Fara í efni

Umönnun og sjúkdómavarnir

Umráðamönnum dýra ber að tryggja dýrunum góða umönnun, þ.m.t. að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu og sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð

Það fylgir því mikil ábyrgð að eiga og annast um kött. Til þess að stuðla að heilbrigði katta er mikilvægt að umráðamenn hugi að eftirfarandi þáttum.

Fóðrun

Til að kettlingur vaxi og þroskist eðlilega og geti viðhaldið heilbrigðum líkama er mikilvægt að fóðrun sé rétt næringalega séð fyrir hvert lífsskeið og í orkujafnvægi miðað við þörf kattarins. Kettir eru kjötætur í enn meira mæli en hundar og geta ekki lifað án kjötmetis af einhverju tagi. Kettir þurfa hærra prótein innihald í fóðri en hundar og hafa ekki sömu eiginleika og hundar að geta myndað sum vítamín frá plöntum, heldur þurfa að fá þau tilbúin í gegnum kjötmeti í fóðri svo sem A og B vítamín. En sérstaklega hafa þeir þörf fyrir að fá með kjötmetinu sérstök prótein og amínusýrur eins og arginín og taurín sem fæst ekki úr plöntum.  Taurín er nauðsynlegt fyrir flesta vefi og heilbrigða starfsemi hjartans m.a..  Þess vegna er slæm hugmynd að fóðra ketti með hundafóðri þar sem þeir munu ekki fá fullnægt næringarþörf sinni.                                              

Ferkst vatn skal alltaf vera aðgengilegt. Mikið er til á markaði af alls kyns fóðri og getur verið gott að fá ráðleggingar frá dýralækni til að byrja með. Til að tryggja fullnægjandi næringarinnihald er einfaldast og öruggast að nota tilbúið þurrfóður og fóðra í magni miðað við ráðleggingar framleiðanda. Hægt er að kaupa kettlingafóður, fóður fyrir ketti í minni hreyfingu, fóður fyrir, gelda ketti, eldri ketti o.s.fr.v. Einnig fást hjá flestum dýralæknum sérstök sjúkrafóður, t.d. ef dýrið á við að glíma nýrna-, hjarta-, eða liðavandamál. Best er að fá ráðleggingar hjá dýralækni hvað sé talið passa best fyrir hvert dýr. Gott er að öllu jöfnu að ekki breyta snöggt um fóður nema ef nauðsyn krefur, svo sem meltingartruflanir eða veikindi. Ef skipta á um fóðurtegund er gott að miða við að blanda nýrri tegund af fóðri við það sem kötturinn er á fyrir yfir 3 daga, til að reyna að fyrirbyggja meltingarvandræði.

Margar fæðutegundir sem eru algengar í fæðu okkar mannfólksins geta líka verið eitraðar fyrir ketti og hunda og því ber að varast að gefa dýrum afganga nema að þekkja til hvaða fæðutegundir geta verið hættulegar gæludýrum

Offita er vaxandi vandamál hjá gæludýrum í vestrænum löndum. Mikilvægt er því að orkuinntaka sé í samræmi við orkuþörf. Offþyngd eykur m.a. álagið á stoðkerfið, eykur álag á hjarta- og æðakerfi og eykur áhættu á sykursýki. Offþyngd minnkar líka hreyfimöguleika kattarins og rýrir þannig lífsgæði hans. Sérstaklega er áskorun fyrir eigendur katta sem bara eru haldnir innandyra að tryggja þeim nægjanlega hreyfingu og hæfilega mikla orku til að fyrirbyggja offitu. Í reglugerð um velferð gæludýra er í viðauka hægt að finna leiðbeiningar um holdastigun og æskilegt holdafar gæludýra.

Umhirða

Feldhirða: Snögghærðir kettir þurfa oft frekar litla feldhirðu ef þeir eru frískir og sleikja og hreins feld sinn eðlilega. Mjög loðnir kettir þurfa oft meiri feldhirðu og reglulega að vera burstaðir til að hindra flóka, en svæði bak við eyra og innanvert efst á útlimum. Gott er að kíkja reglulega inn í eyru hvort þar sé nokkuð roði, eymsli eða mikil óhreinindi. Óhreinindi, eymsli eða kláði geta bent til eyrnarbólgu eða að kötturinn sé smitaður með eyrnarmaur. Ef svo skyldi vera er nauðsynlegt að leita til dýralæknis til skoðunar.

