Alifuglahald
- Um aðbúnað og umhirðu alifugla gilda lög um velferð dýra og reglugerð nr. 88/2022 um velferð alifugla
- Alifuglabændur eru matvælaframleiðendur og um þá gilda lög um matvæli og gildandi reglugerðir þar um
- Alifuglabændur eru ábyrgir fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarða sinna í sérstaka hjarðbók og skulu halda sjúkdóma- og lyfjaskráningar
- Um fóður fyrir alifugla og fóðrun á alifuglum gilda lög um eftirlit með áburði, sáðvöru og fóðri
- Matvælastofnun hefur eftirlit með alifuglahald í samræmi við eftirlitshandbók - Alifuglar
Matvælastofnun fer með eftirlit með því hvort lágmarkskröfum regluverks sé framfylgt. Eftirlitið skal vera byggt á áhættuflokkun sem er stöðugt í endurvinnslu.
Kjúklingahald
Í kjúklingarækt á Íslandi er eingöngu notaður kjúklingastofninn Ross 308. Framleiðendur landsins reka eigin stofnfuglabú þar sem foreldradýr kjúklinganna eru haldin, og þeir reka einnig eigin útungunarstöðvar. Að loknum 33-36 daga eldistíma er kjúklingum slátrað í einu af þremur sláturhúsum landsins.
Stuðull til umreikningar á sláturþyngd yfir í lífþyngd kjúklinga
Skv. 4. mgr. í 28. grein reglugerðar nr. 88/2022 um velferð alifugla ber Matvælastofnun að tilkynna um stuðul til að umreikna úr sláturþyngd kjúklinga í lífþyngd.
Við ákvörðun á stuðli til umreikninga fyrir Ross 308 kjúklingastofninn var stuðst við handbók ræktanda stofnsins, Aviagen í Bretlandi: Ross 308 / Ross 308 FF broiler performance objective 2019. Á bls. 11 kemur fram áætlað hlutfall sláturþyngdar eftir lífþyngd fugls.
Miðað við þessar upplýsingar hefur Matvælastofnun ákveðið eftirfarandi stuðla til umreiknings úr sláturþyngd í lífþyngd kjúklinga. Þeir gilda til og með 31.8.2025:
Sláturþyngd | Umreikningsstuðull - gildir til 31.8.2025 Sláturþyngd margfölduð með |
Til og með 1,45 kg/sláturskrokk | 1,39 |
Frá 1,45 - 1,76 kg/sláturskrokk | 1,37 |
Yfir 1,76 kg/sláturskrokk | 1,35 |
Handbókin fyrir Ross 308 kjúklinga var uppfærð 2022. Miðað við þessa uppfærslu taka eftirfarandi stuðlar gildi þann 1.9.2025:
Sláturþyngd | Umreikningsstuðull - gildir frá 1.9.2025 Sláturþyngd margfölduð með |
Til og með 1,45 kg/sláturskrokk | 1,41 |
Frá 1,45 - 1,76 kg/sláturskrokk | 1,38 |
Yfir 1,76 kg/sláturskrokk | 1,36 |
Kalkúnahald
Í kalkúnarækt á Íslandi er notaður B.U.T. stofninn frá Aviagen Turkeys. Einn framleiðandi er á landinu sem rekur eigið stofnfuglabú. Að loknum ellefu til tólf vikna eldistíma er kalkúnum slátrað í einu sláturhúsi landsins.
Varphænsnahald
Til framleiðslu á eggjum nota framleiðendur landsins aðallega tvo varphænustofna. Algengastur er Lohmann LSL-stofninn eða Lohmann LSL-Lite-stofninn með hvítum varphænum, sem verpa hvítum eggjum. Í minna mæli er notaður Lohmann Brown-stofninn þar sem brúnar varphænur verpa ljósbrúnum eggjum.
