Fara í efni

Almennar merkingar

Um merkingar matvæla gildir reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öfluga neytendavernd í tengslum við matvælaupplýsingar. Reglugerðin gerir kröfu um skýrar, ítarlegar og nákvæmar upplýsingar um innihald matvæla. Hún gildir á öllum stigum matvælaferlisins þegar starfsemi varðar miðlun matvælaupplýsinga til neytenda. Hún gildir um öll matvæli sem ætluð eru neytendum, þ.m.t. matvæli sem stóreldhús afgreiða og matvæli sem ætluð eru fyrir stóreldhús. 

Reglugerðin innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011.  

Heiti vöru

Heiti matvæla skal vera lögheiti ef það er til en annars venjubundið heiti og ef slíkt er ekki til þá skal nota lýsandi heiti.

Dæmi um lýsandi heiti er "hveitibrauð með kúmeni"

Til viðbótar við heiti matvöru má einnig nota s.k. "Glysheiti".  Fyrir brauðið að ofan gæti glysheitið t.d. verið "Kúmenköggull". En glysheitið er ekki nóg eitt og sér.

 Upplýsingar sem eiga að fylgja heiti matvæla

Í viðauka VI við reglugerðina um matvælaupplýsingar eru taldar upp upplýsingar sem skylt er að láta fylgja heiti ákveðinna matvæla.

 • Upplýsingar um meðhöndlun (endurfryst, reykt, þurrkað) ef skortur á upplýsingunum getur villt um fyrir neytendum
 • Upplýsingar um að matvæli séu þídd (með undantekningum þó) t.d. fyrir kjöt sem hefur verið fryst en er selt uppþítt
 • Upplýsingar um að matvæli hafi verið geisluð
 • Upplýsingar um það ef efnisþætti sem neytendur búast við að venjulega sé notað í vöru eða er náttúrulega til staðar hefur verið skipt út fyrir annað innihaldsefni.  Dæmi gæti verið pítsa sem inniheldur ekki hefðbundinn ost, heldur ostlíki.  Heiti vörunnar gæti þá verið "Pítsa með ostlíki".
 • Fyrir kjötafurðir, unnar kjötvörur og fiskafurðir sem innihalda viðbætt prótein úr öðrum dýrategundum þá þarf að taka það fram
 • Fyrir kjötafurðir og unnar kjötvörur sem hafa útlit kjötstykkis, kjötstykkis með beini, sneiðar, skammts eða kjötskrokks skal tilgreina "með viðbættu vatni" ef viðbætta vatnið er meira en 5% af þyngd vörunnar.  Það sama gildir um fiskafurðir.
 • Ef kjötafurðir, unnar kjötvörur og fiskafurðir virðast vera úr heilu stykki af kjöti eða fiski en eru í raun samsettar úr mörgum mismunandi stykkjum sem eru sett saman skulu þau merkt með orðunum "samsett úr stykkjum úr kjöti/fiski"
 • Fyrir hakkað kjöt þ.m.t. hamborgara skal tilgreina "fituinnihald minna en ...%" og "hlutfall kollagens af kjötpróteini er minna en ...%"

Er heiti eða glysheiti matvöru fullyrðing?

Ef í heiti eða glysheiti vöru felst næringar- eða heilsufullyrðing gildir reglugerð um næringar- og heilsufullyrðingar.  Sjá nánar um þær reglur á fullyrðingasíðu.

Vernduð afurðaheiti

Ákveðin afurðaheiti njóta verndar á grundvelli uppruna (PDO), landfræðilegrar tilvísunar (PGI) eða hefðbundinnar sérstöðu (TSG).  Þau heiti má ekki nota yfir önnur matvæli en þau sem falla undir öll skilyrðin á bak við heitið.  Dæmi um slík heiti eru "parmesan ostur", "parma skinka" og "Feta ostur". 

Nánari upplýsingar má finna á síðu um vernduð afurðaheiti.

Listi yfir innihaldsefni

Skylt er að merkja matvæli með lista yfir innihaldsefni, þó með ákveðnum undantekningum s.s.