Klóhirða: Almennt þurfa kettir ekki mikla klóhirðu, enda eru klærnar almennt inndregnar nema ef þeir eru að klifra, slást eða að brýna klærnar. Nauðsynlegt er fyrir ketti sem eru haldnir eingöngu innanhúss að þeir hafi stað þar sem þeir geti hvesst og brýnt klærnar. Annars er hætta á að þeir noti til þess húsgögn, sem sjaldan er vinsælt hjá eiganda þeirra. Alls ekki skal klippa klær á köttum sem fara út þar sem þær eru þeim nauðsynlegar til að geta ferðast upp og niður tré og annað í umhverfinu.

Tannhirða: Heilbrigðar tennur og tannhold eru mjög mikilvægar til að kettinum líði vel. Köttur getur dregið sig í hlé eða orðið árásargjarn ef honum líður illa í munninum. Einnig getur það haft áhrif á hvernig hann borðar og nærist og hirðir um feld sinn. Mjög misjafnt er hversu mikill tannsteinn safnast fyrir á tönnum katta og virðist sem sumum tegundum katta meira hætt á að fá tannstein og tannholdsbólgur en öðrum. Mikill tannsteinn veldur einnig tannholdabólgum og tennur geta losnað. Brotnar tennur geta valdið slæmri tannpínu. Mikilvægt er að fylgjast reglulega með tannheilsu kattanna og láta hreinsa eða fjarlægja tennur ef þörf er á. Ef kötturinn fær mikinn tannstein er gott að þjálfa hann í að láta bursta á sér tennurnar, og/eða setja hann á fæði sem fyrirbyggir myndun tannsteins.

Hreyfing og samvera

Kettir eru einfarar í eðli sínu en hafa þó sannarlega félagsþörf, bæði við aðra ketti eða eiganda þó það sé misjafnt milli katta hversu mikil sú þörf er. Eigendur katta sem sem eingöngu eru haldnir innandyra hafa aukna ábyrgð á því að tryggja kettinum hæfilega hreyfingu og félagslega samveru og örvun í stað útiverunnar. Kötturinn þarf að hafa nógu mikið pláss og gjarna geta ferðast upp og niður í rými, t.d. með klóru á nokkrum hæðum, pláss í glugga til að horfa út osfrv.. Styrkjandi fyrir samband milli kattar og eiganda er að leika við köttinn. Mikill leikur er oft í köttum þegar þeir eru ungir sem þarf að fá útrás og gott að beina á góðar brautir frekar en að fá óvænta árás úr launsátri. Kettir eru oft mjög hrifnir af því að fela sig á ýmsum stöðum og pappakassar eru oft í uppáhaldi.  

Helstu smitsjúkdómar á Íslandi

Á Íslandi eru frekar fáir smitsjúkdómar sem herja á ketti í samanburði við flest önnur lönd. Smitsjúkdómar geta orsakast af bæði veirum eða bakteríum, en einnig sveppum og sníkjudýrum.

Helstu veirusjúkdómarnir hjá köttum eru kattafár (e. feline panleukopenia) sem orsakast af kattar-parvóveirunni og leggst fyrst og fremst á meltingarveginn, og svo smitsjúkdómar í efri öndunarveg , svo kölluð kattarflensa (e. feline viral rhinotracheitis) sem orsakast af kattar-herpesveiru (FeHV1) eða kattar-caliciveiru (FCV) sem veldur einkennum sem oft líka er kallað kattarkvef. Af þessum sjúkdómum eru það kattafár sem eru líklegast til að valda alvarlegustu veikindunum, sérstaklega hjá ungum köttum. Hægt er að bólusetja gegn flestum þessara veirusjúkdóma en einnig einstaka bakteríusjúkdómum, en það hindrar ekki endilega smit, en í flestum tilfellum ver þó köttinn fyrir því að veikjast (sjá neðar um kafla um "Bólusetningar").

