Fara í efni

Erfðabreytt matvæli og fóður

Erfðatækni er umdeild. Þess vegna eru settar strangar kröfur um merkingar innan ESB til að gera neytendum kleift að vita hvort vara inniheldur eða er framleidd úr erfðabreyttum lífverum.

Á öllum tímum hafa menn reynt að bæta nytjaplöntur sínar með því að breyta erfðaefni plantnanna. Þetta hefur verið gert með ýmsum kynbóta- og ræktunaraðferðum. Við kynæxlun blandast erfðaefni beggja foreldra og afkvæmin fá sitt lítið af hverju frá hvoru foreldri. Blöndun erfðaefnis er forsenda fyrir hefðbundnum kynbótum, en kynbætur eru þó takmarkaðar að því leiti að aðeins er hægt að blanda saman erfðaefni lífvera af sömu tegund.

Með aðferðum erfðatækninnar er hins vegar hægt að færa erfðaefni milli óskyldra tegunda og þar með að fara yfir þau mörk sem náttúran setur blöndun erfðaefnis óskyldra lífvera. Þannig er hægt að flytja erfðaefni úr bakteríu inn í frumur hveitiplantna og fæst með því erfðabreytt hveiti.

Þróun í erfðatækni hefur skapað ný tækifæri til að bæta gefa nytjaplöntum og matvælum eiginleika sem ekki er hægt með hefðbundinni ræktun.

Möguleikar erfðabreytinga

Algengustu erfðabreyttu lífverurnar sem hafa verið þróaðar og markaðssettar eru erfðabreyttar plöntur s.s. maís, soja, repja og baðmull. Í upphafi snéru erfðabreytingarnar aðallega að því að auðvelda og bæta aðstæður við ræktun plantna og er þol gegn meindýrum, eins og sveppum, vírusum og skordýrum, og þol gegn illgresiseyðandi efnum langalgengustu erfðabreytingarnar.

Hvað eru erfðabreytt matvæli?

Erfðabreytt matvæli eru matvæli sem innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða eru framleidd úr eða innihalda innihaldsefni sem eru framleidd úrerfðabreyttum lífverum. Sem dæmi um þessi matvæli eru:

  • matvæli sem innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum: s.s. sojabaunir, maís, tómatar, kartafla,
  • matvæli sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum: tómatmauk úr erfðabreyttum tómötum, kornflögur og poppmaís úr erfðabreyttum maís, kartöflumjöl úr erfðabreyttum kartöflum,
  • innihaldsefni framleidd úr erfðabreyttum lífverum: sojaolía, baðmullarolía, repjuolía, maíssterkja, glúkósi úr maís, o.fl.
  • matvæli með innihaldsefnum sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum: kex með olíu (baðmullar-, maís-, sojaolía og fl.), súkkulaði með sojalesitíni, o.fl

Á markaði innan Evrópusambandsins eru nokkrar tegundir af erfðabreyttum plöntum sem notaðar eru við matvælaframleiðslu, t.d. sojabaunir, maís, repja og sykurrófur. Í Evrópu eru einnig ræktaður erfðabreyttur maís í Frakklandi, Póllandi, Portúgal, Rúmeníu, Slóvakíu, Spáni, Tékklandi og Þýskalandi.  

Er óhætt að borða erfðabreytt matvæli?

Í erfðabreyttum matvælum eru sama erfðaefni og í samsvarandi hefðbundnum matvælum. Munurinn er að einu eða fleiri genum hefur verið bætt við, breytt eða tekin burt með erfðatæknilegum aðferðum. Ekki er talið að erfðaefni flytjist yfir í erfðamengi þess sem neytir matvælanna. Þá skiptir vitanlega ekki máli hvort það er erfðaefni úr erfðabreyttri lífveru eða ekki. Áður en erfðabreytt matvæli eru sett á markað í Evrópusambandinu þurfa þau að undirgangast strangt áhættumat sem framkvæmt er af Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA). Þau matvæli sem leyfð eru á Evrópumarkaði teljast örugg til neyslu. Árið 2007 ályktaði EFSA að erfðaefni úr erfðabreyttum lífverum væri brotið niður í líkamanum á sama hátt og annað erfðaefni og að það væri ekki að finna í vefjum, vökvum (mjólk) eða unnum vörum dýra eins og kjúklingum, svínum, nautgripum eða fuglum sem alin eru á erfðabreyttu fóðri, þ.e. erfðabreytta efnið flyst ekki yfir í þann einstakling sem neytir þess.

