Fara í efni

Húðunarefni í dósum

Varasöm efni í lakki niðursuðudósa

Á síðustu árum hefur því oft verið varpað fram að frjósemi manna í hinum vestræna heimi fari minnkandi og hin ýmsu efni nefnd til sögunnar sem hugsanlegir sökudólgar. Eitt af þeim er Bisfenól A (BPA) sem notað er í ákveðna tegund af lakki sem algengt er að nota í niðursuðudósir. Einnig hefur það heyrst í fjölmiðlum að krabbameinsvaldandi efni kunni að finnast í dósamat og efnið BADGE (bisfenól-a-diglycidyleter) verið nefnt í því sambandi. Eins og nafnið gefur til kynna er það m.a. myndað úr Bisfenól A.

Lökk sem notuð eru í niðursuðudósir eru þannig úr garði gerð að þau eru efnafræðilega óvirk og harðgerð, enda þurfa þau að þola háan hita, langan geymslutíma í snertingu við matvæli og fjölbreytilegt sýrustig án þess að brotna niður og/eða berast í dósamatinn. Þrátt fyrir góða framleiðsluhætti við lökkun dósa hefur það komið í ljós að leifar af BPA geta stundum borist í matvæli og því hafa verið sett mörk fyrir leyfilegt hámarksmagn þess í matvælum.

Ástæða þess að BPA berst í matvæli getur verið sú að ekki hafi allar einingar þess náð að bindast í lakkinu eða að lakkið hefur ekki þolað meðferð og farið að brotna niður aftur. Athygli manna varðandi flæði á BADGE í matvæli hefur einkum beinst að notkun þess sem aukefni (bindiefni eða mýkingarefni) í lökkum úr lífrænum efnum (PVC) til notkunar á dósalok sem hægt er að opna með einu handtaki (easy-open lids). Þegar BADGE er notað sem aukefni, í stað þess að vera hluti af lakkinu sjálfu, er það ekki eins vel bundið í lakkinu og getur því átt það til að berast í matvæli. Það er rétt að undirstrika það að grunur manna um hugsanlegt flæði efna eins og bisfenól-A eða BADGE úr dósum í matvæli á einkum við fiturík matvæli við ákveðnar aðstæður. Þetta á því ekki við um dósamat almennt eða drykki í áldósum.

Á síðustu árum hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á BPA, bæði eiturefnafræðilegum áhrifum þess og einnig hugsanlegu flæði í matvæli við mismunandi aðstæður. Hvað eiturefnafræðileg áhrif varðar er eingöngu um dýrarannsóknir að ræða og umdeilt að hve miklu leyti og hvernig hægt er að yfirfæra niðurstöður þeirra yfir á mannfólkið. Áhyggjur manna hafa einkum beinst að því að BPA hafi svipuð áhrif og kvenhormónið estrógen og geti þannig virkað á hormónakerfi líkamans. Niðurstöður dýrarannsókna hafa í sumum tilvikum sýnt fram á áhrif efnisins á frjósemi tilraunadýra.

Það er samdóma álit flestra sérfræðinga að sum efni geti í miklu magni haft áhrif á hormónastarfsemi mannslíkamans en ekki hefur tekist að sýna fram á þessi tengsl svo óyggjandi sé þegar um lágan styrk efnanna er að ræða. Efni eins og BPA er í afar lágum styrk í niðursuðudósum. Má sem dæmi nefna að þau 47 kg af mat og drykk í dósum sem neytt er að meðaltali af manni á ári í Evrópu, er í snertingu við aðeins 30 g af lakkhúð í umbúðum matvælanna. Danir hafa áætlað að hugsanleg inntaka af BPA á ári í Danmörku sé innan við 1 mg/mann. Þegar niðurstöður þeirra dýrarannsókna sem sýnt hafa fram á áhrif BPA á frjósemi tilraunadýra eru skoðaðar, má sjá að lægsti styrkur sem sýndi áhrif var 50 mg/kg/dag eða álíka og hver Dani myndi hugsanlega neyta á allri sinni ævi.

Á síðustu árum hafa miklar rannsóknir á BADGE verið í gangi víða í Evrópu og á þessu ári setti Vísindanefnd ESB hámarksgildi fyrir þetta efni í matvælum tímabundið til þriggja ára. Þrátt fyrir víðtækar rannsóknir vantar enn uppá þannig að hægt sé að ákvarða endanlegt hámarksgildi. Það mun bíða þar til frekari niðurstöður liggja fyrir.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að í tilvikum þar sem BADGE hefur fundist í magni umfram viðmiðunargildi er aðallega um fremur fiturík matvæli að ræða í auðopnanlegum dósum, enda er BADGE leysanlegt í fitu. Sem dæmi má nefna ansjósur og sardínur í olíu. Af þeim sökum hafa framleiðendur dósa og lakka í Evrópu tekið saman höndum við þróun á öðrum efnum sem gætu leyst BADGE af á þessum vettvangi. BADGE blandað lífrænum lökkum er því ekki notað lengur fyrir vörur eins og fisk í olíu og gert ráð fyrir því að notkun slíkra lakka verði lítil sem engin í Evrópu áður en langt um líður.

Það hefur sýnt sig að þessar aðgerðir skiluðu árangri því strax á árinu 1997 sýndu kannanir að mun minna mældist af BADGE í sýnum sem þá voru á markaði samanborið við árin á undan. Á síðustu árum hafa athuganir vísindamanna einnig beinst að niðurbrotsefnum BADGE, sem myndast við ákveðnar aðstæður (önnur en Bisfenól-A) og upplýsingum verið safnað til að unnt væri að meta hugsanleg áhrif þeirra á heilsu manna. Meðal annars hefur verið rannsakað hvort efnin hafi krabbameinsvaldandi áhrif. BADGE var í fyrstu talið geta haft stökkbreytandi (mutagenic) áhrif og því ástæða til að skoða það til hlítar. Fyrirliggjandi rannsóknir eru takmarkaðar en ekki hefur verið sýnt fram á krabbameinsvaldandi áhrif á tilraunadýr. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á áhrif á frjósemi og fjölgun tilraunadýra eða fósturþroska.

Það er hagur bæði framleiðenda og neytenda að sýnt verði fram á öryggi allra matvæla í dósum, en eftirlit á þessu sviði hefur af ýmsum ástæðum verið takmarkað. Helsta ástæðan er sú að skort hefur samræmda löggjöf á þessu sviði en einnig er hér um tímafrekar og kostnaðarsamar mælingar að ræða. Mest áhersla hefur því verið lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og innra eftirlit hjá framleiðendum sem á að tryggja rétta efnanotkun og góða framleiðsluhætti. Bætt framleiðslutækni er einnig mikilvæg sem og takmörkun á notkun lakka við ákveðnar aðstæður. Það er ljóst að ábyrgð framleiðenda er mikil og samstarf í þessum iðnaði mikilvægt. Eins og fram hefur komið hefur það þegar skilað töluverðum árangri og líklegt að svo verði áfram.

Uppfært 08.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?