Kettir geta einnig fengið bakteríusmit, m.a. smit vegna bakteríunnar Chlamidophila felis (áður Chlamydia psittaci var. felis) sem fyrst og fremst veldur augnsýkingu, hvarmabólgu en líka nefrennsli, lystarleysi og þyngdartapi. Einkennin geta því líkst einkennum kattarflensu og kattarkvefs. Einnig getur samtímis verið bæði veiru- og bakteríusýking. Bakteríusmit  er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum, en gegn veirum verður líkaminn að mynda eigin mótefni. Það er þó til á heimsmarkaði bóluefni gegn C. felis, þó það sé ekki víst að það fáist alltaf á Íslandi.

Kettir geta auðvitað smitast af fleiri tegundum baktería. Kettir sem éta t.d. dauða smáfugla fá stundum Salmonellusmit. 

Í töflunni hér að neðan er hægt að sjá yfirlit yfir helstu smitsjúkdóma í köttum á Íslandi. Einnig er hægt að sjá lista með heildaryfirlit yfir smitsjúkdóma í köttum í listanum: Dýrasjúkdómar - kettir. Með því að smella á hvern smitsjúkdóm opnast ýtarlegri upplýsingar um smitsjúkdóminn ef það er fyrir hendi.

    Helstu smitsjúkdómar katta sem greinast á Íslandi       
            Fyrir dýralækna
Íslenskt heiti Enskt heiti Smitefni Helstu einkenni í köttum Staða á Íslandi Bólusett á Íslandi Skráningar-skylt Tilkynningar-skylt
Veirur              
Kattafár Feline panleukopenia Feline panleukopenia virus Hiti, uppköst, niðurgangur Landlæg    
Kattaeyðni FIV Feline immunodeficiency virus  Hiti, eitlastækkun, ónæmisbæling og ýmsar sýkingar sem afleiður af því Landlæg Nei *    
Kattahvítblæði FeLV Feline leukemia virus Blóðleysi, ónæmisbæling, taugakvillar Stök tilfelli Nei *    
Smitandi lífhimnubólga FIP Feline Infectious Peritonitis Feline coronavirus Væg meltingar eða öndunarfæraeinkenni en möguleiki á þurru/vökva (dry/wet) FIP Stök tilfelli Nei *    
Kattakvef   Feline calicivirus Öndunarfæraeinkenni/augnsýking Landlæg    
Kattaflensa  Feline rhinotracheitis Feline herpesvirida  Öndunarfæraeinkenni/augnsýking Landlæg    
          * Bóluefni er til    
Bakteríur               
Klamydía og mýkoplasma Feline respiratory disease complex Chlamydia felis / Mycoplasma felis Öndunarfæraeinkenni/augnsýking. Klamydía getur einnig valdið fósturláti hjá læðum. Landlæg Nei *    
Salmonella Salmonellosis Salmonella spp. Niðurgangur en getur verið einkennalaus Landlæg Nei  
Sveppasýkingar              
Microsporum /Trichophyton smit Dermatophytosis Microsporum canis/M. Gypseum/Trichophyton mentagrophytes Hárlausir oft hringlaga rauðir blettir eða skorpa á húð Landlæg Nei  
Sníkjudýr - ytri              
Eyrnamítill  Ear mites Otodectes cynotis Kláði í eyrum Landlæg    
Húðmítill  Cheyletiellosis Cheyletiella parasitovorax/blakei Kláði Greinist stöku sinnum    
Flær Cat flea Ctenocephalides felis Kláði Greinist stöku sinnum      
Kattanaglús Lice Felicola subrostratus Kláði Greinist stöku sinnum      
Sníkjudýr - innri              
Frumdýr              
Bogfrymlar Toxoplasmosis Toxoplasma gondii Oftast engin nema í kettlingum eða dýrum með skert ónæmiskerfi.  Landlæg    
Giardia Giardiasis Giardia cati Oftast engin eða niðurgangur Landlæg      
Hníslar Coccidiosis Isospora felis Oftast engin eða niðurgangur Landlæg    
Cryptosporidium Cryptosporidiosis Cryptosporidium Oftast engin eða niðurgangur Landlæg      
Þráðormar              
Kattarspóluormur Nematoda Toxocara cati Ef mikið smit vanþrif og uppköst/niðurgangur Landlæg      
Refaspóluormur Nematoda Toxascaris leonina Ef mikið smit vanþrif og uppköst/niðurgangur Landlæg      
Bandormar              
Kattabandormur Cestoda Taenia taeniaformis Ef mikið smit vanþrif. Liðir úr ormi geta sést við endaþarm Landlæg en líklega sjaldgæf      
Refabandormur Cestoda Mesocestoides canislagopodis Ef mikið smit vanþrif. Liðir úr ormi geta sést við endaþarm Finnst stöku sinnum      