Útbreiðsla erfðabreyttra matvæla

Frá því fyrstu erfðabreyttu tómatarnir komu á markað í Bandaríkjunum árið 1994 er búið að leyfa framleiðslu og sölu fjölmargra tegunda erfðabreyttra matjurta. Í ríkjum Evrópusambandsins hafa erfðabreyttar sojabaunir, maís, olíurepja, baðmull, kartöflur og sykurrófur verið leyfð til markaðssetningar þrátt fyrir strangar reglur sem þar gilda. Auk þess má finna erfðabreytt hrísgrjón, hörfræ, papaya og fleira á markaði í öðrum heimshlutum. Afurðir erfðabreyttra lífvera eru mikið notaðar og finnast víða í unnum matvælum. Sem dæmi um afurðir unnar úr soja má nefna mjöl, prótein, olíur og lesitín. Þessar afurðir má m.a. finna í brauði, kexi, majónesi, súpum, sósum, ís, kartöfluflögum, súkkulaði, barnamat, smjörlíki, sælgæti og fl. Ýmsum öðrum matjurtum hefur einnig verið erfðabreytt víða um heim þó svo að afurðirnar séu ekki komnar á neytendamarkað.

Klónun

Klónun telst ekki til erfðabreytinga. Við klónun verður til lífvera sem er nákvæm eftirmynd af móðurlífverunni. Plöntur hafa verið framleiddar með klónun í mörg ár með því að taka lítinn hluta af plöntunni og rækta aðra plöntu upp af henni. Klónun hefur einnig verið beitt um nokkurt skeið við ræktun nokkurra ávaxta og grænmetis eins og t.d. banana. Fyrsta klónaða dýrið varð til árið 1996 þegar kindin Dolly fæddist. Klónun dýra felst í því að kjarna úr ófrjóvgaðri eggfrumu er skipt út fyrir kjarna úr líkamsfrumu dýrsins og þannig er myndaður fósturvísir. Fósturvísirinn er þá færður yfir í staðgöngumóður þar sem fóstrið þroskast fram að fæðingu.Í Evrópusambandinu falla matvæli sem framleidd eru úr klónuðum dýrum undir reglugerð um
nýfæði
(reglugerð nr. 2283/2015). Samkvæmt reglugerðinni þurfa matvæli úr klónuðum dýrum að gangast undir áhættumat og fá leyfi frá löndum Evrópusambandsins áður en þau eru sett á markað. Í dag eru afurðir úr klónuðum dýrum ekki á markaði í Evrópu og engar upplýsingar um að þær séu heldur til á öðrum mörkuðum heimsins.

Löggjöf á Íslandi

Matvælastofnun hefur yfirumsjón með löggjöf um erfðabreytt matvæli og erfðabreytt fóður en Umhverfisstofnun (www.ust.is) hefur yfirumsjón með löggjöf um erfðabreyttar lífverur.

Reglugerð nr. 1237/2014 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs

Merkingarákæði reglugerðarinnar er byggt á reglugerðum Evrópusambandsins nr. 1829/2003 og 1830/2003 um erfðabreytt matvæli og fóður. Evrópska löggjöfin setur skýrar reglur um merkingu á erfðabreyttum lífverum og þarf að merkja öll erfðabreytt matvæli, jafnvel þó þau innihaldi ekki prótein eða gen úr erfðabreyttri lífveru. Tilgangurinn er að neytendur hafi kost á að velja milli erfðabreyttra matvæla og hefðbundinna matvæla.

Reglugerðin gildir þannig um matvæli og fóður sem:

  • samanstanda af eða innihalda erfðabreyttar lífverur eða,
  • eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum eða innihalda innihaldsefni framleidd úr erfðabreyttum lífverum, enda þótt erfðabreytta efnið greinist ekki í lokaafurðinni

Merkja skal öll matvæli sem samanstanda af, innihalda eða hafa verið framleidd af erfðabreyttum lífverum. Dæmi um merkingu gæti t.d. verið: „búinn til úr erfðabreyttu soja“.

Framleiðandi ber ábyrgð á að erfðabreytt matvæli séu rétt merkt. Sérhvert fyrirtæki er ábyrgt fyrir að upplýsa næsta hlekk í framleiðslukeðjunni um hvort matvæli sé erfðabreytt. Það er nauðsynlegt til að hægt sé að rekja matvælin til baka í gegnum framleiðslukeðjuna.  

Er til listi yfir erfðabreytt matvæli sem leyft er að selja innan ESB?

Á vef Evrópusambandsins er að finna lista yfir erfðabreytt hráefni sem leyft er að nota í matvæli og fóður.