Ferskir ávextir grænmeti sem ekki hafa verið flysjuð, skorin eða meðhöndluð á annan hátt

Kolsýrt vatn ef í lýsingu kemur fram að vatnið hafi verið kolsýrt

Ostar, smjör, sýrð mjólk og rjómi þar sem engum innihaldsefnum hefur verið bætt við öðrum en mjólkurvörum, matvælaensímum og örveruræktum sem nauðsynlegar eru til framleiðslunnar

Matvæli sem samanstanda af einu innihaldsefni ef heiti matvælanna er það sama og innihaldsefnið (Dæmi "Frosinn humar" eða "Hveiti")

Listinn á að hafa yfirskrift eða inngang sem inniheldur orðið "innihaldsefni"

Öll innihaldsefni sem hafa tæknilegan tilgang í vöru eiga að vera tilgreind í minnkandi magni eins og þau voru notuð við framleiðslu vörunnar

Ekki þarf að magnraða innihaldsefnum sem eru minna en 2% af vörunni og mega þau því koma í hvaða röð sem er í lok innihaldslýsingar

Innihaldsefni skulu almennt tilgreind með sérheiti sínu

Nánari ákvæði um hvernig skal tilgreina innihaldsefni er að finna í VII. viðauka við reglugerðina.  T.d. um í hvaða tilfellum má nota flokksheiti í stað sérheitis (s.s. "kjöt", "krydd") og hvernig skal tilgreina aukefni í listanum yfir innihaldsefni

Ofnæmis- og óþolsvaldar

Ofnæmis og óþolsvaldar skulu alltaf tilgreindir á skýran hátt í innihaldslista með letri sem aðskilur þá frá öðrum atriðum í listanum, t.d. feitletrun.  Ef innihaldsefni eru í vörunni sem almennt væri ekki skylt að tilgreina í innihaldslista en eru úr ofnæmis-/óþolsvaldi þá þarf alltaf að merkja þau! 

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um merkingar á ofnæmis og óþolsvöldum má finna á síðu um ofnæmis- og óþolsvalda.

Magn innihaldsefna

Tilgreina skal magn innihaldsefna eða flokks innihaldsefna í ákveðnum tilvikum:

 • Ef innihaldsefnið kemur fyrir í heiti matvælanna eða ef neytendur tengja það við heitið
 • Ef innihaldsefnið er dregið fram í merkingum með orðum, myndum eða myndrænni útfærslu
 • Ef það er nauðsynlegt til að einkenna tiltekin matvæli og greina þau frá öðrum sem þau kunna að vera tekin í misgripum fyrir vegna útlits eða nafns.

Nánari upplýsingar og leiðbeinigar um þetta má finna á upplýsingasíðu um magmerkingar.

Aukefni í innihaldslista

Aukefni í innihaldslista eiga að vera merkt með flokksheiti og E-númer eða viðurkenndu heiti. Dæmi: 

Flokksheiti, E-númer  Flokksheiti, viðurkennt heiti aukefnis 
Sýra (E 334) Sýra (vínsýra)
Litarefni (E 120) Litarefni (karmín)

 

 

Nettómagn

Nettómagn skal gefið upp á umbúðum matvæla í rúmmálseiningum fyrir fljótandi afurðir en í massaeiningum fyrir aðrar vörur.

Nettómagn skal gefið upp sem eitt af eftirtöldu:

 • Nákvæmt magn þar sem hver eining er mæld, merkt og verðlögð eftir magni,
 • Meðalmagn og skal þá farið eftir ákvæðum reglugerðar 437/2009 um e-merktar forpakkningar hvað varðar leyfilegt neikvætt frávik
 • Lágmarksmagn og skal þá tilgreina sérstaklega að um lágmarksmagn sé að ræða með orðunum "a.m.k." eða "minnst" á undan nettómagninu

Þegar föst matvæli eru seld í legi skal tilgreina nettóþyngd matvælanna eftir að lögurinn hefur verið fjarlægður. Ef matvæli hafa verið húðuð(íshúð) skal uppgefin nettóþyngd matvæla vera án húðunar.

