stofnunin nýtt sér 11 gr. matvælalaga til að stöðva svokölluð Nootropics en þar stendur að “óheimilt er að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr”.

Hérna er listi (ekki tæmandi) yfir efni sem hafa komið í póstsendingum, aðallega til einkanota, undanfarið ár og eru markaðssett sem fæðubótarefni og/eða Nootropics og pöntuð af neytendum sem slík en eru innihaldsefni í lyfjum og með ATC flokk N*:

  • Tianeptine
  • Phenyl-Piracetam
  • Phenibut
  • Adrafinil
  • Piracetam
  • Oxiracetam
  • Vinpocetine 

Matvælastofnun vill vekja athygli á því að innflutningur á þessum efnum er ekki bara óheimill sbr. 11 gr. matvælalaga, heldur er notkun þeirra varasöm. Notkun á efnum sem hafa lyfjafræðilega virkni fyrir ákveðinn sjúkdóm, eins og er með flest af þessum efnum, án þess að ráðfæra sig við lækni er hættuleg. Þar að auki, eins og nefnt er að ofan, eru áhrifin óþekkt og eru mögulega skaðleg til langtíma hjá heilbrigðum einstaklingum.

*ATC Flokkur er flokkunarkerfi lyfja og í flokki N eru lyf sem hafa áhrif á taugakerfið (Nervous system)

Dínítrófenól eða DNP - selt sem fitubrennsluefni

DNPEfnið 2,4-dínítrófenól (e. 2,4-Dinitrophenol) kallað 2,4-DNP eða DNP er lífrænt efnasamband með formúluna HOC6H3(NO2)2 og hefur verið notað á fjölbreytan hátt í iðnaði, t.d. við framleiðslu á viðarvörn, litarefnum, plöntuvarnarefnum og sprengjuefni og er sú notkun leyfileg. DNP er hins vegar ekki leyfilegt til manneldis.

Sagan

Snemma á fjórðaáratug (1933) uppgötvuðu vísindamenn í Bandaríkjunum að DNP stuðlaði að hröðu þyngdartapi hjá mönnum. Strax var farið að nota efnið sem lyf fyrir þyngdartap og vitað er að á milli 1933 og 1935 voru u.þ.b. 100 000 skjólstæðingum gefið DNP í því tilgangi. Mjög fljótlega varð hins vegar ljóst að efnið hafði alvarlegar aukaverkanir, sem oft leiddu til dauða. Í Bandaríkjunum einum voru 8 skjalfest dauðsföll. Sem afleiðing af þessu var DNP skilgreint sem afar hættulegt efni og var árið 1938 bannað til manneldis í Bandaríkjunum og í kjölfarið á heimsvísu. 

Hvernig virkar DNP?

DNP hefur áhrif á efnaskipti líkamans á þann hátt að í stað þess að orka sé nýtt af frumum líkamans eða varðveitt þar, þá breytist hún í varma. Við þetta hækkar líkamshiti og getur hann hækkað það mikið (e. Hyperthermia) að það getur verið banvænt. Fyrstu einkenni eitrunar eru:

  • svitamyndun, vöðvaverkir, hraður púls, hár hiti og öndunarerfiðleikar.

Einstaklingar bregðast mjög mismunandi við efninu og erfitt er að spá fyrir um hvernig hver og einn bregst við og hvaða skammtur er öruggur. Sumir geta fengið alvarlegar aukaverkanir með inntöku lítils magns af efninu. Ekki eru til nein mótefni við DNP og eru sjúklingar sem neytt hafa efnisins því í lífshættu, þrátt fyrir háþróaðar læknismeðferðir. Það er engin örugg skammtastærð til!

Aftur í umferð!

Þrátt fyrir að hættan sé vel þekkt hefur DNP náð vinsældum á ný á síðasta áratug. Sérstaklega virðist efnið vera mjög útbreytt meðal fólks sem stundar vaxtarækt en einnig er vitað að efnið er notað af einstaklingum, sem þjást af átröskun og/eða hafa áhyggjur af þyngdaraukningu. En þrátt fyrir að efnið sé ekki leyfilegt til manneldis sem fæðubótarefni eða svokallað fat burner er DNP selt á internetinu, samfélagssíðum og mögulega í vaxtarræktar samfélagi.

Dauðsföll

DNPNeysla DNP hefur valdið dauðsföllum, einkum í Bretlandi. Þar hafa yfirvöld varað við notkun efnisins og telja verulegt áhyggjuefni að efnið sé framleitt til inntöku. Þeir sem kynna og selja efnið gera í mörgum tilvikum lítið úr skaðlegum áhrifum DNP, sagt er að notkun DNP í litlu magni sé öruggt. Þetta er ekki rétt!

DNP er gult duft en er venjulega sett í töflu eða hylkisform áður en það er selt til almennings. 

Upplýstir neytendur

Dínítrófenól eða DNP er hættulegt efni og hefur valdið dauðföll með inntöku jafnvel litlum skömmtum. Athuga þarf að það er engin örugg skammtastærð til, þrátt fyrir að seljendur segi annað. Efnið er ekki leyfilegt til manneldis.

Einkennandi litur á DNP er sterkgulur og er mikilvægt að neytendur sendi ábendingu til Matvælastofnunar eða heilbrigðiseftirlits viðkomandi svæðis, ef þeir hafa upplýsingar um vörur sem innihalda dínítrófenól og/eða seldar eru hér á landi. Leitið strax til læknis ef þið hafið tekið inn efnið og einkenni koma fram. 

Matvælastofnun beinir því einnig til neytenda að vera varkárir og að skoða með gagnrýnum augum þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um vöruna og innihaldsefni hennar. 

Ítarefni

Matvælastofnun bendir neytendum einnig á að fæðubótarefni geta innihaldið skaðleg efni sem ekki eru sett í innihaldslýsingu. Þetta geta verið ofangreind efni eða efni með lyfjavirkni eða önnur lífeðlisfræðileg áhrif. Kaupa skal fæðubótarefni frá áreiðanlegum söluaðilum og framleiðendum.

Fæðubótarefni koma ekki í stað heilnæmrar og fjölbreyttrar fæðu
Uppfært 04.05.2021
Getum við bætt efni síðunnar?