Fara í efni

Hænsnakofinn

Sjúkdómavarnir í hænsnakofanum

 1. Fylgstu vel með fuglunum þínum og þekktu einkenni hættulegra sjúkdóma. Mikilvægt er að uppgötva sjúkdóm snemma.
 2. Láttu vita ef fuglarnir þínir veikjast eða deyja og þig grunar smitandi sjúkdóm. Þú getur hringt í þinn dýralækni eða í dýralækni hjá Matvælastofnun. 
 3. Hugaðu að smitvörnum: Haltu hreinu - haltu fjarlægð; sjá nánar hér að neðan.
 4. Gefðu fuglunum þínum ekki eldhúsafganga; sjá nánar hér að neðan.

Smitvarnir

Haltu hreinu

 • Þvoðu hendur áður en þú ferð til fuglanna.
 • Þrífðu búrin og skiptu um vatn og mat daglega.
 • Þvoðu og sótthreinsaðu tæki og tól sem komast í snertingu við fuglana. Mikilvægt er að fjarlægja skít af tækjum áður en þau eru sótthreinsuð. Ef þú færð lánaða hluti frá öðrum hreinsaðu þá og sótthreinsaðu áður en þau komast í snertingu við þína fugla.
 • Hreinsaðu og sótthreinsaðu skóna þína eða vertu með sér skó sem þú ferð í þegar þú ferð til fuglana. Skítur undir skóm er greið leið fyrir smitefni að berast til fuglanna.
 • Vertu með sér föt sem þú notar einungis þegar þú ferð til fuglanna. Skiptu svo um föt þegar þú ferð inn á heimili þitt.

Haltu fjarlægð

 • Ef að gestir sem eiga líka fugla koma í heimsókn, haltu þeim þá frá þínum fuglum. 
 • Reyndu að forðast að heimsækja aðra bæi sem halda hænsnfugla
 • Ef þú hefur verið nálægt öðrum fuglum, þvoðu þá og sótthreinsaðu föt og tæki sem gætu hafa komist í snertingu við fuglana.
 • Ef þú hefur farið með fugl frá þér á sýningu, haltu þeim þá frá þínum fuglum í 2 vikur. Ef þú kaupir nýja fugla, haltu þeim þá aðskildum í 30 daga áður en þú setur þá saman við hópinn.
 • Ekki deila tækjum eða svæði sem þú notar fyrir fuglana með nágrönnum þínum eða öðrum fuglaeigendum. Ef þú þarft nauðsynlega að lána tæki og tól, þvoðu þá og sótthreinsaðu þau fyrir notkun hjá þínum fuglum.
 • Íhugaðu að girða af svæði fyrir utan staðinn sem þú ert með fuglana þína á, til að hindra að fólk geti borið smit í fuglana þína.
 • Passaðu vel að villtir fuglar komist ekki í snertingu við þína fugla. Passaðu líka upp á að nagdýr komist ekki að fuglunum og að þú sért með skordýravarnir.
 • Fargaðu dauðum fuglum á réttan hátt. Ef fugl deyr hjá þér, notaðu þá hanska og settu hann í plastpoka sem lekur ekki. Settu svo plastpokann í annan plastpoka áður en þú setur hann í ruslið. Þvoðu síðan hendurnar og umhverfið innandyra sem fuglinn gæti hafa komist í snertingu við. 

Hvers vegna er bannað að fóðra hænur með eldhúsafgöngum?

Flestum þykir eðlilegt að fóðra hænurnar sínar með afgöngum sem falla til í eldhúsinu. Það spornar við matarsóun og minnkar rusl á heimilinu. Hins vegar er bannað samkvæmt lögum að gefa búfé dýraafurðir og eldhúsúrgang vegna þess að það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér enda er fóðrun dýra með eldhúsúrgangi ein helsta smitleið margra alvarlega smitsjúkdóma í dýr. Það gildir líka um landnámshænur.

Hvað segja lögin?