Yfirlýsing um nettómagn er ekki lögboðin þegar um er að ræða matvæli:

 • sem tapa umtalsverðu rúmmáli eða massa og eru seld í stykkjatali eða vigtuð í viðurvist kaupanda,
 • Þegar nettómagn þeirra er undir 5 g eða 5 ml; hins vegar gildir þetta ákvæði ekki um krydd og kryddjurtir eða
 • sem venjulega eru seld í stykkjatali, eða því tilskildu að fjöldi stykkja sé auðsýnilegur og auðskiljanlegur utan frá eða, ef svo er ekki, tilgreindur á merkingunni. 

Geymsluþol

Matvæli skulu merkt með dagsetningu lágmarks geymsluþols, "best fyrir" eða með "síðasta notkunardegi"

Nánari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu um geymsluþol

Geymslu- og notkunarskilyrði

Ef veita þarf leiðbeiningar til a tryggja örugga geymslu og notkun matvöru, á að vera leiðbeinandi texti á umbúðum.

Ef geymsluþol matvöru er háð því hvernig hún er geymd við ákveðin skilyrði, á að gefa leiðbeiningar um þau geymsluskilyrði. Til dæmis á það við um vöru sem á að geyma 0-4°C til þess að hún haldi eiginleikum sínum allan geymsluþolstímann. Sama á við um frystivöru(-18). Önnur dæmi eru t.d. vörur sem þarf að geyma á þurrum, svölum eða dimmum stað.

Með matvörum sem merktar eru með Síðasta notkunardegi (eða "Notist eigi síður en") eiga alltaf að fylgja leiðbeiningar um geymsluskilyrði.

Eftir opnun umbúða

Til að auðvelda viðeigandi geymslu og notkun matvæla eftir opnun umbúða skal gefa til kynna geymsluskilyrði og/eða tímamörk neyslu eftir því sem við á. 

Rétt meðhöndlun

Nauðsynlegt getur verið að gefa neytendum leiðbeinandi texta til að tryggja örugga meðhöndlun matvöru. Það gildir sérstaklega um vörur sem þarf að gegnumhita fyrir neyslu, vegna hættu á sjúkdómsvaldandi örverum. Einnig vörur sem nauðsynlegt er að gæta sérstaks hreinlætis við meðhöndlun vegna hættu á krossmengun. 

Upplýsingar um framleiðanda/ábyrgðaraðila

Á umbúðum matvæla skal gefa upp nafn og heimilisfang framleiðanda eða aðila sem markaðssetur vöru undir sínu nafni. Þetta þarf alltaf að vera aðili innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).  Ef vara er framleidd í ríki utan EES svæðis þarf að koma fram nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila innan EES svæðis.

 • Heimilisfang skal gefa upp sem fullt póstfang þ.e. götuheiti, húsnúmer, póstnúmer og borg/bær/hérað.

Matvælastofnun gerir hinsvegar ekki athugasemdir við að veffang matvælafyrirtækis/ábyrgðaraðila á EES, komi í stað póstfangs með þeim skilyrðum að viðkomandi heimasíða sem vísað er til, sé aðgengileg, reglulega uppfærð og á henni megi á auðveldan hátt finna upplýsingar um fullt póstfang fyrirtækisins.

Helstu nýmæli

Meðal mikilvægra atriða sem komu fyrst inn með  reglugerð ESB nr.1169/2011 og innleiðingareglugerð eru:

Almennt: (vísað er í greinar reglugerðar ESB nr. 1169/2011)

