Fara í efni

Kattafár

Kattafár (e. Feline panleukopenia) er lífshættulegur sjúkdómur og veldur jafnan alvarlegustu einkennum hjá kettlingum. Veiran finnst um allan heim en sjúkdómurinn var mun algengari hér áður fyrr þegar bólusetningar voru ekki eins útbreiddar og nú.

Orsök: Parvoviridae / Feline panleukopenia virus

Meðgöngutími: 2-7 dagar

Einkenni: Veiran fjölgar sér í beinmerg og eitilvef og veldur þar með skorti á öllum tegundum blóðkorna. Einnig veldur hún skaða á meltingarþekju og hjá mjög ungum dýrum í litla heila og sjónu. Helstu einkenni eru hár hiti, slappleiki, lystarleysi, uppköst og niðurgangur. Kettlingar sem smitast í móðurkviði geta verið með breytingar í litla heila og sýnt einkenni óregluhreyfinga (ataxia).

Smitleið: Veiran skilst út með saur, munnvatni og öðrum líkamsvessum og smitast ýmist beint eða óbeint á milli katta. Smitaðir kettir skilja veiruna út í allt að 6 vikur eftir veikindi. Veiran er harðger og getur lifað allt að ár í umhverfinu. Því er mikilvægt að einangra smitaða ketti.

Útbreiðsla: Kattafár finnst um allan heim, einnig á Íslandi, en er þó mun sjaldgæfara en áður þar sem víðast hvar er bólusett gegn sjúkdómnum.

Greining: Veirugreining í saur.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðhöndlun; gefa þarf vökva, næringu og meðhöndla tækifærissýkingar. Þrátt fyrir meðhöndlun er dánartíðni sjúkdómsins há. Batahorfur eru mjög slæmar hjá kettlingum sem smitast yngri en 8 vikna. Lifi kötturinn í 5 daga eftir að einkenni koma fram eru batahorfur góðar. Mikilvægt er að einangra veika ketti til þess að vernda þá gegn tækifærissýkingum. 

Uppfært 14.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?