Fara í efni

Innflutningur hunda

Nýjar reglugerðir um innflutning og einangrun hunda og katta tóku gildi 11. mars 2020. Einangrun styttist úr 28 dögum í 14 daga. Helstu breytingar eru dregnar fram í frétt Matvælastofnunar um málið.

Gera má ráð fyrir að undirbúningur vegna innflutnings hunda til Íslands taki frá nokkrum vikum til allt að 6 mánaða. Mikilvægt er að innflytjendur kynni sér skilyrði til hlítar til að fyrirbyggja að upp komi vandamál sem verða þess valdandi að innflutningi verði hafnað. Ítarlegar leiðbeiningar er að finna á vefnum hér að neðan. Fyrirspurnir eða gögn vegna innflutnings gæludýra skulu berast til petimport@mast.is.

 • Eingöngu er heimilt að flytja hund til íslands frá viðurkenndu útflutningslandi.
 • Innflutningsleyfi útgefið af MAST skal liggja fyrir áður en hundurinn er fluttur til landsins.
 • Innflytjandi skal bóka pláss í einangrunarstöð þar sem hundurinn skal dvelja í að lágmarki 14 daga. 
 • Innflytjandi ber ábyrgð á því að öll innflutningsskilyrði séu uppfyllt. 
 • Allar upplýsingar er að finna í viðeigandi leiðbeiningum (mismunandi fyrir landaflokk 1 og 2)
 • Nota skal viðeigandi vottorðseyðublað (D1 eða D2) 
 • Útfyllt og undirritað vottorð skal senda til MAST til samþykktar í síðasta lagi 5 dögum fyrir innflutning

Umsókn um innflutningsleyfi

 • Fyrsta skrefið í innflutningsferlinu er að sækja um innflutningsleyfi. 
 • Sækja skal um innflutningsleyfi í þjónustugátt MAST. Nota skal rafræn skilríki eða íslykil við innskráningu. Þeir sem búsettir eru erlendis og/eða hafa hvorki rafræn skilríki né íslykil geta notað enskt umsóknareyðublað. Eyðublaðið skal fyllt út, undirritað og sent til petimport@mast.is. 
 • Upplýsingar um útflutningsland, hundategund og örmerki hunds skulu liggja fyrir þegar sótt er um innflutningsleyfi.
 • Þegar umsókn hefur borist Matvælastofnun fær umsækjandi senda greiðslubeiðni vegna eftirlitsgjalds að upphæð kr. 37.400. Gjaldið er vegna umsýslu, innflutningseftirlits á Keflavíkurflugvelli og útskriftarskoðunar í einangrun.
 • Innflutningsleyfið er háð þeim skilyrðum að hundurinn uppfylli öll skilyrði vegna innflutnings skv. reglugerð nr. 200/2020.
 • Innflutningsleyfið gildir í eitt ár frá útgáfu þess.
 • Innflutningsleyfi eru eingöngu gefin út á ensku.

Einangrunarstöðvar og samþykktir komudagar

 1. Einangrunarstöðin í Reykjanesbæ
 2. Mósel / Allir hundar ehf.  Hellu
 • Innfluttir hundar skulu dvelja að lágmarki 14 daga í einangrun.
 • Innflytjandi skal sjálfur sjá um að bóka pláss í einangrun fyrir sinn hund.
 • Hundar skulu fluttir inn á samþykktum komudögum.
 • Innritað er í einangrun á 3-5 daga tímabili (á samþykktum komudögum) og dýr sem eru innrituð á sama tímabili dvelja samtímis í einangrunarstöð. Hvor einangrunarstöð tekur á móti nýjum hópi á að lágmarki 3ja vikna fresti. 
 • Upplýsingar um komudaga/innritunardagsetningar má finna á vefsíðu viðkomandi einangrunarstöðvar. 
 • Þegar innflutningsdagsetning er ákvörðuð skal hafa í huga heilbrigðisskilyrði og tímafresti m.t.t. bólusetninga oþh.
 • Vakni grunur um alvarlegan smitsjúkdóm í dýri í einangrun er Matvælastofnun heimilt að framlengja dvalartími, ýmist allra dýra eða eingöngu þess dýrs sem við á og fer það eftir eðli smitefnis.

