Fara í efni

Innflutningur hunda

Nýjar reglugerðir um innflutning og einangrun hunda og katta tóku gildi 11. mars 2020. Einangrun styttist úr 4 vikum í 14 daga. Helstu breytingar eru dregnar fram í frétt Matvælastofnunar um málið. Leiðbeiningar, vottorð og önnur gögn verða birt hér á vefnum jafnóðum og þau verða tilbúin.

Gera má ráð fyrir að undirbúningur vegna innflutnings hunda til Íslands taki frá nokkrum vikum og allt að 6 mánuði. Mikilvægt er að innflytjendur kynni sér skilyrði til hlítar til að fyrirbyggja að upp komi vandamál á lokametrunum sem verði þess valdandi að innflutningi verði hafnað. Ítarlegar leiðbeiningar er að finna hér á vefnum. Fyrirspurnir eða gögn vegna innflutnings gæludýra skulu berast til petimport@mast.is.

Viðurkennd útflutningslönd

Eingöngu má flytja hunda og ketti til Íslands frá viðurkenndu útflutningslandi.

Viðurkennd útflutningslönd eru flokkuð í tvo flokka m.t.t. hundaæðis. Í fyrsta flokki eru lönd án hundaæðis. Í öðrum flokki eru lönd þar sem hundaæði finnst ekki eða er haldið vel í skefjum. Hundar og kettir sem fyrirhugað er að flytja til landsins skulu hafa dvalið í viðurkenndu útflutn­ings­landi síðustu sex mánuði fyrir innflutning eða frá fæðingu, eða öðru útflutningslandi sem er í sama flokki m.t.t. hundaæðis.

Ef land sem innflytjandi hyggst flytja inn hund eða kött frá er ekki á listanum, getur hann sótt um sérstakt mat Matvælastofnunar á því hvort landið geti talist viðurkennt útflutningsland. Við mat á því hvort land geti talist viðurkennt útflutningsland skal Matvælastofnun miða við sjúkdóma­stöðu hundaæðis og hvort staða sé sambærileg við lönd sem tilgreind eru í viðauka I. 

Lönd án hundaæðis (1. fl.)

 • Lönd þar sem hundaæði hefur aldrei greinst
 • Lönd sem uppfylla skilgreiningu OIE á rabies free country (þ.e. miðað við þær upplýsingar sem Matvælastofnun hefur) – m.a. má hundaæði ekki hafa komið upp á undanförnum 2 árum. Hér á meðal eru öll ESB lönd þar sem þau uppfylla skilyrði OIE nema í þeim tilfellum sem hundaæði hefur komið upp undangengin tvö ár.

Lönd þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum (2. fl.)

 • Lönd þar sem hundaæði finnst og er tilkynningarskylt og haldið vel í skefjum miðað við þær upplýsingar sem Matvælastofnun hefur.

Lönd sem teljast ekki til viðurkenndra útflutningslanda

 • Lönd utan ESB þar sem hundaæði er landlægt og ekki tilkynningarskylt (hvort sem um ræðir í húsdýrum eða villtum dýrum).
 • Lönd þar sem hundaæði er landlægt og tillkynningarskylt en enn mikið vandamál.
 • Lönd þar sem ítrekað hafa komið upp vandamál (amk gagnvart Íslandi) varðandi vottorð og önnur gögn vegna innflutnings dýra.
 • Lönd þar sem alvarlegir dýrasjúkdómar koma upp sem ekki er mögulegt að verjast með bólusetningum, sýnatökum eða með einangrun (sem dæmi má nefna hundaveikina í Noregi sem kom upp haustið 2019, framan af var smitefni og smitleiðir óþekktar).

Lönd án hundaæðis - 1. flokkur

Austurríki
Ástralía
Belgía
Bretland
Búlgaría
Danmörk
Eistland
Finnland
Frakkland
Færeyjar
Grikkland
Holland
Írland
Ítalía
Japan
Króatía
Kýpur
Lettland
Liechtenstein
Lúxemborg
Malta
Noregur (að Svalbarða frátöldum)
Portúgal
Slóvakía
Slóvenía
Spánn
Sviss
Svíþjóð
Tékkland
Þýskaland

Lönd þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum - 2. flokkur

Bandaríkin (áhættuland m.t.t. hundainflúensu)
Grænland
Kanada (áhættuland m.t.t. hundainflúensu)
Litháen
Pólland
Rúmenía
Serbía
Singapore (áhættuland m.t.t. hundainflúensu)
Tyrkland
Tæland