 1. Leturstærð: Krafa er um að merkingar skulu  vera læsilegar, en að auki er sett lágmarksleturstærð lágstafa 1,2 mm á hæð. Undantekningar gilda um smáar pakkningar. (13. grein)
 2. Ofnæmisvaldar: Neytendur eiga rétt á upplýsingum um ofnæmisvalda í innihaldi allra matvæla.
  Óforpökkuð matvæli: Í innleiðingareglugerð kemur fram að upplýsingar sem seljanda er skylt að veita um ofnæmisvalda við markaðssetningu óforpakkaðra matvæla, er heimilt að gefa upp á hvaða hátt sem er þ.m.t. munnlega. Ef upplýsingarnar eru gefnar munnlega verður seljandi að gefa það til kynna á sýnilegan hátt að starfsfólk veiti nánari upplýsingar s.s. með merkimiða, á matseðli eða á skilti þar sem neytandi velur matvælin.
  Forpökkuð matvæli: Á forpökkuðum matvælum er ný krafa um að ofnæmisvaldar skuli vera með áherslu s.s. litarbreytingu eða feitletrun í innihaldslýsingu forpakkaðra matvæla.
  ESB er skylt að vinna viðmiðunarreglur um merkinguna „ getur innihaldið snefil af“ (21. og 36. grein)
 3. Frystidagsetning: Krafa er um merkingu frystidagsetningar á fryst kjöt, frystar unnar kjötvörur og frystar óunnar lagarafurðir (=fiskur, lindýr, krabbadýr). (Viðauki III, liður 6.1)
 4. Uppruni: Áfram er krafa um að upplýsa um uppruna ef skortur á þeim upplýsingum getur verið villandi.  Skylt verður að upplýsa um uppruna á svínakjöti, kindakjöti, geitakjöti, fuglakjöti – fersku og frosnu. Að auki verður krafa um upplýsingar um uppruna aðalhráefnis, ef uppruni vöru er gefinn upp og er ekki sá sami og uppruni aðalhráefnis. Komin er út reglugerð ESB nr. 1337/2013 um upprunamerkingar á kjöti sem lýsir útfærslu þessara merkinga. Ekki er komin reglugerð um útfærslu merkinga þegar uppruni aðalhráefnis er annar en vöru.  (26. grein) Sjá upplýsingasíðu Matvælastofnunar um upprunamerkingar matvæla.
 5. Geymsluþol: Í reglugerð ESB kemur fram að litið er á matvæli sem heilsuskaðleg eftir síðasta notkunardag og því er ekki leyfilegt að selja þau eftir „notist eigi síðar en“ dagsetningu (24. grein).  Hins vegar verður leyfilegt að selja matvæli áfram eftir „best fyrir“ dagsetningu. „Best fyrir“ lágmarksgeymsluþolsmerkingu má því ekki nota á tilbúin matvæli ef hætta er á að sjúkdómsvaldandi örverur geti fjölgað sér í þeim.
 6. Pökkunardagur: Íslenska ákvæðið um að merkja skuli pökkunardag á kælivörur fellur út.
 7. Fjarsala: Krafa er um að skylduupplýsingar séu aðgengilegar fyrir neytendur áður en kaup eru ákveðin og við afhendingu (14. grein)
 8. Eftirlíkingar/hliðstæður: Ef notað er staðgengilshráefni t.d. pizzatoppur í stað osts, á það að koma fram við vöruheiti. (7. grein og viðauki VI)
 9. Vatnsinnihald: Ef kjötvörur og fiskafurðir, sem líta úr eins og heil stykki, innihalda meira en 5% af viðbættu vatni á það að koma fram við heiti vöru. (Viðauki VI). Viðbætt vatn á alltaf að koma fram í innihaldslýsingu á kjöti, unnum kjötvörum (meat preparations) og óunnum fisk og óunnum lagarafurðum (unprocessed fishery products and unprocessed bivalve molluscs)
 10. Viðbætt prótein af öðrum uppruna: Viðbætt prótein af öðrum dýrauppruna sem bætt í kjötafurðir (meat products), unnar kjötvörur (meat preparations) og lagarafurðir (fishery products) þurfa að koma fram við í vöru. (Viðauki VI)
 11. Samsett kjöt: Kjötafurðir (meat products), unnar kjötvörur (meat preparations) og lagarafurðir (fishery products) sem líta út fyrir að vera heil stykki, en eru samsett úr bitum, eiga að merkjast „samsett úr stykkjum úr kjöti“ og „samsett úr stykkjum úr fiski“ (Viðauki VI)
 12. Nanótækni: Innihaldsefni sem eru framleidd úr nanóefnum eiga að merkjast með „nanó“ í innihaldslýsingu (18. grein)
 13. Jurtaolía og jurtafeiti: Merkja á úr hvaða plöntu olían/feitin er unnin (Viðauki VII) 
 14. Reglur um næringargildi eru breyttar. Upplýsingar um næringargildi verða að vera samkvæmt nýju reglunum.  
 15. Skylt að næringargildismerkja flest forpökkuð matvæli frá 13. desember 2016. Undantekningar koma fram í V. viðauka og 4. tl. 16. greinar. 
Uppfært 07.07.2023
Getum við bætt efni síðunnar?