Viðurkennd útflutningslönd - landaflokkar 1 og 2

Eingöngu má flytja hunda til Íslands frá viðurkenndu útflutningslandi sbr. viðauka við reglugerð nr. 200/2020. Viðurkennd útflutningslönd eru flokkuð í tvo flokka m.t.t. hundaæðis (e. rabies). Í landaflokki 1 eru lönd án hundaæðis. Í landaflokki 2 eru lönd þar sem hundaæði finnst ekki eða er haldið vel í skefjum. Hundar sem fyrirhugað er að flytja til landsins skulu hafa dvalið í viðurkenndu útflutn­ings­landi síðustu 6 mánuði fyrir innflutning eða frá fæðingu.

Landaflokkur 1

 • Lönd þar sem hundaæði hefur aldrei greinst
 • Lönd sem uppfylla skilgreiningu OIE á rabies free country, m.a. má hundaæði ekki hafa komið upp í landinu sl. 2 ár. 
 • Austurríki, Ástralía, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Færeyjar, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Japan, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur (að Svalbarða frátöldum), Portúgal, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Serbía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn,  Sviss,  Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland, Þýskaland.

Landaflokkur 2

 • Lönd þar sem hundaæði finnst og er tilkynningarskylt og haldið vel í skefjum miðað við þær upplýsingar sem Matvælastofnun hefur.
 • Bandaríkin, Grænland, Kanada, Pólland, Rúmenía, Singapore, Tyrkland.

Lönd sem teljast ekki til viðurkenndra útflutningslanda

 • Lönd þar sem hundaæði er landlægt og ekki tilkynningarskylt.
 • Lönd þar sem hundaæði er landlægt og tillkynningarskylt en enn mikið vandamál.
 • Lönd þar sem ítrekað hafa komið upp vandamál varðandi vottorð og önnur gögn vegna innflutnings dýra.
 • Lönd þar sem alvarlegir dýrasjúkdómar koma upp sem ekki er mögulegt að verjast með bólusetningum, sýnatökum eða með einangrun.
 • Lönd sem ekki hafa verið metin m.t.t. ofangreindra viðmiða. 
 • Eftirtalin lönd hafa verið metin en teljast ekki til viðurkenndra útflutningslanda: Filippseyjar, Hvíta-Rússland, Indland, Kína, Mexíkó, Rússland, Tæland og Úkraína.

Innflutningur gæludýra vegna búferlaflutninga frá landi sem ekki telst til viðurkenndra útflutningslanda 

Matvælastofnun getur heimilað innflutning á hundi eða ketti frá landi sem ekki telst til viðurkennds útflutningslands, ef um er að ræða búferlaflutninga og dýrið hefur verið í eigu og umsjá innflytjanda í a.m.k. sex mánuði fyrir innflutning. Þessu til staðfestingar skal leggja fram gögn sem Matvælastofnun metur gild. Hundur eða köttur sem fluttur er til Íslands á þessum forsendum skal uppfylla heilbrigðisskilyrði samkvæmt landaflokki 2. Sækja skal um leyfi til innflutnings í þjónustugátt MAST (umsókn nr. 2.33).

Reglulegt endurmat viðurkenndra útflutningslanda

Viðauki við reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta verður endurskoðaður tvisvar á ári (í september og í mars). Lönd sem þegar eru í viðaukanum eru þá endurmetin og sjúkdómastaða þeirra könnuð. Auk þess verða tekin til skoðunar lönd sem stofnunin hefur fengið sérstakar beiðnir um að meta, svo og lönd sem áður hafa verið metin en ekki viðurkennd. Stuðst er við sjúkdómalista á vef OIE (Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar) sem er uppfærður reglulega auk vísindagreina um dýrasjúkdóma. Ef niðurstaða matsins felur í sér að gera þurfi breytingar á viðaukanum, þ.e. fjarlægja eða bæta við nýjum löndum eða flytja lönd á milli landaflokka, mun Matvælastofnun senda erindi þess efnis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hægt er að óska eftir mati Matvælastofnunar á viðurkenndum útflutningslöndum sem ekki er að finna á viðauka við gildandi reglugerð um innflutning hunda og katta. Senda skal rökstudda beiðni þess efnis til petimport@mast.is.