Leiðbeiningar og vottorð fyrir innflutning frá löndum í 1. flokki

Leiðbeiningar - innflutningur hunda frá löndum í 1. flokki (pdf)
Vottorð D1 - innflutningur hunda frá löndum í 1. flokki  (pdf) (eingöngu á ensku)

Leiðbeiningar og vottorð fyrir innflutning frá löndum í 2. flokki

Leiðbeiningar - innflutningur hunda frá löndum í 2. flokki (pdf)
Vottorð D2 - innflutningur hunda frá löndum í 2. flokki (pdf) (eingöngu á ensku)

Umsókn um innflutningsleyfi

 • Sækja skal um innflutningsleyfi í þjónustugátt MAST. Nota skal rafræn skilríki eða íslykil við innskráningu.
 • Upplýsingar um útflutningsland, hundategund og örmerki hunds skulu liggja fyrir þegar sótt er um innflutningsleyfi.
 • Þegar umsókn hefur borist Matvælastofnun fær umsækjandi senda greiðslubeiðni vegna eftirlitsgjalds að upphæð kr. 37.400. Gjaldið er vegna umsýslu vegna vottorða, innflutningseftirlits á Keflavíkurflugvelli og útskriftarskoðunar í einangrun.
 • Innflutningsleyfið er háð þeim skilyrðum að hundurinn uppfylli öll skilyrði vegna innflutnings skv. reglugerð nr. 200/2020.
 • Innflutningsleyfið gildir í eitt ár frá útgáfu þess.
 • Innflutningsleyfi eru eingöngu gefin út á ensku.

Einangrunarstöðvar

 1. Einangrunarstöðin í Reykjanesbæ
 2. Mósel / Allir hundar ehf.  Hellu
 • Innflytjandi skal sjálfur sjá um að bóka pláss í einangrun fyrir sinn hund.
 • Innfluttir hundar skulu dvelja að lágmarki 14 daga í einangrun.
 • Öll dýr sem dvelja samtímis í einangrunarstöð skulu innrituð á 3-5 daga tímabili. Upplýsingar um komudaga/innritunardagsetningar má finna á vefsíðu viðkomandi stöðvar. Taka þarf mið af heilbrigðisskilyrðum (tímafrestum o.þ.h) þegar innflutningsdagsetning er ákvörðuð.
 • Vakni grunur um alvarlegan smitsjúkdóm í dýri í einangrun er Matvælastofnun heimilt að framlengja dvalartími, ýmist allra dýra eða eingöngu þess dýrs sem við á og fer það eftir eðli smitefnis.

Viðurkenndar rannsóknarstofur vegna hundaæðis

Allir hundar sem fluttir eru til landsins skulu vera bólusettir gegn hundaæði. Í fyrsta lagi 30 dögum síðar skal taka blóðsýni og senda á rannsóknarstofu þar sem mótefnamæling m.t.t. hundaæðis fer fram. Mælist mótefni jafnt og/eða hærra en 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið til landsins. Ath! ef hundurinn kemur frá landi í flokki 2 þá má flytja hann til landsins í fyrsta lagi 90 dögum eftir sýnatöku. Ekki er krafa um slíkan biðtíma ef hundurinn kemur frá landi í flokki 1. 

Eingöngu eru teknar gildar rannsóknarniðurstöður vegna hundaæðismótefnamælinga frá viðurkenndum rannsóknarstofum. Evrópusambandið birtir lista yfir þær rannsóknarstofur sem uppfylla skilyrði hvað þetta varðar. Bæði er um að ræða rannsóknarstofur innan og utan ESB. Athugið að nota má hvaða viðurkenndu rannsóknarstofu sem er, ekki er nauðsynlegt að nota rannsóknarstofu í viðkomandi útflutningslandi. 

Viðurkenndar rannsóknarstofur m.t.t. mælinga á hundaæðismótefni

Lög og reglugerðir

Reglugerðir um innflutning og einangrun hunda og katta eru settar með stoð í eftirfarandi lögum:

Gildandi reglugerðir um innflutning og einangrun hunda og katta tóku gildi 11. mars 2020.

Innflutningur hundasæðis

Uppfært 31.03.2020
Getum við bætt efni síðunnar?