Fara í efni

Slasað eða hjálparlaust dýr

Búfé eða gæludýr

Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum. Sé umráðamaður ekki til staðar og ekki kleift að tilkynna umráðamanni atvikið, skal tilkynna atvikið til lögreglu sem kallar til dýralækni meti hún það svo að ástæða sé til. Umráðamaður dýrs skal bera allan kostnað sem stofnað er til.  

Villt eða hálfvillt (ómerkt) dýr

Sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að gripið sé til aðgerða sé um hálfvillt eða villt dýr að ræða. Það ber því að tilkynna beint til viðkomandi sveitarfélags ef villt dýr, eða hálfvillt dýr, er hjálpar þurfi. Sveitarfélagið kallar til, eða fer með dýrið til dýralæknis meti hún það svo að ástæða sé til.

Ef ekki næst í starfsmenn sveitarfélaga skal atvikið tilkynnt til lögreglu, sem kallar til, eða fer með dýrið til dýralæknis, meti hún það svo að ástæða sé til. Lögregla tilkynnir áfram til sveitarfélags. Sveitarfélag ber allan kostnað sem stofnað er til. Þrátt fyrir hjálparskyldu sem tilgreind er, er sveitarfélagi heimilt að taka ákvörðun um aflífun villtra dýra þegar fyrirsjáanlegur kostnaður vegna aðgerða er verulegur.  Sveitarfélögum er heimilt að setja reglur um framkvæmd endurgreiðslna og skulu þær staðfestar af ráðherra.

Hvalreki

Tilkynna skal hvalreka til lögreglu, t.d. með því að hringja í 112.

Reynið að veita lögreglu eftirfarandi upplýsingar:

  • Staðsetningu (þ.m.t. aðgengi)
  • Tegund og fjölda dýra eftir því sem unnt er, gagnlegt að fá upplýsingar um stærð og hvort um sé að ræða tannhval eða skíðishval. (Best væri ef ljósmynd og/eða skýringarmynd fylgdi)
  • Ástand dýrsins:
    - lifandi og þá hvort það sé sært
    - dautt og þá hvort það sé heilt hræ eða hluti
  • Lýsingu á staðháttum, þ.e. strandstað eða aðstæðum úti á sjó
  • Veður

Viðbragðsteymi fyrir hvali í neyð hóf störf árið 2019, skipað fulltrúum Matvælastofnunar, Almannavarnadeildar ríkislögreglu, Landhelgisgæslu Íslands, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Allar upplýsingar til lögreglu berast til teymisins. Ný viðbragðsáætlun er í smíðum en þangað til gildir eftirfarandi:

Dýr í útrýmingarhættu eða dýr sem lenda í umhverfisslysum

Ráðherra sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra skal þó sjá til þess að gripið sé til slíkra aðgerða sé um að ræða villt dýr af stofni í útrýmingarhættu og dýr sem lenda í umhverfisslysum. Ráðuneyti sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra ber allan kostnað sem stofnað er til skv. 1. mgr. þegar um er að ræða villt dýr sem eru af stofni í útrýmingarhættu. Þrátt fyrir hjálparskyldu sem tilgreind er, er ráðherra heimilt að taka ákvörðun um aflífun villtra dýra þegar fyrirsjáanlegur kostnaður vegna aðgerða er verulegur.  

Ef ekki er hægt að koma dýri í neyð til hjálpar innan hæfilegs tíma

Sé fyrirsjáanlegt að ekki sé hægt að koma dýrinu til hjálpar innan hæfilegs tíma og augljóst er að sjúkdómur dýrs eða meiðsl eru banvæn er heimilt að deyða dýrið, með skjótum og sársaukalausum hætti. Sé um að ræða búfé eða gæludýr skal tilkynna slíka aflífun til Matvælastofnunar.  

Uppfært 03.04.2020
Getum við bætt efni síðunnar?