Bólusetningar

Helstu veirusjúkdómarnir hjá köttum sem bólusett er fyrir á Íslandi eru kattafár (e. feline panleukopenia)  og smitsjúkdómum í efri öndunarveg , svokallaðri kattarflensu (e. feline viral rhinotracheitis). Bóluefnið inniheldur þá deyddar veirur eða hluta af veirupróteinum af kattar-parvóveirunni, kattar-herpesveiru (FeHV1) og kattar-caliciveiru (FCV). Bóluefni á markaði hér á landi er t.d. Purevax RCP® og  inniheldur það mótefnavaka gegn þessum veirum í einu og sama bóluefninu.  

Mikilvægt er að átta sig á að bólusetning gegn sjúkdómum hindrar ekki endilega smit, en í flestum tilfellum ver þó köttinn fyrir því að veikjast.

Besta vörnin til að fyrirbyggja sjúkdóm er að bólusetja alla ketti það snemma á ævinni að þeir séu varðir gegn ofangreindum sjúkdómum, þegar vörnum sem þeir fá með móðurmjólkinni sleppir. Einnig er mikilvægt að viðhalda bólusetningum alla ævi kattarins, sérstaklega ef kötturinn er ekki bara inniköttur, eða ef eigandi hans hittir oft aðra ketti. Ráðleggingum framleiðanda bóluefna skal fylgt og hægt er að fá ráðleggingar hjá dýralæknum um bólusetningar til að tryggja virkar varnir. Við heilbrigðisskoðun og örmerkingu hjá dýralækni fær eigandi almennt ráðleggingar um hvernig skynsamlegast sé að haga bólusetningum fyrir köttinn.

Æskilegur aldur við fyrstu bólusetningu fer m.a. eftir því í hvernig umhverfi kettlingurinn er og hvort líklegt sé að smit sé að finna þar (t.d. þar sem margir kettir koma saman). Einnig skiptir máli hvort og hvenær móðir kettlingsins var bólusett þar sem hann fær mótefni frá móður sinni. Ef kettlingar eru bólusettir snemma þarf að endurtaka bólusetningu eftir að mótefni frá móður minnka þ.e. milli 12-16 vikna. Ef smitálag er mikið í umhverfinu er hægt að hefja bólusetningu á kettlingum allt niður í 6 vikna, en það er þá aðeins óvíst hversu mikið bóluefnið gagnast þeim og hversu vel mótefnaframleiðsla fer af stað hjá hverjum og einum kettling. Mikilvægt er að allir kettir sem á að bólusetja gangist undir heilbrigðisskoðun og séu við góða heilsu þegar bólusett er. Þetta er bæði til að bóluefnið hafi tilskilin áhrif og til að hindra að dýrið veikist meira. Við bólusetningu gefur dýralæknirinn út heilsufarsbók þar sem bólusetningin og gildistími hennar er skrá. Æskilegt er að halda ungum kettlingum frá umhverfi þar sem smitálag er mikið og margir kettir haldnir þar til kettlingurinn er orðinn fullbólusettur og hefur náð að mynda mótefni gegn sjúkdómum. Slíkt tekur oftast að lágmarki um 7-14 daga eftir bólusetningu.

Sníkjudýrameðhöndlun

Sníkjudýr flokkast gróflega í innvortis eða útvortis sníkjudýr. Sníkjudýraflóra í hundum og köttum á Íslandi er afar takmörkuð í samanburði við flest önnur lönd. Sníkjudýr eru oft hýsilsértæk, en sum hver geta smitað á milli tegunda og yfir í fólk. Sjá einnig kafla um helstu smitsjúkdóma á Íslandi fyrir ofan.