Aftur á móti er enginn listi til yfir unnin matvæli sem framleidd eru úr þessum hráefnum, þar sem er nánast ógerlegt að setja saman slíkan lista. Ef erfðabreytt matvæli er leyft í einu landi Sambandsins, er leyfilegt að markaðssetja það í öllum löndum sambandsins.

Nánari upplýsingar um reglugerð nr. 1237/2014 má finna hér:

Eftirlit með erfðabreyttum matvælum og erfðabreyttu fóðri

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðar nr. 1237/2014 sé framfylgt vegna erfðabreyttra matvæla. Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt vegna erfðabreytts fóðurs. 

Ítarefni

Evrópusambandið gaf út skýrslu þar sem teknar eru saman rannsóknir á erfðabreyttum lífverum sem gerðar eru á árunum 2001-2010. Skýrslan fjallar m.a um áhrif erfðabreyttra lífvera á umhverfið og áhrif neyslu þeirra á heilsu manna og dýra. Niðurstaðan er sú að ekki séu vísindalegar sannanir fyrir því að erfðabreytt matvæli og erfðabreytt fóður séu hættuleg heilsu neytenda og dýra. Skýrsluna má nálgast hér:

Matvæla- og landbúnaðarstofnun sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and Agriculture Organization of the United Nations) hefur komið á fót alþjóðlegum gagnagrunni þar sem finna má ýmsar upplýsingar um erfðabreytt matvæli s.s. hvaða reglur gilda í hverju landi og upplýsingar um áhættumat sem gerð hafa verið á matvælum úr erfðabreyttum lífverum.

FAO GM Foods Platform

 

Nokkur þekkt erfðabreytt matvæli

FlavrSavr tómatur

Árið 1994 kom fyrsta erfðabreytta matvælið á markað í Bandaríkjunum en það var FlavrSavr tómaturinn. Tómatinum var erfðabreytt þannig að hægt var á þroskunarferli hans og var tilgangurinn að lengja geymslu- og flutningsþol. Erfðabreytingin fólst í því, að í stað þess að breyta eiginleikum tómatsins með því að bæta við nýju, utanaðkomandi geni, eins og oftast er gert með erfðabreytt matvæli, þá var skrúfað fyrir tjáningu á einu geni í tómatinum sem skráir ensímið pólýgalaktúranasa, en það er ensím sem virkjast venjulega þegar tómaturinn er fullþroskaður og veldur því að vefurinn mýkist með þeim afleiðingum að tómaturinn ofþroskast og rotnar. Við það að loka fyrir þetta eina gen hélst tómaturinn fullþroskaður u.þ.b. viku lengur. Sala FlavrSavr tómata stóð ekki undir væntingum og var sölu hans hætt árið 1997.

Gullnu hrísgrjónin, Golden Rice

Golden Rice eru A-vítamínbætt hrísgrjón en venjuleg hrísgrjón innihalda lítið af A-vítamíni. A-vítamín skortur er útbreiddur í ríkjum þar sem hrísgrjón eru aðaluppistaðan í fæðu og næringu manna og getur skortur leitt til blindu og jafnvel dauða. Golden Rice hrísgrjónunum var erfðabreytt þannig að þau innihalda mun meira beta-carotene, sem er forveraform A-vítamíns, heldur en hefðbundin hrísgrjón. Hugsunin er sú að þegar fólk í þróunarlöndunum fer að neyta þessara hrísgrjóna muni draga mjög úr A-vítamín skorti og þannig verði hægt að bjarga fjölda mannslífa. Nánar má lesa um Golden Rice á www.irri.org.

Erfðabreyttur lax 

Laxi hefur verið erfðabreytt þannig að hann hefur tvöfaldan vaxtarhraða á við óerfðabreyttan lax (www.aquabounty.com). Erfðabreytti laxinn var leyfður til markaðssetningar á neytendamarkað árið 2016 af bandarísku matvæla- og lyfjastofnunni (FDA). FDA ályktaði að erfðabreytti laxinn sé ekki ógn við náttúruna og að hann sé jafn öruggur til neyslu og annar Atlantshafslax. Laxinn er fyrsta erfðabreytta dýrið sem kemur á neytendamarkað en mikil andstaða er við markaðssetningu hans á meðal ýmissa neytenda- og náttúruverndarhópa og hafa margar verslunarkeðjur gefið út að þær muni ekki selja erfðabreyttan lax í búðum sínum.

Uppfært 19.03.2020
Getum við bætt efni síðunnar?