Fara í efni

Gæludýraverslanir

Hefur þú hug á því að fá þér gæludýr?

Það er mikil ábyrgð falin í þeirri ákvörðun að taka að sér gæludýr og skyldi sú ákvörðun vera vel ígrunduð með öllum fjölskyldumeðlimum. Ekki er heimilt að fela börnum undir 18 ára aldri og ólögráða einstaklingum einum ábyrgð á dýrum. Einnig er óheimilt að selja, gefa eða afhenda dýr einstaklingi sem ástæða er til að ætla að hafi ekki aðbúnað, getu eða vilja til að annast dýrið í samræmi við lög um velferð dýra.

Þegar maður tekur að sér gæludýr hefur sá sem afhendir dýrið þá skyldu að veita viðtakanda dýrsins upplýsingar um eigin­leika viðkomandi dýrategundar, þarfir hennar og rétta umhirðu. Upplýsingarnar skulu vera skrif­legar, eða á rafrænu formi á netsíðu seljanda ef kaupandi staðfestir að hann geti nýtt sér rafrænt form. Ef upp hafa komið sjúkdómar eða smit í nánasta umhverfi dýrs í tengslum við starf­semina er gætu varðað heilbrigði þess, er einnig skylt að upplýsa um slíkt skriflega og hvernig ber að bregðast við.

Ert þú með gæludýraverslun eða gæludýramiðlun?

Gæludýraverslun flokkast undir tilkynningaskylda starfsemi með gæludýr. 

Ekki er heimilt að fela börnum undir 18 ára aldri og ólögráða einstaklingum ábyrgð á dýrum. Einni er óheimilt að selja, gefa eða afhenda dýr einstaklingi sem ástæða er til að ætla að hafi ekki aðbúnað, getu eða vilja til að annast dýrið í samræmi við lög um velferð dýra.

Öllum gæludýrum sem eru seld eða miðlað til nýrra umráðamanna skulu fylgja upplýsingar um eigin­leika viðkomandi dýrategundar, þarfir hennar og rétta umhirðu. Upplýsingarnar skulu vera skrif­legar, eða á rafrænu formi á netsíðu seljanda ef kaupandi staðfestir að hann geti nýtt sér rafrænt form. Ef upp hafa komið sjúkdómar eða smit í nánasta umhverfi dýrs í tengslum við starf­semina er gætu varðað heilbrigði þess, er einnig skylt að upplýsa um slíkt skriflega og hvernig ber að bregðast við.

Líta skal til dýra minnst einu sinni á sólarhring þá daga sem verslunin er lokuð.

Gæludýraverslunum er óheimilt að sýna, selja eða afhenda hunda eða ketti. Ennfremur er þeim óheimilt að sýna, selja eða afhenda lasburða eða veik dýr, dýr komin að goti eða með mjög ung afkvæmi. Kanínur skulu hafa náð að lágmarki 8 vikna aldri áður en þeir eru skildir frá móður, dverghamstrar og músaungar 3 vikna aldri og gullhamstrar og naggrísir 4 vikna aldri.  

Umráðamaður í gæludýraverslun skal halda skrá þar sem skráð er sérhvert dýr sem haldið er eða hópar af dýrum, ef einstaklingsskráning er ekki möguleg. Skrá skal upplýsingar um tegund, kyn, aldur, lit og varanlegt auðkenni ef það er til staðar, heilsufar, allar lyfjameðferðir sem og fyrir­byggjandi aðgerðir, tíðni og tegund fóðrunar, daglega tímalengd viðrunar utan búrs ef það er gert, pörun, afkvæmi og fjölda þeirra, og annað er viðkemur velferð dýrsins. Ef dýr deyr eða það er aflífað skal skrá ástæðu þess ef þekkt er. Eftirlitsaðili skal hafa aðgang að skrám og skulu þær varð­veittar í minnst þrjú ár.

Stærð búra og vistarvera dýra í gæludýraverslunum skulu vera í samræmi við 1.-6. lið viðauka II í reglugerð um velferð gæludýra. Ákvæði 36. gr. um aðbúnað dýra og 38.-40. gr. um skráningu, afhendingu, sölu, smitvarnir og slysa­varnir gilda einnig þar sem við á.

Uppfært 04.08.2020
Getum við bætt efni síðunnar?