Velferð alifugla
Við gerð leiðbeininga og við mat á velferð alifugla styðst Matvælastofnun gjarnan við álit (opinion) frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu, EFSA. Má nefna nýleg eftirfarandi fagleg álit:
- Welfare of broilers on farm (2023)
- Welfare of laying hens on farm (2023)
- Killing for purposes other than slaughter: poultry (2019)
- Guidance on risk assessment for animal welfare (2012)
Í evrópska samstarfsverkefninu Promoting bird welfare - FeatherWel hafa verið gefnar út leiðbeiningar um góða meðferð varphæna til að minnka hættu á fiðurplokki í þeim.
Matvælastofnun tók þátt í evrópsku samstarfsverkefni COST Action (CA15224) um bringubeinsskaða í varphænum. Verkefnið stóð yfir á árunum 2016 til 2020. Nánari upplýsingar á íslensku um verkefnið, ásamt myndbandi um greiningu á bringubeinsskaða og leiðir til að draga úr honum, má finna hér.
Aflífun alifugla - einstakir fuglar
Þeir sem halda alifugla þurfa einhvern tímann að koma að aflífun eða slátrun þeirra. Þessar leiðbeiningar eru ætlaðar til að styðja við mannúðlega aflífun einstaka alifugla. Bæði fagfólk og áhugafólk þurfa að búa yfir þekkingu á því hvernig skuli standa að aflífum með skjótvirkri og öruggri aðferð, án þess að fuglarnir verði fyrir óþarfa sársauka, streitu eða vanlíðan.
Flestum reynist erfitt að aflífa dýr, en slíkt getur þó verið nauðsynlegt og þarf þá að framkvæma það á sem mannúðlegastann hátt. Mikilvægt er að þeir sem halda alifugla séu færir um að aflífa þá tafarlaust þegar þörf krefur, svo sem vegna slyss eða alvarlegra veikinda þar sem dýrið á ekki von á bata. Ef umsjónarmaður treystir sér ekki til að aflífa sjálfur, er nauðsynlegt að hann geri ráðstafanir fyrirfram, til dæmis með því að leita sér aðstoðar.
Leiðbeiningarnar hér að neðan eiga hvorki við um slátrun á alifuglum í sláturhúsum né um aflífun stærri fuglahópa.
Sumum kann að finnast óþægilegt að lesa slíkar nákvæmar leiðbeiningar, sem þó eru nauðsynlegar til að tryggja að aflífun eða slátrun fari rétt fram. Slíkum lesendum er bent á hætta lestri hér.
Aflífun alifugla - alifuglahópar
Aflífun á hópum með yfir 250 alifuglum er tilkynningaskyld til Matvælastofnunar, í samræmi við 2. mgr. í 13. grein reglugerðar nr. 88/2022 um velferð alifugla. Æskilegt er að tilkynning berist stofnuninni í gegnum þjónustugáttina með minnst 30 daga fyrirvara.
Mismundandi ástæður geta legið á baki því að hópur alifugla sé aflífaður á búi, fyrir utan sláturhúss. Má þar til dæmis nefna uppkomu smitsjúkdóms eða lok framleiðslutímabils varphænsna, en þeim er hérlendis yfirleitt ekki slátrað. Eigandi dýranna ákveður með hvaða hætti aflífun fer fram.
Eftir aðstæðum getur gösun með koldíoxíði í því húsi sem fuglarnir eru haldnir í verið viðeigandi aðferð til aflífunar. Kostir þesssarar aðferðar eru meðal annars að ekki þarf að handsama og flytja fuglana, og smithætta fyrir starfsfólk minnkar ef um er að ræða smitsjúkdóm sem getur borist í menn. Hins vegar er ekki alltaf unnt að beita aðferðinni, til dæmis ef húsið er ekki nægilega loftþétt eða ef aðrir fuglarhópar í nágrenni gætu verið í hættu.
Með stoð í reglugerð nr. 911/2012 um vernd dýra við aflífun hefur Matvælastofnun gefið út leiðbeiningar um þessa aðferð.