Fara í efni

Skilgreining

Í 2. gr. reglugerðar nr. 624/2004 eru fæðubótarefni skilgreind sem:

Matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og sem eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif. Þessi efni geta verið ein sér eða blönduð saman, og eru markaðssett í formi skammta, nánar tiltekið sem hylki, brjóstsykur, töflur, pillur og í öðru svipuðu formi, duftpokar, vökvaampúlur, dropaglös og í öðru svipuðu formi vökva og dufts sem er ætlað til inntöku í mældum, smáum skömmtum.

 Nánari skýring

Fæðubótarefni eru mismunandi vörur en allar hafa það sameiginlegt að vera viðbót við venjulegt fæði og innihalda hátt hlutfall næringarefna (e. concentrated sources of nutrients) eða annarra efna (e. other substances). Næringarefni er skilgreint skv. reglugerð sem vítamín og steinefni. Fæðubótarefni skulu koma tilbúin í neytendaumbúðum og auk vítamína og steinefna geta innihaldið þau amínosýra, trefja, plöntuhluta (lauf, blóm, rót o.fl.) eða dýraafurðir (hjarta, lifur, rækjuskel), útdrætti úr jurtum eða önnur efni. Þau geta einnig innihaldið næringarefni sem eru efnafræðilega framleitt.

Hugtakið fæðubótarefni nær sem sagt yfir lýsi, hefðbundnar vítamín- eða steinefnatöflur/hylki, vörur unnar úr plöntuhlutum eins og hvítlauksduft eða túrmerik og útdráttum úr þeim t.d. kúrkúmín.

Það sem er sameiginlegt með öllum fæðubótarefnum:

Þau innihalda hátt magn vítamína, steinefna eða annarra efna sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif.

Þau eru markaðsset í mældum, smáum skömmtum t.d. í formi töflu, vökva- og eða duftsformi.

Ráðlagður daglegur neyslukammtur eða hversu mikils skal neyta á dag skal tilgreint. T.d. tvær töflu á dag.

Próteinduft eða næringarduft -  fæðubótarefni?

Ef um er að ræða næringarduft, sem ætlað er til notkunar í smáum, afmældum skömmtum (t.d. 1-2 matskeiðar á dag, allt að 60 g) gæti slík vara flokkast sem fæðubótarefni jafnvel þó að neytandinn hræri duftið út í glasi af vatni. Það er þó álit Matvælastofnunar að vara sem inniheldur t.d. eingöngu prótein eða eingöngu kolvetni, geti ekki flokkast sem fæðubótarefni þar sem slík vara er í raun fæða og inniheldur ekkert umfram önnur matvæli, þ.e. er engin viðbót við fæðu. Slík vara myndi falla undir lög og reglur, sem almennt gilda um matvæli. Þar að auki má nefna að ef vara inniheldur verulegt magn orku þá getur slík vara ekki talist sem viðbót við fæðu, heldur er hún fæða.

Orkuskot með vítamínum og/eða koffíni er fæðubótarefni

Á markaði eru fáanlegar vörur í einskonar sopa formi (orkuskot, e. energy shot, vitamin shot). Þá er um að ræða litlar flöskur með vökva oft u.þ.b. 60 mL, sem innihalda hátt hlutfall vítamína, steinefna eða annarra efna, oft koffíns. Slíkar drykkjarvörur flokkast sem fæðubótarefni.

Drykkjavörur með vítamínum/steinefnum – fæðubótarefni?

Tilbúnir drykkir seldir á stórum einingum í flöskum geta ekki flokkast sem smáir afmældir skammtar og þess vegna geta hvorki próteindrykkir né orkudrykkir flokkast sem fæðubótarefni.

Próteinstykki eða orkustykki undir aðra reglugerð

Vara sem inniheldur íblönduð vítamín, steinefni eða önnur efni með lífeðlisfræðilega virkni, fellur ekki undir skilgreininguna, fæðubótarefni (sbr. skilgreiningu 2. gr. og skýringar hér að ofan). Þær vörur eru skilgreindar sem: „matvæli með íblönduðum bætiefnum“, t.d. próteinstykki eða orkustykki. Sjá upplýsingasíðu Matvælastofnunar um íblöndun.

Uppfært 15.07.2022
Getum við bætt efni síðunnar?