Fara í efni

Fræ/sáðvara

Matvælastofnun hefur eftirlit með innflutningi og útflutningi á fræjum með hliðsjón af gæðaeiginleikum eins og hreinleika og spírunarhæfni. Ísland hefur innleitt reglur Evrópusambandsins um fræ nytjajurta og viðurkenningu yrkja og Matvælastofnun sér um að framfylgja þeim. Þótt smit vissra sjúkdóma geti borist með fræjum er sú hætta einkum fyrir hendi þegar um annars konar sáðvöru er að ræða s.s. útsæðiskartöflur, græðlinga og smáplöntur.

Innflutningur

Innflutningur sáðvöru fellur undir reglugerð um eftirlit með sáðvöru með síðari breytingum. Sáðvara er skilgreind í reglugerðinni sem "Allt nytjajurtafræ sem ætlað er til garðræktar, túnræktar, grasflatagerðar, grænfóðurræktar, kornræktar, landgræðslu, iðnaðar eða til frekari fræræktar og er undir opinberu gæðaeftirliti". 

Heimilt er að flytja inn þau yrki nytjategunda sem tilgreind eru á innlendum sáðvörulista (sjá lista að ofan) yfir viðurkenndar tegundir eða í sameiginlegri skrá Evrópusambandsins (EU Common Catalogue) og ef sáðvaran uppfyllir sett skilyrði um gæði sem koma fram í reglugerð.

Innflytjanda ber að tilkynna Matvælastofnun um innflutning á sáðvöru. Eftirfarandi gögn þurfa að berast til Matvælastofnunar til samþykkis áður en innflutningsleyfi er veitt:

  1. Tilkynning um innflutning á Þjónustugátt stofnunarinnar.
  2. Gæðavottorð (Analysis certificate) um m.a. hreinleika og spírunarhæfni.
  3. Vörureikningur.
Athugið að sáðvöruverslanir skulu vera viðurkenndar af Matvælastofnun. Sáðvara verður að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í reglugerðinni um gæði og vera á lista yfir viðurkenndar tegundir til að hana megi selja hér á landi.

Innflutningur á iðnaðarhampi

Um innflutning og markaðsetningu sáðvöru fer í reglugerð nr. 301/1995 um eftirlit með sáðvöru og þarf að tilkynna innflutning til Matvælastofnunar um Þjónustugátt. Almennt eru tilkynningar um innflutning á sáðvöru sendar á Þjónustugátt Matvælastofnunar um eyðublað 5.01 en þegar um iðnaðarhampsfræ er að ræða skal nota eyðublað 5.08. Nota þarf rafræn skilríki eða Íslykil til þess að skrá sig inn á Þjónustugátt MAST.

Til þess að flytja inn iðnaðarhampsfræ þarf að fylla út tilkynningu 5.08 og með tilkynningu um innflutning þarf að fylgja:

  1. Gæðavottorð frá rannsóknarstofu (spírun og hreinleiki)
  2. Staðfesting á að um skráð yrki á sáðvörulista ESB sé að ræða
  3. Vörureikningur

Fylgiskjöl skulu vera á íslensku, ensku, norsku, sænsku eða dönsku.

Eftir móttöku tilkynningar um innflutning fer stofnunin yfir umsóknina ásamt fylgiskjölum og gefur út MST númer í tölvupósti uppfylli hún þau skilyrði sem fyrir liggja.

Eftirlit með gæðum

Sáðvara sem flutt er til landsins þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að heimilt sé að versla með hana. Matvælastofnun sér um eftirlit með sáðvöru samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 301 frá 1995 og breytingu á henni nr. 202 frá 1996. Hlutverk þess er að sjá um að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt og gefa út innflutningsheimildir fyrir sáðvöru sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í reglugerðinni.

Matvælastofnun á að koma í veg fyrir að sáðvara sem ekki uppfyllir þessi skilyrði fari á markað og vernda þannig hagsmuni bænda og annarra sem sáðvöruna nota. Í 1. viðauka reglugerðarinnar eru taldar upp þær plöntutegundir sem eru skilgreindar sem sáðvara á Íslandi. Gefin hefur verið út opinber listi yfir stofna af sáðvöru sem rækta má undir opinberu eftirliti og viðurkenna til sölu hér á landi. Ekki hefur verið gefinn út listi yfir þau afbrigði sem má nota til ræktunar á Íslandi og þ.a.l. má selja hér hvaða afbrigði sem er, hvort sem það á einhverja möguleika á því að vaxa hér eða ekki. Hins vegar gefur Landbúnaðarháskóli Íslands (Lbhi) í samvinnu við Bændasamtök Íslands út á hverju ári lista yfir yrki sem mælt er með að nota hér á landi, þ.e. afbrigði sem vitað er að geti vaxið hér. Þennan lista er hægt að fá hjá Lbhi (sími 433-5202) og einnig er hægt að leita til sérfræðinga þar ef bændur eru í vafa um hvort tiltekið yrki hentar til notkunar hér.

Lífræn ræktun

Erfitt getur reynst að verða sér úti um lífrænt vottuð fræ og sáðvöru. Þeir sem eru með vottaða framleiðslu geta sótt um undanþágu til Matvælastofnunar til að nota fræ, útsæði eða sáðvöru ur hefðbundinni ræktun, en fræin mega ekki hafa verið meðhöndluð með efnum. Sótt er um í þjónustugátt Mast, sjá nánar hér um lífræna ræktun.

Ítarefni

Uppfært 12.10.2023
Getum við bætt efni síðunnar?