Fara í efni

Bisfenol A

Efnið Bisfenól-A (BPA) er lífrænt efnasamband sem notað er við framleiðslu á ýmsum plastefnum, eins og pólýester, pólýsúlfón og pólýeter keton, sem þráavarnarefni í mýkingarefni og til þess að hindra fjölliðun í pólývínílklóríð (PVC). Það gegnir lykilhlutverki í framleiðslu á pólýkarbónat plasti og epoxýresíni.

Í hvaða vörum er BPA ?

Pólýkarbónat plast er notað í ýmsar algengar vörur eins og vatnsflöskur, ýmiskonar íþróttavörur, lækningaáhöld, geisladiska og fleira.  

Epoxý resín eru notuð til húðunar í dósir sem ætlaðar eru matvælum bæði niðursuðudósir og dósir fyrir drykkjavörur og einnig í sauma á niðursuðudósum.

Hvernig kemst BPA í matvæli ?

Sýnt hefur verið fram á að BPA lekur út í vökva úr plastílátum og hætt er við að því meira sem þau eru notuð og ef þau eru hituð margfaldist lekinn. Það sama á við ef heitum vökva er hellt í ílát.

Lökk sem notuð eru í niðursuðudósir eru þannig úr garði gerð að þau eru efnafræðilega óvirk og harðgerð, enda þurfa þau að þola háan hita, langan geymslutíma í snertingu við matvæli og fjölbreytilegt sýrustig án þess að brotna niður og/eða berast í dósamatinn. Þrátt fyrir góða framleiðsluhætti við lökkun dósa hefur það komið í ljós að leifar af BPA geta stundum borist í matvæli og því hafa verið sett mörk fyrir leyfilegt hámarksmagn þess í matvælum. Ástæða þess að BPA berst í matvæli getur verið sú að ekki hafi allar einingar þess náð að bindast í lakkinu eða að lakkið hefur ekki þolað meðferð og farið að brotna niður aftur.

Hvaða áhrif hefur BPA á fólk ?

Á síðustu árum hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á BPA, bæði eiturefnafræðilegum áhrifum þess og einnig hugsanlegu flæði í matvæli við mismunandi aðstæður. Hvað eiturefnafræðileg áhrif varðar er eingöngu um dýrarannsóknir að ræða og umdeilt að hve miklu leyti og hvernig hægt er að yfirfæra niðurstöður þeirra yfir á mannfólkið.

Rannsóknir hafa sýnt fram á margvíslegan skaða af völdum BPA en niðurstöður eru mismunandi hvað varðar þann styrkleika sem leiðir til hættu. Nægilegar sannanir eru fyrir því að það líki eftir estrógeni og trufli með því starfsemi í innkirtlum líkamans. Sýnt hefur verið fram á að það geti leitt til þess að dregið geti úr eðlilegum þroska heilans og taugakerfis og einnig valdið ófrjósemi og þroskafrávikum.

Hvaða reglur gilda um notkun BPA?

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 1935/2004, um efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli, eru almennar kröfur um öryggi efna og hluta. Þar segir að efni og hlutir skulu framleidd þannig að efnisþættir þeirra berist ekki frá þeim, við eðlileg og fyrirsjáanleg notkunarskilyrði, yfir í matvæli í því magni að heilsu manna stafi hætta af.

Reglur um efni og hluti úr plasti sem ætlað er að snerta matvæli kveða á um hámarksflæði BPA í matvæli en flæðimörk fyrir BPA úr plasti eru 0,05 mg/kg. Með flæði er átt við að efni geti borist úr umbúðum/ílátum yfir í matvæli. 

Uppfært 30.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?