Útvortis sníkjudýr: Á Íslandi er afar lítið um útvortis sníkjudýr þar sem hvorki lýs, smámítlar eða kattaflær eru landlæg sníkjudýr. Þó finnst hér á landi bæði eyrnarmaur/mítill (otodectes cynotis) og húðmaur/mítill eða feldmítill (cheyletiella parasitovorax/blakei). Eyrnarmaurinn veldur oft óhreinindum í eyra, kláða og bólgum og er algengara að finna á köttum þó hann geti líka smitað hunda. Húð/feldmítillinn sem lítur oft út eins og dýrið sé með flösu á bakinu, en veldur hinsvegar oft litlum einkennum á kettinum sjálfum en ósjaldan ofnæmisviðbrögðum á eiganda eftir bit sem minnir á flóabit.  Á Íslandi er því ekki algengt að meðhöndla gegn ytri sníkjudýrum nema sníkjudýr finnist eða einkenni hafi komið fram á kettinum. Ef útvortis sníkjudýr svo sem eyrnamaur, feldmaur, flær, lýs eða mítlar finnast á gæludýrum, hafið samband við dýralækni.

Innvortis sníkjudýr: Hvað varðar innvortis sníkjudýr þá geta kettir borið fjölbreytta flóru af innvortis sníkjudýrum, bæði ormum, svo sem spólormum og bandormum og einfrumungum, án þess að það sjáist mikil ytri einkenni. Meirihluti sníkjudýra er í meltingarvegi, en geta á vissum lífsstigum einnig verið annarsstaðar í líkamanum eða í umhverfinu. Ef smit er mikið geta þó komið fram einkenni eins og vanþrif, vannæring, þyngdartap, blóðleysi, hósti, úfið hárafar o.fl.. Til að vernda dýrin sjálf, umhverfið og hindra mögulegt smit í fólk er skylt er að meðhöndla ketti árlega gegn spólormum samkvæmt reglugerð um hollustuhætti (nr 941/2002). Ekki er hægt að nýta ormalyf ætluð einni dýrategund fyrir aðra og getur slíkt valdið eitrunum. Fáið því ætíð lyfseðil fyrir ormalyfjum fyrir hvert einstakt gæludýr hjá dýralækni.  Mismunandi er hvaða sníkjudýrum og sníkjudýrastigum ormalyf virka gegn og getur dýralæknir veitt ýtarlegri upplýsingar hvernig meðhöndlun er æskileg fyrir þitt dýr, umfram þá ormahreinsun sem er skylt að framkvæma og hversu oft þarf að endurtaka hana.

Smitvarnir

Sjúkdómar í köttum geta smitast með margvíslegum hætti. Sumir sjúkdómar smitast með saur, svo sem smáveirusótt, aðrir með snertingu, líkamsvessum, uppkasti, þvagi eða í loftögnum við hósta. Einnig geta ytri sníkjudýr eins og mítlar borið með sér smitefni, en slíkt er þó fágætt hér á landi. Sníkjudýr geta borist við snertingu eða legið í umhverfinu og borist þannig á köttinn.

Þegar hugað er að almennum smitvörnum þá er fyrsta regla allra kattaeiganda að hafa inni kattakassa svo kötturinn læri að gera frá sér inni og þannig er hægt að minnka líkur á veiru-, bakteríu- eða sníkjdudýrasmit. Góð og mikilvæg regla fyrir kattareigendur og eigendur með óbólusetta ketti eða ketti með skert mótstöðuafl (t.d. vegna þess að þeir eru á barkasterameðferð) að ekki umgangast náið aðra ketti sem óþekkt er hvort eru bólusettir. Ef gæludýr eru sett á dýrahótel er mikilvægt að bólusetja það tímanlega að bóluefnis sé búið að ná fullri virkni áður en dýrið er afhent. Ef farið er til dýralæknis skyldi hinn veiki köttur geymdur í bílnum meðan maður tilkynnir komu sínu og einkenni kattarins þannig að það sé hægt að gera ráðstafanir til að hindra að fleiri dýr á biðstofunni geti smitast.

Uppfært 06.08.2021
Getum við bætt efni síðunnar?