Samkvæmt fóðurlögum og reglugerð um aukaafurðir dýra er bannað að fóðra búfé, að loðdýrum undanskildum, með kjöti og öðrum dýraafurðum öðrum en mjólk og eggjum í ákveðnum tilfellum. Reglurnar banna jafnframt notkun hvers kyns eldhúsúrgangs, bæði frá heimilum og veitingastöðum, sem fóður fyrir búfé. Þetta á bæði við um hráar eða eldaðar matarleifar. Eina undantekning er eldhúsúrgangur frá vegan heimilum. Heimild er þó að fóðra grænmeti og önnur matvæli úr plönturíki ef það hefur aldrei farið í eldhús, til dæmis grænmeti úr garði.

Sérstakar reglur gilda um matarafganga frá matvælafyrirtækjum, en ekki er fjallað um það hér.

Er þetta raunveruleg hætta fyrir okkur á Íslandi?

Ástæða þessa banns er að með fóðrun kjöts og annarra dýraafurða  geta alvarlegir smitsjúkdómar borist í dýr, til dæmis er hætta á að alifuglar geta smitast af fuglaflensu og Newcastle-veiki. Fuglaflensa er viðvarandi í Asíu og getur borist með frosnu hráu kjöti til landsins. Margir vægari smitsjúkdómar í alifuglum eru landlægir erlendis en þekkjast ekki hér. Svín geta t.d. smitast af klassískri svínapest, afrískri svínapest og gin- og klaufaveiki, sem getur smitast í öll klaufdýr.

Ekki er nóg að elda matarleifar fyrir fóðrun þó svo að það minnki áhættuna. Ástæðan er sú að erfitt getur verið að tryggja rétt hitastig til að drepa smitefni við eldun. Mesta hætta er þó að grænmeti getur mengast frá hráu kjöti áður en kjötið er eldað,  t.d  afskurður af grænmeti, hýði og ávaxtabörkur í vask. Þess vegna má ekki gefa hænsnfuglum mat sem kemur úr eldhúsinu.

Tveir alvarlegir smitsjúkdómar hafa borist í svín hér á landi þar sem í báðum tilvikum var hægt að rekja smitið til eldhúsúrgangs sem svín hafa verið fóðruð með. Annars vegar svínapest (e. classical swine fever) sem kom upp árið 1942 og hins vegar blöðruþot (e. vesicular exanthema) árið 1955.

Hvað gerist ef sjúkdómur kemur upp?

Ef upp kemur tilkynningaskyldur sjúkdómur getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir hænsnin eða önnur dýr eftir því um hvaða sjúkdóm er að ræða, þau veikjast og geta drepist. Í einhverjum tilvikum eins og við fuglaflensu eða Newcastle veiki eru öll dýrin aflífuð ef smit er staðfest.

Sett er flutningsbann á smitaða búið og á stórt svæði í kringum smitstaðinn, þar með talið á öll alifuglabú sem eru innan varnarsvæðis. Greining á alvarlegum dýrasjúkdómi getur líka haft afleiðingar á útflutning afurða úr landinu til dæmis á lambakjöti ef upp kæmi gin- og klaufaveiki. Útflutningur getur verið stöðvaður í lengri tíma sem getur haft alvarleg áhrif á efnahag í landinu.

Gin- og klaufaveikifaraldurinn í Bretlandi árið 2001 er mjög gott dæmi um þá áhættu sem tekin er þegar dýrum er gefinn eldhúsúrgangur en uppruni hans var rakinn til svínabús sem fóðraði með hitameðhöndluðum eldhúsúrgangi frá veitingastöðum. Þessi faraldur varð til þess að a.m.k. 6,5 milljónir dýra (nautgripir, sauðfé og svín) voru aflífuð og ársframleiðsla á búfjárafurðum á landsvísu var 20% minni en áætlað var. Fjárhagslegt tjón landbúnaðar- og matvælageirans var um þrír milljarðar punda og ferðamálageirinn tapaði öðru eins. Heildarkostnaður fyrir þjóðina er talinn hafa verið um átta milljarðar punda. Ætla má að afleiðingar af slíkum faraldri hér á landi yrðu mjög alvarlegar, jafnvel óbætanlegar fyrir íslenska dýrastofna.

Ítarefni

Uppfært 09.11.2020
Getum við bætt efni síðunnar?