Innflutningur hunda frá landaflokki 1 - leiðbeiningar og vottorð

Hér má sækja ítarlegar leiðbeiningar um innflutning hunda frá landi í landaflokki 1. Nauðsynlegt er að kynna sér leiðbeiningarnar vel þegar innflutningur er undirbúinn. 

Vottorðseyðublað D1 skal nota vegna innflutnings hunda frá landi í landaflokki 1. Eyðublaðið er rithæft og mælt er með því að skrá sem mestar upplýsingar í tölvu. Allir reitir vottorðsins skulu vera fylltir út, dagsettir og undirritaðir þar sem við á. 

Senda skal skannað afrit af fullkáruðu, undirrituðu vottorði með opinberri áritun í síðasta lagi 5 dögum fyrir áætlaða innflutningsdagsetningu hundsins, til samþykktar, til petimport@mast.is

Innflutningur hunda frá landaflokki 2 - leiðbeiningar og vottorð 

Hér má sækja ítarlegar leiðbeiningar um innflutning hunda frá landi í landaflokki 2. Nauðsynlegt er að kynna sér leiðbeiningarnar vel þegar innflutningur er undirbúinn. 

Vottorðseyðublað D2 skal nota vegna innflutnings hunda frá landi í landaflokki 2. Eyðublaðið er rithæft og mælt er með því að skrá sem mestar upplýsingar í tölvu. Allir reitir vottorðsins skulu vera fylltir út, dagsettir og undirritaðir þar sem við á. 

Senda skal skannað afrit af fullkáruðu, undirrituðu vottorði með opinberri áritun í síðasta lagi 5 dögum fyrir áætlaða innflutningsdagsetningu hundsins, til samþykktar, til petimport@mast.is

Innflutningur hunda frá landi sem ekki er viðurkennt

Til þess að flytja hund til Íslands frá landi sem ekki er í viðauka við reglugerð nr. 200/2020, skal flytja hundinn fyrst til lands í landaflokki 1 eða 2 og fylgja svo leiðbeiningum um innflutning þaðan. 

Hægt er að sækja um sérstakt mat Matvælastofnunar á því hvort landið geti talist viðurkennt útflutningsland. Nánari upplýsingar er að finna í kaflanum „Reglulegt endurmat viðurkenndra útflutningslanda“ undir „Viðurkennd útflutningslönd“.

Matvælastofnun getur heimilað innflutning á hundi frá landi sem ekki telst til viðurkennds útflutningslands, ef um er að ræða búferlaflutninga og dýrið hefur verið í eigu og umsjá innflytjanda í a.m.k. sex mánuði fyrir innflutning. Þessu til staðfestingar skal leggja fram gögn sem Matvælastofnun metur gild. Hundur sem fluttur er til Íslands á þessum forsendum skal uppfylla heilbrigðisskilyrði samkvæmt landaflokki 2. Sækja skal um leyfi til innflutnings í þjónustugátt MAST (umsókn nr. 2.33).

Viðurkenndar rannsóknarstofur vegna hundaæðis

Allir hundar sem fluttir eru til landsins skulu vera bólusettir gegn hundaæði. Í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu skal taka blóðsýni og senda á rannsóknarstofu þar sem mótefnamæling m.t.t. hundaæðis fer fram. Mælist mótefni jafnt og/eða hærra en 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið til landsins. Ath! ef hundurinn kemur frá landi í landaflokki 2 þá má flytja hann til landsins í fyrsta lagi 90 dögum eftir sýnatöku. Ekki er krafa um slíkan biðtíma ef hundurinn kemur frá landi í landaflokki 1. 

