Fara í efni

Dínítrófenól í vaxtarræktarvöru

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við ólöglegri vöru, Arnold Iron Dream, sem hefur verið innkölluð í 28 löndum í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópu. Um er að ræða fæðubótarefni þar sem efnið dínítrófenól (DNP) hefur greinst við reglubundið eftirlit í Bretlandi en notkun dínítrófenóls í fæðubótarefni er óheimil.

Dínítrófenól er hættulegt neytendum og þarf ekki nema lítið magn af efninu til að eituráhrif komi fram. Það hefur valdið alvarlegum aukaverkunum og dauðsföll hafa verið rakin til neyslu efnisins. Matvælastofnun hefur áður varað við dínítrófenól í fæðubótarefnum.

Stofnunin hefur ekki upplýsingar um að varan hafi verið flutt til landsins en ekki er hægt að útiloka að neytendur hafi keypt vöruna í gegnum erlenda netsölu.

Fæðubótarefnið Arnold Iron Dream hefur áður komið til kasta Matvælastofnunar. Stofnuninni barst tilkynning um vöruna í tengslum við fyrirhugaðan innflutning árið 2013 í samræmi við ákvæði um tilkynningarskyldu í reglugerð um fæðubótarefni. Í tilkynningarferlinu var innflytjanda bent á að óheimilt væri að flytja vöruna inn til landsins og/eða dreifa henni þar sem hún innihélt efni sem skilgreint er sem lyf hérlendis. Hér var um annað innihaldsefni en DNP að ræða.

Efnið dínítrófenól er ekki tilgreint í innihaldslýsingu Arnold Iron Dream en í ljósi þess að efnið hefur greinst í vörunni varar Matvælastofnun við neyslu á öllum vörum undir þessu vöruheiti.

  • Vöruheiti: Arnold Iron Dream Concentrated Night Time Recover
  • Vörumerki: Musclepharm/ Arnold series
  • Upprunaland: Framleitt í Bandaríkjunum
  • Strikamerki: 225032 030
  • Þyngd: 0,17 kg hver baukur

Ef einhverjir eru með umrædda vöru í sínum fórum eru þeir beðnir um að neyta hennar ekki og að senda Matvælastofnun upplýsingar á netfangið mast@mast.is um með hvaða hætti varan var keypt.

Matvælastofnun beinir því einnig til neytenda að vera varkárir þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og að leita sér nánari upplýsinga um vörur sem þeir kaupa og innihald þeirra. Leitið ykkur einnig upplýsinga um hvers vegna varan er eingöngu seld á internetinu en ekki í almennum verslunum. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?