Fara í efni

Hamborgarar

Þegar hamborgari er pantaður á veitingastöðum er oft boðið upp á þrjá valkosti: vel steiktan (well done), meðal steiktan (medium) og lítið steiktan (rare) hamborgara. Það er viðtekin venja að bjóða upp á mismunandi steikingu þegar um nautasteikur er að ræða. Á hráum kjötstykkjum er örverur að finna á ysta lagi kjötsins en ekki inni í vöðvanum og örverurnar drepast þegar kjötið er steikt eða grillað við háan hita.

Um hamborgara gildir allt annað þar sem þeir eru mótaðir úr hökkuðu kjöti. Þegar kjöt er hakkað eykst yfirborð þess verulega og þar með það yfirborð sem örverur geta lifað á. Örverur eru þá ekki lengur aðeins á yfirborði hamborgaranna heldur dreifðar um þá alla. Létt steiking drepur því ekki sjúkdómavaldandi örverur sem hugsanlega geta verið í kjötinu. Til þess að drepa hugsanlegar sjúkdómsvaldandi örverur verður að steikja hamborgarana í gegn eða þannig að kjarnahitastig sé a.m.k. 75°C.

Það er mikilvægt að þeir sem bjóða upp á misvel steikta hamborgara geri sér grein fyrir þessu og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir þegar þeir bjóða upp á þessa valkosti.

Ýmsar leiðir eru til að draga úr hættu á að viðskiptavinurinn fái matarsýkingu af völdum sjúkdómsvaldandi örvera í hamborgurum, m.a.:

  • Vera með virkt innra eftirlit sem m.a. felst í að geyma hamborgarana við rétt hitastig fyrir steikingu
  • Steikja alla hamborgara þannig að kjarnhitinn sé yfir 75°C
  • Fara fram á rannsóknarniðurstöður vegna hamborgaranna
Munið að ef kjarnhiti í hamborgurum nær ekki 75°C eru alltaf líkur á að þeir innihaldi sjúkdómsvaldandi örverur
Uppfært 30.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?