Eingöngu eru teknar gildar rannsóknarniðurstöður vegna hundaæðismótefnamælinga frá viðurkenndum rannsóknarstofum. Evrópusambandið birtir lista yfir þær rannsóknarstofur sem uppfylla skilyrði hvað þetta varðar. Bæði er um að ræða rannsóknarstofur innan og utan ESB. Athugið að nota má hvaða viðurkenndu rannsóknarstofu sem er, ekki er nauðsynlegt að nota rannsóknarstofu í viðkomandi útflutningslandi. 

Viðurkenndar rannsóknarstofur m.t.t. mælinga á hundaæðismótefni

Óheimill innflutningur

Óheimilt er að flytja inn:

 • Hvolpafullar tíkur og tíkur með hvolpa á spena.
 • Dýr sem hafa slasast eða undirgengist aðgerðir fyrir innflutning, allt fram að innflutningsdegi, og/eða þarfnast aukins eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar.
 • Blendinga af úlfum og hundum í a.m.k. 10 ættliði.

Hunda  af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim í a.m.k. fimm ættliði:

 1. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier.
 2. Fila Brasileiro.
 3. Toso Inu.
 4. Dogo Argentino.
 5. Aðrar hundategundir eða blendinga, samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar í hverju tilfelli. Sem dæmi um hundategundir sem Matvælastofnun hefur synjað skv. ofangreindu eru tegundir sem eru skyldar þeim sem eru bannaðar. Vinsamlega leitið upplýsinga hjá stofnuninni ef vafi leikur á um hundategund sem fyrirhugað er að flytja inn.

 Komi í ljós við komu dýrs til landsins að ofangreint eigi við um hund sem fluttur hefur verið inn, fellur innflutningsleyfi úr gildi.

Innflutningur hjálparhunda

Matvælastofnun getur heimilað að hjálparhundur sem ferðast með eiganda sínum og fluttur er til landsins dvelji í heimaeinangrun, í híbýlum þar sem eigandi/innflytjandi dvelur á meðan einangrunartíma stendur. Hjálparhundur er skilgreindur sem leiðsöguhundur fyrir blinda, merkjahundur fyrir heyrnarskerta eða hjálparhundur fyrir hreyfihamlaða, flogaveika og sykursjúka og hefur vottaða þjálfun sem samþykkt er af Matvælastofnun.

Heilbrigðisskilyrði fyrir hjálparhunda eru þau sömu og gilda um aðra hunda og taka mið af útflutningslandi hunds, þ.e. hvort hundurinn hafi dvalið í landi í landaflokki 1 eða 2 síðustu 6 mánuði fyrir innflutning. Vísað er í leiðbeiningar D1 (landaflokkur 1) eða D2 (landaflokkur 2) eftir því sem við á varðandi upplýsingar um kröfur sem varða bólusetningar, sýnatökur og önnur heilbrigðisskilyrði. Sækja skal um leyfi til innflutnings og heimaeinangrunar hjálparhunds í þjónustugátt MAST (umsókn nr. 2.33).

Innflutningur hundasæðis

Innflutningur á djúpfrystu hundasæði er heimill að uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis og reglugerð nr. 202/2020 um breytingu á reglugerð nr. 935/2004. Reglur um landaflokka (sjá hér að ofan) gilda einnig um innflutning hundasæðis. 

Lög og reglugerðir

Reglugerðir um innflutning og einangrun hunda og katta eru settar með stoð í eftirfarandi lögum:

Gildandi reglugerðir um innflutning og einangrun hunda og katta tóku gildi 11. mars 2020. Breytingarreglugerð nr. 1152/2020 tók gildi 11. nóvember 2020 og felur í sér fyrstu endurskoðun á viðauka I um viðurkennd útflutningslönd. 

 

Uppfært 31.08.2021
Getum við bætt efni síðunnar?