Fara í efni

Lífræn framleiðsla

Lífræn framleiðsla

Löggjöf Evrópusambandsins um lífræna framleiðslu gildir hérlendis.  Markmið hennar er að leiða til sjálfbærrar ræktunar, fjölbreytileika í úrvali hágæðavöru, umhverfisverndar, líffræðilegrar fjölbreytni, dýravelferðar, trúverðugleika og neytendaverndar. Löggjöfin nær yfir allt ferlið, frá öflun aðfanga til ræktunar, vinnslu, skjalfestingar á ferli hráefna í gegnum vinnslu og innflutnings vottaðra vöru frá þriðju ríkjum. Þannig er reynt að girða fyrir svindl hvað varðar merkingu lífrænna vöru.

Fyrirkomulag vottunar og eftirlits með lífrænni framleiðslu:

Lífræn vottun og eftirlit er hjá sjálfstætt starfandi vottunarstofum sem skulu hafa faggildingu. Vottunarstofan Tún er eini aðilinn sem hefur faggildingu til að votta lífræna framleiðslu á Íslandi. 

Allir sem rækta, framleiða, geyma, dreifa, selja eða flytja, lífrænt vottuð matvæli eða fóður, inn eða út úr landinu skulu hafa vottun frá faggildri vottunarstofu. Starfsleyfi til að markaðssetja lífræntvottaðar afurðir fæst í kjölfar vottunar.   

Vottun um lífræna framleiðslu kemur ekki í staðin fyrir hefðbundið starfsleyfi til matvælavinnslu. Vottunarstofa birtir endurnýjaða skrá með nöfnum og heimilisföngum atvinnurekenda á heimasíðu sinni fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta. 

Vottunarskrá – Lífrænn landbúnaður

Ef atvinnurekandi ákveður að hætta lífrænni framleiðslu eða missir vottun, missir hann starfsleyfi til að dreifa og markaðssetja lífrænt vottaðar afurðir í kjölfarið.

Einkaleyfastofan faggildir vottunarstofur fyrir lífræna framleiðslu.

Matvælastofnun fer með yfirumsjón með vottunarstofum og sér um eftirlit með innflutningi lífrænna afurða frá löndum utan EES.

 Ítarefni

Uppfært 23.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?