Fara í efni

Um joðneyslu landsmanna

 

Vissir þú að í síðustu landskönnun á mataræði hér á Íslandi sem framkvæmd var á árunum 2019 til 2021 kom í ljós að joðneysla hefur minnkað um 20% að meðaltali?

Samanborið frá síðustu landskönnun sem framkvæmd var 10 árum áður eða á árinu 2010 til 2011 hefur joðneyslan minnkað talsvert eða úr 167 mikrógrömmum (µg) í 134 míkrógrömm að meðaltali á dag. Breytingin er sérstaklega mest hjá yngsta aldurshópi kvenna (18-39 ára) en neysla 24% kvenna í þeim aldurshópi er undir lágmarksþörf á joði (70 µg) og má það skýra með minni mjólkurneyslu og lítillar fiskneyslu í þeim hópi. Sjá umfjöllum um það neðst undir ítarefni.

Vissir þú að joðskortur og tengd skaðlegheilsufarsleg áhrif hans er einn algengasti næringartengdi sjúkdómurinn í heiminum?
Joðskortur á Íslandi!

Eitt útbreiddasta einkenni joðskorts er röskun á starfsemi skjaldkirtils. Joð er nauðsynlegt fyrir myndun skjaldkirtilshormónanna triiodothyronine (T3) og thyroxine (T4) en þau taka þátt í stjórnun fjölmargra efnaskiptaferla þar á meðal eðlilegs heilaþroska.

Joðskortur er í fyrsta sinn farinn að mælast á Íslandi og það meðal barnshafandi kvenna. Árið 2020 birtist ný rannsókn um joðhag barnshafandi kvenna á Íslandi. Niðurstöður, sjá neðst undir ítarefni, sýna að miðgildi joðstyrks í þvagi var 89 míkrógrömm per líter en það magn er langt undir því sem ráðlagt er af Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) fyrir barnshafandi konur eða 150 µg/L and 249 μg/L.

Joð mikilvægt á meðgöngu!

Joð er mikilvægt næringarefni sem líkaminn notar í snefilmagni við myndun skjaldkirtilshormóna sem aftur á móti gegna mikilvægu hlutverki á meðgöngu. Á meðgöngu er aukin þörf fyrir joð (175 µg á dag) en ráðlagður dagskammtur af joði fyrir fullorðna er 150 µg/dag. Joð er mikilvægt fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu og því þurfa barnshafandi konur að tryggja að nægjanlegt magn af joði sé til staðar á þessum tíma. Upplýsingar um mikilvægi joðs á meðgöngu er hægt að finna á heimasíðu Heilsugæslu, sjá neðst undir ítarefni.

Ójafnvægi í starfsemi skjaldkirtils getur hins vegar leitt til ýmissa einkenna og  því er afar mikilvægt líkaminn fá ekki of lítið og heldur ekki of mikið.
Fylgjum ráðleggingum yfirvalda

Ráðlagður dagskammtur (RSD) af joði er 150 míkrógrömm fyrir fullorðna, 175 míkrógrömm fyrir barnshafandi konur og 200 míkrógrömm fyrir konur með barn á brjósti. Hérna er hægt að skoða RDS fyrir alla aldurshópa.

Mataræði ætti að vera helsta uppspretta joðs fyrir líkamann. Helstu joðgjafar fæðunnar eru fiskur, aðallega magur fiskur eins og ýsa og þorskur og mjólk og mjólkurvörur. Ef af einhverjum ástæðum, matvæla úr þessum matvælaflokkum er ekki neytt, þarft að huga að því að taka fæðubótarefni sem innihalda 150 míkrógrömm af joði á dag. Þari eða þaratöflur eru joðgjafar en þar sem þari getur innihaldið joð í miklu magni er ekki æskilegt að neyta hans á meðgöngu þar sem hugsanleg ofneysla getur valdið  fósturskaða. Forðast skal inntöku á meira en 600 míkrógrömmum af joði á dag en það eru efri þolmörk joðs fyrir fullorðin einstakling og barnshafandi konur, skv. áliti vísindanefndar Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA, European Food Safety Authority) um efri öryggismörk (tolerable Upper Levels of intake, UL) fyrir joð.

Fæðubótarefni með joði - Hvað þarf að hafa í huga?

Matvælastofnun ráðleggur neytendum að skoða vel upplýsingar á umbúðum fæðbótarefna með joði og kaupa ekki fæðubótarefni sem innihalda meira en 600 µg joð á dag en það er efri öryggismörk (UL) þess efnis. Fyrir börnin eru efri öryggismörk lægri eða um 200 µg/dag.  

Hafðu eftirfarandi í huga:

  • Fæðubótarefni er alltaf merkt með magn joðs sem ráðlagður daglegur neysluskammtur í míkrógrömmum (µg) og hlutfall næringarviðmiðunargildis, NV (í %).
  • Joð getur verið merkt á ýmsum tungumálum, t.d. á ensku heitir það iodine
  • Leyfilegt er að nota ýmsar blöndur t.d. natrímjoðíð eða kalíumjodat svo dæmi séu nefnd.
  • Fæðubótarefni sem kallast "steinefnablanda" innihalda stundum ekki joð, mikilvægt er því alltaf að lesa vel á umbúðir vara.
Ítaefni

Upplýsingar um joð á meðgöngu "Joð mikilvægt á meðgöngu"

Íslensk rannsókn um joð á meðgöngu  "Insufficient iodine status in pregnant women as a consequence of dietary changes"

Uppfært 11.09.2023
Getum við bætt efni síðunnar?